Ferill 398. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 398 . mál.


599. Skýrsla



Íslandsdeildar RÖSE-þingsins (þings Ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu) fyrir árið 1993.

    Í yfirlýsingu þjóðarleiðtoga RÖSE-ríkjanna, sem undirrituð var 21. nóvember 1990 í París, var hvatt til þess að komið yrði á fót þingmannasamkundu ríkjanna. Fyrsti undirbúningsfundur til að hrinda þessu ákvæði Parísaryfirlýsingarinnar í framkvæmd var haldinn í apríl 1991 í Madrid. Á Madrid-fundinum var ákveðið að koma á fót RÖSE-þingi er kæmi saman einu sinni á ári (í júlí). Þar var samþykkt svokölluð Madrid-yfirlýsing sem er grundvallarskjal RÖSE-þingmannasamstarfsins. Að loknum tveimur undirbúningsfundum á árinu 1992 var fyrsti fundur RÖSE-þings haldinn í júlí 1992 í Búdapest. RÖSE-þingið er því ungt að árum og starf þess er eðlilega enn í mótun. Þó er þegar ljóst að samstarf þetta var orðið fyllilega tímabært og að þingið getur orðið mikilvægur hlekkur í RÖSE-keðjunni á öllum sviðum RÖSE-samstarfsins.

    

I. Markmið og skipulag RÖSE-þingsins.


    Samkvæmt þeim þingsköpum sem stjórnarnefnd RÖSE-þingsins samþykkti á fundi sínum í Kaupmannahöfn 15. janúar 1993 er RÖSE-þinginu ætlað eftirfarandi hlutverk:
    Að meta árangurinn af RÖSE-samstarfinu.
    Að ræða mál sem eru á dagskrá funda leiðtoga og utanríkisráðherra RÖSE-ríkjanna.
    Að þróa leiðir til að koma í veg fyrir og leysa úr átökum.
    Að stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana í RÖSE-ríkjunum.
    Að leggja sitt af mörkum til þróunar, samskipta og samstarfs stofnana RÖSE.
    Samkvæmt þingsköpum RÖSE-þingsins er aðild að þinginu miðuð við þjóðþing þeirra ríkja sem undirritað hafa Helsinki-yfirlýsinguna frá 1977 og Parísaryfirlýsinguna frá 1990 og þátttöku þeirra í RÖSE-samstarfinu. Í dag eiga 52 þjóðþing RÖSE-ríkjanna aðild að RÖSE-þinginu. Samkvæmt samþykkt, sem gerð var í Kaupmannahöfn, er gert ráð fyrir 312 þingfulltrúum og þar af á Alþingi þrjá fulltrúa.
    Þingsköp gera ráð fyrir að RÖSE-þingið komi saman í júlí ár hvert og standi fundur þess eigi lengur en fimm daga. Auk þingfunda er gert ráð fyrir að á þinginu starfi þrjár fastanefndir er fjalli um mál er þingið vísar til þeirra. Þær eru nefnd um stjórn- og öryggismál (fyrsta nefnd), nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál (önnur nefnd) og nefnd um lýðræði og mannréttindamál (þriðja nefnd). Heimilt er forseta þingsins að boða til aukaþings ef stjórnarnefnd þingsins ákveður svo. Líklegt er þó að þeirri heimild verði aðeins beitt í undantekningartilvikum.
    Forsætisnefnd þingsins (Bureau) er skipuð forseta þess, níu varaforsetum og gjaldkera. Stjórnarnefnd þingsins (Standing Committee) er skipuð forseta RÖSE-þingsins, varaforsetum, gjaldkera, formönnum nefnda þingsins og formönnum sendinefnda einstakra þjóðþinga, og er nefndinni ætlað að undirbúa störf þingsins.
    Þingsköp RÖSE-þingsins gera ráð fyrir að þingið og forsætisnefndin taki ákvarðanir sínar með meiri hluta atkvæða en að ákvarðanir stjórnarnefndarinnar skuli teknar samkvæmt afbrigði af svokallaðri „samstöðureglu“ (consensus rule), en henni er fylgt á fundum fulltrúa ríkisstjórna RÖSE-ríkjanna. Stjórnarnefnd þingsins fylgir svokallaðri „consensus minus one“ reglu sem felur í sér að til að ákvörðun nái fram að ganga má ekki nema fulltrúi eins aðildarríkis vera henni andvígur.
    Fulltrúi ráðherraráðs RÖSE ávarpar þingið á árlegum fundi þess og gefur þinginu skýrslu um málefni RÖSE og þau verkefni sem verið er að vinna að á þeim vettvangi. Þá geta þingfulltrúar beint fyrirspurnum til þess ráðherra er mætir sem fulltrúi ráðherraráðsins.
    Líkt og almennt hefur gilt í RÖSE-samstarfi eru opinber tungumál þingsins sex: enska, franska, þýska, ítalska, rússneska og spænska.


