Ferill 407. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 407 . mál.


611. Skýrsla



um norrænt samstarf frá febrúar 1993 til febrúar 1994.


1. ÞING NORÐURLANDARÁÐS



1.1. 42. þing ráðsins.
1.1.1.
    Norðurlandaráð hélt 42. þing sitt í Ósló 1. til 4. mars 1993. Ákveðið hafði verið að helga hinar almennu umræður þingsins atvinnumálum, en umræðurnar snerust einnig um breytingar á áherslum samstarfsins næsta ár í tilefni þess að ráðherranefndin hafði lagt fram tillögu um aukna áherslu og nýtt skipulag norræns menningar-, menntamála- og vísindasamstarfs og tillögu um starfsáætlun um breytingar á fjármögnun og skipulagi norrænna stofnana á menningarsviði. Auk þess voru EES-samningarnir og Evrópumálin í brennidepli.
    Vegna þess að Svíar fara með forustuhlutverk í ríkisstjórnasamstarfinu þetta starfsár flutti sænski forsætisráðherrann Carl Bildt inngangsræðu umræðnanna. Hann hélt fram nauðsyn þess að norrænt samstarf væri opið fyrir breytingum og nýjum hugmyndum. Það væri forsenda þess að samstarfið stæðist í hinum öru breytingum sem stæðu fyrir dyrum í Evrópu. Hann fjallaði um mikilvægi þess að EES-samningurinn gengi í gildi sem fyrst og að Finnland, Svíþjóð og Noregur fylgdust að í aðildarviðræðum við EB. Hann taldi rétt að stefna að því að gerður yrði sérstakur norrænn fyrirvari í samningnum í líkingu við norræna fyrirvarann í EES-samningnum enda væri gengið lengra í ýmsum norrænum samningum en í EES-samningnum, t.d. í samningunum um norrænan vinnumarkað og um félagslegt öryggi. Hann lagði áherslu á að koma bæri í veg fyrir tvíverknað með því að meta það sérstaklega hvar umfjöllun um hvert tiltekið mál ætti best heima, á norrænum vettvangi eða breiðari alþjóðavettvangi. Hann kvað forsætisráðherrana vilja beina kröftum norræns samstarfs að afmörkuðum verkefnum sem talin væru mikilvæg og nefndi í því sambandi auknar fjárfestingar á sviði samgöngumála, m.a. vegna þess hve atvinnuskapandi þær væru. Auk þess nefndi hann aukið norrænt samstarf um menntamál, vísindi og aðgerðir til að bæta málskilning og sjónvarpsmál, enda er fyrirhugað að auka til muna norrænar fjárveitingar til þeirra málaflokka.
    Í almennu umræðunum tóku 61 þingmaður og ráðherrar til máls. Fyrir hönd forsætisnefndar ráðsins talaði Ilkka Suominen, fyrir hönd flokkahóps sósíaldemókrata Kirsti Kolle Grøndal, fyrir hönd miðflokkanna Halldór Ásgrímsson alþingismaður, fyrir hönd hægri manna Geir H. Haarde alþingismaður, fyrir hönd flokkahóps vinstri sósíalista Kjellbjörg Lunde og fyrir hönd flokkahóps frjálslyndra Carl I. Hagen. Af hálfu Íslendinga tóku auk framangreindra þátt í umræðunum Davíð Oddsson forsætisráðherra, Jón Sigurðsson, þáverandi iðnaðarráðherra, Sighvatur Björgvinsson, þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, og alþingismennirnir Hjörleifur Guttormsson og Árni M. Mathiesen.

1.1.2.
    Að loknum almennu umræðunum tóku við umræður um málefni nefndanna. Fyrir þingið voru lagðar sex ráðherranefndartillögur og 17 þingmannatillögur. Í tilefni af tillögunum voru gerðar 16 samþykktir og tvær yfirlýsingar samþykktar. Fyrirspurnir til ráðherranefndar Norðurlanda og ríkisstjórnanna á starfsárinu voru 52 að tölu. Samþykktirnar og þær fyrirspurnir, sem íslensku fulltrúarnir í ráðinu báru fram á árinu, fylgja skýrslunni sem fylgiskjal I og III.

1.1.3.
    Eins og fram kemur í upphafi skýrslunnar lá fyrir þinginu ráðherranefndartillaga um aukna áherslu á og nýtt skipulag norræns menningar-, menntamála- og vísindasamstarfs sem lögð var fram af norrænu menningar- og menntamálaráðherrunum vegna fyrirheita forsætisráðherranna um að 50% norrænu fjárlaganna eigi að renna til mennta- og menningarmála ekki síðar en 1996. Þar var m.a. lagt til að í stað þess að ein ráðherranefnd sinnti bæði menningar- og menntamálum skiptust verkefnin milli ráðherranefndar á sviði menningarmála og ráðherranefndar á sviði menntamála og vísinda. Í tillögunni var lagður fram rammi þess samstarfs sem unnt yrði að framkvæma vegna fyrirhugaðra aukinna fjárveitinga á árabilinu 1994 til 1996, en þá skyldi helmingi norrænu fjárlaganna varið til starfsemi innan þessara málaflokka. Norrænt samstarf á fjölmiðla- og kvikmyndasviði, um málefni barna og ungmenna, bættan norrænan málskilning og listkynningar utan Norðurlanda var meðal þess sem lagt var til að yrði styrkt. Einnig voru lagðar til auknar fjárveitingar til norræns vísindasamstarfs, nemenda- og kennaraskipta innan NORDPLUS og NORDPLUS-junior-kerfisins og til fullorðinsfræðslu.
     Rannveig Guðmundsdóttir, formaður menningarmálanefndar Norðurlandaráðs, sagði m.a. þegar hún gerði grein fyrir afstöðu nefndarinnar til tillögunnar að hún væri í aðalatriðum í samræmi við áherslur nefndarinnar enda hefði af hálfu ráðherranefndar verið haft samráð við hana á öllum stigum undirbúningsins. Hún kvað nefndina hafa talið æskilegt að lögð hefði verið fram tillaga um aukið norrænt sjónvarpssamstarf þar eð það væri mjög til þess fallið að auka málskilning og tengja ungt fólk á Norðurlöndum nánar norrænum uppruna sínum. Því lýsti hún ánægju með yfirlýsingu sænska forsætisráðherrans um að kannaðir yrðu möguleikar þess að koma á nánara norrænu sjónvarpssamstarfi um gervihnött. Hún fagnaði sérstaklega þeirri áherslu sem ráðherranefndin lagði í tillögunni á verkefni á sviði menningar- og menntamálasamstarfsins sem tengdust börnum og ungmennum. Hún fagnaði og fyrirhugaðri aukningu á fjárveitingum til Norræna menningarsjóðsins, ekki síst vegna þess að það mundi auka möguleika á styrkveitingum til eflingar norrænu grasrótarsamstarfi. Að lokum lagði hún áherslu á nauðsyn þess að efla upplýsingastarfið og gera norrænt menningarsamstarf sýnilegt bæði innan og utan Norðurlanda.
1.1.4.
    Meðal annarra mikilvægra mála, sem til afgreiðslu komu á þinginu, var starfsáætlun ráðherranefndarinnar á sviði norræns löggjafarsamstarfs, samstarfsáætlun ráðherranefndarinnar um gæði matvæla, þingmannatillaga um framtíð norræns raforkusamstarfs (NORDEL), þingmannatillaga um skipulag fjármögnunarkerfis til að hreinsa Eystrasaltið og þingmannatillaga um félagslega þjónustu við aldraða.

1.1.4.1.
    Ráðherranefndartillagan um starfsáætlun á sviði norræns löggjafarsamstarfs var lögð fram sem viðbót við þá löggjafaráætlun sem laganefnd ráðsins hafði lagt fram og ráðið samþykkt 1988. Ráðherranefndin tók fram í inngangi sínum um tillöguna að þróun mála á alþjóðavettvangi hefði fremur aukið þörf á norrænu löggjafarsamstarfi en hitt og laganefnd sagði í nefndaráliti sínu að gæta yrði þess að löggjafarsamstarf Norðurlanda færi ekki eingöngu fram á forsendum EB. Áætlunin tekur bæði til þess samstarfs sem fellur innan og utan þess sviðs sem EES-samningarnir taka til og tekur þannig m.a. til félagaréttar, vörumerkjalöggjafar, alþjóðlegs einkamálaréttar, refsiréttar, fjölskylduréttar og sjóréttar.

1.1.4.2.
    Ráðherranefndartillaga sú um samstarfsáætlun um gæði matvæla, sem lögð var fyrir þingið, tekur við af þeirri áætlun sem í gildi hafði verið síðan 1988. Laganefnd ráðsins fagnaði sérstaklega að þar væri á ferðinni samstarf á sviðum sem lagasamræming EB næði ekki þegar yfir og því gætu Norðurlönd sameiginlega haft áhrif á undirbúning EB-löggjafarinnar. Laganefnd var sammála ráðherranefndinni um að þörf væri á auknum upplýsingum um gæði matvæla og neytendamál bæði til neytenda, framleiðenda og eftirlitsaðila.

1.1.4.3.
    Í ljósi þeirrar þróunar, sem á sér stað á Norðurlöndum og í EB í átt að frjálsari raforkumarkaði þar sem samkeppni mun aukast, taldi efnahagsmálanefnd rétt, vegna þess hve vel NORDEL-samstarfið hefði reynst, að beina því til ráðherranefndarinnar að gera úttekt á starfi og framtíðarmöguleikum norræna raforkusamstarfsins, NORDEL.

1.1.4.4.
    Umhverfisnefnd mælti með því að Norðurlandaráð samþykkti tilmæli til ráðherranefndarinnar um að vinna að því að koma á skipulegu fjármögnunarkerfi til að unnt verði að framkvæma starfsáætlun HELCOM um hreinsun Eystrasaltsins. Umhverfisnefnd ráðsins var sama sinnis og flutningsmenn tillögunnar um mikilvægi starfsemi HELCOM sem m.a. hefði gert úttekt á starfsemi 132 aðila sem flestir væru staðsettir í Póllandi og öðrum Austur-Evrópuríkjum og menguðu Eystrasaltið óhóflega. Einnig taldi nefndin að 20 ár væri of langur frestur til að bæta ástandið, en það væri sá tími sem hreinsun tæki ef ekki kæmi til frekara fjármagn. Af þessari ástæðu var lagt til áðurnefnt fjármögnunarkerfi og vísað til þess að möguleikar Austur-Evrópuríkjanna á lánum á alþjóðamarkaði væru takmarkaðir. Í nefndaráliti umhverfisnefndar var nefndur sá möguleiki að stofna sérstakan sjóð sem yrði fjármagnaður af ríkjunum kringum Eystrasaltið í hlutfalli við þjóðarframleiðslu og að sjófarendur um Eystrasalt greiddu einnig í sjóðinn.

1.1.4.5.
    Félagsmálanefnd taldi á grundvelli þingmannatillögu um félagslega þjónustu við aldraða í framtíðinni að æskilegt væri að ríki Norðurlanda skiptust á upplýsingum um þá reynslu sem fengist hefði af mismunandi formi á þjónustu við eldri borgara hvað varðar húsnæðismál, aðhlynningu o.fl. Því væri rétt auk annars að efna til ráðstefnu um málefni aldraðra í ljósi þess að fjöldi aldraðra á Norðurlöndum mundi aukast til muna næstu áratugi.

