Ferill 404. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 404 . mál.


608. Skýrsla



Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins um V.–VII. hluta 44. þings þess.

1. Inngangur.
    Árið 1993 var markvert í sögu samskipta Alþingis og þings Evrópuráðsins. Í fyrsta lagi gerðist það í fyrsta sinn að forseti Íslands ávarpaði þingið í Strassborg þegar frú Vigdís Finnbogadóttir kom þangað í september. Í öðru lagi bar svo við í ágúst að M.A. Martinez, forseti Evrópuráðsþingsins, kom hingað í opinbera heimsókn með skrifstofustjóra þingsins og aðstoðarmanni sínum. Í þriðja lagi hefur verið lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um lögfestingu á mannréttindasáttmála Evrópu sem segja má að sé þungamiðjan í starfsemi Evrópuráðsins. Í fjórða lagi fékkst samþykkt tillaga á þinginu í september þar sem tekið er ríkt tillit til sjónarmiða Íslendinga og Norðmanna varðandi hvalveiðar.
    Gildi þess að Íslendingar taki virkan þátt í störfum Evrópuráðsþingsins er ótvírætt. Þar gefst tækifæri til pólitísks samstarfs við þingmenn frá 31 Evrópuríki og þar er unnt að koma sjónarmiðum Íslands á framfæri. Með hliðsjón af því að Ísland hefur ákveðið að standa utan þess pólitíska samstarfs sem fer fram á vettvangi Evrópusambandsins er nauðsynlegt að leggja meiri rækt en ella við þátttöku annars staðar þar sem fulltrúar Evrópuþjóðanna hittast. Til þess er þing Evrópuráðsins kjörinn vettvangur. Er nauðsynlegt að Alþingi velti því rækilega fyrir sér hvernig fjármunum til alþjóðasamstarfs er best varið þegar slík samskipti þingmanna fara ört vaxandi. Má í því sambandi geta þess að aukaaðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu (VES) kallar á þátttöku í þingi þess en aðilar VES senda á það þing sömu þingmenn og sitja þing Evrópuráðsins.
    Þegar litið er almennt á störf Evrópuráðsþingsins á árinu ber hæst undirbúningur undir fyrsta leiðtogafund Evrópuráðsins sem haldinn var í Vínarborg í október 1993. Hér skal getið tveggja mála sem þingið undirbjó fyrir þann fund.
    Á þingi Evrópuráðsins voru samþykktar tillögur um nýjan viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu um réttindi þjóðernisminnihluta. Þar er vísað til hópa sem nefndir eru national minorities á ensku og var tillaga um viðaukann samþykkt á fundi þingsins í febrúar 1993. Hér standa ekki efni til að rekja einstök ákvæði þessarar tillögu en viðaukinn er í 20 greinum. Í greinargerð fyrir tillögunum segir að það sé ákaflega brýnt að veita þessum minnihlutahópum vernd og það sé ófrávíkjanleg skylda þjóðasamfélagsins að skilgreina þessi réttindi og sjá til þess með virkum hætti að þau séu virt.
    Átökin í Júgóslavíu fyrrverandi eiga að verulegu leyti rætur að rekja til þess að þar er gerð tilraun til að uppræta þjóðernisminnihlutahópa. Í öllum nágrannaríkjum Ungverjalands búa ungverskir minnihlutahópar sem nú telja sig eiga undir högg að sækja. Í vesturhluta Evrópu standa menn einnig frammi fyrir óleystum vanda vegna slíkra hópa. Hér er því um mjög viðkvæmt og brýnt pólitískt vandamál að ræða. Þeir sem hafa trú á gildi laga og réttar hljóta að líta á það sem markvert skref til þess að skapa stöðugleika og frið í Evrópu ef unnt er að hrinda í framkvæmd alþjóðasamningi um lagaúrræði til að leysa úr vanda minnihlutahópa.
    Vilji Evrópuráðsþingsins stóð til þess að leiðtogafundur Evrópuráðsins í Vínarborg tæki ákvörðun um nýjan viðauka við mannréttindasáttmálann um þjóðernisminnihluta. Það var ekki gert en hins vegar var ráðherranefndinni falið að gera sem fyrst drög að rammasamningi þar sem fram kæmu þær meginreglur sem aðildarríkin hétu að virða í því skyni að vernda þjóðernisminnihluta. Ríkjum utan Evrópuráðsins yrði boðið að gerast aðilar að samningnum. Einnig var ráðherranefndinni falið að hefja vinnu við drög að samningi á sviði menningarmála til viðbótar við mannréttindasáttmála Evrópu sem hefði að geyma ákvæði sem tryggja réttindi einstaklinga, einkum fólks sem tilheyrir þjóðernisminnihlutum.
    Á haustfundi Evrópuráðsþingsins 1993 var samþykkt tillaga sem miðar að því að gripið verði til samningsbundinna aðgerða gegn kynþáttahatri, útlendingahatri, gyðingahatri og vægðarleysi í skoðunum. Gro Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs, var upphafsmaður tillögu um þetta efni og spratt hún af því að þessar kenndir setja æ meiri svip á samskipti manna í einstökum Evrópuríkjum. Sauð upp úr á árinu 1992 þegar farandverkamenn, flóttamenn, sígaunar og gyðingar áttu meira undir högg að sækja en áður. Má geta þess að 2.100 árásir af þessu tagi voru skráðar í Þýskalandi á árinu 1992 og þar týndu þá 17 manns lífi vegna þeirra.
    Í samþykkt þingsins er gert ráð fyrir að skipuð verði sérfræðinganefnd til að fylgjast með því að aðildarríki standi við lagalegar skuldbindingar sínar og gefi um það skýrslu til ráðherranefndar ráðsins. Sérstakri evrópskri flóttamannastofnun verði komið á fót í náinni samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Loks verði tryggt að ákvæðin í 14. gr. mannréttindasáttmálans veiti vernd gegn hvers konar mismunun.
    Á leiðtogafundinum í Vínarborg var samþykkt sérstök áætlun um aðgerðir gegn kynþáttahatri, útlendingahatri, gyðingahatri og vægðarleysi í skoðunum. Samkvæmt henni á að efna til evrópskrar herferðar meðal æskulýðs til að efla áhuga almennings á umburðarlyndu samfélagi. Þess er farið á leit við aðildarríkin að þau efli varnir gegn hvers konar misrétti sem byggist á kynþætti, þjóðarbroti, þjóðerni og trúarbrögðum. Í því skyni verði löggjöf endurskoðuð og afnumin ákvæði sem kunna að stuðla að mismunun eða ala á fordómum. Tryggð verði virk framkvæmd löggjafar sem ætlað er að vinna gegn kynþáttahatri og mismunun. Jafnframt á að koma á fót nefnd sérfræðinga á vegum hins opinbera til að endurskoða löggjöf, stefnu og aðgerðir aðildarríkjanna á þessu sviði til að gera tillögur til aðildarríkjanna um almenna stefnumótun og til að kanna hvaða alþjóðasamþykktir eigi við um málefnið og leggja fram tillögur um breytingar á þeim þar sem við á.

Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.
    Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins hefur starfað í samræmi við starfsreglur sem hún setti sér 16. janúar 1992. Framkvæmd á starfsreglunum ræðst af því fé sem Íslandsdeildin fær til ráðstöfunar hverju sinni. Meginreglan er að fjórir þingmenn sæki hvert þing ráðsins, þ.e. þrír aðalmenn og varamaður, auk ritara. Þingmenn sitja í fleiri en einni nefnd og leitast við að sækja fundi í þeim eftir föngum.
    Aukin umsvif Evrópuráðsþingsins og nefnda á vegum þess gera ríkari kröfur til Íslandsdeildarinnar. Að mati hennar er brýnt að brugðist sé við þessum kröfum á þann veg að enginn geti dregið í efa áhuga Alþingis á því að rækta sem best tengsl við Evrópuráðið.

Efni skýrslunnar.
    Í þessari skýrslu er fjallað um síðari hluta 44. þings Evrópuráðsins. Frá og með 1. janúar 1994 er hvert þing haldið fjórum sinnum á ári miðað við almanaksárið.
    Í skýrslunni er efni einstakra tillagna og ályktana V.–VII. hluta 44. Evrópuráðsþingsins ekki rakið, hins vegar er birt sem fylgiskjal I skrá um þessi mál. Er unnt að vísa til hennar ef áhugi er á því að kynna sér mál frekar og skýrslur sem samdar eru til rökstuðnings með samþykktum þingsins. Með skýrslunni eru birtar frásagnir Íslandsdeildarinnar af fjórum fundalotum ársins 1993, en þeim hefur áður verið dreift til þingmanna.

2. Almennt um Evrópuráðið.
    Stofnskrá Evrópuráðsins frá 5. maí 1949 er mótuð af þeirri von að Evrópuríkin geti með því að bindast fastari böndum staðið að því að varðveita lýðræði, mannréttindi og frið í heiminum. Í inngangi stofnskrárinnar segjast ríkin staðfesta á ný trú sína á þau verðmæti, andleg og siðferðileg, sem eru hin sameiginlega arfleið þessara þjóða og hin sönnu upptök einstaklingsfrelsis, stjórnmálalegs frjálsræðis og skipunar laga og réttar.
    Í 3. gr. stofnskrárinnar segir um skilyrði til þess að verða aðili að Evrópuráðinu að sérhvert þátttökuríki verði að viðurkenna grundvallarreglurnar um skipun laga og um að öllum einstaklingum innan umdæmis þess skuli tryggð mannréttindi og grundvallarfrelsi. Ríkin verði og í orði og verki að taka þátt í samvinnu til að ná markmiði ráðsins eins og það er skilgreint í fyrsta kafla stofnskrárinnar.
    7. febrúar 1950 var þingsályktunartillaga samþykkt á Alþingi um að Ísland gerðist aðili að Evrópuráðinu og kom hún til framkvæmda 1951.
    Frá stofnun Evrópuráðsins hafa fjölmargir Evrópusáttmálar verið settir um ýmis svið þjóðlífsins og er mikilvægastur þeirra mannréttindasáttmáli Evrópu sem var undirritaður árið 1950 en Ísland fullgilti 19. júní 1953. Evrópuráðið hefur því reynst kjörinn vettvangur til þess að styðja þjóðir Mið- og Austur-Evrópu á leið þeirra til lýðræðis og breytts þjóðskipulags, laga og réttar.