II. Stofnun Íslandsdeildar RÖSE-þingsins.


    Líkt og þing annarra ríkja, sem aðild eiga að RÖSE, hefur Alþingi tekið þátt í þingmannastarfi RÖSE-ríkjanna frá upphafi. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins tók í umboði forsætisnefndar (áður forseta Alþingis) þátt í þingmannastarfi RÖSE þar til Íslandsdeild RÖSE-þingsins var stofnuð. Í febrúar 1993 samþykkti forsætisnefnd Alþingis að stofna Íslandsdeild RÖSE-þingsins, í apríl 1993 samþykkti forsætisnefnd starfsreglur fyrir deildina. Tilnefnd af þingflokkum til setu í Íslandsdeildinni voru Tómas Ingi Olrich, Finnur Ingólfsson, Guðjón Guðmundsson, Sigbjörn Gunnarsson, Ólafur Ragnar Grímsson og Anna Ólafsdóttir Björnsson (áheyrnarfulltrúi). Á fyrsta fundi Íslandsdeildarinnar 2. júní 1993 var Tómas Ingi Olrich kjörinn formaður og Finnur Ingólfsson varaformaður. Ritari deildarinnar er Belinda Theriault alþjóðaritari. Íslandsdeildin hélt fimm fundi á árinu.


III. Starfsemi á árinu 1993.


a. Fundur stjórnarnefndar
    Stjórnarnefnd (Standing Committee) RÖSE-þingsins kom saman í Kaupmannahöfn 15. janúar 1993 áður en Íslandsdeildin var stofnuð. Þann fund sóttu af hálfu Alþingis Björn Bjarnason, formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins og Þorsteinn Magnússon, deildarstjóri nefndadeildar Alþingis.
    Meginviðfangsefni fundar stjórnarnefndar RÖSE-þingsins í Kaupmannahöfn 15. janúar 1993 var að ganga frá tillögum til annars fundar RÖSE-þingsins um þingsköp fyrir þingið, afgreiða fjárhagsáætlun fyrir samtökin sem og að staðfesta ráðningu forstjóra og tveggja aðstoðarforstjóra fyrir skrifstofu þingsins sem aðsetur hefur í Kaupmannahöfn. Umræðan um þingsköp RÖSE-þingsins tók mestan hluta af fundi stjórnarnefndarinnar. Hvað varðar ráðningar æðstu embættismanna samþykkti stjórnarnefndin ráðningu Spencers Oliver, fyrrum starfsmanns utanríkismálanefndar Bandaríkjaþings, sem framkvæmdastjóra RÖSE-þingsins. Aðstoðarframkvæmdastjórar voru ráðnir Pentti Väänänen, yfirmaður alþjóðadeildar finnska þingsins, og Vitaly Evseyev, deildarstjóri hjá rússneska þinginu. Frakkar og Belgar lýstu verulegri óánægju með að enginn af æðstu stjórnendum skrifstofunnar skyldi koma frá EB-ríki.
    Þá var einnig samþykkt ályktun um ástand mála í ríkjum fyrrum Júgóslavíu og m.a. hvatt til þess að aðildarþing RÖSE sendi sendinefnd á vettvang til að kynna sér ástand mála í þessum ríkjum.

