Ferill 322. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 322 . mál.


513. Tillaga til þingsályktunar

um afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum.

Flm.: Guðmundur Hallvarðsson, Sólveig Pétursdóttir, Vilhjálmur Egilsson.

Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sem leiði til afnáms tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum og jafnræðis í skattalegri meðferð vaxtahluta lífeyrisins.

Greinargerð.
Þegar staðgreiðslu skatta var komið á var um leið tekin upp tvísköttun lífeyrisgreiðslna. Þær höfðu áður verið undanþegnar tekjuskatti. Eftir breytinguna var tekjuskattur lagður á þær tekjur sem launþegi greiddi sem iðgjald í lífeyrissjóð (4%) og síðan er lífeyririnn skattlagður á nýjan leik þegar hann er greiddur út. Eins kom upp skattaleg mismunun hvað varðar ávöxtun launþegahluta lífeyrisiðgjaldsins þar sem tekinn er tekjuskattur af lífeyrisgreiðslunum á sama tíma og ávöxtun annars sparifjár er skattfrjáls. Hér er um óviðunandi ástand að ræða. Tvísköttun tekna af þessu tagi er óþolandi og sömuleiðis mismunun í skattlagningu fjármagnstekna með þeim hætti sem hér er bent á.
Það skal áréttað að hér er eingöngu farið fram á breytta skattalega meðferð iðgjaldshluta launþega í lífeyrissjóði.
Á 113. löggjafarþingi var samþykkt tillaga frá Guðmundi H. Garðarssyni svohljóðandi:
„Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að gera könnun á skattalegri meðferð lífeyrissparnaðar og undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar til að slíkur sparnaður njóti ekki lakari kjara en annar sparnaður í landinu.“
Í greinargerð með þingsályktunartillögu Guðmundar H. Garðarssonar er vakin athygli á margsköttun iðgjalda sjóðfélaga til lífeyrissjóðanna. Iðgjaldið er skattlagt sem tekjur þegar launþeginn vinnur til þeirra, í annað skiptið þegar lífeyrir er greiddur til sjóðfélaga og síðan má segja að þessar tekjur séu skattlagðar í þriðja sinn þegar þær valda skerðingu á tekjutryggingu frá Tryggingastofnun ríkisins.