Aðildarríki og gestaaðild.
    Aðildarríkjum hefur fjölgað um sex frá því um áramótin 1992–1993 og eru þau nú 32 (innan sviga er getið aðilardarárs þeirra ríkja sem fengu aðild að ráðinu eftir stofnun þess 1949): Bretland, Frakkland, Belgía, Holland, Lúxemborg, Svíþjóð, Noregur, Danmörk, Ítalía, Írland, Grikkland og Tyrkland. Síðan hafa bæst við: Ísland og Þýskaland (1950), Austurríki (1956), Kípur (1961), Sviss (1963), Malta (1965), Portúgal (1976), Spánn (1977), Liechtenstein (1978), San Marino (1988), Finnland (1989), Ungverjaland (1990), Pólland (1991), Búlgaría (1992), Eistland, Litáen og Slóvenía (maí 1993), Tékkland og Slóvakía (júní 1993) og Rúmenía (september 1993). 11. maí 1989 var samþykkt á þinginu ályktun um að veita ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, að vissum skilyrðum uppfylltum, gestaaðild að ráðinu. Hefur slík aðild jafnan verið undanfari þess að ríkin fengju fulla aðild. Gestaaðild hafa nú Albanía, Hvíta-Rússland, Króatía, Lettland, Makedónía, Moldóva, Rússland og Úkraína. Þar af hafa öll ríkin fyrir utan Hvíta-Rússland þegar sótt um fulla aðild að Evrópuráðinu. Auk þess hafa Armenía og Azerbaidjan formlega sótt um gestaaðild.

Skipulag þinghaldsins.
    Evrópuráðsþingið starfar sem ráðgjafarþing fyrir ráðherranefnd Evrópuráðsins en í henni sitja utanríkisráðherrar allra aðildarríkja eða fulltrúar þeirra. Sveinn Á. Björnsson, starfandi sendiherra í París, er nú fulltrúi utanríkisráðherra í ráðherranefndinni fyrir hönd Íslands. Almennt hafa aðildarríkin sérstaka sendiherra í Strassborg til að gegna starfi fastafulltrúa.
    Þingið er umræðuvettvangur Evrópuráðsins og því er falið að fjalla um þau mál sem heyra undir starfssvið þess samkvæmt stofnskránni og leggur það niðurstöður sínar fyrir ráðherranefndina í formi tillagna. Tillaga (recommendation) er skilgreind sem tillaga þingsins til ráðherranefndarinnar en framkvæmd hennar er á höndum ríkisstjórna aðildarríkjanna. Þingið getur og skilað ráðherranefndinni áliti á málefnum sem hafa verið borin undir það. Álit (opinion) þingsins geta einnig verið í formi ályktana. Ályktun (resolution) er skilgreind sem ákvörðun í mikilvægu málefni sem þingið hefur vald til að framkvæma eða álit sem það eitt ber ábyrgð á. Þingið getur gefið skrifstofu eða öðrum stofnunum þess fyrirmæli (order).
    Mikilvægastar þessara ákvarðana eru tillögur til ráðherranefndarinnar um að samþykkja ákvarðanir þingsins svo að fela megi ríkisstjórnum aðildarríkjanna að hrinda þeim í framkvæmd.
    Skipan sendinefndar hverrar þjóðar á þinginu endurspeglar þingstyrk stjórnmálaflokka í heimalandinu. Á þinginu starfa þingflokkar þar sem tekin er sameiginleg afstaða til þeirra mála sem eru á dagskrá þingsins hverju sinni. Þessir þingflokkar eru Socialist Group, þ.e. jafnaðarmenn (Alþýðuflokkurinn), European Democratic Group, þ.e. hægri flokkar (Sjálfstæðisflokkurinn), Liberal Democratic and Reformers Group, þ.e. frjálslyndir (Framsóknarflokkurinn), European People's Party, þ.e. kristilegir flokkar, og United European Left, þ.e. flokkar til vinstri við jafnaðarmenn. Fulltrúar Alþýðubandalags og Kvennalista hafa ekki tekið þátt í störfum þingflokka á Evrópuráðsþinginu.

3. 44. þing Evrópuráðsins.
a. Fulltrúar Íslands á Evrópuráðsþinginu.
    Í samræmi við stofnskrá Evrópuráðsins eru þrír fulltrúar af hálfu Íslands á þingi þess og þrír til vara. Íslandsdeild Evrópuráðsins er skipuð til fjögurra ára og í henni eru nú: Björn Bjarnason, formaður, Sjálfstæðisflokki, Guðmundur Bjarnason, varaformaður, Framsóknarflokki, Sigbjörn Gunnarsson, Alþýðuflokki, Ragnar Arnalds, Alþýðubandalagi, Kristín Ástgeirsdóttir, Samtökum um kvennalista, og Lára Margrét Ragnarsdóttir, Sjálfstæðisflokki.

b. Þingfundir V.–VII. hluta 44. þings.
    V.–VII. hlutar 44. þings Evrópuráðsins voru haldnir 10.–14. maí, 29. júní – 2. júlí og 27. september – 2. október 1993. Frásögnum af þessum þingum hefur verið dreift til þingmanna og eru birtar með þessari skýrslu í fylgiskjali II.     

c. Ný ríki og gestaaðild.
    Á árinu 1993 fengu sex ný ríki aðild að ráðinu. Eistland, Litáen og Slóvenía gengu í Evrópuráðið í maí 1993, Tékkland og Slóvakía á sumarþinginu í júní 1993 og Rúmenía fékk aðild í september 1993.

d. Ræður þjóðarleiðtoga á 44. þinginu.
    Hanna Suchocka, þáverandi forsætisráðherra Póllands, Poul Nyrup Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, Censu Tabone, forseti Möltu, Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands, og Ljuben Berov, forsætisráðherra Búlgaríu, ávörpuðu V.–VII. hluta 44. þingsins.

e. Ályktanir og tillögur samþykktar á V.–VII. hluta 44. þings.
    Á V.–VII. hluta 44. þings Evrópuráðsins voru samþykktar 18 tillögur og 21 ályktun fyrir utan álit og fyrirmæli. Í fylgiskjali I er birt yfirlit yfir samþykktirnar. Í þingtíðindum Evrópuráðsins er unnt að kynna sér alla texta og ræður á þinginu.

