Ferill 417. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 417 . mál.


772. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur um úrbætur í bifreiðamálum ríkisins í samræmi við skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 1992.

    Fyrirspurnin er svohljóðandi:
    Hvað hefur verið gert til þess að framfylgja þeim ábendingum og tillögum til úrbóta sem fram koma í niðurstöðum í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá nóvember 1992, um bifreiðamál ríkisins, þar sem m.a. er bent á:
    mjög háan kostnað nokkurra ríkisstofnana vegna bifreiðanotkunar,
    að innan stofnana þurfi að fara fram úttekt á heildarakstursþörf án tillits til reynslutalna vegna aksturs fyrri ára,
    að misbrestur sé á því að öll bifreiðakaup fari fram á vegum Innkaupastofnunar ríkisins eins og reglugerð um bifreiðamál ríkisins kveður á um,

    að ekki liggi fyrir aksturssamningar við starfsmenn nokkurra stofnana ríkisins þótt um sé að ræða verulegar greiðslur til þeirra fyrir akstur,
    að ljóst sé að aksturssamningar eða greiðslur fyrir akstur séu í nokkrum mæli notaðar sem launauppbót til ríkisstarfsmanna,
    að einstaka forstöðumenn ríkisstofnana geri aksturssamninga við starfsmenn fyrir umtalsverðan akstur án þess að fyrir liggi samþykki bílanefndar,
    að nokkuð skorti á að ríkisstofnanir virði samning sem gerður var milli ríkisins og ákveðinnar bílaleigu; kostnaðarauki ríkisins vegna þessa er talinn nema milljónum króna á ári hverju,
    að nokkuð skorti á stefnumörkun hjá yfirstjórn ríkisstofnana varðandi bifreiðanotkun þeirra?

A, c, g. Kostnaður ríkisstofnana vegna bifreiðanotkunar, bifreiðakaup og bílaleigur.
    Í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum 26. janúar 1993 að fjármálaráðuneytið og bílanefnd ríkisins gerðu, í samvinnu við einstök ráðuneyti, tillögur til sparnaðar á bifreiðakostnaði ríkisins með það að markmiði að lækka hann um 5–10% frá því sem hann var á árinu 1991. Yfirmönnum ráðuneyta og stofnana var falið að útfæra sparnaðinn. Óskað var eftir því að stofnanir gerðu grein fyrir raunkostnaði árin 1991 og 1992 ásamt áætlun um akstur og aksturskostnað fyrir árið 1993 þar sem tilgreint væri með hvaða hætti sparnaði yrði náð. Innan við helmingur stofnana skilaði tillögum fyrir tilsettan tíma. Í eftirfarandi töflu er að finna sparnaðartillögur, skipt á ráðuneyti. Alls hafa 88 stofnanir lagt til lækkun á bifreiðakostnaði um tæpa 61 millj. kr. eða 3,27% af heildarkostnaði.


TAFLA REPRÓ


    Auk þessara sparnaðaráforma stofnana ríkisins hefur náðst verulegur árangur í útboðum á kaupum á eigin bifreiðum, leigu- og bílaleigubifreiðum og tryggingum. Til dæmis er bílanefnd ekki kunnugt um nein tilfelli á árinu 1993 þar sem bifreiðar hafa verið keyptar án undangenginnar verðkönnunar eða útboðs Ríkiskaupa. Hvað varðar útboð Ríkiskaupa í bílaleigubifreiðum gekk erfiðlega að fá ríkisstofnanir til að versla einungis við þann aðila sem gerður var samningur við. Íhaldssemi gætti þar sem stofnanir vildu skipta við viðskiptavini á grundvelli hefða. Eftir því sem útboðsstefna ríkisins hefur hlotið betri kynningu hafa þessi mál fallið í betri jarðveg. Unnið er að undirbúningi frekari útboða eins og nánar verður vikið að, en vænta má að þau sparnaðarmarkmið, sem ríkisstjórnin setti sér í upphafi, náist.

B. Úttekt á heildarakstursþörf.
    Bílanefnd hefur unnið að úttekt á heildarakstursþörf og áætluðum aksturskostnaði ríkisstofnana. Könnun var gerð meðal forstöðumanna allra stofnana um miðjan febrúarmánuð 1993. Leitast var við að afla upplýsinga um hvernig akstursþörf viðkomandi stofnana væri leyst, þ.e. hvort um væri að ræða notkun eigin bifreiða, hvort gerðir hefðu verið aksturssamningar við starfsmenn, bílaleigubifreiðar teknar á leigu, leigubifreiðar nýttar eða akstursþörf leyst með öðrum hætti. Meginmarkmiðið var að kanna hver heildarakstursþörf viðkomandi stofnana væri. Bílanefnd vinnur að úrvinnslu niðurstaðna þessarar könnunar. Eftirfylgni og samanburði á raunkostnaði og akstri stofnana fyrir árið 1993 er ekki enn lokið. Beðið er gagna frá einstaka stofnunum og rauntölur ársins 1993 liggja ekki enn fyrir.

