Ferill 368. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 368 . mál.


561. Frumvarp til laga



um tímabundið bann við atvinnurekstri einstaklings vegna afbrota.

Flm.: Finnur Ingólfsson, Steingrímur Hermannsson, Halldór Ásgrímsson,


Guðni Ágústsson, Jón Kristjánsson, Páll Pétursson, Stefán Guðmundsson.



1. gr.


    Hvern þann sem bregst gróflega skyldum sínum í eigin atvinnurekstri eða í atvinnurekstri lögaðila sem hann er í forsvari fyrir má með dómi útiloka frá frekari atvinnurekstri um tiltekinn tíma, sbr. 4. gr.

2. gr.


    Maður skal teljast hafa brugðist skyldum sínum gróflega hafi hann í atvinnurekstrinum gerst sekur um:
    brot gegn almennum hegningarlögum eða annað meiri háttar afbrot,
    meiri háttar brot gegn lögum um opinber gjöld,
    meiri háttar brot gegn lögum um bókhald,
    önnur meiri háttar efnahagsbrot.
     Við mat á því hvort um gróft brot sé að ræða skal til þess litið hvort misferli hefur verið kerfisbundið, lotið að verulegum peningaverðmætum eða verulegum hagnaði miðað við umfang atvinnurekstrar og þess hvort brot hefur haft í för með sér hættu á verulegu tjóni.
    Einnig má dæma í atvinnurekstrarbann mann sem hefur í sjálfstæðum atvinnurekstri orðið gjaldþrota, enda hafi hann í atvinnurekstrinum gerst sekur um stórlega ámælisverða háttsemi gagnvart lánardrottnum sínum. Sama gegnir um einstaklinga sem hafa í störfum sínum sem forsvarsmenn lögaðila, er verða gjaldþrota, gerst sekir um stórlega ámælisverða háttsemi gagnvart lánardrottnum.

3. gr.


    Hafi brot, sem fellur undir 2. gr., verið framið í atvinnurekstri lögaðila skal dæma eftirgreinda forsvarsmenn þeirra í atvinnurekstrarbann nema þeir sýni fram á að þeir hafi hvorki vitað né mátt vita um hina ólögmætu háttsemi:
    sameigendur í sameignarfélagi,
    félagsmenn með ótakmarkaðri ábyrgð í samlagsfélagi,
    stjórnarformann og framkvæmdastjóra hlutafélags,
    stjórnarformann og forstöðumann hvers kyns annars konar lögaðila með fjárhagsleg markmið,
    þann sem í raun veitir atvinnurekstri lögaðila forstöðu eða hefur komið fram sem slíkur út á við.
    Aðra forsvarsmenn lögaðila skal, hafi brot skv. 2. gr. verið framið í atvinnurekstri lögaðilans, dæma í atvinnurekstrarbann sé sýnt fram á að þeir hafi vitað eða mátt vita af ólögmætri háttsemi án þess að hafast nokkuð að til að koma í veg fyrir hana.

4. gr.


    Atvinnurekstrarbann skal dæma til ákveðins tíma, þriggja ára hið skemmsta og fimm ára hið lengsta.

5. gr.


    Manni, sem dæmdur hefur verið í atvinnurekstrarbann, er óheimilt að:
    stunda sjálfstæðan atvinnurekstur,
    gangast undir ótakmarkaða ábyrgð á rekstri hvers kyns félags eða annars lögaðila með fjárhagsleg markmið,
    vera í stjórn eða varastjórn hvers kyns félags eða lögaðila með fjárhagsleg markmið,
    vera framkvæmdastjóri, staðgengill framkvæmdastjóra eða veita í raun forstöðu atvinnurekstri lögaðila sem hefur fjárhagsleg markmið.

6. gr.


    Þeim sem dæmdur hefur verið í atvinnurekstrarbann skal heldur ekki heimilt að starfa við eða taka að sér föst reglubundin verkefni í atvinnurekstri þeirra sem hann er skyldur eða mægður að feðgatali eða niðja, maka síns eða sambýlings, systkina eða systkina maka, kjörforeldra eða kjörbarna, fósturforeldra eða fósturbarna, ef þeim sem dæmdur hefur verið í atvinnurekstrarbann væri sjálfum ekki heimilt að hafa þau tengsl við atvinnurekstur sem venslamaður hans hefur.
    Sá sem dæmdur hefur verið í atvinnurekstrarbann má heldur ekki taka að sér reglubundin verkefni í atvinnustarfsemi sams konar þeirri sem hann brást skyldum sínum í.

