Ferill 499. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 499 . mál.


766. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 32/1991, um Héraðsskóga.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)



1. gr.


    4. gr. laganna orðast svo:
    Ríkissjóður greiðir kostnað við Héraðsskóga sem hér segir: Undirbúnings- og rekstrarkostnað verkefnisins, laun stjórnar og fastra starfsmanna. Enn fremur 97% samþykkts kostnaðar við skógrækt á jörðum í ábúð, svo og á þeim eyðijörðum sem að mati Skógræktar ríkisins er nauðsynlegt frá skógræktarlegu sjónarmiði og frá hagsmunum skógræktar á aðlægum jörðum að fylgi þeim í ræktun. Á öðrum eyðijörðum greiðir ríkissjóður 75% kostnaðar. Landbúnaðarráðuneytið samþykkir skógræktarkostnað að fengnum tillögum Skógræktar ríkisins.

2. gr.


    Lög þessi öðlaðst þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í gildandi lögum um Héraðsskóga, nr. 32 21. mars 1991, er svofellt ákvæði til bráðabirgða: „Landbúnaðarráðherra skal láta fara fram endurskoðun á lögum þessum og leggja fram frumvarp til laga um Héraðsskóga fyrir Alþingi haustið 1992.“ Frumvarp það sem hér liggur fyrir er flutt til að uppfylla skyldu þá sem fram kemur í ofangreindu ákvæði laganna. Við endurskoðun laganna á vegum landbúnaðarráðuneytisins er aðeins lögð til breyting á einni grein laganna, þ.e. 4. gr. þeirra, sem kveður á um greiðslu ríkissjóðs á 97% samþykkts kostnaðar við skógrækt á jörðum í ábúð og 75% samþykkts kostnaðar á eyðijörðum. Benda má á að aðeins er liðinn skammur tími frá gildistöku laganna og því hefur takmörkuð reynsla fengist af framkvæmd þeirra. Þó hefur komið í ljós að eyðijarðir verða á sinn hátt út undan nær eingöngu vegna þess að landeigendur hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til að ráðast í framkvæmdir á jörðum sínum. Á samfelldum skógræktarsvæðum margra jarða getur það leitt til verulegs skaða ef einstakar jarðir falla út og eyður verða í skógunum. Því er talin brýn nauðsyn á að tryggja framgang verksins, einnig á eyðijörðum. Oft er um að ræða jarðir sem eru þær ákjósanlegustu til skógræktar í viðkomandi sveit.
    Umhverfissjónarmið mæla með samfelldum skógi þar sem hann skapar heildstæðari og náttúrulegri mynd en skógarreitir á bújörðum með eyðum inn á milli sem skapast geta vegna eyðijarða sem ekki eru með í verkefninu. Samfelldur skógur stuðlar auk þess að betri nýtingu á landi sem annars er ónýtt. Þar að auki minnka jaðaráhrif verulega en í jöðrum skóga mót opnu landi (25–50 m breitt belti) eru skemmdir af völdum snjóa og vinda mjög miklar. Skógurinn verður í heild betur vaxinn ef jaðrarnir minnka og því verðmætari.
    Þá má benda á að skv. 6. gr. gildandi laga er bændum, sem eru þátttakendur í verkefninu, tryggður forgangur til atvinnu sem gengur framar landeigendum eyðijarða. Vinna við skógrækt á eyðijörðum væri því til þess fallin að auka til muna atvinnulíf í sveitum.
    Af ofangreindum ástæðum hefur við endurskoðun laganna verið lögð til breyting á greiðslu ríkissjóðs á samþykktum kostnaði við skógrækt þannig að sá möguleiki sé fyrir hendi samkvæmt lögunum að ríkissjóður greiði 97% af samþykktum kostnaði á þeim eyðijörðum sem nauðsyn stendur til að séu þátttakendur í verkefninu frá skógræktarlegu sjónarmiði eða vegna hagsmuna skógræktarstarfs á aðlægum jörðum, hvort tveggja að mati Skógræktar ríkisins. Breyting sú sem hér er lögð til á 4. gr. gildandi laga mun ekki auka heildarkostnað ríkissjóðs af verkefninu miðað við Héraðsskógaáætlun. Í henni er ekki gerður greinarmunur á bújörðum og eyðijörðum. Aðeins var tekið tillit til skógræktarskilyrða.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu


á lögum nr. 32/1991, um Héraðsskóga.


    Með frumvarpi þessu er lögum nr. 32/1991, um Héraðsskóga, breytt og tekin inn ákvæði um skógrækt á eyðijörðum. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að þessi breyting muni ekki koma til með að hafa kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.