2.2. 43. þing ráðsins.
1.2.1.
    Norðurlandaráð hélt 43. þing sitt í Maríuhöfn á Álandseyjum 8.–10. nóvember 1993 og var það í annað sinn sem haldið var reglulegt þing bæði að hausti og vori. Helstu mál þingsins voru utanríkis- og varnarmál, atvinnumál og norræn fjárlög ársins 1994.
    Almennar umræður þingsins voru helgaðar umræðum um utanríkis- og varnarmál. Vegna forustu Svía þetta starfsár kom það í hlut sænska utanríkisráðherrans Margareta af Ugglas að flytja inngangsræðuna. Aðalefni ræðu hennar var staða Norðurlanda í ljósi nýorðinna breytinga í Austur-Evrópu og þeirrar staðreyndar að þrjú norræn ríki hafa sótt um aðild að EB. Utanríkisráðherrann kvað öryggi Evrópu og þar á meðal Norðurlanda hefði aukist vegna þróunarinnar í Austur-Evrópu samtímis sem hún minnti á að landamæri Finnlands og Noregs við Rússland væru einu landamæri Vestur-Evrópu við Rússland. Því hefði ástandið þar bein áhrif á Norðurlönd. Hún fjallaði um samskipti ríkjanna í Austur-Evrópu við Atlantshafsbandalagið og kvað áhuga þeirra á bandalaginu tengdan áhuga þeirra fyrir því að Bandaríkin héldu ítökum sínum í Evrópu.
    Ráðherrann kvað mikilvægt að auka tengsl Rússlands við önnur Evrópuríki. Öryggi Evrópu yrði að byggja upp í samvinnu við Rússland en ekki gegn því. Eins yrði RÖSE að eiga samstarf við Rússland og nýta sér rússnesk áhrif í ríkjum fyrrverandi Sovétríkjanna. Ráðherrann kvað það hafa afgerandi þýðingu fyrir Svía og væntanlega Norðurlöndin öll að treysta hið evrópska samstarf án þess að nýjar varnarlínur í öryggismálum yrðu dregnar upp. Hún kvað þá staðreynd að ekki hefði verið bundinn endi á stríðið í ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu vera til marks um að auka þyrfti evrópskt samstarf fremur en draga úr því.
    Utanríkisráðherrann lagði áherslu á nauðsyn þess að minnka hið efnahagslega misræmi sem ríkti milli borgara Norðurlanda og Rússlands. Svíar hefðu hug á að auka aðstoð við ákveðin svæði í Rússlandi, t.d. Pétursborgarsvæðið, samsvarandi þeirri aðstoð sem Eystrasaltsríkjunum er veitt m.a. við uppbyggingu lögreglu, landamæravörslu og strandgæslu.
    Hún lauk ræðu sinni með því að segja sameiningu Evrópu vera hið sögulega hlutverk vorrar kynslóðar.
    Tæplega 50 þingfulltrúar og ráðherrar tóku þátt í utanríkismálaumræðunum en sænski þingmaðurinn Sten Andersson, fyrrverandi utanríkisráðherra Svía, talaði þar fyrir hönd forsætisnefndar Norðurlandaráðs. Fyrir hönd flokkahóps sósíaldemókrata talaði norski þingmaðurinn Torbjörn Jagland, fyrir hönd flokkahóps miðjumanna talaði Knud Enggaard, fyrrverandi varnarmálaráðherra Dana, fyrir hönd flokkahóps hægri manna Hans Engell, fyrrverandi varnarmála- og dómsmálaráðherra Dana, og fyrir hönd flokkahóps vinstri sósíalista finnski þingmaðurinn Outi Ojala. Af hálfu Íslendinga tóku Davíð Oddsson forsætisráðherra og Hjörleifur Guttormsson alþingismaður þátt í umræðunum.
     Sten Andersson lagði í ræðu sinni áherslu á hlutverk Norðurlandaráðs sem vettvangs fyrir formlegt samstarf Norðurlanda um gæslu hagsmuna sinna í Evrópubandalaginu en taldi að nauðsynlegt gæti reynst að breyta skipulagi Norðurlandaráðs þess vegna. Hann kvað það hafa verið eðlilegt að Norðurlandaráð beindi athygli sinni sérstaklega að grannsvæðunum við Eystrasalt en benti jafnframt á að Norðurlandaráð hefði á liðnu ári beint sjónum að norðursvæðunum, m.a. með því að halda ráðstefnu um málefni norðurheimskautssvæðanna í Reykjavík á liðnu sumri.
     Thorbjörn Jagland lagði áherslu á nauðsyn þess að Norðurlönd leituðust við að hafa í sameiningu áhrif á þróunina í Evrópu og vísaði því á bug að þau væru of smá til að áhrifa þeirra gætti. Hann kvað Norðurlönd hafa valið mismunandi leiðir í utanríkismálum þennan áratug, en kvað það jákvætt fyrir Norðurlöndin öll ef þau sem vildu og gætu tækju fullan þátt í störfum Atlantshafsbandalagsins og í varnarmálasamstarfi EB. Hann kvað aðild Norðurlanda að EB geta orðið mikilvæga fyrir öryggi Evrópu. Landsvæði EB og Rússlands lægju saman og Norðurlönd gætu því aukið tengsl Vestur-Evrópu og Rússlands sem oft hefði haft tilhneigingu til að einangra sig.
     Knud Enggaard varaði við því að bakslag gæti komið í þá lýðræðisþróun sem á sér stað í Rússlandi og tók undir með utanríkisráðherra Svía um hlutverk EB til að auka jafnvægið í Evrópu. Opnari landamæri milli Vestur- og Austur-Evrópu yrðu prófsteinn á það hvort við tækjum af alvöru þeirri áskorun sem leiddi af breytingunum sem fylgt hefðu í kjölfar hruns kommúnismans. Hann lýsti ánægju með að sænski utanríkisráðherrann hefði lýst áhuga norrænu ríkjanna á áframhaldandi bandarískum ítökum í Evrópu í ljósi þess að Atlantshafsbandalagið og Vestur-Evrópusambandið virtust vera að ná samkomulagi um samstarf um ákveðin verkefni. Hann kvað Norðurlandaráð geta orðið eðlilegan vettvang fyrir samræmingu mismunandi sjónarmiða um Evrópumál þegar fleiri norræn ríki gengju í EB.
     Hans Engell kvað evrópskt samstarf verða æ mikilvægara nú þegar lok kalda stríðsins hefðu leitt til aukins frelsis án þess að þau hefðu leitt til aukins jafnvægis. Hann benti á að efnahagslegar og pólitískar umbætur tækju tíma og því hefði skapast aukið svigrúm fyrir þjóðernislegar og tækifærissinnaðar hreyfingar í Mið- og Austur-Evrópu. Hann kvað því aukin viðskipti við Mið- og Austur-Evrópu mikilvæg fyrir jafnvægið í álfunni. Hann taldi og mikilvægt fyrir Norðurlönd að styrkur Atlantshafsbandalagsins héldist og hvatti til stuðnings við tillögu hægri manna um að Rússar drægju til baka herafla sinn í Eistlandi og Lettlandi.
     Outi Ojala benti á mikilvægi þess að öll ríki Evrópu auk Bandaríkjanna og Kanada stuðluðu að því að RÖSE yrði gerð að miðstöð um gæslu öryggis Evrópu. RÖSE ætti að verða eins konar svæðisbundin öryggisstofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna. Hún sagði að þó svo að Atlantshafsbandalagið hefði ákveðnu hlutverki að gegna um jafnvægi gætu öryggismál Evrópu ekki hvílt á samtökum sem væru beinlínis hernaðarlegs eðlis. Þar sem teikn væru á lofti um að Atlantshafsbandalagið tæki ekki við nýjum aðildarríkum næstu ár gæfist færi fyrir ríkisstjórnir Norðurlanda á að ræða framtíð RÖSE. Hún kvað ríkisstjórnir Norðurlanda tala eins og það eina sem máli skipti væri að gefa utanríkisstefnu EB norræna vídd. Að sínu mati væri spurningin frekar hvaða valkostur væri fyrir hendi ef þjóðir Norðurlanda greiddu atkvæði gegn aðild að EB. Eðlilegast væri að binda stórveldin í evrópsku öryggisbandalagi og byggja þannig upp öryggi Evrópu með Rússlandi en ekki á móti því. Því ætti að styrkja RÖSE og aðildarríki þess ættu að stofna sameiginlegt öryggisráð sem hefði vald til að koma í veg fyrir átök og leysa deilur.
     Davíð Oddsson forsætisráðherra kvað óvissu einkenna ástand það sem skapast hefði eftir lok kalda stríðsins. Þó ástæða væri til nokkurrar bjartsýni væri ástandið í Evrópu varhugavert. Þær lausnir, sem einstök ríki eða minnihlutahópar leituðu, gætu verið á kostnað jafnvægisins í öryggismálum Evrópu. Ríki Vestur-Evrópu yrðu að skoða vandamál ríkjanna í Mið- og Austur-Evrópu í víðara samhengi. Sú siðferðisskylda hvíldi á ríkjum Vestur-Evrópu að verða við óskum og væntingum hinna nýfrjálsu ríkja en jafnframt væri ljóst að öryggi Vestur-Evrópu yrði ekki tryggt á kostnað Rússlands. Leitast þyrfti við að nýta þann styrk sem Rússland byggi yfir til hagsbóta fyrir Evrópu alla með því að styrkja tengslin milli austur- og vesturhluta hennar. Hann kvað þá skoðun njóta æ meira fylgis að öryggi yrði best tryggt með útbreiðslu lýðræðisins og auknum mannréttindum. Norðurlönd hefðu mikið að bjóða umheiminum hvað varðaði reynslu og gætu þau þannig lagt sitt af mörkum til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir.
     Hjörleifur Guttormsson minnti á þær breytingar sem orðið hefðu í Evrópusamstarfinu síðasta ár, m.a. með EES- og Maastricht-samningunum, og kvað Maastricht-samninginn bindandi skref í átt að stofnun Bandaríkja Evrópu sem byggðu ekki á vilja þjóðanna sjálfra frekar en EES-samningurinn og vísaði í því sambandi til þjóðaratkvæðagreiðslnanna í Danmörku og Frakklandi. Hann lýsti furðu yfir því að ýmsir ræðumenn hefðu fært fram öryggissjónarmið sem rök fyrir aðild að Vestur-Evrópusambandinu og teldu nú helstu ógnunina felast í óvissunni um framtíð Rússlands. Hann kvað hættuna frekar felast í því vestur-evrópska ríkjasambandi sem verið væri að mynda þar eð það skipti Evrópu á sama hátt og járntjaldið hefði áður gert. Réttara væri að leggja áherslu á að styrkja RÖSE.

1.2.2.
    Að loknum almennu umræðunum tóku við umræður um málefni nefndanna. Fyrir þingið voru lagðar tvær ráðherranefndartillögur og 32 þingmannatillögur. Ekki voru leyfðar munnlegar fyrirspurnir á sjálfu þinginu. Í framhaldi af tillögunum voru gerðar 14 samþykktir sem fylgja skýrslu þessari sem fylgiskjal II.

1.2.3.
    Fjárlagatillögur ráðherranefndar Norðurlanda fyrir árið 1994 komu til afgreiðslu annan dag þingsins. Upphæð tillagnanna var óbreytt frá síðasta ári, 650.670 millj. danskra króna. Skipting fjárveitinganna samkvæmt tillögunni milli samstarfssviða var í samræmi við þá ákvörðun forsætisráðherra Norðurlanda að auka til muna samstarfið á sviði menningarmála, menntunar og vísinda og að kosta þá aukningu með niðurskurði á öðrum samstarfssviðum, aðallega sjávarútvegssamstarfi, starfi því er varðaði réttindi borgaranna og efnahagssamstarfi. Árið 1994 skyldi þó niðurskurðurinn ekki koma niður á samstarfinu af fullum þunga vegna þess að óráðstöfuðum fjárveitingum frá árinu 1992, samtals að upphæð 31 millj. danskra króna, yrði skipt niður á nokkur verkefni sem talið var að harðast yrðu úti. Eftir umfjöllun um fjárlagatillögurnar í landsdeildum, flokkahópum og málefnanefndum lagði fjárlaga- og eftirlitsnefnd ráðsins fram fyrir þingið tillögu um að fjárlögin yrðu samþykkt með þeim breytingum að fyrirhuguð aukning til menningarsamstarfsins yrði lækkuð um 7 millj. danskra króna sem varið yrði til stuðnings við samtök fatlaðra, til samstarfs um neytendamál, byggingarmál, félagsmál og til aðgerða gegn vímuefnaneyslu. Skiptar skoðanir voru meðal þingfulltrúa um fjárlögin og var það skoðun margra að vænlegra hefði verið að fara mun hægar í sakirnar hvað varðaði áherslubreytingarnar þó svo að sæst hefði verið á að leggja ekki til frekari tilfærslur. Nítján fulltrúar tóku þátt í umræðunum og meðal þeirra voru íslensku fulltrúarnir Rannveig Guðmundsdóttir og Árni M. Mathiesen. Tillaga fjárlaganefndar var samþykkt af þinginu og samstarfsráðherrar Norðurlanda samþykktu síðan á fundi strax að þinginu loknu fjárlögin með þeim breytingum sem þingið hafði lagt til.
    