7. gr.


    Ef ástæður atvinnurekstrarbanns þykja augljóslega fyrir hendi má héraðsdómari að kröfu saksóknara úrskurða menn í atvinnurekstrarbann til bráðabirgða. Úrskurður um atvinnurekstrarbann til bráðabirgða tekur gildi við uppkvaðningu.
    Ekki má úrskurða í atvinnurekstrarbann til bráðabirgða í lengri tíma en sex mánuði. Sé mál þess sem úrskurðaður hefur verið í atvinnurekstrarbann til bráðabirgða enn fyrir dómstólum er bráðabirgðabannið rennur út má að kröfu saksóknara úrskurða hann í atvinnurekstrarbann til bráðabirgða að nýju í allt að þrjá mánuði.
    Hafi mál til atvinnurekstrarbanns ekki þegar verið höfðað við uppkvaðningu úrskurðar um atvinnurekstrarbann til bráðabirgða skal saksóknara í úrskurðinum veittur ákveðinn frestur, tveir mánuðir hið lengsta, til málshöfðunar. Þann frest má að kröfu saksóknara framlengja um einn mánuð ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Hafi mál til atvinnurekstrarbanns ekki verið höfðað innan tilskilins frests fellur úrskurður um atvinnurekstrarbann til bráðabirgða úr gildi.
    Úrskurður um atvinnurekstrarbann til bráðabirgða fellur úr gildi jafnskjótt og dómur gengur í málinu. Við ákvörðun atvinnurekstrarbanns í dómi skal sá tími, er dæmdur hefur sætt atvinnurekstrarbanni til bráðabirgða, koma að fullu til frádráttar.

8. gr.


    Úrskurð um atvinnurekstrarbann til bráðabirgða er unnt að kæra til Hæstaréttar. Staðfesti Hæstiréttur hinn kærða úrskurð telst frestur, sem saksóknara hefur verið veittur til málshöfðunar, byrja að líða við uppkvaðningu úrskurðar í Hæstarétti.

9. gr.


    Þeim sem dæmdur er í atvinnurekstrarbann skal veita frest í allt að þrjá mánuði til ráðstafana sem verða mega til þess að tryggja, þrátt fyrir bannið, framgang atvinnurekstrarins. Við þær ráðstafanir verður að leita aðstoðar lögmanns eða löggilts endurskoðanda. Héraðsdómari í viðkomandi umdæmi skal hafa eftirlit með þessum ráðstöfunum og skal honum sent endurrit af dómi jafnskjótt og hann hefur verið kveðinn upp. Hinum dæmda ber að tilkynna héraðsdómara hvern hann hefur fengið sem aðstoðarmann innan tveggja vikna frá uppsögu dómsins. Að öðrum kosti skipar héraðsdómari honum aðstoðarmann.

10. gr.


    Þá sem brjóta gegn atvinnurekstrarbanni má dæma í allt að tveggja ára fangelsi eða sé brot minni háttar til varðhalds eða greiðslu sektar.
    Brot gegn atvinnurekstrarbanni skulu að lágmarki leiða til þess að sá tími, sem menn hafa verið dæmdir í atvinnurekstrarbann, tvöfaldast. Samanlagður tími má þannig fara fram úr fimm árum.
    Brjóti menn atvinnurekstrarbann skal höfða nýtt mál samkvæmt lögum þessum. Í nýjum dómi skal kveða á um nýjan heildartíma atvinnurekstrarbanns og nýr dómur skal fella eldri dóm úr gildi.

11. gr.


    Mál til höfðunar atvinnurekstrarbanns skulu sæta meðferð opinberra mála samkvæmt lögum nr. 19 frá 1991.

12. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1995.

Greinargerð.