4. Nefndastörf.

a. Skipting Íslandsdeildarinnar í nefndir.
    Þátttaka Íslandsdeildarinnar í nefndum skiptist þannig:
    Sameiginleg nefnd með ráðherranefnd:     Björn Bjarnason.
    Fastanefnd:          Björn Bjarnason.
    Stjórnmálanefnd:          Björn Bjarnason.
    Laganefnd:          Ragnar Arnalds,
              til vara:               Björn Bjarnason.
    Efnahagsnefnd:          Guðmundur Bjarnason,
              til vara:               Ragnar Arnalds.
    Umhverfis-, skipulags- og
         sveitarstjórnarmálanefnd:          Guðmundur Bjarnason,
              til vara:               Kristín Ástgeirsdóttir.
    Þingskapanefnd:          Guðmundur Bjarnason.
    Fjárlaganefnd:          Sigbjörn Gunnarsson.
    Landbúnaðarnefnd:          Sigbjörn Gunnarsson.
    Vísinda- og tækninefnd:          Lára Margrét Ragnarsdóttir,
              til vara:               Sigbjörn Gunnarsson.
    Mennta- og menningarmálanefnd:          Ragnar Arnalds,
              til vara:               Guðmundur Bjarnason.
    Heilbrigðis- og félagsmálanefnd:          Lára Margrét Ragnarsdóttir,
              til vara:               Guðmundur Bjarnason.
    Nefnd um samskipti við lönd utan
         Evrópuráðsins:          Kristín Ástgeirsdóttir,
              til vara:               Björn Bjarnason.
    Flóttamannanefnd:          Kristín Ástgeirsdóttir.
    Nefnd um almannatengsl þingsins:          Lára Margrét Ragnarsdóttir.

b. Þátttaka í nefndarfundum utan þinga.
    Utan reglulegra þinga tóku fulltrúar Íslandsdeildarinnar þátt í 12 nefndarfundum alls sem haldnir eru ýmist í Strassborg eða París eða einhverju aðildarríkja ráðsins.

5. Annað.
a.     Nýr aðstoðarframkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Peter Leuprecht.
    12. maí var kosið í embætti varaframkvæmdastjóra Evrópuráðsins til fimm ára. Frambjóðendur voru tveir: Johan Christen Løken frá Noregi og Peter Leuprecht frá Austuríki sem hlaut kosningu í embættið.

b.     Heimsókn breskra þingmanna til Íslands.
    Dagana 12.–15. ágúst efndi Íslandsdeildin með aðstoð sjávarútvegsráðuneytisins og Samtaka atvinnurekenda í sjávarútvegi til kynnisferðar nokkurra breskra þingmanna til Íslands með það fyrir augum að kynna þeim sjávarútveg hér á landi og þá sérstaklega hvalveiðar. Var þetta liður í undirbúningi fyrir skýrslu og ályktun um sjávarspendýr sem lögð var fyrir Evrópuráðsþingið í september, sjá f-lið.

c.     Heimsókn forseta Evrópuráðsþingsins, M.A. Martinez, til Íslands.
    Dagana 21.–24. ágúst dvaldi forseti Evrópuráðsþingsins, Miguel Angel Martinez, ásamt eiginkonu sinni á Íslandi í boði forseta Alþingis. Skrifstofustjóri Evrópuráðsþingsins, Heiner Klebes, og aðstoðarmaður forsetans, Erik Leijon, voru með í förinni. Martinez ræddi við forseta Íslands, forseta Alþingis, forsætisráðherra, utanríkisráðherra, utanríkismálanefnd Alþingis og Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins, m.a. um ástand og horfur í Evrópu, störf Evrópuráðsþingsins og mannréttindamál.

d.     Forseti Íslands ávarpar Evrópuráðsþingið í fyrsta sinn.
    Hinn 28. september 1993 ávarpaði frú Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands, Evrópuráðsþingið og var það í fyrsta sinn sem íslenskur þjóðhöfðingi heimsækir þingið í Strassborg. Í ræðu sinni fjallaði forsetinn um sögu Íslands og stöðu þjóðarinnar á alþjóðavettvangi, og var gerður góður rómur að ræðu hennar. Í tengslum við heimsóknina var Þorvaldur Garðar Kristjánsson, fyrrverandi forseti sameinaðs Alþingis, sæmdur æðsta heiðursmerki Evrópuráðsins fyrir störf sín í ráðinu um 25 ára skeið. Heimsóknardegi forseta Íslands lauk með því að Íslandsdeildin og fastafulltrúi Íslands hjá Evrópuráðinu buðu til móttöku í þinghúsinu.

e.     Leiðtogafundurinn í Vínarborg 8.–9. október.
    Forsætisráðherra gaf Alþingi sérstaka skýrslu um fundinn að frumkvæði Íslandsdeildarinnar samkvæmt þskj. 195, 61. máli.

f.     Samþykkt ályktun um sjávarspendýr.
    Á haustþinginu lagði undirnefnd landbúnaðarnefndar Evrópuráðsþingins, sem fjallar um sjávarútveg, fram skýrslu og ályktunartillögu um sjávarspendýr. Sigbjörn Gunnarsson er formaður undirnefndarinnar og hafði framsögu um skýrsluna. Að umræðunni lokinni var ályktun samþykkt og fékkst þar með mikilvæg viðurkenning á málstað Íslands og Noregs. Íslensk þýðing ályktunarinnar er birt með skýrslunni í fylgiskjali III.

g.     Norrænt samstarf.
    Fulltrúar Norðurlandanna hafa unnið að því að efla samstarf sitt á vettvangi Evrópuráðsins og á 44. þingi þess hafa sendinefndirnar efnt til samnorrænna funda til samráðs um sameiginleg hagsmunamál.

