Ferill 530. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 530 . mál.


829. Frumvarp til laga


um réttindi eftirlitsmanna vegna samnings um hefðbundinn herafla í Evrópu og samnings um opna lofthelgi.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)


1. gr.

    Eftirlitsmenn og flutningsáhafnir, sem starfa á grundvelli samnings frá 19. nóvember 1990 um hefðbundinn herafla í Evrópu og samnings frá 24. mars 1992 um opna lofthelgi, skulu njóta þeirrar friðhelgi, forréttinda og undanþágna hér á landi sem kveðið er á um í samningunum.
    

2. gr.

    Utanríkisráðherra getur sett nánari reglur um framkvæmd laga þessara.
    

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Hinn 9. nóvember 1991 öðlaðist samningur frá 19. nóvember 1990 um hefðbundinn herafla í Evrópu gildi. Samningurinn var fullgiltur fyrir Íslands hönd samkvæmt heimild í ályktun Alþingis 14. desember 1991, sbr. auglýsingar í C-deild Stjórnartíðinda nr. 34/1991, þar sem samningurinn er birtur, og 19/1992. Í samningnum er gert ráð fyrir takmörkun ákveðinna tegunda hefðbundinna vopna í Evrópu og er aðildarríkjunum heimilt að senda eftirlitssveitir til annarra aðildarríkja til þess að tryggja framkvæmd samningsins.
    Hinn 24. mars 1992 var undirritaður í Helsinki samningur um opna lofthelgi. Í tillögu til þingsályktunar sem lögð hefur verið fyrir Alþingi fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili fullgildingu samningsins. Samningurinn veitir aðildarríkjum rétt til að hafa eftirlit úr lofti með hernaðarstarfsemi í öðrum aðildarríkjum. Í því skyni eru leyfð könnunarflug samkvæmt nánar tilgreindum skilyrðum.
    Í fyrrgreindum samningum er gert ráð fyrir því að tilgreindir starfsmenn og eftirlitssveitir njóti ýmissa réttinda í aðildarríkjunum við framkvæmd skyldustarfa sinna. Hvað samninginn um hefðbundinn herafla í Evrópu varðar eru þessi réttindi skilgreind í XIII. kafla viðauka samningsins um eftirlit sem prentaður er sem fskj. I með lagafrumvarpi þessu. Réttindi samkvæmt samningnum um opna lofthelgi eru sett fram í 2. kafla XIII. gr. samningsins sem prentaður er sem fskj. II. Skulu tilgreindir starfsmenn, eftirlitsmenn og flutningsáhafnir njóta forréttinda og friðhelgi sem miðast við ákveðnar greinar Vínarsamnings frá 18. apríl 1961 um stjórnmálasamband sem Ísland er aðili að og hefur lagagildi hér á landi, sbr. lög nr. 16/1971.
    Viðkomandi ákvæði Vínarsamningsins eru eftirfarandi:
    29. gr.
    1. Sendierindreki skal njóta persónulegrar friðhelgi. Hann má eigi á neinn hátt handtaka né kyrrsetja. Móttökuríkið skal sýna honum tilhlýðilega virðingu og gera allar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til þess að koma í veg fyrir hvers konar tilræði við persónu hans, frelsi eða sæmd.
    2. Eignir hans, með þeim undantekningum sem er að finna í 3. mgr. 31. gr., skjöl hans og bréfaskipti, skulu einnig njóta friðhelgi.
    2. mgr. 30. gr.
    Eignir hans, með þeim undantekningum sem er að finna í 3. mgr. 31. gr., skjöl hans og bréfaskipti, skulu einnig njóta friðhelgi.
    1., 2. og 3. mgr. 31. gr.
    1. Sendierindreki skal njóta friðhelgi að því er varðar refsiréttarlögsögu móttökuríkisins. Hann skal einnig njóta friðhelgi að því er varðar einkamála- og framkvæmdarvaldslögsögu þess, nema þegar um er að ræða:
    mál varðandi eigin fasteign í landi móttökuríkisins nema hann hafi vörslu hennar á vegum sendiríkisins til nota fyrir sendiráðið,
    mál varðandi erfðir þar sem sendierindrekinn er skiptaforstjóri, búskilastjóri, erfingi eða gjafþegi sem einstaklingur en ekki sem fulltrúi fyrir sendiríkið,