1.2.4.
    Til grundvallar umræðunum um atvinnumál, sem fóru fram síðasta dag þingsins, lágu fimm þingmannatillögur, ein frá hverjum flokkahópi eða nafngreindum fulltrúum viðkomandi hóps. Í öllum tillögunum var áhersla lögð á að atvinnuleysi væri alvarlegt og flókið vandamál og sérstaklega bent á alvarlegar afleiðingar af atvinnuleysi ungs fólks og langvarandi atvinnuleysi. Aðgerðir þær, sem bent var á í tillögunum, voru í samræmi við þær mismunandi stjórnmálastefnur sem flytjendur fylgdu og því ólíkar innbyrðis. Efnahagsmálanefnd sá sér því ekki fært að sameinast um tillögur til ráðherranefndarinnar um beinar aðgerðir en lagði þess í stað til að ráðið mæltist til þess við ráðherranefndina að hún legði fram fyrir 1. mars 1994 tillögur um aðgerðir á norrænum vettvangi sem væru til þess fallnar að auka atvinnu. Nefndin benti sérstaklega á nauðsyn þess að ræða atvinnumál á öllum stigum bæði innan landanna og á alþjóðavettvangi. Nefndin minnti í því sambandi á ráðstefnu þá sem hún hefði boðað til um efnið 11.–12. apríl 1994.
    Hjörleifur Guttormsson lagði til í minnihlutaáliti sem viðauka við álit efnahagsmálanefndar að Norðurlandaráð mæltist til þess við ráðherranefndina að hún
 —    gerði ráðstafanir til að styrkja opinbera geirann sérstaklega á sviði heilbrigðis- og umönnunarmála og mennta- og menningarmála í því skyni að koma í veg fyrir niðurskurð og fjölga atvinnutækifærum,
 —    fjölgaði atvinnutækifærum á samgöngusviði með því að leggja áherslu á almenningssamgöngur á Norðurlöndum og grannsvæðum þeirra,
—    gerði ráðstafanir til að koma á samræmdri norrænni stefnu í atvinnumálum og til að takmarka frjálst flæði fjármagns,
—    stuðlaði að dreifingu atvinnutækifæra með styttum vinnutíma og takmarkaðri yfirvinnu.
    Tillaga nefndarinnar var samþykkt en minnihlutatillagan felld með 43 atkvæðum gegn 12.
    Í almennu umræðunum um atvinnumál tóku 33 þingmenn og ráðherrar til máls. Lars P. Gammelgaard, sem talaði fyrir hönd efnahagsmálanefndar, benti m.a. á að atvinnuleysi á Norðurlöndum væri nú alvarlegra en það hefði verið undanfarinn áratug enda væru meira en milljón Norðurlandabúar atvinnulausir. Langvarandi atvinnuleysi og atvinnuleysi ungs fólks væri svo alvarlegt vandamál að allir hugsandi menn skildu að aðgerðir gegn atvinnuleysi hlytu að vera forgangsverkefni yfirvalda á öllum stigum. Hann kvað afstöðu nefndarinnar byggjast á því að ábyrgðin á því að leggja þann grundvöll, sem glætt gæti atvinnulífið, hvíldi fyrst og fremst á norrænu ríkjunum hverju og einu en jafnframt væru samræmdar aðgerðir á alþjóðlegum grundvelli nauðsynlegar. Undir öllum kringumstæðum þyrfti að tryggja að aðgerðir í einu landi sköðuðu ekki önnur lönd. Það væri álit nefndarinnar að á grundvelli norrænna samninga og tengsla milli stofnana á Norðurlöndum væri unnt að grípa til sameiginlegra aðgerða sem væru til þess fallnar að styrkja og undirbyggja aðgerðir ríkjanna hvers um sig. Til slíkra aðgerða þyrfti norrænt fjármagn þó að augljóst væri að norrænar aðgerðir einar sér hefðu ekki afgerandi þýðingu fyrir atvinnuástandið á Norðurlöndum. Hann kvað efnahagsmálanefnd nefna fjölmargar aðgerðir í nefndaráliti sínu sem raunhæft væri að ráðherranefndin leggði mat á hið fyrsta.
     Halldór Ásgrímsson, sem talaði fyrir hönd miðflokkanna, kvað útlendingahatur geta verið afleiðingu mikils atvinnuleysis sem sýndi best hve alvarlegt það væri. Því teldi miðflokkahópurinn mikilvægt að gripið væri til aðgerða gegn því. Hann kvað atvinnumál hafa forgang hjá öllum norrænu ríkisstjórnunum, en það þýddi þó ekki að með því væri vandinn leystur. Nauðsynlegt væri að viðurkenna, þrátt fyrir mismunandi stjórnmálaskoðanir, að hér væri um að ræða vanda sem ekki yrði leystur með venjubundnum hagstjórnaraðferðum. Ríkisstjórnir og önnur yfirvöld hefðu það að langtímamarkmiði að koma á stofn nýjum framleiðslugreinum. Lausnin lægi m.a. í auknu norrænu samstarfi á sviði efnahags- og atvinnumála þó að staða Norðurlanda væri mismunandi. Norrænt samstarf milli fyrirtækja og rannsókna- og menntastofnana mundi styrkja samkeppnisaðstöðu Norðurlanda. Hann nefndi og Norræna fjárfestingarbankann og Verkefnaútflutningssjóðinn og aukið samstarf um orku- og umhverfismál í þessu sambandi. Hann lýsti að lokum stuðningi við nefndarálit efnahagsnefndar.
     Geir H. Haarde, sem talaði fyrir hönd flokkahóps hægri manna, kvað það ljóst að hagvöxtur væri forsenda þess að unnt væri að minnka atvinnuleysi og vísaði til yfirlýsinga norrænu forsætis- og fjármálaráðherranna fyrr í vikunni. Norðurlönd gætu hvorki hvert um sig né sameiginlega leyst atvinnuleysisvandamálin en þau gætu leitað lausna sem tengdust öðru alþjóðasamstarfi, bæði í Evrópu og innan GATT-samkomulagsins. Hann kvað það vera mikilvægt pólitískt markmið að tryggja framkvæmd EES-samningsins þannig að samkeppni ykist og auðlindir nýttust sem best. Í nefndaráliti efnahagsmálanefndar kvað hann vera komið inn á það mikilvægasta hvað varðaði Evrópusamstarfið en lagði auk þess áherslu á þýðingu þess að gera samning Finnlands, Noregs og Svíþjóðar við EB þannig að hann yrði góður grundvöllur þróunar efnahagslífs landanna. Hann kvað hægri menn leggja áherslu á að samræma stefnu í vaxtamálum Evrópu, að fella niður eignarskatta, auka samkeppnishæfni fyrirtækja, lækka tekjuskatta einstaklinga, minnka skrifræðið og gera skólakerfið sveigjanlegra. Að lokum lýsti hann stuðningi við nefndarálit efnahagsnefndar.
     Hjörleifur Guttormsson, sem talaði fyrir hönd vinstri sósíalista, kvað þá ríku áherslu sem ríkisstjórnirnar legðu á jafnvægi í peningamálum hafa valdið auknu atvinnuleysi. Frjálsara flæði fjármagnsins og aukin völd fjölþjóðlegra fyrirtækja hefðu takmarkað til muna möguleika ríkjanna á að stýra efnahagsmálum þjóðanna. Meðaltalsatvinnuleysistölur upp á 10,5% vinnuafls í EB segðu ekki nema hálfan sannleikann því atvinnuleysi ungs fólks væri víða mun meira og sama máli gegndi um atvinnuleysi kvenna. Það markmið að koma atvinnuleysinu niður í 7% um aldamót kvað hann ekki háleitt. Nokkuð breið samstaða væri um þá skoðun að atvinnuleysið nú ætti ekki eingöngu rót sína að rekja til almenns samdráttur heldur einnig að miklum hluta til skipulagsbreytinga. Hins vegar væru skiptar skoðanir um hverjar væru mikilvægustu ástæður þess hluta atvinnuleysisins sem væri vegna skipulagsbreytinga. Þessi ólíku sjónarmið endurspegluðust í þingmannatillögum flokkahópanna um atvinnumál. Hann kvað alþjóðahyggju í efnahagsmálum og frjálshyggju í markaðsmálum vera meðal þess sem kynni að leiða til stóraukins atvinnuleysis í heiminum, en gagnrýni á markaðshyggjuna hefði nú aukist víða í Evrópu og Norður-Ameríku. Hið gagnstæða væri hins vegar uppi á teningnum á Norðurlöndum án tillits til hvort hægri flokkar eða sósíaldemókratískir flokkar væru þar við völd og þetta endurspeglaðist í nefndaráliti efnahagsnefndar. Í ljósi þess að EES- og Maastricht-samningarnir væru að ganga í gildi væri ekki von að skoðanir vinstri sósíalista um mikilvægi þess að þjóðríkin héldu stjórn efnahagsmála nytu fylgis. Þó að vinstri sósíalistar hefðu talið æskilegra að fastar hefði verið kveðið að orði í tillögu efnahagsmálanefndar kvað hann þá styðja tillöguna en sérálit hans væri viðauki við hana.
     Sighvatur Björgvinsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, lýsti þeim breytingum sem orðið hefðu á atvinnuástandinu á Íslandi síðan á stríðsárunum og kvað atvinnuleysið hafa verið orðið 5% síðastliðið vor. Það hefði verið komið niður í 3,5% í haust vegna opinberra aðgerða en meðaltal ársins 1993 yrði 4–4,5%. Spáð væri ámóta atvinnuleysi næsta ár þó að takmarkanir á fiskveiðum yrðu meiri en árið áður því að efnahagshorfur væru að öðru leyti góðar, raungengi krónunnar lágt og vextir lækkandi. Auk þess væri búist við að EES-samningurinn hefði jákvæð áhrif á efnahagslífið. Það breytti þó engu um þá áherslu sem lögð væri á norrænt samstarf, en samstarfið á menntamála- og rannsóknasviði og um nýsköpun væru afar þýðingarmiklir þættir í baráttunni við atvinnuleysið.
     Sigríður A. Þórðardóttir kvað atvinnumálin vera í brennidepli ekki bara á Norðurlöndum og í Evrópu enda hefðu þau afgerandi þýðingu fyrir velferð þjóðanna. Norðurlönd hefðu byggt upp sterkt og dýrt velferðarkerfi sem einkenndist af öryggi fyrir borgarana en einnig af háum sköttum sem legðust á einstaklinga og atvinnufyrirtæki. Nauðsynlegt væri að lækka skatta, auka valddreifingu, minnka umfang hins opinbera, auka nýsköpun í atvinnulífinu og gefa atvinnufyrirtækjunum tækifæri á að blómstra. Þannig mundi atvinnutækifærum fjölga. EES-samningnum fylgdi aukið frelsi í viðskiptum og aukin samkeppnishæfni fyrir norræn fyrirtæki á Evrópumarkaði.
    Til að auka nýsköpun í atvinnulífinu væri nauðsynlegt að leggja áherslu á fjárfestingar í rannsókna- og þróunarstörfum til að auka samkeppnisfærni fyrirtækjanna. Auk þess þyrfti að koma til eftir- og endurmenntun en tækniþróun væri svo hröð að menntun yrði mun fyrr úrelt en áður.


2. ÍSLANDSDEILD NORÐURLANDARÁÐS



2.1. Kjör fulltrúa í Íslandsdeild og fastanefndir Norðurlandaráðs.
    3. nóvember 1992 kaus Alþingi eftirtalda þingmenn til setu í Norðurlandaráði til eins árs: Geir H. Haarde, Rannveigu Guðmundsdóttur, Árna M. Mathiesen, Sigríði A. Þórðardóttur, Halldór Ásgrímsson, Hjörleif Guttormsson og Kristínu Einarsdóttur. Varamenn voru kosnir: Sturla Böðvarsson, Karl Steinar Guðnason, Árni Johnsen, Ingi Björn Albertsson, Valgerður Sverrisdóttir, Svavar Gestsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Á fundi í Íslandsdeild þann sama dag skipti deildin þannig með sér verkum að Halldór Ásgrímsson var kosinn formaður og tilnefndur í forsætisnefnd Norðurlandaráðs og endurkosinn í laganefnd, Geir H. Haarde var kosinn varaformaður deildarinnar og tilnefndur í forsætisnefnd, Rannveig Guðmundsdóttir var endurkosin í menningarmálanefnd, Árni M. Mathiesen var endurkosinn í fjárlaganefnd og tilnefndur í ritstjórnarnefnd tímaritsins Nordisk Kontakt, Sigríður A. Þórðardóttir var endurkosin í félagsmálanefnd, Hjörleifur Guttormsson var endurkosinn í efnahagsmálanefnd og Kristín Einarsdóttir var endurkosin í umhverfismálanefnd og tilnefnd í ritstjórnarnefnd tímaritsins Nordisk Kontakt.
    Á Norðurlandaráðsþinginu í Ósló 2. mars 1993 var kosið í trúnaðarstöður í samræmi við framangreindar tilnefningar Íslandsdeildar. Einnig var Rannveig Guðmundsdóttir endurkosin formaður menningarmálanefndar, Hjörleifur Guttormsson endurkosinn í kjörnefnd og Geir H. Haarde kosinn í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans fyrir tímabilið frá maí 1993 til apríl 1995.
    28. september 1993 tilnefndi flokkahópur vinstri sósíalista Hjörleif Guttormsson í forsætisnefnd í stað Tora Aasland Haug sem hætti á norska þinginu að afloknum þingkosningum þar í september 1993.
    18. desember kaus Alþingi sömu menn til setu í Norðurlandaráði næsta starfsár. Sú breyting var gerð að í stað Karls Steinars Guðnasonar var Petrína Baldursdóttir kosin varamaður í ráðinu.

2.2. Störf Íslandsdeildar Norðurlandaráðs
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs hélt tíu fundi á starfsárinu.

2.2.1.
    Í tengslum við 42. þing ráðsins í Ósló átti deildin fund með fulltrúum þeirra íslensku ungliða stjórnmálaflokkanna sem sóttu þingið. Á fundinum var rætt um þau mál sem ungliðarnir vildu að áhersla yrði lögð á í norrænu samstarfi og lokaályktun Norðurlandaráðsþings æskunnar sem haldið var dagana fyrir þingið var kynnt. Ólafur G. Einarsson menntamálaráðherra sat fundinn.

2.2.2.
    Í júní 1993 átti deildin fund með Eiði Guðnasyni, þáverandi samstarfsráðherra Norðurlanda, þar sem norrænu fjárlagatillögurnar fyrir 1994 voru til umræðu. Af hálfu Íslandsdeildar var lýst áhyggjum vegna þess niðurskurðar á norrænu samstarfi á atvinnumála- og rannsóknasviði sem líklega mundi leiða af fyrirhugaðri aukningu samstarfsins á menningarsviði. Um norrænu fjárlagatillögurnar var auk þess fjallað á flestum fundum deildarinnar fram að 43. þingi ráðsins í Maríuhöfn þar sem tillögurnar voru bornar undir atkvæði.

2.2.3.
    Dagana 16. og 17. ágúst var haldin í Háskólabíói í Reykjavík á vegum forsætisnefndar Norðurlandaráðs fjölþjóðleg þingmannaráðstefna um þróun og vernd norðurheimskautssvæðisins. Ráðstefnan var haldin í samræmi við ákvörðun Norðurlandaráðs á grundvelli tillögu frá Halldóri Ásgrímssyni. Hana sóttu u.þ.b. 60 fulltrúar frá tíu þjóðþingum auk fulltrúa alþjóðlegra stofnana, embættismanna og fréttamanna. Efnislegur undirbúningur ráðstefnunnar var á hendi vinnuhóps sem í áttu sæti fimm þingmenn en framkvæmdin og undirbúningur ráðstefnuhaldsins var á hendi skrifstofu Íslandsdeildar.
    Deildin hélt sameiginlegan undirbúningsfund með þeim fulltrúum sem sóttu ráðstefnuna sem fulltrúar Alþingis.
    Á ráðstefnunni var samþykkt lokaskjal með áskorunum til viðkomandi ríkisstjórna um úrbætur á sviði umhverfis- og þróunarmála. Lokaskjalið fylgir skýrslu þessari sem fylgiskjal IV.
    Jafnframt var ákveðið að stofna fasta þingmannanefnd til að fylgja eftir ályktunum þingsins og meta nauðsyn áframhaldandi samstarfs. Halldóri Ásgrímssyni var síðar af forsætisnefnd Norðurlandaráðs falið að vera þar í forsvari. Kanadísku þingfulltrúarnir buðust til þess í lok ráðstefnunnar að halda næstu ráðstefnu um málefni norðurheimskautssvæðisins.
    Í framhaldi máls þessa lagði Hjörleifur Guttormsson fram í Norðurlandaráði tvær tillögur um umhverfisvernd og aðgerðir gegn kjarnorkuvá á norðurslóð. Þær koma væntanlega til umfjöllunar á 44. þingi ráðsins í Stokkhólmi.
2.2.4.
    Norrænir fréttamannastyrkir voru á árinu veittir fjórum íslenskum fréttamönnum. Samanlagt var styrkupphæðin jafnvirði 75.000 sænskra króna. Íslandsdeild ákvað að eftirgreindir fréttamenn hlytu styrki: Ágúst Þór Árnason, Björg Árnadóttir, Karl Garðarson og Sigurjón Magnús Egilsson.

2.2.5.
    Árið 1992 var ákveðið að veita þingmönnum frá Eystrasaltsríkjunum, Póllandi og Rússlandi norræna styrki til að heimsækja Norðurlönd og kynna sér framkvæmd lýðræðis og þingræðis og auka við faglega þekkingu sína. Á árinu 1993 heimsóttu fjórir þingmenn Ísland. Áætlað er að 25 þingmenn heimsæki Norðurlönd 1994 í fimm hópum og að tveir hópanna heimsæki Ísland. Þau málefni, sem sérstaklega verða kynnt hér á landi, eru sjálfsstjórn sveitarfélaga, vinnumarkaðsmálefni, neytendamál og efnahagsmál.

2.2.6.
    Á fundi Íslandsdeildar á starfsárinu með formanni stjórnar Norræna félagsins og framkvæmdastjórn þess var rætt um þingmannatillögu þá sem samþykkt var á 42. þingi ráðsins í Ósló og nefnd hefur verið NORDLIV, en í tillögunni er gert ráð fyrir þátttöku Norrænu félaganna í framkvæmd ákveðinna verkefna. Fulltrúar í Íslandsdeild lýstu stuðningi við þátttöku Norrænu félaganna í framkvæmdinni.