Alþingi, 18. febr. 1994.



Björn Bjarnason,

Guðmundur Bjarnason,

Sigbjörn Gunnarsson.


form.

varaform.



Ragnar Arnalds.

Kristín Ástgeirsdóttir.

Lára Margrét Ragnarsdóttir.





Fylgiskjal I.

Samþykktir V.–VII. hluta 44. þings Evrópuráðsins.



Tillögur:
Recommendation 1210: on safety-critical computing systems,
     um öryggismál í tölvubúnaði
Recommendation 1211: on clandestine migration: traffickers and employers of cland     estine migrants,
     um ólöglega fólksflutninga: mangarar og atvinnuveitendur ólöglegra innflytjenda.
Recommendation 1212: on the adoption of a revised Statute of the Council of Europe,
     um endurskoðun stofnskrár Evrópuráðsins.
Recommendation 1213: on developments in biotechnology and the consequences for     agriculture,
     um þróun í líftækni og afleiðingar hennar fyrir landbúnað.
Recommendation 1214: on the Vienna Summit (8–9 October 1993),
     um leiðtogafundinn í Vín (8.–9. október 1993).
Recommendation 1215: on the ethics of journalism,
     um siðfræði í blaðamennsku.
Recommendation 1216: on European cultural co-operation,
     um evrópska samvinnu á sviði menningarmála.
Recommendation 1217: on economic assistance to Albania,
     um efnahagslega aðstoð við Albaníu.
Recommendation 1218: on establishing an international court to try serious violations of     international humanitarian law,
     um stofnun alþjóðlegs dómstóls fyrir alvarleg brot á alþjóðlegum mannréttindalögum.
Recommendation 1219: on establishing a mechanism for the protection of human rights     in European states not members of the Council of Europe,
     um stofnun eftirlits til varnar mannréttindum í Evrópuríkjum utan Evrópuráðsins.
Recommendation 1220: on recent political events (related to the Vienna Summit, 8–9     October 1993),
     um nýlega pólitíska atburði (í tengslum við leiðtogafundinn í Vín, 8.–9. október 1993).
Recommendation 1221: on the peace process in the Middle East,
     um friðarhorfur í Mið-Austurlöndum.
Recommendation 1222: on the fight against racism, xenophobia and intolerance,
     um baráttuna gegn kynþáttahatri, útlendingaandúð og vægðarleysi í skoðunum.
Recommendation 1223: on reservations made by member states to Council of Europe con    ventions,
     um fyrirvara aðildarríkja Evrópuráðsins við samþykktum þess.
Recommendation 1224: on the protection and management of freshwater resources in     Europe,
     um verndun og nýtingu ferskvatns í Evrópu.
Recommendation 1225: on the management, treatment, recycling and marketing of waste,
     um vinnslu, meðferð og endurvinnslu úrgangsefna.
Recommendation 1226: on the improvement of Council of Europe staff careers,
     um bættan starfsferil starfsmanna Evrópuráðsins.
Recommendation 1227: on oil pollution of the seas,
     um olíumengun sjávar.

Ályktanir:
Resolution 997: on European industrial competitiveness in a global context,
     um samkeppnishæfni evrópsks iðnaðar á alþjóðlegum markaði.
Resolution 998: on the Council of Europe's North-South Centre: role and achievem     ents,
     um Norður-Suður-miðstöð Evrópuráðsins: hlutverk hennar og árangur.
Resolution 999: on the situation in Bosnia-Herzegovina,
     um ástandið í Bosníu-Herzegóvínu.
Resolution 1000: on Vietnamese migrants and asylum-seekers in Hong Kong (boat     people),
     um víetnamska flóttamenn í Hong Kong (bátafólkið).
Resolution 1001: on the future of wine-production,
     um framtíð vínframleiðslu.
Resolution 1002: on the European Bank of Reconstruction and Development: achieve    ments, activities and priorities,
     um Evrópska þróunar- og endurreisnarbankann (EBRD): störf og forgangsverkefni.
Resolution 1003: on the ethics of journalism,
     um siðfræði í blaðamennsku.
Resolution 1004: on the United Nations embargo against Serbia and Montenegro,
     um verslunarbann Sameinuðu þjóðanna gegn Serbíu og Montenegro.
Resolution 1005: on economic assistance to Albania,
     um efnahagsaðstoð til Albaníu.
Resolution 1006: on North-South interdependence and solidarity: Europe and the least     developed countries,
     um samvinnu milli Norðurs og Suðurs: Evrópa og minnst þróuðu löndin.
Resolution 1007: on North-South technology transfer,
     um tæknilega samvinnu milli Norðurs og Suðurs.
Resolution 1008: on social policies for elderly persons and their self-reliance,
     um félagsmál og sjálfstæði aldraðra.
Resolution 1009: on the amendment of Rule 55a of the Assembly's Rules of Procedure     (special guest status),
     um breytingu á a-lið 55. gr. þingskapa Evrópuráðsins (gestaaðild).
Resolution 1010: on the situation of the refugees and displaced persons in Serbia, Montenegro and the former Yugoslav Republic of Macedonia,
     um aðstæður flóttamanna í Serbíu, Montenegro og fyrrum júgóslavneska lýðveldinu Makedóníu.
Resolution 1011: on the situation of women and children in the former Yugoslavia,
     um aðstæður kvenna og barna í fyrrum Júgóslavíu.
Resolution 1012: on marine mammals,
     um sjávarspendýr.
Resolution 1013: on the peace process in the Middle East,
     um friðarviðræður í Mið-Austurlöndum.
Resolution 1014: on the activities of the OECD in 1992,
     um störf OECD árið 1992.
Resolution 1015: on joint meetings of Assembly committees or sub-committees (Rule 45     (2) of the Rules of Procedure),
     um sameiginlega fundi nefnda eða undirnefnda þingsins (45. gr. (2) þingskapa Evrópuráðsins).
Resolution 1016: on the procedure of role-call votes (Rule 35 of the Rules of Procedure),
     um framkvæmd nafnakalls (35. gr. þingskapa Evrópuráðsins).
Resolution 1017: on the representation in the Bureau of the Parliamentary Assembly of     the delegation to which belongs the President of the Assembly (Rules 8 and 10 of the Rules of Procedure),
     um fulltrúa úr landsdeild forseta þingsins í forsætisnefnd þingsins (8. g 10. gr. þingskapa ráðsins).



