Ferill 83. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 83 . mál.


370. Nefndarálit


um frv. til l. um almannatryggingar.

Frá minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið samhliða frumvarpi til laga um félagslega aðstoð, 84. mál, en þessum tveimur frumvörpum er ætlað að leysa af hólmi núgildandi lög um almannatryggingar, nr. 67/1971. Við yfirferð yfir frumvörpin komu á fund nefndarinnar Dögg Pálsdóttir frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og Helgi Seljan og Ásgerður Ingimarsdóttir frá Öryrkjabandalagi Íslands. Þá hefur nefndin stuðst við umsagnir um frumvörpin, m.a. frá 116. þingi, og gögn sem aflað var við umfjöllun um málið.
    Við gildistöku samningsins um Evrópskt efnahagssvæði þarf að gera tilteknar breytingar á íslenskri almannatryggingalöggjöf til að hún samræmist þeim reglum sem gilda munu á því sviði. Þannig er nauðsynlegt að mæta með einhverjum hætti svonefndri útflutningsreglu, sem felur í sér að bótaþegi eigi rétt á að fá almannatryggingabætur greiddar úr landi, á grundvelli nánar tiltekinna reglna. Til að mæta þessu hafa stjórnvöld kosið að aðgreina bætur almannatrygginga og skipa þeim í tvö frumvörp, annars vegar í frumvarp til laga um almannatryggingar, hins vegar í frumvarp til laga um félagslega aðstoð.
    Í frumvarp til laga um almannatryggingar hefur verið skipað þeim bótum sem ótvírætt eru taldar hafa yfirbragð tryggingabóta og falla þar af leiðandi undir útflutningsregluna. Í frumvarp til laga um félagslega aðstoð hefur svo verið skipað þeim bótum sem þykja bera keim félagslegrar aðstoðar og þurfi þar af leiðandi ekki að greiða úr landi. Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu eru skilyrði þess að bætur teljist til félagslegrar aðstoðar einkum þríþættar, að einstaklingsbundið mat ráði hvort viðkomandi fái bætur, að tekjustaða hafi áhrif á bótarétt og að bætur greiðist beint úr ríkissjóði. Þrátt fyrir þetta fær minni hlutinn ekki séð að ástæða sé til að gera þær grundvallarbreytingar að ýmsir bótaflokkar, sem nú er skylt að greiða samkvæmt lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, breytist í heimildarbætur sem jafnframt verði tekjutengdar.
    Við samanburð á frumvörpunum tveimur kemur í ljós að skilin á milli þeirra eru ekki jafnglögg og haldið hefur verið fram. Þannig má finna heimildarákvæði í frumvarpi til laga um almannatryggingar sem og heimild til tekjutengingar og bætur almannatrygginga eru að auki að öllu leyti greiddar beint úr ríkissjóði. Því má segja að í raun séu í frumvarpi til laga um almannatryggingar ákvæði sem bera keim félagslegrar aðstoðar, þ.e. einstaklingsbundið mat og tekjustaða geta þar haft áhrif á bótarétt. Þá eru bætur, sem kveðið er á um í frumvarpi til laga um félagslega aðstoð, fjármagnaðar af ríkissjóði á sama hátt og bætur í frumvarpi til laga um almannatryggingar. Minni hlutinn fær því ekki séð hvaða rök mæla með því að gera þá gjörbreytingu sem boðuð er með frumvarpi til laga um félagslega aðstoð. Því leggur minni hlutinn til að heimildarákvæðum frumvarpsins um félagslega aðstoð verði breytt í skylduákvæði.
    Benda má á að við meðferð nefndarinnar hafa stjórnvöld ítrekað haldið því fram að markmið með þessum breytingum sé ekki að draga úr útgjöldum á almannatryggingasviðinu. Því verður ekki séð að þær breytingar, sem minni hlutinn leggur til, muni leggja auknar byrðar á ríkissjóð. Þá telur minni hluti nefndarinnar að framangreindar breytingar beri vott um þróun í þá átt að færa bætur, sem hingað til hafa tilheyrt almannatryggingakerfinu, yfir á sveitarfélög og telur ástæðu til að stemma þar stigu fyrir.
    Minni hlutinn mælir með samþykkt þessa frumvarps með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Jafnframt stendur minni hlutinn að breytingartillögum ásamt meiri hluta nefndarinnar á þskj. 312.