2.2.7.
    Kjörnefnd Norðurlandaráðs var falið á starfsárinu að leggja fyrir forsætisnefnd ráðsins tillögur um nýjar starfsreglur sem leggja skyldi til grundvallar tillögum kjörnefndar um kjör í trúnaðarstöður í ráðinu. Íslandsdeild fylgdist með þessum störfum gegnum fulltrúa sinn þar, Hjörleif Guttormsson, enda voru til umræðu í kjörnefnd tillögur um að fella niður ákvæði í starfsreglum kjörnefndar um að skipað skuli þannig í formannsstöður í fastanefndum ráðsins að formenn kæmu frá landsdeildunum öllum, en Íslandsdeild hefur lagt áherslu á jafnan rétt landsdeildanna í þessu tilliti sem öðru. Formaður kjörnefndar skilaði tillögum sínum til forsætisnefndar sem tók á fundi sínum í desember 1993 ákvörðun um nýjar reglur. Samkvæmt þeim er réttur landsdeildanna til að fá a.m.k. eina formannsstöðu bundinn í reglunum jafnframt því sem kjörnefnd fær sjálfstæðan rétt til að tilnefna í trúnaðarstöður, en þann rétt höfðu í raun bara landsdeildirnar áður. Sigríður A. Þórðardóttir varð fulltrúi flokkahóps hægri manna í kjörnefndinni 27. janúar 1994.

2.2.8.
    Í tilefni þess að Snjólaug Ólafsdóttir, ritari og skrifstofustjóri Íslandsdeildar, sagði á starfsárinu stöðu sinni lausri frá áramótum 1993–94 var staða forstöðumanns skrifstofu deildarinnar auglýst laus til umsóknar. Um stöðuna bárust 42 umsóknir og á fundi sínum 4. nóvember ákvað deildin að ráða Elínu Flygenring lögfræðing til að gegna stöðu forstöðumanns. Hún hóf störf 1. febrúar 1994.


3. STARFSEMI NEFNDA NORÐURLANDARÁÐS



3.1. Forsætisnefnd.
    Forseti Norðurlandaráðs er Jan P. Syse, en hann tók við af Illka Suominen á þingi Norðurlandaráðs í Ósló í mars 1993. Fulltrúar Íslandsdeildar í forsætisnefnd eru Halldór Ásgrímsson og Geir H. Haarde, en Hjörleifur Guttormsson tók sæti í nefndinni á vegum flokkahóps vinstri sósíalista 26. október 1993.
    Forsætisnefnd hélt 10 fundi á árinu. Nefndin hélt fundi með forsætisráðherrum Norðurlandanna í sambandi við þing ráðsins 1. mars í Ósló og 8. nóvember í Maríuhöfn. Efni fundarins í Ósló var staðan í EES-samningunum, samstarf við Eystrasaltsríkin og Norðvestur-Rússland ásamt atvinnumálum. Í Maríuhöfn var m.a. rætt um stöðuna í aðildarviðræðunum við EB, sjónvarpssamvinnu ríkjanna, atvinnumál og hlut Sama í starfi Norðurlandaráðs. Forseti Norðurlandaráðs hélt einn fund með nefndarformönnum og sérstakan fund með formönnum flokkahópanna um afgreiðslu norrænu fjárlaganna og um virka formennsku hjá ráðinu.
    Skipulagsmál og aukin völd Norðurlandaráðs til áhrifa á norrænu fjárlögin ásamt alþjóðlegum samskiptum einkenndu störf forsætisnefndar Norðurlandaráðs á árinu.

3.1.1.
    Fjölþjóðleg þingmannaráðstefna á vegum forsætisnefndar um samstarf og málefni heimskautssvæðisins var haldin á Íslandi 16.–17. ágúst 1993. Ráðstefnan var haldin í samræmi við samþykkt sem gerð var á 40. þingi ráðsins að frumkvæði Halldórs Ásgrímssonar. Fræðimenn og sérfræðingar lögðu fram gögn fyrir ráðstefnuna um þau sérstöku málefni sem ráðstefnan fjallaði um, en það voru aðallega umhverfismál og þróun atvinnumála á svæðinu, staða frumbyggja svæðisins, öryggis- og varnarmál á heimskautssvæðinu og stofnun formlegs samstarfs milli þjóða heimskautssvæðisins. Sérstakt lokaskjal ráðstefnunnar var sent til ríkisstjórna viðkomandi landa, fskj. IV. Sérstök þingmannanefnd með þingmönnum frá þeim ríkjum sem sóttu ráðstefnuna var stofnuð til að þrýsta á að lokasamþykktinni verði fylgt eftir. Að ráðstefnunni var gerður mjög góður rómur, bæði hvað varðar faglegt og pólitískt innihald og jók hún áhuga manna á málefnum heimskautssvæðisins innan ramma norrænnar samvinnu, sjá einnig 2.2.3.

3.1.2.
    Í mars gerði forsætisnefnd samþykkt um framtíðarverkefni ráðsins og ábyrgð landanna á að fylgja eftir málum innan Norðurlandaráðs. Í samþykktinni var ákveðið að mikilvægustu samstarfssvið ráðsins væru: menningar- og menntamál, rannsóknir, umhverfismál, réttindi borgaranna, fjárhagsmál, fiskveiðar og lagaleg málefni. Þar að auki voru atvinnumálin og atvinnuleysi ásamt utanríkis- og öryggismálum ákveðin sem forgangsmálefni. Forsætisnefnd sá ekki þörf á að breyta samsetningu ráðsins eða nefndum, en fjárlaganefnd ráðsins var fengin sérstök ábyrgð á Evrópumálefnum. Landsdeildum ráðsins var uppálagt að fylgja betur eftir málefnum sem fjallað hefur verið um í ráðinu með því m.a. að krefja ráðherra svara um til hvaða aðgerða hefði verið gripið í þeim tilgangi að verða við samþykktum ráðsins. Auk þess ákvað forsætisnefnd að bjóða norrænu utanríkisráðherrunum árlega til haustþings til þess að flytja skýrslu um utanríkis- og öryggismál sem grundvöll umræðnanna þar.

3.1.3.
    Í byrjun ársins var gerð athugun á þeim möguleika að sameina skrifstofur forsætisnefndar Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar. Forsætisnefnd komst að þeirri niðurstöðu að þessi sameining væri ekki tímabær. Í framhaldi af því ákvað forsætisnefnd að gera úttekt á skipulagi og vinnuháttum á forsætisnefndarskrifstofunni. Á grundvelli þeirrar úttektar ákvað forsætisnefnd að leggja til breytingar á skipulagi skrifstofunnar og mönnun í því skyni að bæta forsendur fyrir gerð úttekta, nýrri upplýsingastefnu og betri stjórnun skrifstofunnar.

3.1.4.
    Forsætisnefnd átti í mars fund með fulltrúum frá Evrópuþinginu þar sem gerð var grein fyrir þeim málefnum sem væru á döfinni og aðildarviðræðunum. Forsætisnefndin hitti sérstaklega að máli danska fulltrúann í framkvæmdanefnd EB, Henning Christophersen.

3.1.5.
    Á árinu var á öllum Norðurlöndunum tekið á móti þingmönnum frá Eystrasaltsríkjunum, Póllandi og Rússlandi samkvæmt ákvörðunum forsætisnefndar, en þingmönnunum er með því gefinn kostur á að kynna sér lýðræði og þingræði á Norðurlöndunum og auka faglega þekkingu sína, sjá 2.2.5.

3.2.     Laganefnd.
    Sænski þingmaðurinn Hans Nyhage er formaður nefndarinnar, en Halldór Ásgrímsson er íslenski fulltrúinn í nefndinni.
    Laganefnd hélt fimm fundi á árinu og þar að auki fund með jafnréttisráðherrum landanna. Nefndinni gafst kostur á að hitta þingmenn frá Eystrasaltsríkjunum í tengslum við þing ráðsins í Ósló.
    Í janúar var haldinn fundur með ráðherrum þeim er fara með jafnréttismál. Var þar rætt um samstarfsáætlunina um jafnréttismál og fyrirhugaða norræna kvennaráðstefnu, „Nordisk Forum“, í Åbo 1994.

3.2.1.
    Nefndin hafði til umfjöllunar á árinu ráðherranefndartillögu til breytinga á samstarfssamningi Norðurlandanna, Helsingfors-samningnum, í þá veru að utanríkismálefni eru tekin inn í samninginn, forsætisráðherrar eru gerðir ábyrgir fyrir yfirstjórn Norðurlandasamstarfsins og Norðurlandaráð getur breytt forgangsröð í fjárlagatillögum ráðherranefndarinnar innan fjárlagarammans. Tillagan var samþykkt á þinginu í Ósló í mars. Laganefndin óskaði í sinni álitsgerð eftir að ráðherranefndinni yrði gert skylt að fylgja eftir tillögum ráðsins um forgangsröðun verkefna innan fjárlagarammans. Þessu breytti nefndin á næsta þingfundi eftir andstöðu þingfulltrúa við fyrri tillöguna.

3.2.2.
    Ráðherranefndartillaga, sem laganefndin hafði fjallað um, um starfsáætlun norrænnar lagasetningarsamvinnu var einnig samþykkt á þinginu í mars, en í henni felst ný samstarfsáætlun um norrænt löggjafarsamstarf til fimm ára þar sem ráðherranefndinni er gert að hafa norrænt frumkvæði um lagasetningu og ekki eingöngu fylgja lagasetningum EB. Enn fremur var ráðherranefndinni falið að kanna hvort Eystrasaltsríkin gætu notið góðs af þessari samvinnu.

3.2.3.
    Nefndin fjallaði enn fremur um norræna samstarfsáætlun um gæði matvæla sem samþykkt var á þinginu í mars í Ósló þar sem upplýsingar til neytaendans og heilsa borgaranna, ásamt gæðum matvæla, voru hafðar í hávegum.

3.2.4.
    Á þinginu í Maríuhöfn var samþykkt samstarfsáætlun um neytendamálefni, en nefndin hafði þá tillögu til umfjöllunar. Markmið hennar er m.a. það að hafa áhrif á þróun þeirra mála innan Evrópubandalagsins.

3.2.5.
    Málefni Sama voru á dagskrá laganefndar á árinu. Samaráðið hafði farið þess á leit að Samar fengju aðild sem fullgildir fulltrúar í Norðurlandaráði. Fulltrúar laganefndar sátu fund forsætisnefndar Norðurlandaráðs með fulltrúum Samaþinganna. Þar voru menn sammála um að samvinna við fulltrúa Sama í Norðurlandasamstarfi hefði aukist á sl. 10 árum og að áframhaldandi jákvæð þróun í þeim efnum væri nauðsynleg.
    Laganefnd heimsótti EB-dómstólinn í Lúxemborg og framkvæmdanefnd EB í Brussel í mars.

3.3. Menningarmálanefnd .
    Formaður menningarmálanefndar og jafnframt eini íslenski fulltrúinn í nefndinni er Rannveig Guðmundsdóttir.
    Nefndin hélt átta fundi á árinu og auk þess samráðsfundi með ráðherrum menningar- og menntamála í janúar, júní og nóvember, en þann fund sat einnig stjórn Norræna menningarsjóðsins.

3.3.1.
    Framtíð norræna menningarsamstarfsins var fastur liður á dagskrá nefndarinnar allt árið vegna þeirrar ákvörðunar forsætisráðherra Norðurlandanna að veita menningar- og menntamálasamstarfinu forgang innan Norðurlandasamstarfsins. Stefnt er að því að í fjárlögum ársins 1996 skuli helmingur fjárveitinganna renna til þessara málaflokka. Í framhaldi af ákvörðuninni setti ráðherranefndin fram tillögu um framtíðarskipan menningar-, mennta- og rannsóknasamstarfsins.
    Nefndin fylgdist náið með tillögugerðinni, m.a. gegnum samráðsfundi með ráðherrunum. Ráðherranefndartillagan var samþykkt á þinginu í Ósló. Nefndin taldi tillöguna samsvara að miklu leyti forgangsröðun verkefna hjá nefndinni sjálfri en hefði óskað eftir ákveðnari tillögum á vissum sviðum. Einkum óskaði nefndin eftir auknum metnaði varðandi sjónvarpssamvinnu Norðurlanda. Nefndin taldi stóraukningu á nemendaskiptum vera forsendu þess að tungumálaerfiðleikar minnkuðu og þekking á menningu annarra Norðurlandaþjóða ykist. Náms- og starfsskipti milli landanna fyrir þá sem starfa við menningarmál þyrftu að aukast. Norræni menningarsjóðurinn hefur lengi verið forgangsverkefni hjá nefndinni, en hún taldi nauðsynlegt að eiga ætíð fulltrúa í stjórn sjóðsins. Frjálsan aðgang að skólum og gagnkvæma viðurkenningu á prófum taldi nefndin forsendu þess að Norðurlöndin mynduðu eitt menntamálasvæði. Upplýsingar um þær áætlanir og verkefni, sem í gangi eru, þyrftu að stóraukast. Varðandi skiptingu ráðherranefndar menningar- og menntamála í tvær ráðherranefndir lýsti nefndin yfir áhyggjum af því að hún leiddi til þess að ákveðin málefni, sem væru á mörkum starfssviða beggja ráðherranefndanna, yrðu út undan.

3.3.2.
    Nefndin fjallaði einnig um ráðherranefndartillögu sem samþykkt var á Óslóarþinginu um breytingu á skipulagi og fjármögnun stofnana á sviði menningar, menntamála og rannsókna. Þar var lagt til að nokkrar stofnanir og samstarfsnefndir, einkum á sviði rannsókna, fengju ekki beinan fjárstuðning í fjárlögum ráðherranefndarinnar frá og með árinu 1994. Tvær stofnanir skyldu missa fastan fjárstuðning sinn með tímanum. Nefndin áleit mikilvægt að starfsemi norrænna stofnana væri athuguð með jöfnu millibili, en óskaði eftir að ráðherranefndin gerði grein fyrir hvernig þeim stofnunum og nefndum, er sækja þyrftu um styrki á hinum frjálsa markaði, mundi vegna og að starfsemi samstarfsnefndar um læknisfræðirannsóknir á heimskautssvæðum skyldi tryggð önnur fjárhagsaðstoð áður en hún yrði svipt beinum fjárframlögum ráðherranefndarinnar.

3.3.3.
    Áætlanir Norræna rannsóknaráðsins (Nordiska forskningspolitiska rådet) 1993–1995 voru einnig samþykktar í formi ráðherranefndartillögu á þingi ráðsins í Ósló. Þar lagði nefndin til að rannsóknaráðið gerði úttekt á því hvaða þýðingu EES-samningarnir hafa fyrir norrænt rannsóknasamstarf. Auk þess mælti nefndin með því að rannsóknaráðið legði fram yfirlit yfir starfsemi sína frá upphafi, gæfi út fréttabréf um rannsóknir á Norðurlöndum og að ráðið stæði fyrir nýju norrænu rannsóknarverkefni.