Fylgiskjal II.
    

FRÁSAGNIR AF V.–VII. HLUTA 44. ÞINGS EVRÓPURÁÐSINS



Frásögn af fundum nefnda þings Evrópuráðsþingsins


á Möltu 24.–26. mars 1993.


    Forsætisnefnd, fastanefnd og nokkrar aðrar nefndir þings Evrópuráðsins komu saman til funda á Möltu 24.–26. mars 1993. Sóttu Björn Bjarnason og Guðmundur Bjarnason fundina.
    Ákveðið var að Litáen, Eistland og Slóvenía yrðu aðilar að Evrópuráðinu í maí nk. Frestað var ákvörðun varðandi Tékkland og Slóvakíu vegna óvissu um stjórnskipun Slóvaka.
    Ákveðið var að leggja til við maíþingið að framhald verði á 44. þinginu og að því ljúki ekki fyrr en í október þannig að framvegis verði þingtími miðaður við almanaksárið.
    Stefnt er að því að M.A. Martinez, forseti Evrópuráðsþingsins, komi með eiginkonu sinni og tveim fylgdarmönnum í opinbera heimsókn til Íslands 22.–25. ágúst 1993.
    Stefnt er að því að forseti Íslands ávarpi Evrópuráðsþingið á fundum þess nk. haust.

Frásögn af V. hluta 44. þings Evrópuráðsins


10.–14. maí 1993 í Strassborg.


    Dagana 10.–14. maí 1993 var V. hluti 44. þings Evrópuráðsins haldinn í Strassborg. Þingið sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Björn Bjarnason, Guðmundur Bjarnason, Ragnar Arnalds, Kristín Ástgeirsdóttir auk ritara.
    Á þinginu bar hæst að þessu sinni samþykkt aðildar þriggja nýrra ríkja að Evrópuráðinu: Litáen, Slóveníu og Eistlands. Aðildarríki Evrópuráðsins eru nú orðin 29. Föstudaginn 14. maí undirrituðu utanríkisráðherrar nýju ríkjanna aðildarskjölin og mannréttindasáttmála Evrópu.
    Þingið fjallaði um skýrslur nefnda um eftirfarandi málefni: aðildarumsóknir nýju aðildarríkjanna þriggja, jafnrétti kynjanna og fóstureyðingar, ólöglega innflytjendur og atvinnumál, endurskoðun stofnskrár Evrópuráðsins, Norður-Suður-miðstöð Evrópuráðsins, þróun í líftækni og afleiðingar hennar fyrir landbúnað, flóttamenn frá Víetnam og „bátafólkið“ og siðferðilegan rétt til undanþágu frá herþjónustu.
    Undir liðnum málefni líðandi stundar var rætt um málefni Bosníu-Hezegóvínu og þingið ályktaði um málið. Fyrir hönd ráðherranefndar Evrópuráðsins flutti Tristan Garel-Jones, aðstoðarutanríkisráðherra Bretlands, þinginu skýrslu nefndarinnar.
    Að þessu sinni ávörpuðu tveir gestir þingið, Hanna Suchocka, forsætisráðherra Póllands, sem flutti ávarp og svaraði einnig fyrirspurnum þingmanna og Sir Michael Marshall, forseti Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Veitt voru safnaverðlaun Evrópuráðsins til stríðsminjasafns í Slóveníu annars vegar og þjóðminjasafns í Istanbul hins vegar.
    12. maí var kosið í embætti varaframkvæmdastjóra Evrópuráðsþingsins og var Peter Leuprecht frá Austurríki kjörinn í embættið til fimm ára.
    Undir stjórn fulltrúa Íslands var haldinn fundur með norrænu sendinefndunum fyrsta dag þingsins. Helsta umræðuefni fundarins var væntanlegt kjör varaframkvæmdastjóra, undirbúningur skýrslu undirnefndar landbúnaðarnefndarinnar um hvalveiðar og hugsanleg þátttaka Eystrasaltsríkjanna í samráðsfundum Norðurlandanna innan Evrópuráðsþingsins.
    Sumarþing Evrópuráðsins verður haldið í Strassborg 29. júní til 2. júlí 1993.

Frásögn af VI. hluta 44. þings Evrópuráðsins


29. júní – 2. júlí 1993 í Strassborg.