    mál varðandi hvers konar atvinnu eða verslunarviðskipti sendierindrekans í móttökuríkinu sem óviðkomandi eru opinberum störfum hans.
    2. Sendierindreki er ekki skyldur til að gefa skýrslu sem vitni.
    3. Ekki má framkvæma neina aðfarargjörð gagnvart sendierindreka nema í þeim tilvikum sem falla undir a-, b- og c-liði 1. mgr. þessarar greinar og með því skilyrði að unnt sé að framkvæma þær aðgerðir sem um er að ræða án þess að skerða persónulega friðhelgi hans eða heimilishelgi.
    34. gr.
    Sendierindreki skal vera undanþeginn öllum gjöldum og sköttum á einstaklinga og eignir hvort sem um er að ræða álögur til ríkis, sveitarfélaga eða annarra umdæma nema:
    þeim óbeinu sköttum sem eru yfirleitt innifaldir í verði vara eða þjónustu,
    gjöldum eða sköttum á fasteignum í einkaeign í landi móttökuríkisins nema hann hafi vörslu þeirra á vegum sendiríkisins til nota fyrir sendiráðið,
    dánarbús- og erfðafjársköttum sem móttökuríkið leggur á, með þeim fyrirvara sem felst í ákvæðum 4. mgr. 39. gr.,
    gjöldum og sköttum af einkatekjum, sem eiga upphaf sitt í móttökuríkinu, og eignasköttum af fjárfestingu í atvinnufyrirtækjum í móttökuríkinu,
    gjöldum sem lögð eru á fyrir tilgreinda veitta þjónustu,
    þinglýsinga- og réttargjöldum og veð- og stimpilgjöldum vegna fasteigna, með þeim fyrirvara sem felst í ákvæðum 23. gr.
    35. gr.
    Móttökuríkið skal undanþiggja sendierindreka allri persónubundinni þjónustu, hvers konar opinberri þjónustu og hernaðarskyldum, svo sem þeim sem tengdar eru upptöku, hernaðarframlögum og vistun herliðs.
    b-liður 1. mgr. 36. gr.
    1. Móttökuríkið skal heimila, í samræmi við lög og reglur sem það kann að setja, innflutning á og undanþágur frá öðrum tollum, sköttum og svipuðum gjöldum, öðrum en geymslugjöldum, akstursgjöldum og líkum gjöldum að því er snertir:
     . . . 
    muni sem ætlaðir eru til persónulegra nota sendierindreka eða venslamanna hans er teljast til heimilisfólks hans, þar á meðal muni sem ætlaðir eru til bústofnunar hans í móttökuríkinu.
    Viðkomandi aðilar njóta ofangreindra réttinda einnig þegar þeir eru að ferðast um landsvæði annarra aðildarríkja vegna starfa samkvæmt samningunum. Í samningnum um opna lofthelgi er sérstaklega vitnað til ákvæða 1. mgr. 40. gr. Vínarsamningsins sem hljóðar svo:
              Ef sendierindreki er á ferð eða dvelst í landi þriðja ríkis, sem hefur veitt honum vegabréfsáritun ef áskilin er, þeirra erinda að taka við eða hverfa aftur til starfs síns skal þriðja ríkið veita honum friðhelgi og önnur forréttindi sem nauðsynleg eru vegna ferðalags hans eða heimferðar. Hið sama á við um sérhvern venslamann sendierindrekans sem nýtur forréttinda og friðhelgi og er í för með honum eða á leið til hans eða heimalands síns þótt ekki sé hann honum samfara.
    Enn fremur skulu farartæki eftirlitssveitanna vegna samningsins um hefðbundinn herafla í Evrópu vera friðhelg, sbr. 3. gr. XIII. kafla Viðaukans um eftirlit. Farartæki starfsmanna samkvæmt samningnum um opna lofthelgi njóta einnig vissra réttinda, sbr. 5. tölul. II. kafla XIII. gr. samningsins, en þar er sérstaklega getið réttinda sendiráða skv. 3. mgr. 22. gr. Vínarsamningsins sem hljóðar svo:
              Sendiráðssvæðið, innbú og annað lausafé þar og ökutæki sendiráðsins skulu undanþegin leit, upptöku, haldi eða aðför.
    Það fyrirkomulag, sem sett er fram í frumvarpi þessu, er efnislega hið sama og gert er ráð fyrir í lögum nr. 98/1992, um friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana.
    Einstakar greinar frumvarpsins þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal I.
    
Bókun um eftirlit:

XIII. KAFLI

Forréttindi og friðhelgi eftirlitsmanna og flutningsáhafnar.