3.3.4.
    Menningarmálanefndin fjallaði um tvær þingmannatillögur sem samþykktar voru á þinginu í Ósló um aukinn norrænan þátt í kennsluáætlunum og um framkvæmd NORDLIV-verkefnisins á árunum 1995–1997, en um þessar tillögur var fjallað sameiginlega. Nefndin fjallaði einnig um þingmannatillögu um stofnun norrænnar upplýsingaskrifstofu í Flensborg, en henni var vísað frá.

3.3.5.
    Á þinginu í Maríuhöfn voru samþykktar tvær þingmannatillögur sem nefndin hafði haft til umfjöllunar; um samvinnu um aðgerðir gegn les- og skrifblindu og um norrænt átak gegn útlendingahatri. Tveimur öðrum þingmannatillögum sem nefndin hafði fjallað um var vísað frá; um samnorræna rannsókn á smáskammtalækningum og um stofnun umhverfisstofnunar í Rantasalmi.
    Menningarmálanefndin studdi fjárlagatillögur ráðherranefndarinnar á þinginu í Maríuhöfn, en ráðið lagðist gegn þeim að hluta til og lagði til breytingar, sjá kafla 1.2.3 um meðferð fjárlaga.

3.3.6.
    Innan menningarmálanefndarinnar starfa þrír vinnuhópar um alþjóðamálefni: Tengsl við EB-þingið, tengsl við Evrópuráðið og tengsl við Eystrasaltsríkin. EB-vinnuhópurinn efndi til ráðstefnu í Færeyjum í maí um samstarf Norðurlanda og EB á sviði menningar- og menntamála þar sem fulltrúum menningarmálanefnda þjóðþinga landanna var boðið. Hópurinn heimsótti Brussel og hliðstæða nefnd þar í janúar og efndi til áheyrnarfundar í október um opinberan aðgang að skjölum í EB. Eystrasaltshópurinn hitti frammámenn menningarmála í Gautaborg í september. Í desember var haldinn fundur hópsins með fulltrúum menningarmálanefndar Eystrasaltsráðsins þar sem fjallað var um hugsanlegt framtíðarsamstarf. Evrópuráðshópurinn átti fund með hliðstæðri nefnd í Strassborg í september og heimsótti þá „European Youth Center“. Tveir síðastnefndu vinnuhóparnir héldu sameiginlegan fund í Maríuhöfn í nóvember og ákváðu þar að standa sameiginlega að ráðstefnu fyrir menningarmálaþingmenn í Eystrasaltslöndunum og Evrópuráðinu.
    
3.4. Félagsmálanefnd.
    Sænski þingmaðurinn Lena Öhrsvik er formaður nefndarinnar. Af Íslands hálfu situr þar Sigríður A. Þórðardóttir.
    Nefndin hélt sex reglulega fundi á starfsárinu, auk eins fundar með atvinnumálaráðherrum og annars með félags- og heilbrigðismálaráðherrum Norðurlanda. Nefndin stóð fyrir námsstefnu um umönnun eldri borgara og hélt samráðsfund með fulltrúum norrænna öryrkjabandalaga.
    Helstu málefni, sem nefndin fjallaði um, voru atvinnumál, húsnæðismál, félags- og heilbrigðismál, auk alþjóðlegra samskipta.

3.4.1.
    Atvinnumál með sérstöku tilliti til atvinnuleysis ungs fólks og innflytjenda voru aðalefni fundar nefndarinnar með atvinnumálaráðherrum landanna. Á vegum nefndarinnar starfar vinnuhópur um atvinnumál ungs fólks. Nefndin leggur áherslu á að sú norræna afstaða, sem tekin hefur verið um stefnu í atvinnumálum og um vinnuréttarmálefni, verði virt í EES-samstarfinu. Það er álit nefndarinnar að atvinnuleysið verði ekki minnkað til muna með opinberum aðgerðum nema tímabundið, en aukinn hagvöxtur hefði að sjálfsögðu jákvæð áhrif.

3.4.2.
    Norræn samstarfsáætlun á sviði byggingar- og húsnæðismála gildir fyrir árin 1992– 1996 en þetta samstarf fellur ekki innan þess ramma sem forsætisráðherrar landanna hafa ákveðið að veita forgang næstu ár. Því stóð til að draga inn allar fjárveitingar til rannsókna og annarra verkefna á þessu sviði næstu ár en við meðferð Norðurlandaráðs á fjárlögunum varð því komið til leiðar að 3 millj. danskra króna verður varið til þessara mála 1994. Hvað verður eftir það er hins vegar óráðið.

3.4.3.
    Nefndin leggur áherslu á að ráðherranefndin taki á ný til við endurskoðun á samstarfsáætlun um félags- og heilbrigðismál. Eftir fund nefndarinnar með félags- og heilbrigðisráðherrunum er búist við ráðherranefndartillögu um það samstarf haustið 1994. Nefndin telur barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna mikilvægan í baráttunni fyrir réttindum barna og fulltrúar í nefndinni hafa því lagt fram þingmannatillögu um hvernig koma megi því til leiðar að ákvæðum samningsins verði fylgt. Málefni er varða eldri borgara eru og mikilvæg samstarfsverkefni að mati nefndarinnar og því stóð nefndin að ráðstefnu um þau í samstarfi við norrænu ráðherranefndina í Bergen haustið 1993. Var þar m.a. fjallað um breytilegan eftirlaunaaldur, hvort vista ætti gamalt fólk á stofnunum eða ekki og um þörf á samstöðu milli ólíkra aldurshópa í þjóðfélaginu.
    Fulltrúar í nefndinni hafa lagt til að ráðherranefndin geri samstarfsáætlun um aðgerðir gegn fíkniefnaneyslu vegna þeirrar aukningar sem orðið hefur á henni á Norðurlöndum undanfarið. Nefndin telur og nauðsynlegt að fjalla á norrænum vettvangi um aðgerðir gegn ólöglegri og ástæðulausri hormónaneyslu. Bann við innflutningi slíkra efna telur nefndin eðlilegt upphaf aðgerða af hálfu norrænu ríkisstjórnanna.
    Nefndin leggur og ríka áherslu á málefni fatlaðra og telur að átak þurfi til að koma í því skyni að uppfylla markmið norrænu samstarfsáætlunarinnar frá 1991 um fullkomna þátttöku fatlaðra í þjóðfélaginu og fullt jafnrétti þeim til handa.
    Rannsóknir á áfengisvandanum og þeim kostnaði sem af honum hlýst fyrir þjóðfélagið eru og meðal þess sem nefndin telur mikilvægt að eiga um norrænt samstarf.

3.4.4.
    Formaður nefndarinnar sat að vanda vinnumálaráðstefnu ILO í Genf í júní 1993.
    Nefndin stofnaði á starfsárinu þrjá vinnuhópa til að sinna Evrópumálunum, málefnum varðandi Sameinuðu þjóðirnar og Eystrasalts- og Austur-Evrópuríki. Vinnuhóparnir munu leggja aðaláherslu á samskipti og samstarf við þingmannasamtök, en hlutverk vinnuhópanna er að taka frumkvæði um alþjóðlegt samstarf, afla upplýsinga og fylgjast með málefnum sem varða starfssvið nefndarinnar.

3.5. Umhverfisnefnd.
    Finnski þingmaðurinn Anneli Jääteenmäki er formaður nefndarinnar. Af hálfu Íslands situr þar Kristín Einarsdóttir.
    Nefndin hélt sex reglulega fundi á starfsárinu, en átti auk þess fundi með landbúnaðarráðherrunum, með formanni ráðherranefndar þeirrar sem fjallar um umhverfismál og með umhverfisráðherrunum. Nefndin átti og fund með fulltrúum þróunarbanka Evrópu, stjórn umhverfisstofnunarinnar í Stokkhólmi og með NEFCO um fjármögnun aðgerða til hreinsunar á Eystrasaltinu og fjármögnun aðgerða til að auka öryggi þeirra kjarnorkuvera sem reist hafa verið í námunda við Norðurlönd. Nefndin heimsótti Pétursborg og kjarnorkuverið í Sosnovy Bor og ræddi þar við ýmsa forsvarsmenn um umhverfis- og kjarnorkuöryggismál.

3.5.1. Þingmannatillögur.
    Nefndin lagði fyrir 42. þing ráðsins í Ósló tvær samþykktir sem báðar voru afgreiddar þar. Þær voru um aðgerðir til að auka öryggi kjarnorkuveranna í Sosnovy Bor og Ignalia og um skipulag fjármögnunarkerfis til að hreinsa Eystrasaltið.
    Fyrir 43. þing ráðsins í Maríuhöfn lagði nefndin fram þrjár samþykktir um þingmannatillögur sem báðar voru afgreiddar þar. Þær voru um eftirlit með kjarnorkutæknilegri starfsemi, um öryggi, orku og umhverfi og um samstarf um byggðamál. Til nefndarinnar var vísað til umsagnar frá öðrum nefndum sex tillögum sem hún gaf umsagnir um.

3.5.2. Fundir með ráðherranefndum.
    Á fundi nefndarinnar með landbúnaðarráðherrunum var fjallað um landbúnaðarmál í EB, aðgerðir í kjölfar umhverfisráðstefnunnar í Ríó, framtíð norræna landbúnaðar- og skógræktarsamstarfsins og reglur um geislun matvæla í EB. Á fundi nefndarinnar með formanni norrænu ráðherranefndarinnar um umhverfismál, sem er jafnframt formaður norrænu ráðherranefndarinnar, samstarfsráðherranna, var rætt um fyrirhugað norrænt umhverfisátak, kjarnorkuöryggismál og norrænu fjárlögin. Nefndin gagnrýndi forgangsröðun ráðherranefndarinnar þar sem hún byggði á fyrir fram ákveðinni prósentuhækkun til menningarsamstarfsins og kváðust fulltrúar nefndarinnar hafa viljað gefa atvinnumálum meira vægi í sinni forgangsröðun. Nefndin gagnrýndi og að ekki væri hugað að fjármögnun fyrirhugaðrar samstarfsáætlunar um geymslu erfðavísa í drögum að norrænu fjárlögunum fyrir árið 1994.
    Á fundi nefndarinnar með norrænu umhverfisráðherrunum var m.a. rætt um aðildarviðræður þeirra norrænu landa sem sótt hafa um aðild að EB og um tilhögun samstarfs nefnda Norðurlandaráðs og ráðherranefnda. Nefndin gaf og skýrslu um lokaskjal ráðstefnu Norðurlandaráðs um málefni norðurheimskautssvæðisins.

3.5.3. Fundir nefndarinnar með öðrum aðilum.
    Í janúar 1993 heimsótti nefndin umhverfisstofnunina í Stokkhólmi. Athygli vakti hið umfangsmikla alþjóðasamstarf stofnunarinnar og sá árangur sem náðst hefur með þeim verkefnum sem lúta að orkusparnaði í Eystrasaltsríkjunum, oft með litlum tilkostnaði.
    Nefndin hefur fylgst með þeim annmörkum sem á því eru að fjármagna aðgerðir þær sem gert er ráð fyrir í starfsáætluninni um hreinsun Eystrasaltsins. Því ræddi nefndin á fundi í maí við fulltrúa þróunarbanka Evrópu og fulltrúa norræna umhverfisfjárfestingarfélagsins NEFCO um þessi mál. Fyrir sumarfund sinn fékk nefndin upplýsingar um mengunina í Finnsku víkinni og um mismun öryggisbúnaðar í rússneskum og vesturevrópskum kjarnorkuverum vegna fyrirhugaðrar heimsóknar í kjarorkuverið í Sosnovy Bor. Í heimsókn nefndarinnar í kjarnorkuverið voru þessi mál til umræðu. Jafnframt ræddi nefndin við sveitarstjórnarmenn þar og við yfirvöld þau sem fara með umhverfismál í Pétursborg.

3.5.4. Norrænu fjárlögin.
    Vegna þeirra áherslubreytinga, sem gerðar hafa verið á norrænu fjárlögunum, er ljóst að stór hluti þeirra verkefna sem falla innan starfssviðs nefndarinnar verða næsta ár fjármagnaðar með óráðstöfuðum fjármunum af fjárlögum ársins 1992. Umhverfisnefnd mun því leggja ríka áherslu á að fjármagn fáist á fjárlögum næstu ára til þessara verkefna.

3.6. Efnahagsmálanefnd.
    Danski þingmaðurinn Helge Adam Møller var formaður nefndarinnar til 3. maí 1993 en frá þeim tíma var danski þingmaðurinn Lars P. Gammelgaard formaður.
    Nefndin hélt sex reglulega fundi á starfsárinu og einn fund með Björn Tore Godal, þáverandi viðskiptaráðherra Noregs og formanni norrænu ráðherranefndarinnar, skipaðri utanríkisviðskiptaráðherrum Norðurlanda. Einnig áttu fulltrúar nefndarinnar fund með fulltrúum Eystrasaltsríkjaráðsins.
    Aðalmál nefndarinnar á starfsárinu voru, auk þess að fylgjast með samrunaþróuninni í Evrópu, atvinnumál, orkumál, markaðsmál og afstaðan til Eystrasaltsríkjanna og mið-evrópskra ríkja. Nefndin hefur og lagt áherslu á að fulltrúar nefndarinnar sæki norrænar og alþjóðlegar ráðstefnur um þau málefni sem eru á dagskrá nefndarinnar.

3.6.1. Atvinnumál.
    Allir þeir flokkahópar, sem starfa í Norðurlandaráði, lögðu fram á starfsárinu þingmannatillögur um atvinnumál sem vísað var til efnahagsnefndar, sjá nánar kafla 1.2.4 um efni tillagnanna og umfjöllun á 43. þingi ráðsins. Nefndin lagði til á grundvelli þessara tillagna að 43. þing ráðsins mæltist til þess við ráðherranefndina að hún legði fram fyrir 44. þing ráðsins í Stokkhólmi tillögu um aðgerðir sem væru til þess fallnar að auka atvinnu á Norðurlöndum. Tillaga nefndarinnar var samþykkt einróma. Tillögu nefndarinnar fylgdu af hálfu hennar ýmsar áherslur og hugmyndir til úrbóta í atvinnumálum. Nefndin hefur auk þess ákveðið að halda ráðstefnu um atvinnumál í Danmörku í apríl 1994.

3.6.2. Orkumál.
    Norðurlandaráðsþingið í Ósló samþykkti tillögu frá efnahagsmálanefnd um að óska eftir því við ráðherranefndina að hún gerði athugun á þróun NORDEL-samstarfsins sem sýndi m.a. sjónarmið ríkisstjórnanna um markmið og samstarfshætti á sviði norræns raforkusamstarfs. Vinnuhópur á vegum nefndarinnar átti í júní fund með stjórn NORDEL um starfshætti samtakanna. Nefndin átti einnig á starfsárinu fund með umhverfisnefnd ráðsins. Í framhaldi af fundinum ákvað nefndin að stefna að ráðstefnu á næsta ári um orku- og umhverfismál.