    Dagana 29. júní – 2. júlí 1993 var VI. hluti 44. þings Evrópuráðsins haldinn í Strassborg. Þingið sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Björn Bjarnason, Guðmundur Bjarnason, Sigbjörn Gunnarsson, Kristín Ástgeirsdóttir og Lára Margrét Ragnarsdóttir auk ritara.
    Þetta sumarþing í Strassborg stóð í fjóra daga, frá þriðjudegi til föstudags. Á mánudeginum efndi landbúnaðnefnd þingsins til opins fundar um málefni sjávarspendýra. Jóhann Sigurjónsson, hvalasérfræðingur Hafrannsóknastofnunar og vísindalegur ráðunautur nefndarinnar við undirbúning fundarins sem haldinn var í Reykjavík í maí 1992, ávarpaði fundinn. Auk hans hélt Ray Gambell, framkvæmdastjóri Alþjóðahvalveiðiráðsins, ræðu og Anne Collet frá sjávarspendýrarannsóknastöðinni La Rochelle í Frakklandi svaraði fyrirspurnum, en hún var einn af framsögumönnum á fundinum í Reykjavík. Líklegt er að þingið taki skýrsluna og ályktun um hvalamálið til meðferðar á fundi sínum í september nk.
    Samþykkt var á þinginu að Tékkland og Slóvakía skyldu fá aðild að Evrópuráðinu og eru aðildarríkin þá orðin 31. Nokkrar umræður urðu um það hvort Slóvakía uppfyllti allar kröfur varðandi virðingu fyrir mannréttindum sem gera þyrfti til aðildarríkis. Til þess að tryggja að ný aðildarríki standi við skuldbindingar, sem þau takast á hendur, samþykkti þingið samhljóða að skipulega skuli fylgst með því hvernig nýju aðildarríkin ganga fram við úrlausn mála er snerta skuldbindingarnar. Áskilur þingið sér rétt til að taka afstöðu sína til aðildar viðkomandi ríkis til endurskoðunar með hliðsjón af niðurstöðum eftirlitsins. Fyrir utan Slóvakíu á þessi samþykkt þingsins til dæmis við Eistland.
    Björn Bjarnason var með framsögu um starfsskýrslu forsætisnefndar og stjórnarnefndar þingsins. Að venju gaf ráðherranefndin skýrslu um störf sín frá síðasta þingi. Skýrslu um siðferðilegan rétt til undanþágu frá herþjónustu, sem þingið fékk til meðferðar á maíþinginu, var vísað aftur til nefndar. Þá var ályktað um eftirfarandi málefni: framtíð vínframleiðslu í Evrópu, siðfræði í blaðamennsku, evrópska samvinnu á sviði menningarmála, verslunarbann Sameinuðu þjóðanna gegn Serbíu og Montenegro, Evrópska þróunar- og endurreisnarbankann (EBRD), leiðtogafund Evrópuráðsins í Vínarborg í október nk., efnahagsaðstoð til Albaníu og efnahagslega og tæknilega samvinnu milli Norðurs og Suðurs.
    Að þessu sinni ávörpuðu þingið Poul Nyrup Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, og Censu Tabone, forseti Möltu. Auk þeirra töluðu Mario Sarcinelli, varaforseti Evrópska þróunar- og endurreisnarbankans, í umræðum um skýrslu Evrópuráðsins um bankann og Jordi Solé Tura, menntamálaráðherra Spánar, um evrópska samvinnu á sviði menningarmála.
    Næsta þing Evrópuráðsins verður haldið 27. september – 1. október nk.

Frásögn af VII. hluta 44. þings Evrópuráðsins


27. september – 2. október 1993 í Strassborg.


    Dagana 27. september – 1. október 1993 var VII. hluti 44. þings Evrópuráðsins haldinn í Strassborg. Þingið sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Björn Bjarnason, Guðmundur Bjarnason, Sigbjörn Gunnarsson, Ragnar Arnalds og Lára Margrét Ragnarsdóttir auk ritara.
    Samþykkt var aðild Rúmeníu að Evrópuráðinu og er hún 32. aðildarríki þess. Náið verður fylgst með framgangi mála í Rúmeníu þannig að tryggt sé að ríkið uppfylli til fulls þær kröfur um lýðræði, þingræði og mannréttindi sem ráðið setur. Albanía, Hvíta Rússland, Lettland, Moldóva, Króatía, Rússland og Úkraína hafa óskað eftir aðild að ráðinu en auk þeirra hafa Armenía, Azerbaidjan og Georgía sótt formlega um gestaaðild að því.
    Kosnir voru þrír dómarar í mannréttindadómstól Evrópu og hlutu Karel Jungwiert fyrir Tékkland, Bohumil Repik fyrir Slóvakíu og Peter Jambrek fyrir Slóveníu kosningu til 20. janúar 2001.
    Frú Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands, ávarpaði Evrópuráðið 28. september. Í ræðu sinni fjallaði forsetinn um sögu Íslands og stöðu þjóðarinnar á alþjóðavettvangi auk þess sem hún skýrði meðal annars afstöðu Íslendinga til hvalveiða, en tillaga um sjávarspendýr kom til umræðu og afgreiðslu þingsins síðar þennan sama dag. Var gerður góður rómur að ræðu forseta Íslands, en íslenskur þjóðhöfðingi hefur ekki áður ávarpað Evrópuráðsþingið. Í tengslum við heimsókn forseta Íslands var Þorvaldur Garðar Kristjánsson, fyrrverandi forseti sameinaðs þings, sæmdur æðsta heiðursmerki Evrópuráðsins fyrir störf sín í ráðinu um 25 ára skeið. Heimsóknardegi forseta Íslands lauk með því að Íslandsdeildin og fastafulltrúi Íslands hjá Evrópuráðinu buðu til móttöku í þinghúsinu.
    Að þessu sinni var einum starfsdegi þingsins varið til að ræða um málefni OECD. Flutti Jean-Claude Paye, framkvæmdastjóri OECD, skýrslu um starfsemi stofnunarinnar en þingmenn frá Ástralíu, Kanada og Japan tóku þátt í umræðum auk Evrópuráðsþingmanna.
    Alois Mock, utanríkisráðherra Austurríkis, flutti skýrslu ráðherranefndar ráðsins og Catherine Lalumière, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, gaf ráðinu ársskýrslu sína. Þá ávarpaði Ljuben Berov, forsætisráðherra Búlgaríu, þingið.
    Undirnefnd landbúnaðarnefndar þingsins, fiskveiðinefnd sem fjallar um sjávarútveg, lagði fram skýrslu og tillögur að ályktun um sjávarspendýr. Sigbjörn Gunnarsson er formaður nefnarinnar og hafði framsögu um skýrsluna. Í umræðunni tóku þátt Guðmundur Bjarnason og Björn Bjarnason. Var ályktunartillagan samþykkt að umræðunni lokinni. Fékkst þar viðurkenning á málstað Íslands og Noregs.
    Auk þess ályktaði þingið um eftirfarandi málefni: leiðtogafund Evrópuráðsins í Vín 8.–9. október, stofnun alþjóðadómstóls til varnar mannréttindum í ríkjum utan Evrópuráðsins, ástandið í Júgóslavíu fyrrverandi, friðarhorfur í Mið-Austurlöndum, aðgerðir gegn kynþáttahatri og óumburðarlyndi, fyrirvara sumra aðildarríkja ER við sáttmálum þess, ferskvatn í Evrópu og frágang og úrvinnslu úrgangsefna.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir var kosin varaformaður nefndar um samskipti milli þinga og við almenning (Committee on Parliamentary and Public Relations).
    Drög að tillögu um verðlaunasjóð fyrir unga listamenn, sem Ragnar Arnalds er flutningsmaður að, hafa verið samþykkt í menntamálanefndinni og verða tekin fyrir á fundi fastanefndar Evrópuráðsþingsins.
    45. þing Evrópuráðsins hefst með fundi dagana 24.–28. janúar 1994.
Fylgiskjal III.