    1. Eftirlitsmenn og flugáhafnir skulu njóta forréttinda og friðhelgi sem sendierindrekum eru veitt skv. 29. gr.; 2. mgr. 30. gr.; 1., 2. og 3. mgr. 31. gr.; og 34. og 35. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, til þess að þeir framkvæmi skyldustörf sín með árangursríkum hætti til að framfylgja samningnum og ekki þeim sjálfum til hagsbóta.
    2. Að auki skulu eftirlitsmönnum og flutningsáhöfnum veitt forréttindi sem stjórnarerindrekar njóta skv. b-lið 1. mgr. 36. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961. Þeim skal ekki heimilt að koma inn á landsvæði aðildarríkis, þar sem eftirlit á að fara fram, með hluti sem innflutningur eða útflutningur er bannaður á samkvæmt lögum eða háðir eru reglum um sóttkví þess aðildarríkis.
    3. Farartæki eftirlitssveitanna skulu vera friðhelg nema kveðið sé á um annað í samningnum.
    4. Aðildarríki, sem framkvæmir eftirlit, er heimilt að afsala lögsögu um friðhelgi eftirlitsmanna sinna og flutningsáhafnar í tilfellum þar sem það telur að friðhelgi myndi hamla réttlæti og því sé unnt að afsala henni án þess að það hamli framkvæmd samningsins. Friðhelgi eftirlitsmanna og flutningsáhafnarmanna, sem eru ekki ríkisborgarar aðildarríkisins sem framkvæmir eftirlitið, getur aðeins það ríki afsalað sem þeir eru ríkisborgarar í. Afsalið skal ávallt vera skýrt tekið fram.
    5. Forréttindin og friðhelgin, sem kveðið er á um í þessum kafla, skulu veitt eftirlitsmönnum og flutningsáhöfn:
    meðan þeir ferðast um aðildarríki til þess að framkvæma eftirlit á landsvæði annars aðildarríkis,
    meðan þeir dvelja á landsvæði aðildarríkis þar sem eftirlit fer fram,
    þar eftir varðandi skyldustörf sem þeir áður inntu af hendi sem eftirlitsmenn eða flutningsáhafnarmenn.
    6. Ef aðildarríki, þar sem eftirlit fer fram, telur að eftirlitsmaður eða flutningsáhafnarmaður hafi misnotað réttindi sín eða friðhelgi skulu ákvæði 6. mgr. VI. kafla þessarar bókunar gilda. Fari aðildarríki, sem í hlut á, þess á leit skulu viðræður eiga sér stað milli þeirra til þess að koma í veg fyrir að misnotkunin endurtaki sig.
Fylgiskjal II.

XIII. gr.

Tilgreining á starfsmönnum, forréttindi og friðhelgi.

II. KAFLI

Forréttindi og friðhelgi.

    1. Starfsmönnum sem tilgreindir eru skv. 1. tölul. I. kafla þessarar greinar skulu, svo að þeir fái rækt störf sín með árangri í þágu framkvæmdar samnings þessa en ekki í þágu þeirra persónulega, veitt þau forréttindi og sú friðhelgi sem sendierindrekar njóta skv. 29. gr., 2. mgr. 30. gr., 1., 2. og 3. mgr. 31. gr., 34. gr. og 35. gr. Vínarsamnings um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sem hér á eftir er nefndur Vínarsamningurinn. Tilgreindum starfsmönnum skulu einnig veitt forréttindi sendierindreka skv. b-lið 1. mgr. 36. gr. Vínarsamningsins að öðru leyti en því sem varðar hluti sem innflutningur eða útflutningur er bannaður á með lögum eða sem reglur um sóttkví gilda um.
    2. Forréttindin og friðhelgina skal veita tilgreindum starfsmönnum frá því er þeir koma til landsvæðis hins kannaða aðila og þar til þeir fara þaðan, og síðan hvað varðar verk sem þeir hafa áður unnið við opinber störf sín. Við umferð um landsvæði annarra aðildarríkja skal starfsmönnunum einnig veitt þau forréttindi og sú friðhelgi sem sendierindrekar njóta skv. 1. mgr. 40. gr. Vínarsamningsins.
    3. Könnunaraðili getur veitt undanþágu frá málssóknarfriðhelgi þegar friðhelgin myndi standa því í vegi að réttvísin næði fram að ganga og unnt er að veita undanþágu frá henni án þess að skerða samning þennan. Undanþága frá friðhelgi stafsmanna sem ekki eru ríkisborgarar hins kannaða aðila verður aðeins veitt af þeim ríkjum þar sem viðkomandi starfsmenn eiga ríkisfang. Undanþága skal ávallt veitt berum orðum.
    4. Að teknu tilliti til forréttinda og friðhelgi tilgreindra starfsmanna og réttinda könnunaraðila samkvæmt samningi þessum er starfsmönnunum skylt að virða lög og reglur hins kannaða aðila.
    5. Hvað snertir farartæki starfsmanna skal gætt sömu friðhelgi gagnvart leit, upptöku, haldi og aðför sem sendiráð nýtur skv. 3. mgr. 22. gr. Vínarsamningsins enda sé ekki mælt fyrir um annað í samningi þessum.