3.6.3. Markaðsmál.
    EES-samningarnir, aðildarumsóknir Finna, Svía og Norðmanna að EB og Maastricht-samningurinn hafa í mismunandi samhengi verið til umfjöllunar í nefndinni á starfsárinu. Fulltrúar frá nefndinni sóttu ráðstefnu á vegum EFTA um samstarfssamninga EFTA við ríki Mið-Evrópu og ráðstefnu Evrópuráðsins um efnahagsþróunina í Mið- og Austur-Evrópu.

3.7. Fjárlaganefnd.
3.7.1.
    Formaður fjárlaganefndar var tímabilið frá 1. janúar til 30. september norski þingmaðurinn Helga Haugen, frá 1. október til 7. nóvember finnski þingmaðurinn Timo Järvilahti og síðan 8. nóvember norski þingmaðurinn Peter Angelsen. Af hálfu Íslands situr Árni M. Mathiesen í nefndinni.
    Fjárlaganefnd hélt tíu fundi á starfsárinu, tvo fundi með formanni ráðherranefndarinnar skipaðri samstarfsráðherrum landanna, einn fund með fulltrúum flokkahópanna og einn fund með fulltrúum hinna fastanefndanna. Nefndin hélt fund með starfsmönnum ráðherranefndarskrifstofunnar um meðferð fjárlagatillagnanna og áhrif Norðurlandaráðs á fjárlögin. Nefndin ræddi einnig við yfirmenn norrænu upplýsingaskrifstofanna þriggja í Eystrasaltsríkjunum um starfsemi skrifstofanna.
3.7.2.
    Starfsemi nefndarinnar á starfsárinu mótaðist af þeim auknu áhrifum á norrænu fjárlögin sem Norðurlandaráði voru fengin með þeim breytingum á Helsingfors-samningnum sem gengu í gildi 7. nóvember 1993. Með þeim var ráðherranefndinni gert að fara að tillögum ráðsins um skiptingu norrænu fjárlaganna innan fjárlagarammans enda mæltu engin veigamikil rök gegn því. Þessum auknu áhrifum fylgdi þannig sú kvöð að tillögur ráðsins væru innan fjárlagarammans og hlutverk fjárlaganefndar var í því efni að sætta hin ólíku sjónarmið sem voru uppi í flokkahópum og hinum fastanefndunum og leggja fram fyrir haustþingið tillögu að nefndaráliti um norræn fjárlög fyrir árið 1994 sem þingfulltrúar gætu sæst á. Tillaga fjárlaganefndar var samþykkt af ráðinu og ráðherranefndinni strax að þinginu loknu. (Um efni tilmælanna vísast til tilmæla nr. 25/1993 í fskj. II, sjá og kafla 1.2.3 um meðferð fjárlaganna.)

3.7.3.
    Í nefndartillögu gerði fjárlaganefnd grein fyrir eftirlitsstörfum sínum árið 1992 og mæltist af því tilefni til þess við ráðherranefndina að hún tæki tillit til þeirra sjónarmiða um norrænt samstarf á sviði landbúnaðar og skógræktar sem fram komu í skýrslu fjárlaganefndar. Tillagan var samþykkt af 42. þingi ráðsins, sjá tilmæli nr. 8/1993 í fskj. I.
    Fjárlaganefnd hefur og eftirlit með starfsemi forsætisnefndarskrifstofu Norðurlandaráðs og fjallar því um uppgjör skrifstofunnar og skýrslu endurskoðenda ráðsins um starfsemina. Fjárlaganefnd hefur lokið meðferð sinni á uppgjöri ársins 1992 og gerði ekki athugasemdir við það.
    Fjárlaganefnd fól á árinu sérfræðingi að gera úttekt á starfsemi NORDREFO og á notkun meginreglunnar um upplýsingaskyldu stjórnvalda hjá norrænum stofnunum. Skýrslur um bæði málin verða lagðar fyrir nefndina í byrjun ársins 1994.

Alþingi, 18. febr. 1994.



Halldór Ásgrímsson,

Geir H. Haarde,

Rannveig Guðmundsdóttir.


form.

varaform.



Hjörleifur Guttormsson.

Árni M. Mathiesen.

Sigríður A. Þórðardóttir.



Kristín Einarsdóttir.





Fylgiskjal I.


SAMÞYKKTIR SEM GERÐAR VORU Á 42. ÞINGI


NORÐURLANDARÁÐS Í ÓSLÓ 1993



Samþykkt nr. 1/1993 um nýtt skipulag og aukna áherslu á menntamála-


og rannsóknasamstarfið (menningarmálanefnd).


(Ráðherranefndartillaga.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ráðherranefndar Norðurlanda
    að hún samþykki ráðherranefndartillöguna um aukna áherslu og nýtt skipulag á menningar-, menntamála- og rannsóknasamstarfinu í samræmi við ráðherranefndartillögu B137/k og með tilliti til sjónarmiða menningarmálanefndarinnar og að koma nýskipaninni til framkvæmda á tímabilinu 1994–1996,
    að hún fjarlægi allar fyrirstöður fyrir samræmdu norrænu menningar-, mennta- og rannsóknasviði,
    að hún auki fjárveitingar til Norræna menningarsjóðsins í því skyni að styðja alþýðumenningarlegt samstarf og að tryggja að menningarmálanefnd eigi ætíð fulltrúa í stjórn menningarsjóðsins,
    að hún grípi til aðgerða sem leiða til afgerandi framfara í norræna sjónvarpssamstarfinu í því skyni að útsendingar á sjónvarpsefni nágrannalandanna geti aukist,
    að hún auki og bæti norræn nemendaskipti til þess að auka norrænan tungumálaskilning og norrænt barna- og unglingasamstarf,
    að hún leggi fljótlega fram nákvæmar tillögur og áætlun um skiptingu fjárlaganna á menningarsviðinu fyrir árið 1994.


Samþykkt nr. 2/1993 um samstarfsáætlun um fjármögnunar- og


skipulagsbreytingar á stofnunum þeim sem tilheyra


menningarmálasviðinu (menningarmálanefnd).


(Ráðherranefndartillaga.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ráðherranefndar Norðurlanda
    að hún hrindi í framkvæmd samstarfsáætluninni um fjármögnunar- og skipulagsbreytingar á stofnunum þeim sem tilheyra menningarmálasviðinu, samstarfsáætlun og öðrum fastaverkefnum samkvæmt ráðherranefndartillögu B136/k og með tilliti til þeirra sjónarmiða sem menningarmálanefnd hefur lagt fram og
    að hún taki jafnframt tillit til eftirfarandi atriða:
    —    Áður en norrænum fjárveitingum til Norræna lýðháskólans á sviði heimilisfræðslu og norrænu samstarfsnefndarinnar um læknisfræðilegar heimskautsrannsóknir verður hætt beri að tryggja fjármögnun annars staðar að,
    —    þessum stofnunum verði gefinn nægilegur tími til að koma á nauðsynlegum skipulagsbreytingum,
    —    ráðherranefnd Norðurlanda skili skýrslu í síðasta lagi 1. nóvember 1993 til menningarmálanefndar um möguleika stofnana á utanaðkomandi fjármögnun þegar bundinn verður endi á norrænar fjárveitingar 1. janúar 1994,
    —    ráðherranefnd Norðurlanda gefi menningarmálanefnd skýrslu um allar fjárhagslegar breytingar sem verða samkvæmt þessari ráðherranefndartillögu og taki síðan tillit til þeirra sjónarmiða sem nefndin kann að hafa um þær.


Samþykkt nr. 3/1993 um ný stefnumið fyrir


Norræna rannsóknaráðið 1993–1995


(menningarmálanefnd).


(Ráðherranefndartillaga.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ráðherranefndar Norðurlanda að
    hún leggi stefnumið Norræna rannsóknaráðsins til grundvallar starfsemi þess tímabilið 1993–1995, samkvæmt ráðherranefndartillögu B132/k og með tilliti til þeirra sjónarmiða sem menningarmálanefnd hefur sett fram og
    á því tímabili starfseminnar sem stefnumiðin eru sett fyrir
    —    tilgreini hún rannsóknapólitísk og efnahagsleg áhrif EES-samningsins á rannsóknir á Norðurlöndum og setji fram tillögur sem hafa að markmiði að styrkja stöðu norrænna rannsókna í Evrópu,
    —    skrái hún allar rannsóknastofnanir og samtök á Norðurlöndum sem eru samnorræn til þess að bæta norræna stýringu á rannsóknasviðinu,
    —    vinni hún að sameiginlegri greinargerð um starfsemi Norræna rannsóknaráðsins.


Samþykkt nr. 4/1993 um verkefnið NORDLIV og norrænu


víddina í námsskrám (menningarmálanefnd).


(1. flm. Eeva Turunen.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ráðherranefndar Norðurlanda
—    að hún hefji samstarf milli þeirra sem málið varðar í því skyni að auka norrænt efni og leggja áherslu á norræna vídd í námsskrám og námsbókum, sérstaklega í sögu og samfélagsfræði,
—    að hún ýti undir norrænt ívaf í menntun kennara á Norðurlöndum og hafi frumkvæði að námskeiðsstarfsemi fyrir skólastjóra á Norðurlöndum og
—    að hún framkvæmi verkefnið NORDLIV að fullu eða að hluta í tengslum við fyrirhugaða aukna áherslu á norræna menningarmálasamstarfið í því skyni að vekja frekari áhuga almennings á Norðurlöndum á sögu og samfélagsfræði í samvinnu við Norrænu félögin.


Samþykkt nr. 5/1993 um samræmingu framboðs á ritum


sem varða fötlun (menningarmálanefnd).


(1. flm. Lena Öhrsvik.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ráðherranefndar Norðurlanda
—    að hún kanni hvernig unnt er að samræma norrænt framboð á ritum er varða fötlun þannig að það verði sem hagkvæmast með tilliti til skipulags og fjármögnunar og leggi síðan fram tillögu þar að lútandi.


Samþykkt nr. 6/1993 um starfsáætlun á sviði


norræns löggjafarsamstarfs (laganefnd).


(Ráðherranefndartillaga).



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ráðherranefndar Norðurlanda
—    að hún samþykki nýja samstarfsáætlun á sviði löggjafar í samræmi við tillögu ráðherranefndarinnar og þau sjónarmið sem laganefnd Norðurlandaráðs hefur sett fram,
—    að hún haldi áfram að vinna að norrænum forgangslista í stað þess að bíða eftir frumkvæði EB,
—    að hún íhugi auk þess vel hvort það samstarf, sem stendur yfir um stuðning við Eystrasaltsríkin, ætti ekki að tengjast norræna löggjafarsamstarfinu á þann hátt að Eystrasaltsríkin gætu hrint í framkvæmd eða fært í nútímalegt horf sínar eigin reglur á þeim sviðum sem þykja mest áríðandi.


Samþykkt nr. 7/1993 um samstarfsáætlun um gæði matvæla (laganefnd).


(Ráðherranefndartillaga.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ráðherranefndar Norðurlanda
    að hún hafi það að markmiði í stefnumótun varðandi gæði matvæla að tryggja heilsu og öryggi þegnanna,
    að hún láti menntun, upplýsingar og kynningarstarfsemi fyrir þegna á öllum aldri njóta forgangs,
    að hún haldi áfram að vinna að norrænum forgangslista,
    að hún vinni að því að tryggja gæði matvæla, bæði varðandi næringargildi, hreinlæti og innihald ósækilegra efna, sem dæmi má nefna að tryggt verði að salmonella, þungmálmar og eiturefni verði ekki til staðar í matvælum,
    að hún vinni að því að eftirlit með matvælum verði nægilegt til að tryggja kröfur og hagsmuni norrænna þegna í alþjóðlegum viðskiptum,
    að hún auki samstarfið við Eystrasaltsríkin og reyni að tengja Eystrasaltsríkin við nýju samstarfsáætlunina. Nefndin á hér sérstaklega að beina athygli að málefnum varðandi drykkjarvatn í Eystrasaltsríkjunum.


Samþykkt nr. 8/1993 um eftirlit fjárlaganefndar


með samstarfinu 1992 (fjárlaganefnd).


(Tillaga frá fjárlaganefnd.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ráðherranefndar Norðurlanda
—    að hún taki tillit til þeirra sjónarmiða og tillagna sem koma fram bæði í skýrslu þeirri sem lögð hefur verið fram og í nefndaráliti fjárlaganefndar um eftirlit með samstarfinu 1992 í störfum sínum á sviði landbúnaðar og skógræktar og skýri nefndinni frá þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til í tilefni úttektarinnar.


Samþykkt nr. 9/1993 um framtíð NORDEL (norræns


raforkusamstarfs) (efnahagsmálanefndin).


(1. flm. Poul Nielson.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ríkisstjórna Norðurlanda
—    að þær leggi fram fyrir áramót 1993 sameiginlega athugun á þróun NORDEL-samstarfsins og skýri þar m.a. hvert þróunin er talin leiða næstu ár. Þar skulu einnig koma fram sjónarmið ríkisstjórnanna um markmið og samstarfshætti á sviði norræns raforkusamstarfs.


Samþykkt nr. 10/1993 um aðgerðir til að auka öryggi kjarnorku-


veranna í Sosnovy Bor og Ignalina (umhverfisnefnd).


(1. flm. Poul Nielson.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ríkisstjórna Norðurlandanna
—    að þær vinni að því að viðræðunum um úrbætur á alvarlegustu vandamálunum varðandi öryggi kjarnorkuveranna í Sosnovy Bor og Ignalina verði haldið áfram og lokið og, ef þær bera árangur, vinni þá að því að lagt verði fram á alþjóðlegum vettvangi nægilegt fjármagn og sérþekking.



Samþykkt nr. 11/1993 um skipulag fjármögnunarkerfis


til að hreinsa Eystrasaltið (umhverfisnefnd).


(1. flm. Anneli Jääteenmäki.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ráðherranefndar Norðurlanda
—    að hún vinni að því á ráðstefnunni í Gdansk, sem haldin er af HELCOM 25.–26. mars, að komið verði á skipulegu fjármögnunarkerfi til að unnt verði að koma til framkvæmdar starfsáætlun HELCOM um hreinsun Eystrasaltsins,
—    að hún hefji eftir ráðstefnuna viðræður við ríkisstjórnir allra Eystrasaltsríkjanna, landanna á frárennslissvæði hafsins ásamt EB með tilliti til skipulegs fjármögnunarkerfis fyrir Eystrasaltið,
—    að hún sjái til þess að einstök ríki fái réttláta meðferð hvað varðar fjármögnunina,
—    að hún nýti þær fjárveitingar sem koma inn samkvæmt þeirri forgangsröðun sem HELCOM hefur lagt til í samræmi við meginregluna um hámarksnýtingu fjármagnsins.