ÁLYKTUN


Evrópuráðsþingsins um sjávarspendýr


nr. 1012, samþykkt 28. sept. 1993.


    1. Þingið minnist ályktana sinna nr. 929 (1989), um framtíð hvalveiða, og nr. 972 (1991), um framtíð fiskveiða á hafinu.
    2. Þingið er þeirrar skoðunar að sjálfbærar aðferðir til stjórnunar á fjölþættri nýtingu auðlinda hafsins, þar á meðal sjávarspendýra, skuli byggjast á nákvæmri þekkingu og skilningi á viðkomandi sjávarvistkerfum.
    3. Þingið viðurkennir ábyrgð Alþjóðahvalveiðiráðsins á verndun og eftirliti með hvalastofnunum og stjórnun hvalveiða samkvæmt alþjóðasáttmálum um stjórnun hvalveiða frá 1946 og þingið metur jafnframt mikils störf vísindanefndar Alþjóðahvalveiðiráðsins (Kyoto, Japan, 10.–14. maí 1993).
    4. Þingið fagnar verndun smáhvela í Eystrasalti og Norðursjó, sem samþykkt var með sáttmálanum um verndun villtra flökkudýra (Bonnsáttmálinn), og fagnar þeim ráðstöfunum sem nýlega voru gerðar til að koma á sambærilegum samningi um verndun smáhvela í Miðjarðarhafi og Svartahafi. Þingið leggur einnig áherslu á mikilvægi þess að vernda sjávarspendýr á grundvelli sáttmála Evrópuráðsins um verndun dýralífs og kjörlenda í Evrópu (Bernarsáttmálinn), sáttmála Sameinuðu þjóðanna um alþjóðaverslun með villtar dýra- og plöntutegundir sem eru í útrýmingarhættu (CITES), sáttmálans um mengunarvarnir á Miðjarðarhafi (Barcelona-sáttmálinn) og sáttmálans frá 1992 um verndun hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins.
    5. Með hliðsjón af þessu hvetur þingið ríkisstjórnir aðildarríkja Evrópuráðsins aðrar ríkisstjórnir sem málið varðar, svo og Evrópubandalagið til þess:
    i. að þróa og/eða bæta alþjóðleg og svæðisbundin lagakerfi til verndunar og sjálfbærrar stjórnunar á öllum tegundum sjávarspendýra (stórhvela og smáhvela, rostunga og sela);
    ii. að auka verulega við rannsóknaáætlanir sínar í því augnamiði að bæta þekkingu og skilning á sjávarvistkerfum og lífsnauðsynlegu hlutverki þeirra fyrir umhverfi heims og lífið á jörðinni;
    iii. að tryggja að sjávarspendýr fái fullnægjandi athygli í slíkum rannsóknaáætlunum;
    iv. að gera þá kröfu að þjóðir, sem gefa út leyfi til veiða á sjávarspendýrum, tryggi jafnframt að veiðiaðferðir fullnægi kröfum um mannúðlegar drápsaðferðir eða fari eins nálægt því og unnt er, rannsókna- og þróunarstarfsemi ætti að auðvelda að þetta markmið náist;
    v. að samningar um verndun og nýtingu hafi að geyma fullnægjandi eftirlitsákvæði til að fyrirbyggja misferli og brot.
    6. Enn fremur fer þingið þess á leit að ríkisstjórnir aðildarríkja Evrópuráðsins og Evrópubandalagið komi á fót sjávarstofnun Evrópu (European Marine Agency — EMA) til þess að framkvæma og samræma rannsóknir á vistkerfum sjávarins, marka verndunar- og nýtingarstefnu og miðla upplýsingum og þekkingu.