b. Annar fundur RÖSE-þingsins.
    Dagana 6.–9. júlí sl. var haldinn annar árlegur fundur RÖSE-þingsins í Helsinki. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Tómas Ingi Olrich, Guðjón Guðmundsson og Ólafur Ragnar Grímsson, auk ritara Íslandsdeildarinnar.
    Þingið er ungt að árum og bar skipulagningin þess merki. Fundastarf var þó markvisst, margar áhugaverðar tillögur komu fram og þingmenn RÖSE-ríkjanna fengu tækifæri til að skiptast á upplýsingum og skoðunum.
    Starfið skiptist í þingfundi og nefndarstarf. Á opnunarfundi þingsins sagði forseti RÖSE-þingsins, Ilkka Suominen frá Finnlandi, frá því að starf þingsins yrði sífellt viðameira þar sem auk þess sem þingið væri með sína sjálfstæðu starfsemi tækju fulltrúar þingsins í auknum mæli þátt í starfsemi á vegum RÖSE. Sú ánægjulega þróun hefði átt sér stað að stofnanir RÖSE sýndu mikinn áhuga á samstarfi við þingið. Hann lagði mikla áherslu á að nýta þingið og meðlimi þess í framtíðinni til kosningaeftirlits í RÖSE-ríkjum auk þess sem hann taldi mikilvægt að þingið sendi sendinefndir út af örkinni til að safna upplýsingum um ástand ýmissa svæða og gefa þinginu skýrslur um þau mál.
    Vladimir Petrovsky, framkvæmdastjóri skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Genf, flutti skilaboð til þingsins frá Boutros Boutros-Ghali, aðalritara Sameinuðu þjóðanna þar sem hann lýsti stuðningi sínum við svæðisbundin samtök eins og RÖSE. Hann sagði að styrkja þyrfti slík samtök til þess að þau gætu tekist á við svæðisbundinn vanda og þyrfti þá að huga að öllu í senn pólitískum vilja og fjárhagslegri og hernaðarlegri getu. Hann fagnaði umsókn RÖSE um áheyrnaraðild að Sameinuðu þjóðunum.
    Margaretha af Ugglas, utanríkisráðherra Svíþjóðar og formaður ráðherraráðs RÖSE, ræddi um hve mikilvægt framlag RÖSE-þingið gæti lagt til eflingar lýðræði og mannréttindum. Hún ræddi um aðgerðir RÖSE til að efla starf sitt og stofnanir og um þann árangur sem starf RÖSE væri að skila víða í Evrópu. Að loknum inngangi sínum svaraði ráðherrann spurningum þingfulltrúa og var þá m.a. rætt um það hvort RÖSE gæti verið stolt af framgangi sínum í málefnum Júgóslavíu fyrrverandi. Voru deildar meiningar um það.
    Ritt Bjerregaard, þingmaður frá Danmörku og einn af varaforsetum RÖSE-þingsins, kynnti skýrslu sendinefndar þingsins sem fór til Makedóníu, Belgrad og Kosovo í júní 1993. Tilgangur ferðarinnar var að afla upplýsinga, styðja erindrekstur RÖSE og Sameinuðu þjóðanna á svæðinu, koma í veg fyrir að önnur ríki blönduðust í vopnuð átök og hjálpa til við að draga úr spennu milli þjóðerna.
    Þrjár nefndir starfa á vegum RÖSE-þingsins. Íslandsdeildin tók fullan þátt í nefndarstarfi og skiptist þannig í nefndir:

1. Nefnd um stjórn- og öryggismál:
Tómas Ingi Olrich.

2. Nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál:
Guðjón Guðmundsson.

3. Nefnd um lýðræði og mannréttindamál:
Ólafur Ragnar Grímsson.


    Ýmsir gestir voru fengnir á nefndarfundi til að flytja erindi og svara fyrirspurnum. Skýrslur voru lagðar fram í öllum nefndum og voru þær ræddar. Samþykktar voru ályktanir í hverri nefnd. Þær ályktanir voru þó bornar upp grein fyrir grein á hinum sameiginlega þingfundi þannig að þingið í heild hafði lokaorðið varðandi ályktanir.
    Kosið var um embætti nefndanna, en hver nefnd hefur formann, varaformann og framsögumann.
    Sameiginlegur þingfundur var haldinn á síðasta degi fundarins. Þar voru endurkjörnir forseti RÖSE-þingsins fyrir næsta ár, Ilkka Suominen frá Finnlandi, og gjaldkeri Sir Peter Emery frá Bretlandi. Varaforsetar þingsins eru níu og eru kosnir til þriggja ára, þrír á hverju ári. Þar sem þetta var fyrsta kosningin samkvæmt þessum starfsreglum þurfti í ár að kjósa þrjá til þriggja ára, þrjá til tveggja ára og þrjá til eins árs. Frambjóðendur voru tólf, en eftirfarandi náðu kosningu:

    Ritt Bjerregaard     Danmörk     til þriggja ára
    John Bosley          Kanada          —
    Jaques Genton     Frakkland          —
    Joszef Bratinka     Ungverjaland     til tveggja ára
    Uluc Gürkan     Tyrkland          —
    Nikolai Ryabov     Rússland          —
    Jan Carnogursky     Slóvakía     til eins árs
    Nilde Iotte          Ítalía          —
    Muhit Izbanov     Kazakhstan          —

    Helsinki-yfirlýsing RÖSE-þingsins er samansett úr ályktunum þingnefndanna þriggja. Á hinum sameiginlega þingfundi voru ályktanir nefndanna ræddar og samþykktar með nokkrum breytingum, en mikill ágreiningur ríkti um nokkrar greinar ályktananna. Í Helsinki-yfirlýsingunni er m.a. rætt um að gagngerra breytinga sé þörf á starfsháttum RÖSE. Er m.a. lagt til að í ráðherraráði RÖSE verði hætt að krefjast samþykkis allra ríkja (consensus eða consensus minus one) við ákvarðanatöku og að þess í stað verði meiri hluti atkvæða látinn ráða. Þá er ráðherraráðið beðið um að íhuga uppsetningu öryggisráðs innan RÖSE.
    Sérstakur kafli er í ályktuninni um Júgóslavíu fyrrverandi. Mikill ágreiningur var um grein, sem samþykkt var í nefnd, þar sem farið var fram á að vopnasölubanni á Bosníu yrði aflétt þannig að múslimar í Bosníu gætu varið sig. Var þessi grein felld út úr ályktun þingfundarins með 90 atkvæðum gegn 62 eftir miklar deilur.
    Lokaályktunin í heild var samþykkt gegn atkvæðum Króata sem voru ósáttir við að Króatíu var kennt að nokkru leyti um hvernig komið væri í Bosníu og gegn atkvæðum Grikkja sem voru ósáttir við að í ályktuninni var lagt til að hið fyrrverandi júgóslavneska lýðveldi Makedónía fengi fulla aðild að RÖSE.
    Sérstök ályktun var samþykkt um sendinefndir RÖSE í Kosovo, Vojvodina og Sanjek. Í ályktuninni er áhyggjum lýst vegna ákvörðunar stjórnar Júgóslavíu að framlengja ekki umboð þessara sendinefnda og stjórnin hvött til að endurskoða afstöðu sína.