Samþykkt nr. 12/1993 um félagslega þjónustu við


aldraða í framtíðinni (félagsmálanefnd).


(1. flm. Lena Öhrsvik.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ráðherranefndar Norðurlanda
—    að hún stuðli að því að Norðurlönd nýti reynslu hvert annars í þeim tilgangi að leysa þann vanda sem stafar af vaxandi fjölda aldraðra sem þarfnast umönnunar og hjúkrunar.


Samþykkt nr. 13/1993 um aukið samstaf um félagsleg mál innan ECE (Efna-


hagsmálanefnd Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu) (félagsmálanefnd).


(1. flm. Lena Öhrsvik.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ríkisstjórna Norðurlandanna
—    að þær taki virkan þátt í að styrkja starfsemi efnahagsmálanefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu (ECE), sérstaklega á félagslega sviðinu.

Samþykkt nr. 14/1993 um breytingar á Helsinki-samningnum (laganefnd).


(Ráðherranefndartillaga.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ráðherranefndar Norðurlanda
    að hún láti breyta 1. gr., 33. gr., 61. gr. og 63. gr. í Helsinki-samningnum í samræmi við ráðherranefndartillöguna,
    að 40. gr. verði svohljóðandi:
                  „Samstarfið fer fram í Norðurlandaráði, í ráðherranefnd Norðurlanda, á fundum forsætisráðherra, utanríkisráðherra og annarra ráðherra, í sérstökum samstarfsstofnunum og milli stjórnvalda landanna sem annast viðkomandi málaflokka“,
    að hún samþykki breytingar á 64. grein í samræmi við ráðherranefndartillögu B135/j,
    að hún breyti „Ålands Landsting“ í „Ålands Lagting“ í 47. og 48. gr.

Tilmæli nr. 15/1993 um samstarfsáætlun um aðgerðir gegn


áfengisneyslu á Norðurlöndum (félagsmálanefnd).


(1. flm. Svein Alsaker og Lena Öhrsvik.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ráðherranefndar Norðurlanda
—    að hún semji samstarfsáætlun um að samræma aðgerðir gegn áfengisneyslu á Norðurlöndum sem m.a. feli í sér aðgerðir til að staðið verði við metnaðarfulla áfengisstefnu í samræmi við hina evrópsku starfsáætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar gegn tjóni því sem hlýst af áfengisneyslu.

Tilmæli nr. 16/1993 um metnaðarfyllri stefnu í áfengismálum (félagsmálanefnd).


(1. flm. Svein Alsaker og Lena Öhrsvik.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ríkisstjórna Norðurlandanna
—    að þær leggi fram einróma röksemdafærslu um áfengismál í þeim viðræðum, sem eru í gangi eða standa fyrir dyrum um aðild að EB, og að þær upplýsingar sem settar verða fram í upplýsingaherferðum landanna lúti aðallega að atvinnulífi, meðgöngu og umferð, þar á meðal umferð skemmtibáta, og að þeim verði sérstaklega beint til foreldra ungra barna og til barna og unglinga.


YFIRLÝSINGAR NORÐURLANDARÁÐS



Yfirlýsing Norðurlandaráðs nr. 1/1993 um ársskýrslu ráðherranefndar


Norðurlanda um norrænt samstarf liðins árs (C1) (fjárlaganefnd).


    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að hún láti Norðurlandaráði í té nauðsynleg gögn til þess að unnt verði að meta sanngirni þess að auka fjárveitingar til menningarmála um 25% árið 1994 áður en endanleg ákvörðun verður tekin,
—    að ráðherranefnd Norðurlanda gefi upplýsingar um hver áhrif aukningarinnar á fjárveitingum til menningarmála verði á önnur svið samstarfsins,
—    að fjárlaganefnd, sem ber ábyrgð í Norðurlandaráði á umfjölluninni um fjárlög ráðherranefndar Norðurlanda, fái jafnóðum upplýsingar um innihald þeirra skýrslna og samstarfsáætlana sem skipta máli við meðferð fjárlaganna.

Yfirlýsing Norðurlandaráðs nr. 2/1993 um skýrslu ráðherranefndar


Norðurlanda um starfsáætlun næstu ára (C 2) (fjárlaganefnd).


    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
     að hún láti Norðurlandaráði í té nauðsynleg gögn til þess að unnt verði að meta sanngirni þess að hækka fjárveitingar til menningarmála áður en endanleg ákvörðun verður tekin,
    að hún skýri Norðurlandaráði eins snemma á ferlinu og unnt er frá fyrirhuguðum niðurskurði á verkefnum og annarri starfsemi og að nægilegur tími verði gefinn til að ljúka þeirri starfsemi sem ekki rúmast innan framtíðaráætlana ráðherranefndarinnar,
    að hún taki frumkvæði um sameiginlegt norrænt átak um aðgerðir gegn atvinnuleysi á Norðurlöndum,
    að ráðinu verði gert kleift að breyta skiptingu fjárveitinganna innan fjárlagarammans eins og hann er ákveðinn,
    að Helsinki-samningnum verði breytt að því er varðar áhrif ráðsins á fjárlögin,
    að hún vinni að því að C2-skýrslan verði í framtíðinni raunveruleg starfsáætlun sem unnt verði að leggja til grundvallar,
    að hún taki einnig tillit til þeirra sjónarmiða sem fram koma í nefndarálitinu.


Viðbótaryfirlýsing Norðurlandaráðs nr. 3/1993 um skýrslu ráðherranefndar


Norðurlanda um starfsáætlun næstu ára (C2) og greinargerð


forsætisráðherranna (Skjal 3) (fjárlaganefnd).


    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
    að hún gefi Norðurlandaráði skýrslu eigi síðar en á 43. þingi ráðsins í Maríuhöfn um árangur fyrirhugaðs fundar um samræmingu viðræðnanna um EB-aðild,
    að Norðurlönd vinni að því í fyrirhuguðum viðræðum um EB-aðild að bætt verði við ákvæði um norrænt samstarf samsvarandi því ákvæði sem fyrir er í EES-samningnum og byggir á ákvæði Rómarsáttmálans um Benelux-samstarfið m.a.,
    að hún taki frumkvæði um samræmingu á framlögum ríkjanna til Eystrasaltsríkjanna,
    að hún stuðli að fríverslun milli Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna,
    að hún flýti fyrir afnámi viðskiptahindrana og landamæraeftirlits,
    að hún stuðli að virkri norrænni stefnu varðandi vinnumarkaðsmál og taki auk þess frumkvæði um aðgerðir til að auka hagvöxt með það að markmiði að minnka atvinnuleysið; um getur verið að ræða afnám viðskiptaþvingana, auknar fjárfestingar og opnari vinnumarkað á Norðurlöndum,
    að hún taki tillit til þess að menntun og rannsóknir eiga sér stað á mörgum sviðum og að þessar rannsóknir eru jafnmikilvægar og þær sem eiga sér stað á menningarmálasviðinu,
    að hún falli frá þeirri stefnu að skipta fjárveitingunum eftir fyrir fram ákveðnum prósentuhlutföllum en að fjárþörfin á þeim sviðum sem skipta máli hvað varðar norræna hagsmuni verði höfð að leiðarljósi við skiptinguna.



Fylgiskjal II.

SAMÞYKKTIR SEM GERÐAR VORU Á 43. ÞINGI


NORÐURLANDARÁÐS Í MARÍUHÖFN 1993




Samþykkt nr. 17/1993 um framkvæmda- og samstarfsáætlun


fyrir grunnsvæði Norðurlanda (forsætisnefnd).


(1. flm. Halldór Ásgrímsson.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ráðherranefndar Norðurlanda
—    að hún upplýsi við gerð áætlunarinnar um kostnað þann sem fylgir framkvæmd hennar innan og utan norrænu fjárlaganna,
—    að hún athugi sérstaklega við gerð áætlunarinnar forsendur fyrir samstarfsmöguleikum á sviði umhverfis-, viðskipta-, menningar- og samgöngumála.


Samþykkt nr. 18/1993 um flutning rússnesks herliðs


frá Eistlandi og Lettlandi (forsætisnefnd).


(Tillaga frá flokkahópi hægri manna.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ríkisstjórna Norðurlanda
—    að þær ítreki gerðar kröfur á hendur Rússlandi um að rússneska herliðið verði endanlega flutt hratt og skipulega frá Eistlandi og Lettlandi.


Samþykkt nr. 19/1993 um samstarf um aðgerðir gegn les-


og skrifblindu (dyslexi) (menningarmálanefnd).


(1. flm. Ingrid Näslund og Lena Öhrsvik.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ráðherranefndar Norðurlanda
—    að hún auki norrænt samstarf um aðgerðir gegn les- og skrifblindu (dyslexi) aðallega með því að koma því til leiðar að reynslu, aðferðum og rannsóknaniðurstöðum verði miðlað milli landanna,
—    að hún komi á sameiginlegri stefnu um upplýsingamiðlun um les- og skrifblindu til þeirra sem málið varðar,
—    að hún láti kanna hvernig námi forskólakennara, uppeldisfræðinga, skólasálfræðinga og fleiri stétta, sem að málinu koma, er háttað á Norðurlöndum og annars staðar í þeim tilgangi að finna aðferð til að bæta nám þessara stétta um les- og skrifblindu.


Samþykkt nr. 20/1993 um norrænt átak gegn


útlendingahatri (menningarmálanefnd).


(1. flm. Marianne Anderson o.fl.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ráðherranefndar Norðurlanda
—    að hún skipi vinnuhóp sem í eigi sæti fulltrúar ráðherranefndarinnar, Norðurlandaráðs, norrænu æskulýðssamtakanna og Sambands norrænu félaganna; vinnuhópurinn fái það hlutverk að leggja fram tillögu fyrir 15. febrúar 1994 um norrænt átak undir yfirskriftinni „Norðurlönd gegn útlendingahatri“,
—    að hún tryggi fjármögnun átaksins.


Samþykkt nr. 21/1993 um samninga um forræði barna við skilnað (laganefnd).


(1. flm. Rose-Marie Björkenheim.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ráðherranefndar Norðurlanda
—    að hún sjái um að löggjöf á sviði fjölskyldumála á Norðurlöndum verði samræmd,
—    að hún sjái um að vinnuhópur sá, sem vinnur að endurskoðun norræna samningsins um hjúskaparmál frá 1931, flýti störfum sínum eftir mætti,
—    að hún sjái um að foreldrar sem óska lögskilnaðar, skilnaðar að borði og sæng eða óformlegs skilnaðar fái samræmdar leiðbeiningar sem jafnframt geti gagnast í þeim tilvikum þar sem samkomulag hefur náðst.

Samþykkt nr. 22/1993 um samstarfsáætlun um neytendamál (laganefnd).


(Ráðherranefndartillaga.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ráðherranefndar Norðurlanda
—    að hún samþykki tillöguna að samstarfsáætlun um neytendamál og taki jafnframt tillit til þess sem nefndin hefur lagt til varðandi framkvæmd og lagaleg atriði,
—    að þeir ráðherrar sem fara með neytendamál leggi fram áður en Norðurlandaráð heldur 45. þing sitt í Tromsö 1994 tillögu um samstarfsáætlun um fjármagnsþjónustu (finansielle tjenesteydelser) og taki í því sambandi tillit til þess sem nefndin hefur haldið fram í kaflanum um fjármagnsþjónustu.


Samþykkt nr. 23/1993 um endurnýjun norræna almanna-


tryggingakerfisins (félagsmálanefnd).


(1. flm. Lena Öhrsvik.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ríkisstjórna Norðurlanda
—    að þær eigi samstarf um framtíðarskipan almannatryggingakerfisins með það að markmiði að útrýma atvinnuleysi og að þær hefji það starf með samanburðarrannsókn,
—    að þær bæti vinnuumhverfið í víðri merkingu í því skyni að hindra slys,
—    að þær grípi til aðgerða til aukinnar endurhæfingar,
—    að þær gæti í evrópska samrunaferlinu hagsmuna Norðurlanda á sviði almannatrygginga.

Samþykkt nr. 24/1993 um aðgerðir til aukinna réttinda


norrænna borgara (félagsmálanefnd).


(1. flutningsmaður Sinikka Hurskainen, meðal


meðflutningsmanna var Rannveig Guðmundsdóttir.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ráðherranefndar Norðurlanda
—    að hún grípi til aðgerða til að auka réttindi norrænna borgara á Norðurlöndum,
—    að hún stuðli að því á vettvangi EB og EFTA að réttinda borgaranna verði gætt í samræmi við hagsmuni Norðurlanda.


Samþykkt nr. 25/1993 um norræn fjárlög ársins 1994 (fjárlaganefnd).


(Ráðherranefndartillaga.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ráðherranefndar Norðurlanda
—    að við ákvörðun um fjárlög ársins 1994, að því tilskildu að ákvörðunin um ráðstöfun ónotaðra fjárveitinga ársins 1992 standi, flytji hún 7,016 millj. danskra króna frá fyrirhugaðri aukningu á fjárveitingum til menningarmála til eftirgreindra sviða:

Rannsóknir á sviði matvæla    
1 millj. DKK

Neytendamál
1,2 millj. DKK

Fjárhagsstuðningur við samtök fatlaðra
1,155 millj. DKK

Aðgerðir gegn fíkniefnaneyslu
0,361 millj. DKK

Aðgerðir fyrir aðila sem þurfa á félagsaðstoð að halda
0,300 millj. DKK

Húsnæðisgeirinn o.fl.
3,000 millj. DKK

7,016 millj. DKK


—    að við ákvörðun um fjárlög ársins 1994 skeri hún niður fyrirhugaða aukningu á fjárveitingum til menningarmála á eftirgreindum sviðum:

Norrænt kvikmynda- og fjölmiðlasamstarf
–1,500 millj. DKK

Æskulýðssamstarf
–1,500 millj. DKK

Norrænt kynningarstarf í Evrópu og á Norðurlöndum
–1,500 millj. DKK

Menningarátak í því landi þar sem þing Norðurlanda-
ráðs er haldið
–2,016 millj. DKK



Samþykkt nr. 26/1993 um atvinnumál á Norðurlöndum (efnahagsmálanefnd).


