Ferill 239. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 239 . mál.


665. Nefndarálit



um frv. til l. um breytingu á samkeppnislögum, nr. 8 25. febrúar 1993.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Á fund nefndarinnar um þetta mál komu þeir Atli Freyr Guðmundsson skrifstofustjóri og Páll Ásgrímsson lögfræðingur frá viðskiptaráðuneytinu. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Neytendasamtökunum og Verslunarráði Íslands.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með þeim breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Þær breytingar eru eftirfarandi:
    Í 1. mgr. 6. gr. samkeppnislaga segir að allir sem sæti eiga í samkeppnisráði skuli vera óháðir þeim fyrirtækjum og samtökum sem lögin taka til. Í því frumvarpi sem hér um ræðir hefur þetta skilyrði hins vegar verið tekið út. Nefndin leggur til að slík almenn hæfisskilyrði verði látin ná til formanns og varaformanns ráðsins en ekki annarra ráðsmanna og jafnframt að þessi skilyrði séu skýrara orðuð en í gildandi lögum. Því er lagt til að talað verði um að þeir hafi ekki „beinna og verulegra hagsmuna“ að gæta í stað þess að þeir skuli „vera óháðir“. Ástæða þessara breytinga er að margir þeir sem hafa hvað mesta þekkingu og reynslu á þessu sviði eru útilokaðir frá setu í ráðinu eins og málum er nú háttað. Hins vegar þykir nauðsynlegt, þar sem samkeppnisráð fer með þýðingarmikið vald, hefur víðtækt valdsvið og tekur iðulega ákvarðanir þar sem reynir á mat, að setja í lögin markviss almenn hæfisskilyrði varðandi formann og varaformann. Í lokamálslið 1. gr. frumvarpsins kemur fram að samkeppnisráð setji sér reglur um málsmeðferð. Nefndin vill taka það fram að þar sem þegar hafa tekið gildi ný stjórnsýslulög sem geyma almennar málsmeðferðarreglur er engin ástæða til að setja slíkt ákvæði í samkeppnislög nema ætlunin sé að þær reglur verði strangari en reglur stjórnsýslulaganna.
    Lagt er til að inn í 9. gr. laganna verði settur fjögurra vikna kærufrestur á ákvarðanir samkeppnisráðs og Samkeppnisstofnunar. Eins og samkeppnislögin voru afgreidd á síðasta þingi gildir nú hinn almenni þriggja mánaða frestur stjórnsýslulaganna. Hraði viðskiptalífsins er hins vegar orðinn mjög mikill og nauðsyn á að þessi mál séu leidd til lykta sem fyrst. Því þykir nefndarmönnum nauðsynlegt að stytta frestinn niður í fjórar vikur. Þá er lagt til að talað verði um „kærufrest“ í stað „áfrýjunarfrests“ í samræmi við viðurkennda hugtakanotkun í stjórnsýslurétti og að síðasti málsliður 1. mgr. 9. gr. verði felldur brott. Eftir sem áður mun meginreglan vera sú á grundvelli stjórnsýslulaganna að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en áfrýjunarnefndinni er samt heimilt að fresta slíkum réttaráhrifum meðan kæra er til meðferðar á grundvelli 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga enda getur slík undanþága verið nauðsynleg í vissum tilvikum.
    Í þriðja lagi er lagt til að ákvæði 2. mgr. 23. gr. samkeppnislaga verði breytt þannig að þýðingarskyldan nái einungis til þeirra sem bjóða neytendum þjónustu sína hér á landi. Samningar milli lögaðila verða þannig undanskildir þýðingarskyldunni. EFTA-skrifstofan í Brussel telur, í áliti sem hún sendi frá sér um þetta mál, að hin afdráttarlausa þýðingarskylda sem nú er í lögunum feli í sér dulda mismunun á grundvelli þjóðernis og sé ekki í samræmi við hina almennu meðalhófsreglu.
    Loks er lagt til að þær sérstöku hæfisreglur, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 50. gr. laganna, verði felldar brott þar sem þær eru vægari en þær hæfisreglur sem mælt er fyrir um í II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og víkja því fyrir þeim samkvæmt gagnályktun frá 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaganna.

Alþingi, 2. mars 1994.



Halldór Ásgrímsson,

Rannveig Guðmundsdóttir.

Guðjón Guðmundsson.


form., frsm.



Sólveig Pétursdóttir.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson.

Kristín Ástgeirsdóttir.



Ingi Björn Albertsson.

Vilhjálmur Egilsson.

Steingrímur J. Sigfússon.