c. Kosningaeftirlit í Rússlandi.
    RÖSE-þingið ákvað frá upphafi að taka virkan þátt í kosningaeftirliti og leggja áherslu á það starf sem mikilvægan lið í eflingu lýðræði og virðingar fyrir mannréttindum. Jafnframt hefur RÖSE hvatt þingið til þess að sinna þessu starfi af fullum krafti. Fyrsta stóra tækifærið á þessu sviði gafst þegar boðað var til þingkosninga í Rússlandi.
    Þegar ljóst var að skrifstofa RÖSE-þingsins skipulegði meiri háttar eftirlitsverkefni vegna rússnesku þingkosninganna í desember fór Íslandsdeildin þess á leit við forsætisnefnd Alþingis að hún veitti fjármagn til þess að deildin gæti sent einn fulltrúa til að taka þátt í þessu eftirliti. Þessi beiðni fékk jákvæða afgreiðslu hjá forsætisnefnd og tilnefndi Íslandsdeildin Ólaf Ragnar Grímsson sem fulltrúa sinn og Önnu Ólafsdóttur Björnsson til vara.
    Alls tóku 35 þingmenn þátt í kosningaeftirliti RÖSE-þingsins auk starfsmanna. Skrifstofa RÖSE-þingsins leysti það erfiða verkefni að undirbúa eftirlitsstarfið og dagskrá eftirlitsmanna mjög vel af hendi. Ætlast var til þess að eftirlitsmenn kæmu til Rússlands nokkrum dögum fyrir kosningarnar og fór Ólafur Ragnar Grímsson til Moskvu 8. desember og dvaldist þar til 14. desember. Til undirbúnings fengu eftirlitsmenn upplýsingar um framkvæmd kosninganna og þá stjórnmálaflokka er voru í framboði og jafnframt hittu þeir helstu frambjóðendur flokkanna í Moskvu. RÖSE-þingið ákvað að sinna kosningaeftirliti á fjórum stöðum í landinu utan Moskvu. Þar sem athygli umheimsins beindist helst að Moskvu voru minnstar líkur á svindli þar og því þótti frekar þörf á því að sinna eftirliti á öðrum stöðum. RÖSE-þingið valdi fjögur héruð auk Moskvu: Tula, Nizhny Novgorod, Tver og Ryazan. Ólafur Ragnar Grímsson fór ásamt nokkrum öðrum eftirlitsmönnum til Tula og dvaldist þar í tvo daga fyrir kosningarnar, fylgdist með kosningaundirbúningnum og ræddi við frambjóðendur og starfsmenn kosninganna um framkvæmd þeirra. Á kjördaginn sjálfan fylgdist hann með kjörstöðum. Daginn eftir kosningarnar, þegar allir eftirlitsmenn RÖSE-þingsins voru komnir aftur til Moskvu, báru menn saman bækur sínar og að lokum var haldinn blaðamannafundur þar sem niðurstöður voru kynntar.
    Eftirlitsmenn RÖSE-þingsins komust að þeirri niðurstöðu að kosningarnar hefðu farið nokkuð vel fram og teldust frjálsar og lýðræðislegar. Þó að vissulega hefði mátt finna að ýmsu bæði varðandi framkvæmd kosninganna í héruðunum og kosningahegðun fólks, sérstaklega samanborið við Vesturlönd, þá var það ekki talið skipta sköpum og var í mörgum tilfellum rakið til menningarlegra aðstæðna. Ljóst þótti að stjórnvöld í Moskvu hefðu ekki haft uppi neina tilburði til kosningasvindls.
    Sem frumraun RÖSE-þingsins á þessu sviði þótti kosningaeftirlitið í Rússlandi takast mjög vel. Þingið ætlar að nýta sér þessa reynslu til að þróa þetta starf frekar og mun leggja mikla áherslu á kosningaeftirlit í framtíðinni sem tæki til að vinna að auknu lýðræði og virðingu fyrir mannréttindum. Hvað Alþingi varðar getur þetta verið mjög áhugaverður vettvangur til þátttöku. Ísland er virt sem land með sterkar lýðræðislegar hefðir og saga Alþingis er nokkuð þekkt meðal evrópskra stjórnmálamanna. Í þessu starfi getur vægi Íslands verið nokkuð mikið þar sem um frekar lítinn hóp eftirlitsmanna er að ræða hverju sinni og kostnaður við þátttöku er tiltölulega lítill.

Alþingi, 11. febr. 1994.



Tómas Ingi Olrich,

Finnur Ingólfsson,

Guðjón Guðmundsson.


form.

varaform.



Sigbjörn Gunnarsson.

Ólafur Ragnar Grímsson.






Fylgiskjal I.