(Tillaga 1036/e: 1. flm. Sten Anderson, meðal meðflm. var Rannveig Guðmunds-


dóttir. Tillaga 1038/e: 1. flm. Carl. I Hagen. Tillaga 1042/e: 1. flm. Claes


Andersson, meðal meðflm. var Hjörleifur Guttormsson. Tillaga 1046/e: 1. flm.


Hans Engell, meðal meðflm. var Geir H. Haarde.


Tillaga 1049 frá flokkahópi miðjumanna.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ráðherranefndar Norðurlanda
—    að hún leggi fram fyrir 1. mars 1994 tillögu um aðgerðir á norrænum vettvangi sem eru til þess fallnar að auka atvinnu á Norðurlöndum.

Samþykkt nr. 27/1993 um sérstök atvinnusvæði (näringszoner)


á Norðurlöndum (efnahagsmálanefnd).


(1. flm. Carl I. Hagen.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ráðherranefndar Norðurlanda
—    að hún láti kanna hver reynslan er af sérstökum atvinnusvæðum (näringszoner),
—    að hún vinni að samræmingu þeirra reglna sem máli skipta fyrir vaxtarmöguleika atvinnufyrirtækja á landamærasvæðum á Norðurlöndum.


Samþykkt nr. 28/1993 um aukið samstarf um byggðamál (umhverfisnefnd).


(1. flm. Elver Jonsson, meðal meðflm. var Halldór Ásgrímsson.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ráðherranefndar Norðurlanda
—    að hún styrki norrænt samstarf um byggðamál til að mæta auknum kröfum um samræmt og styrkara samstarf vegna hinnar evrópsku samrunaþróunar,
—    að hún taki í því sambandi tillit til þeirra möguleika sem kunna að skapast á samstarfi við Evrópubandalagið um skipulagsmál,
—    að hún geri úttekt á því hvaða forsendur séu fyrir markvissu samstarfi um byggðamál á Eystrasalts- og Barentssvæðunum og hvernig unnt væri að hátta því samstarfi,
—    að hún taki upp samstarf við þróunarstofnanir á Norðurkollusvæðinu í því skyni að þróa verkefni sem gætu orðið hluti af byggðasamstarfi á Barentssvæðinu.


Samþykkt nr. 29/1993 um eftirlit með kjarnorkutæknilegri


starfsemi (umhverfisnefnd).


(1. flm. Claes Andersson, meðal meðflm. var Hjörleifur Guttormsson.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ráðherranefndar Norðurlanda
—    að hún auki aðgerðir sínar í þágu meira öryggis á sviði kjarnorkumála á norðurslóðum og kringum Eystrasalt ásamt aðgerðum til að koma á bindandi alþjóðasamningum um eftirlit með allri kjarnorkustarfsemi, hernaðarlegri og annarri, þar á meðal með geymslu kjarnaúrgangs til frambúðar,
—    að hún kanni möguleika þess að styðja aðgerðir sem lúta að hagkvæmri og umhverfisvænni orkuframleiðslu og orkudreifingu á Eystrasalts- og Norðurkollusvæðinu.

Samþykkt nr. 30/1993 um öryggi orku og umhverfi (umhverfisnefnd).


(1. flm. Claes Andersson, meðal meðflm. var Hjörleifur Guttormsson.)



    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ríkisstjórna Norðurlanda
—    að þær gangist fyrir átaki til að bæta ástandið hvað varðar umhverfisþátt orkumála á Norðurlöndum, Eystrasalts- og Norðurkollusvæðinu,
—    að þær gangist fyrir því að leitað verði raunhæfra valkosta í stað orkuvera þeirra á Eystrasalts-, Pétursborgar- og Kólasvæðunum sem eru hættuleg umhverfinu og ella þarf að halda áfram að reka,
—    að þær, í því skyni að koma í veg fyrir að þekking á framleiðslu kjarnavopna berist út, styðji áætlanir þær sem í gangi eru um uppbyggingu rannsóknastofnana þar sem rússneskir vísindamenn, sem áður höfðu með höndum þróun og framleiðslu kjarnavopna, fengju ný verkefni,
—    að þær styðji verkefni sem fela í sér nýbreytni og taki frumkvæði um að auðvelda breytinguna frá kjarnavopnaframleiðslu til annarrar framleiðslu,
—    að þær stuðli með beinum aðgerðum að afvopnun, að þróun öruggra aðferða til eyðingar kjarnorkuvopna og að því að gera Norðurlönd kjarnorkuvopnalaust svæði.



Fylgiskjal III.


Fyrirspurnir til ráðherranefnda og ríkistjórna Norðurlanda


frá fulltrúum Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.




    Hjörleifur Guttormsson:
    Fyrirspurn E29/1993 til ráðherranefndar Norðurlanda fyrir 42. þing Norðurlandaráðs um afstöðu ráðherranefndar Norðurlanda til Thorp-endurvinnslustöðvarinnar í Sellafield.

    Hjörleifur Guttormsson:
    Fyrirspurn E30/1993 til ráðherranefndar Norðurlanda fyrir 42. þing Norðurlandaráðs um samnorræna tillögu tengda Lundúnasamþykktinni um bann við losun geislavirks úrgangs.

    Hjörleifur Guttormsson:
    Fyrirspurn E31/1993 til ráðherranefndar Norðurlanda fyrir 42. þing Norðurlandaráðs um aðgerðir vegna flutninga á plútóníum frá Evrópu til Japan.

    Halldór Ásgrímsson:
    Fyrirspurn E47/1993 til ríkisstjórnar Finnlands fyrir 42. þing Norðurlandaráðs um stöðu sænskunnar í grunn- og framhaldsskólum í Finnlandi.

    Hjörleifur Guttormsson:
    Fyrirspurn E48/1993 til ráðherranefndar Norðurlanda fyrir 42. þing Norðurlandaráðs um sjóflutninga á plútóníumnítrati frá Dounreay til Sellafield.

    Hjörleifur Guttormsson:
    Fyrirspurn E52/1993 til ráðherranefndar Norðurlanda fyrir 42. þing Norðurlandaráðs um aðgerðir gegn fyrirhugaðri starfsemi endurvinnslustöðvarinnar í Thorp áður en frestur til að koma með athugasemdir rennur út.




Fylgiskjal IV.


Alþjóðleg þingmannaráðstefna Norðurlandaráðs um


þróun og vernd norðurheimskautssvæðisins.



    Við, kjörnir fulltrúar kanadískra, danskra, færeyskra, finnskra, grænlenskra, íslenskra, norskra, rússneskra, samískra og sænskra þjóðþinga ásamt fulltrúum Norðurlandaráðs og Vestnorræna þingmannaráðsins,

skiljum
—    hversu lífsnauðsynlegt norðurheimskautssvæðið og lífvænleg þróun þess er fyrir tilverugrundvöll alls heimsins og hversu mikið álag starfsemi sú, sem á sér stað á jörðinni, er fyrir viðkvæmt umhverfi svæðisins,
—    hvílík ábyrgð hvílir því á heiminum varðandi varnir og verndun norðurheimskautssvæðisins gegn umhverfisógnun og öðrum ógnunum,
—    möguleika á áframhaldandi nýtingu náttúruauðlinda á norðurheimskautssvæðinu ef grundvallaratriðum um lífvænlega þróun er framfylgt,
—    nauðsyn þess að nota þekkingu þá, sem íbúar á norðurheimskautinu og þá einkum frumbyggjar norðurheimskautsins búa yfir, varðandi aðstæður á norðurheimskautinu og spurningar þar að lútandi, á öllum þeim vettvangi, þar sem ákvarðanir þessu viðvíkjandi verða teknar,
—    þrotlausan áhuga norðurheimskautsríkja á að halda uppi alþjóðafriði og öryggi og nauðsyn þess að fjalla um vandamál varðandi hernað og annað á norðurheimskautssvæðinu á vettvangi samningaviðræðna annars staðar en á norðurheimskautssvæðinu sjálfu,
—    þörf á virkum svæðastofnanaramma til þess að efla samvinnu um náttúruvernd og lífvænlega þróun á norðurheimskautssvæðinu,

erum ákveðnir í
—    að koma á sameiginlegu átaki til þess að vernda og verja norðurheimskautssvæðið gegn ógnunum, sem eiga rót sína að rekja til aðstæðna utan norðurheimskautssvæðisins og óarðbærrar fjármálastarfsemi á svæðinu, svo og að tryggja að norðurheimskautssvæðið muni í framtíðinni þróast í samræmi við vönduðustu umhverfissjónarmið og ábyrga auðlindastýringu,
—    að bæta lífsskilyrði frumbyggja norðurheimskautsins og möguleika á að halda við, vernda og verja upprunalega menningu þeirra, lífshætti og lögbundin réttindi til frambúðar,
—    að hvetja til meiri samskipta menningarlega og milli manna ásamt vöru- og skoðanaskiptum á norðurpólssvæðunum, og tryggja á sama tíma að þetta verði framkvæmt á þann hátt að umhverfi norðurheimskautsins sé ekki stefnt í hættu,
—    að sannfæra heiminn um að hann verði að viðurkenna ábyrgð sína á því að frelsa norðurheimskautssvæðið frá umhverfisógnunum, hér með töldum losunum eða tæmingu geislavirkra efna eða annarra hættulegra úrgangsefna á legi eða láði og koma í kring afvopnunarframkvæmdum á þann hátt að þær dragi úr þrýstingi hernaðarframkvæmda og aukinnar umhverfismengunar,
—    að efla vísindalegar rannsóknir á svæðum sem geta orðið til gagns fyrir norðurpólssvæðið og íbúana þar,

mælum því með
—    öflugri samvinnu norðurheimskautsríkjanna og annarra aðila sem taka þátt í Rovaniemi-ferlinu og framsetningu þess á viðbrögðum til að varðveita norðurheimskautsumhverfið í samræmi við dagskrá UNCED nr. 21,
—    áframhaldandi stuðningi til alþjóðavísindasamstarfs, t.d. samstarfs sem Alþjóðavísindanorðurheimskautsnefnd (IASC) samræmir, og söfnunar hennar á þekkingu þar með talin hefðbundin þekking á norðurheimskautssvæðinu og íbúum norðurheimskautsins,
—    frekari tilraunum frá norðurheimskautsríkjunum til að ná fram samþykki um stofnun norðurheimskautsráðs sem getur beint alþjóðasamstarfi varðandi norðurheimskautið í farveg, verið því styrkur og mótað yfirbragð þess,
—    áframhaldandi alþjóðasamstarfi meðal þeirra ríkja sem hlut eiga að máli til að efla til frambúðar lífvænlega þróun á sviði efnahags og iðnaðar á norðurheimskautssvæðinu, þar á meðal nýtingu á endurnýjanlegum náttúruauðlindum og notkun endurnýjanlegra orkulinda,
—    eflingu samstarfs varðandi rannsóknir dýrastofna og stjórnun lifandi auðlinda sjávar, og gæslu og viðhald líffræðilegrar fjölbreytni útbreiðslusvæða, plöntu- og dýralífs á norðurheimskautssvæðinu,
—    eflingu og samhæfingu eftirlits og rannsókna á veðurfarsbreytingum,
—    minnkun og að lokum brottflutningi loft- og sjávarmengunar, t.d. frá þungamálmum, gróðurhúsalofttegundum, PCB, DDT og klórkolvetni,
—    auknu samstarfi ríkja á milli um uppbyggingu samgöngu- og flutningakerfa sem svara til fjárhagslegra, félagslegra og eðlilegra tenginga á svæðinu,
—    aukningu þeirrar venju að menn, sem búa á norðurheimskautinu, fari að taka þátt í alþjóða samningaviðræðum sem hafa í för með sér beinar afleiðingar fyrir norðurheimskautsþjóðfélög og landsvæði, umhverfi og náttúruauðlindir,
—    að alþjóðlegt frumbyggjaár eigi að leiða til yfirlýsingar um alþjóðlegan áratug frumbyggja heimsins,

og förum þess á leit við ríkisstjórnir
—    að þær komi á kerfisbundinni athugun á alþjóðasamningum og öðrum skuldbindingum til þess að tryggja það að nægilegt tillit sé tekið til umhverfisins á norðurheimskautssvæðinu og gengið sé fastar eftir gildandi ákvörðunum eða nýjar séu teknar þegar þess er þörf,
—    að tryggt verði að áætlanir um að nýta lifandi og ekki lifandi auðlindir norðurheimskautssvæðisins nái einnig til mats á umhverfislegum afleiðingum (EIA) nægilega snemma,
—    að þær styðji allar tilraunir til að koma á algjöru banni gegn atómtilraunum og felli alla aðra einka- og hernaðarlega meðferð kjarnorkutækni og kjarnorkuefna, þar með talin meðferð úrgangsefna, undir stranga alþjóðlega umsjón og eftirlit og
—    að þær styrki fjölþjóða foráætlun innan Barentshafsráðsins til að afla hagnýtrar reynslu um eftirlit og að lokum brottflutning á kjarnorkuúrgangi frá einum eða fleiri stöðum á norðurheimskautssvæðinu,
—    að þær flýti fyrir og gefi skýrslur um alla nýja möguleika á traustvekjandi framkvæmdum, vígbúnaðareftirliti, afvopnun og eftirliti sem tengist norðurheimskautssvæðinu á því samningaviðræðnasviði sem fyrir hendi er og sjái um að slíku sé framfylgt, hugsanlega beint af norðurheimskautsríkjunum sjálfum,
—    að þróuð verði samhæfð starfsemisáætlun í samráði við frumbyggja norðurheimskautssvæðisins með það fyrir augum að leggja áherslu á menningu frumbyggja, viðurkenna rétt þeirra og bæta skilyrði þeirra á öllu svæðinu á sama tíma og tillit verði tekið til þeirra eigin gilda,
—    að þær efli viðleitni þá sem í gangi er til að rannsaka afleiðingar af opnun umferðar gegnum Norðaustursund fyrir skip í föstum ferðum milli Evrópu og Norður-Ameríku og Austur- og Suðaustur-Asíu,
—    að þær tryggi að fyrir hendi séu nægilegar varnarráðstafanir og viðbúnaður gegn hugsanlegri olíumengun vegna umferðar olíuflutningaskipa um norðurheimskautssvæðið.

Þessu til viðbótar
—    höfum við, til að hrinda þessari álitsgerð í framkvæmd, ákveðið að setja á stofn fasta þingmannanefnd fyrir norðurheimskautssvæðið
—    og við förum þess á leit við ríkisstjórnir þær sem hlut eiga að máli að þær í sameiningu gefi nefndinni skýrslu um framkvæmd þess sem mælt er með í þessari álitsgerð, svo og allar spurningar sem máli skipta í sambandi við framtíð norðurheimskautssvæðisins.

Reykjavík, 17. ágúst 1993.