D, e, f. Aksturssamningar starfsmanna ríkisstofnana.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er á það bent að ekki liggi fyrir aksturssamningar við starfsmenn nokkurra ríkisstofnana. Einnig sé ljóst að aksturssamningar eða greiðslur fyrir akstur sé í nokkrum mæli notað sem launauppbót og að einstaka forstöðumenn ríkisstofnana geri aksturssamninga við starfsmenn án þess að fyrir liggi samþykki bílanefndar.
    Í mars 1993 voru aksturssamningar ríkisstarfsmanna samkvæmt upplýsingum bílanefndar 1.845 talsins en voru 1.780 í árslok 1991. Gerðir eru þrenns konar aksturssamningar við starfsmenn ríkisins:
    Lokaðir samningar; ákveðinn kílómetrafjöldi sem viðkomandi fær greitt fyrir á árinu. Ökumaður þarf ekki að halda akstursbók.
    Opnir samningar; ótakmarkaður akstur í þágu viðkomandi ríkisstofnunar. Ökumaður þarf að halda akstursbók. Yfirmanni viðkomandi starfsmanns ber að staðfesta aksturinn.
    Blandaðir samningar; ákveðinn fjöldi kílómetra sem sýnt er að starfsmaður aki árlega á tilteknu svæði, en auk þess er honum greitt sérstaklega fyrir akstur utan þess svæðis.
    Það er stefna bílanefndar að gera opna aksturssamninga við starfsmenn og fækka lokuðum samningum. Jafnframt hefur nokkuð áunnist í að meta akstursþörf stofnana og gera aksturssamninga við starfsmenn sem ekki höfðu samning fyrir en fengu engu að síður greitt fyrir akstur. Akstursmat lokaðra og blandaðra samninga er oft byggt á ótraustum grunni og telja verður að meiri líkur séu á að raunverulegur aksturskostnaður komi betur í ljós með opnum samningum. Að mati fjármálaráðuneytis eru aksturssamningar ekki kjaraatriði, heldur greiðsla fyrir afnot af bifreiðum starfsmanna. Bílanefnd ríkisins hefur haft þetta að leiðarljósi við gerð aksturssamninga.
    Samkvæmt yfirliti starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis námu akstursgreiðslur árið 1992 rúmlega 416 millj. kr. og höfðu hækkað frá árinu 1991 um 9%. Þessa hækkun má að mestu leyti rekja til hækkunar á akstursgjaldi ferðakostnaðarnefndar. Ef borinn er saman aksturskostnaður ríkisstofnana samkvæmt yfirliti starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis annars vegar og samkvæmt yfirliti Ríkisbókhalds hins vegar kemur í ljós að á árinu 1992 greiða ríkisstofnanir um 261 millj. kr. til starfsmanna sinna umfram greiðslur starfsmannaskrifstofu. Fjármálaráðuneytið telur ámælisvert að forstöðumenn ríkisstofnana skuli gera aksturssamninga við starfsmenn fyrir umtalsverðan akstur án þess að fyrir liggi samþykki bílanefndar ríkisins.
     Í eftirfarandi töflu má sjá aksturskostnað starfsmanna einstakra ráðuneyta og stofnana þeirra samkvæmt upplýsingum Ríkisbókhalds fyrir árið 1992. Sambærilegar tölur fyrir árið 1993 liggja ekki enn fyrir. Eins og sjá má í dálknum hægra megin er munurinn á bókfærðum kostnaði Ríkisbókhalds og starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis um 39%. Um 12% kostnaðaraukningu var að ræða á milli áranna 1991 og 1992, en eins og að framan er getið stafar það að stórum hluta til af hækkun á akstursgjaldi ferðakostnaðarnefndar.


TAFLA REPRÓ



H. Stefnumörkun hjá yfirstjórn ríkisstofnana.
    Fjármálaráðuneytið hefur, í samvinnu við Ríkiskaup og bílanefnd ríkisins, unnið að útboði fleiri þátta bifreiðamála ríkisins. Auk útboða á bílaleigubílum, leigubifreiðaakstri og öðrum akstri, svo sem skólabifreiða, er einnig unnið að úrvinnslu útboða á rekstrarþáttum bifreiða, svo sem hjólbörðum, smurningu og eldsneyti. Þá hefur verið unnið að könnun á mögulegum samrekstri bifreiða þeirra ríkisstofnana sem eiga fáar bifreiðar, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, ásamt möguleikum þess að bjóða slíka starfsemi að einhverju leyti út.
    Eins og að framan er getið er stefna bílanefndar að gera opna aksturssamninga við starfsmenn og fækka lokuðum samningum. Með efldri kostnaðarvitund forstöðumanna ríkisstofnana má ætla að meiri hagkvæmni náist við lausn á akstursþörf ríkisstofnana. Svo dæmi sé tekið er taxti ferðakostnaðarnefndar, sem notaður er til útreiknings greiðslu aksturskostnaðar starfsmanna, almennt lægri en taxti bílaleigu samkvæmt útboði Ríkiskaupa og oft á tíðum lægri en taxtar bíladeilda stærri ríkisstofnana.