    Fá ákvæði og lítt notuð eru í íslenskri löggjöf um heimildir til að svipta menn starfsréttindum vegna afbrota í atvinnurekstri. Engin ákvæði eru um almennar heimildir til að meina mönnum að stunda atvinnurekstur vegna slíkra afbrota. Sýnt þykir þó að slíkar heimildir, sé þeim beitt, eru líklegri til að letja menn til afbrota sem tengjast atvinnurekstrinum en hinar hefðbundnu sektir og jafnvel refsivist. Ólíklegt er að brotlegir atvinnurekendur leiði hugann að öðru en sektum að gildandi lögum, refsivist kemur sjaldan til nema brot sé þeim mun alvarlegra. Stæðu brotamenn hins vegar frammi fyrir hugsanlegri sviptingu réttinda til atvinnurekstrar má ætla að þeir mundu hugsa sig betur um.
    Annars staðar á Norðurlöndum hefur þróunin verið sú að auka heimildir til leyfissviptinga og jafnvel að meina mönnum almennt þátttöku í atvinnurekstri vegna brota í atvinnurekstri. Tilgangur þessa er ekki síst sá að koma í veg fyrir að sömu einstaklingar brjóti ítrekað af sér.
    Sé brot alvarlegt má, verði þetta frumvarp að lögum, meina brotamanni almennt þátttöku í atvinnurekstri um ákveðinn tíma. Þannig gengur frumvarp þetta lengra en nokkurt gildandi lagaákvæði sem aðeins heimilar sviptingu réttinda samkvæmt útgefnum stjórnvaldsleyfum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Atvinnurekstrarbann getur einungis náð til einstaklinga. Megi skilja atvinnureksturinn sjálfan frá þeim brotlega nær bannið ekki til atvinnurekstrarins. Svo væri t.d. í mörgum tilvikum um atvinnurekstur hlutafélaga.

Um 2. gr.


    Í 1. mgr. eru tilgreind þau brot sem varðað geta atvinnurekstrarbanni, sbr. þó einnig 3. mgr.
    Í 2. mgr. er tilgreint hvað skal haft til hliðsjónar við mat á því hvort um gróft brot sé að ræða. Þar skulu almennar reglur refsiréttarins einnig hafðar að leiðarljósi, enda um refsikennd viðurlög að ræða, og með brot á lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.
    Í 3. mgr. er sérregla um gjaldþrot. Stórlega ámælisverð háttsemi gjaldþrota einstaklings eða forsvarsmanns gjaldþrota lögaðila gagnvart lánardrottnum, jafnvel þótt hún gæti ekki fallið undir 1. mgr., getur varðað atvinnurekstrarbanni.

Um 3. gr.


    Greinin nær einungis til atvinnurekstrar lögaðila. Sé í rekstri þeirra sýnt fram á brot sem varðar atvinnurekstrarbanni skulu forsvarsmenn, tilgreindir í 1. mgr., dæmdir í atvinnurekstrarbann nema þeir sanni að þeir hafi hvorki vitað né mátt vita um brot. Atvinnurekstur lögaðila verður ekki rekinn öðruvísi en af forsvarsmönnum. Forsvarsmenn tilgreindir í 1. mgr., eru þeir sem almennt má reikna með að stjórni rekstrinum og því þeir sem líklegastir væru til að vera ábyrgir fyrir brotum. Ekki þykir þó rétt að ganga svo langt að leggja á þá hlutlæga ábyrgð heldur skal þeim gefinn kostur á að sýna fram á að þeir hafi í raun verið saklausir af broti.
    Í 2. mgr. er ákæruvaldi veitt heimild til þess að draga aðra forsvarsmenn en þá sem nefndir eru í 1. mgr. til ábyrgðar að uppfylltum þargreindum skilyrðum.

Um 4. gr.


    Tímalengd atvinnurekstrarbanns er í samræmi við það sem tíðkast í sambærilegri norrænni löggjöf.

Um 5. gr.


    Hér eru afleiðingar atvinnurekstrarbanns tilgreindar. Meirihlutaeign í hlutafélagi mundi almennt falla undir það ákvæði að veita atvinnurekstri í raun forstöðu.

Um 6. gr.