SKIPAN RÖSE-ÞINGSINS



Fjöldi þingsæta

Fjöldi þingsæta

hvers aðildarríkis

eftir þinghópum


A.     Bandaríkin          
17
17
B.     Rússland          
15
15
C.     Þýskaland, Frakkland, Ítalía og
    Bretland          
13
52
D.     Kanada og Spánn     
10
20
E.     Úkraína, Belgía, Holland,
    Pólland, Svíþjóð og Tyrkland     
8
48
F.     Rúmenía          
7
7
G.     Austurríki, Danmörk, Finnland,
    Grikkland, Ungverjaland, Írland,
    Noregur, Portúgal, Tékkneska
    lýðveldið, Sviss, Hvíta-Rússland,
    Úzbekistan, Kazakhstan     
6
78
H.     Búlgaría og Lúxemborg     
5
10
I.     Júgóslavía og Slóvakía     
4
8
J.     Kípur, Ísland, Malta, Eistland,
    Lettland, Litáen, Albanía,
    Slóvenía, Króatía, Moldóva,
    Tadzhikistan, Túrkmenistan,
    Georgía, Kyrgízía, Armenía,
    Azerbaijan, Bosnía-Herzegóvína
3
51
K.     Liechtenstein, Mónakó,
    San Marínó     
2
6

                        
Samtals  312
Fylgiskjal II.


Starfsreglur fyrir Íslandsdeild RÖSE-þingsins.



1. gr.

    Íslandsdeild RÖSE-þingsins (The Icelandic delegation to the CSCE Parliamentary Assembly) er skipuð fimm alþingismönnum. Íslandsdeildin sendir þrjá fulltrúa á RÖSE-þingið hvert ár, sbr. ákvæði Madrid-yfirlýsingarinnar frá apríl 1991 og viðauka við starfsreglur þingsins frá janúar 1993 um fjölda fulltrúa frá einstökum aðildarþingum.

2. gr.

    Þingflokkar skulu tilnefna í Íslandsdeildina eftir hverjar alþingiskosningar og gildir tilnefningin út kjörtímabilið nema þingflokkar ákveði annað.

3. gr.


    Þingflokkur skal tilnefna í deildina eftir hlutfallsreglu jafnmarga þingmenn og hann á rétt til samkvæmt stærð flokksins nema samkomulag sé um aðra skiptingu fulltrúa. Þingflokki, sem ekki hefur styrkleika til að hljóta fulltrúa í Íslandsdeildina, skal heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu á fundum deildarinnar. Áheyrnarfulltrúi skal hafa rétt til þátttöku í starfi RÖSE-þingsins samkvæmt almennum reglum 7. gr.
    


4. gr.

    Fulltrúi stærsta þingflokksins skal kalla Íslandsdeildina saman til fyrsta fundar og skal þá kjósa formann og varaformann deildarinnar fyrir kjörtímabilið.
    Formaður situr í stjórnarnefnd (Standing Committee) RÖSE-þingsins, sbr. 32. gr. starfsreglna þess.

5. gr.

    Íslandsdeildin hefur ritara sem er nefndinni til aðstoðar, sbr. 3. mgr. 35. gr. þingskapa Alþingis.

6. gr.

    Íslandsdeildin skal árlega leggja fyrir forsætisnefnd Alþingis, innan þess frests sem nefndin ákveður, tillögur um fjárveitingar til starfsemi deildarinnar. Tillagan skal við það miðuð að fjárveiting nægi til að greiða árgjald til aðalskrifstofu þingsins, ferðakostnað fulltrúa og annan kostnað sem af starfsemi deildarinnar leiðir. Reikningar skulu endurskoðaðir með sama hætti og önnur útgjöld Alþingis.

7. gr.

    Í upphafi hvers kjörtímabils skipuleggur Íslandsdeildin þátttöku deildarinnar í starfi RÖSE-þingsins fyrir kjörtímabilið í heild, sbr. 2. mgr.
    Formaður deildarinnar skal að jafnaði sækja öll þau þing sem Íslandsdeildin tekur þátt í. Við val á öðrum þátttakendum á þingin skal fylgja hlutfallsreglu eftir stærð þingflokka ef ekki er samkomulag um annað.

8. gr.


    Starfsreglur þessar taka þegar gildi.



(Samþykktar á fundi forsætisnefndar 28. apríl 1993.)