    Efnisbreytingar, sem minni hlutinn vill gera á frumvarpinu, eru eftirfarandi:
    Lagt er til að við ákvörðun launa starfsmanna Tryggingastofnunar ríkisins verði tekið tillit til þess að þeir hafi stundað nám við tryggingaskóla stofnunarinnar. Gerð er tillaga um að kveðið verði á um stofnun slíks skóla í nýrri grein er verði 9. gr. frumvarpsins. Fyrir liggur að starfsmenn Tryggingastofnunar ríkisins búa almennt við léleg launakjör í samanburði við aðra opinbera starfsmenn. Samhliða því að gerðar verði til þeirra auknar kröfur um þekkingu og bætta þjónustu er hér lagt til að kjör þeirra verði bætt.
    Hér er lagt til að gert verði að skilyrði að trúnaðarmenn Tryggingastofnunar ríkisins hafi lokið námi frá tryggingaskóla stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að þeim starfsmönnum, sem þegar starfa sem trúnaðarmenn stofnunarinnar, verði gert að sækja námskeið við skólann og að námið verði metið þeim til launahækkunar, sbr. breytingu sem lögð er til á 3. gr.
    Lagt er til að í frumvarpið bætist ný grein, 9. gr., þar sem kveðið verði á um að á vegum Tryggingastofnunar ríkisins skuli starfræktur tryggingaskóli. Slíkir skólar eru starfræktir í nágrannalöndum okkar, oft í tengslum við aðrar menntastofnanir. Svið almannatrygginga er mjög flókið. Auk þeirra lagaákvæða, sem gilda á þessu sviði, hafa verið settar fjölmargar reglugerðir sem kveða nánar á um útfærslu einstakra bótaþátta. Mikilvægt er að opinberir þjónustuaðilar séu færir um að veita þeim sem til þeirra leita áreiðanlegar upplýsingar með litlum fyrirvara. Það á ekki síst við um bætur almannatrygginga þar sem þeir sem þeirra njóta byggja iðulega framfærslu sína á þeim. Lögð er áhersla á að haft verði fullt samráð við menntamálayfirvöld við stofnsetningu tryggingaskóla.
    Breytingin, sem lögð er til á 10. gr., er til samræmis við þá breytingu sem lögð er til varðandi skipan endurhæfingarlífeyris.
    Lagt er til að brott falli 3. mgr. 11. gr. Breytingin er byggð á sanngirnissjónarmiðum. Ekki er talið rétt að ellilífeyrir hjóna sé ákvarðaður lægri en ellilífeyrir einstaklinga.
    Lagt er til að ákvæði um endurhæfingarlífeyri í 8. gr. frumvarps til laga um félagslega aðstoð verði skipað í frumvarp til laga um almannatryggingar. Öryrkjabandalag Íslands hefur gagnrýnt tilflutning bótanna og telja verður óeðlilegt að slíta í sundur örorkulífeyri og örorkustyrk annars vegar og endurhæfingarlífeyri, sem greiddur er öryrkjum, hins vegar. Þá er lagt til að greiðsla endurhæfingarlífeyris verði skyldubundin en ekki heimild eins og 8. gr. frumvarps til laga um félagslega aðstoð gerir ráð fyrir.
    Hér er lagt til að foreldrum skuli tryggðar dánarbætur slysatrygginga við fráfall barna sinna hafi þeir á annað borð notið stuðnings þeirra. Heimild þessa efnis er í lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, og óeðlilegt þykir að fella hana niður, ekki síst þar sem slysabætur byggjast á iðgjaldagreiðslum. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins er hér um fámennan hóp að ræða.
    Lagt er til að bætt verði við 36. gr. ákvæði um uppihaldsstyrk. Þetta ákvæði er nýmæli en ekki leikur vafi á því að landsmenn búa við mjög ójafnar aðstæður að þessu leyti. Ekki er einungis um það að ræða að íbúar í dreifbýli þurfi mjög oft að leita sér læknisþjónustu til höfuðborgarinnar, heldur þarf einnig stór hluti þjóðarinnar að sækja þjónustu á milli staða innan síns landsvæðis. Af þessu getur hlotist verulegur kostnaður.

Alþingi, 14. des. 1993.


Finnur Ingólfsson,

Ingibjörg Pálmadóttir.

Margrét Frímannsdóttir.

frsm.


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.