    Í 1. mgr. kemur fram að manni, sem dæmdur hefur verið í atvinnurekstrarbann, er ekki heimilt að starfa við atvinnurekstur tilgreindra venslamanna sinna mætti hann ekki hafa það hlutverk með höndum á eigin vegum. Þetta er gert til að minnka möguleika á því að farið sé í kringum atvinnurekstrarbann. Skv. 2. mgr. er manni í atvinnurekstrarbanni meinað að starfa eða taka að sér reglubundin verkefni í sams konar starfsemi og hann braut af sér í. Ótilhlýðilegt þykir að sá sem brotið hefur af sér og hefur þar með fyrirgert rétti sínum til að reka atvinnustarfsemi geti starfað við sams konar atvinnurekstur annarra meðan atvinnurekstrarbann stendur.

Um 7. gr.


    Sé brot mjög gróft og augljóst má úrskurða menn í atvinnurekstrarbann til bráðabirgða. Rétt þykir að koma í veg fyrir að menn, sem augljóslega og gróflega hafa brotið af sér, fái að halda áfram starfsemi sinni meðan mál þeirra er fyrir dómi.
    Í 2. mgr. kemur þó fram að atvinnurekstrarbann til bráðabirgða getur staðið hið lengsta í sex mánuði. Þó getur það verið framlengt um allt að þrjá mánuði sé mál enn fyrir dómstólum er fyrra bann gengur úr gildi. Það gerist aðeins að kröfu saksóknara og samkvæmt mati dómstóla. Heildartími atvinnurekstrarbanns getur þannig orðið allt að níu mánuðir.
    Í 3. mgr. er saksóknara veittur ákveðinn frestur til málshöfðunar að uppkveðnum úrskurði um atvinnurekstrarbann til bráðabirgða. Ljóst er að atvinnurekstrarbann er mjög viðurhlutamikið. Því verður að leitast við að flýta því svo sem auðið er að fá endanlega niðurstöðu. Úrskurður um atvinnurekstrarbann til bráðabirgða fellur úr gildi ef saksóknari hlítir ekki tímamörkum.
    Í 4. mgr. kemur fram að dómur fellir úr gildi bráðabirgðabann. Dæmt atvinnurekstrarbann skal talið hefjast við uppkvaðningu úrskurðar um bráðabirgðabann.

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.


    Eins og fram kemur í 1. gr. frumvarpsins nær atvinnurekstrarbann aðeins til einstaklinga, ekki lögaðila. Er það til þess gert að takmarka tjón samfélagsins svo sem auðið er. Því er brotlegum samkvæmt þessari grein veittur ákveðinn frestur til að koma í veg fyrir að atvinnureksturinn líði undir lok, t.d. með því að selja hann. Brotlegur verður þó við þessar ráðstafanir að njóta aðstoðar lögmanns eða löggilts endurskoðanda og fara þær fram undir umsjá héraðsdómara í viðkomandi umdæmi. Haganlegt þykir að hafa þann hátt á því að ætla má að nokkur skyldleiki sé með þessum ráðstöfunum og meðferð þrotabúa og greiðslustöðvun.

Um 10. gr.


    Hér er kveðið á um viðurlög við brotum á atvinnurekstrarbanni. Brot yrðu á þann veg að menn í atvinnurrekstrarbanni störfuðu að atvinnurekstri á þann hátt að ósamrýmanlegur væri lögum þessum.
    1. mgr. þarfnast ekki skýringa.
    Í 2. mgr. er ákvæði sem heimilar að fara fram úr hinu almenna hámarki á lengd atvinnurekstrarbanns sem tilgreint er í 4. gr.
    Í 3. mgr. kemur fram að mál vegna brota á atvinnurekstrarbanni skulu rekin samkvæmt þessum lögum. Nýr heildartími atvinnurekstrarbanns telst líða frá því að fyrra bann gekk í gildi.

Um 11. gr.


    Frumvarp þetta kveður á um refsikennd viðurlög og eðlilegast þykir því að láta fara með mál þessi að hætti opinberra mála. Enn fremur má gera ráð fyrir að á lög þessi mundi reyna jafnhliða öðrum lögum, t.d. almennum hegningarlögum, í einu og sama máli.

Um 12. gr.


    Hér er kveðið á um refsiviðurlög vegna afbrota í atvinnustarfsemi. Afleiðingar þessa geta orðið viðurhlutamiklar og þykir því rétt að gefa rúman tíma til að kynna lögin.