Ferill 551. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 551 . mál.


862. Frumvarp til

laga

um breyting á lögum nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)


1. gr.

    Fyrri málsgrein 1. gr. laganna orðast svo:
    Lög þessi gilda um störf sem löggildingu, leyfi eða aðra jafngilda viðurkenningu þarf til og falla undir tilskipanir 89/48/EBE eða 92/51/EBE sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið nær til og kveða á um almennar reglur um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum vegna starfsmenntunar.
    

2. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Ríkisborgarar í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, svo og norrænir ríkisborgarar, sem uppfylla skilyrði þessara tilskipana eða samninga sem falla undir 1. gr., eiga rétt á að gegna hér á landi starfi sem löggildingu, leyfi eða aðra jafngilda viðurkenningu þarf til, hvort heldur er sjálfstætt eða sem launþegar, með sömu skilmálum og gilda um íslenska ríkisborgara.
    

3. gr.

    Fyrri málsgrein 4. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra, sem í hlut á, getur með reglugerð veitt undanþágu frá ákvæðum í lögum að því er varðar ríkisfang, búsetu eða viðurkenningu á prófum að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er felast í tilskipunum þeim eða samningum sem falla undir 1. gr.
    

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Á 116. löggjafarþingi 1992 var lagt fram frumvarp til laga um gagnkvæma viðurkenningu á menntun ríkisborgara í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og á Norðurlöndum til starfsréttinda á Íslandi. Samkvæmt frumvarpinu áttu lögin að gilda um störf sem löggildingu, leyfi eða aðra jafnsetta viðurkenningu þyrfti til og féllu undir tilskipanir sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið næði til án þess að tilskipanir væru sérstaklega nefndar.
    Í meðferð þingsins var frumvarpinu breytt þannig að það tók aðeins til tilskipunar 89/48/EBE sem fjallar um almennt kerfi til viðurkenningar á prófskírteinum sem veitt eru að lokinni sérfræðimenntun og starfsþjálfun á æðra skólastigi sem staðið hefur að minnsta kosti í þrjú ár. Tilskipunin tók gildi innan Evrópubandalagsins í ársbyrjun 1991.
    Í júní 1992 samþykkti Evrópubandalagið tilskipun 92/51/EBE sem fjallar um annað almennt kerfi til viðurkenningar á starfsmenntun og starfsþjálfun til viðbótar tilskipun 89/48/EBE. Þessi nýja tilskipun tekur til starfa sem krefjast starfsþjálfunar og menntunar á framhaldsskólastigi eða háskólastigi og tekur skemmri tíma en þrjú ár og tekur hún gildi í júní á þessu ári. Tilskipunin er hluti EES-viðbótarpakkans sem gert er ráð fyrir að taki gildi 1. júlí nk. Það er því þörf á að breyta lögum nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, fyrir vorið þannig að þau taki einnig til þessarar síðarnefndu tilskipunar með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir.
    Með lögum nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, var ákveðið að menntamálaráðuneytið skyldi sjá um að samræma framkvæmd þeirrar tilskipunar og samninga sem féllu undir 1. gr. Þetta frumvarp gerir ráð fyrir því að menntamálaráðuneytinu verði einnig falið að sjá um og samræma framkvæmd tilskipunar 92/71/EBE.
    Til frekari skýringar fara hér á eftir almennar athugasemdir sem fylgdu frumvarpinu sem lagt var fram á 116. löggjafarþingi:
    Frumvarp þetta er sniðið eftir dönsku frumvarpi um sama efni sem danska þingið samþykkti í maí 1991. Auk þess er stuðst við frumvarp til laga um starfsréttindi norrænna ríkisborgara sem lagt var fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991–92 en hlaut ekki afgreiðslu.
    Markmiðið með frumvarpinu er í fyrsta lagi að koma tilskipun 89/48/EBE, sjá fskj. I, til framkvæmda en hún fjallar um almennar reglur um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum vegna menntunar er veitir starfsréttindi að loknu þriggja ára námi á æðra skólastigi og í öðru lagi að afla heimildar til að koma í framkvæmd hliðstæðum reglum sem EB samþykkti nýlega og taka til prófskírteina sem tilskipun 89/48/EBE tekur ekki til svo og sambærilegum samningum sem samþykktir hafa verið af Norðurlandaráði og staðfestir af stjórnvöldum norrænna ríkja, sjá fskj. II og IV.
    Hinn 29. ágúst 1990 samþykkti Norðurlandaráð hliðstæðan samning sem gildir fyrir ríkisborgara á Norðurlöndum. Samningurinn var undirritaður í Kaupmannahöfn 24. október 1990. Þá hefur að undanförnu verið unnið að því á vegum Norðurlandaráðs að undirbúa samning hliðstæðan þeim sem nýlegar var samþykktur af EB og áður er vikið að. Þar eð þessar tilskipanir og samningar eru nátengdir þykir rétt að fá heimild með einni löggjöf til að framfylgja þeim.
    Með samþykkt tilskipunar 89/48/EBE hefur EB horfið frá því að samræma menntun og starfsþjálfun til undirbúnings einstökum afmörkuðum störfum. Af tilskipunum um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum fyrir einstakar starfsstéttir má nefna lækna, hjúkrunarfræðinga, tannlækna, ljósmæður, lyfjafræðinga, dýralækna og arkitekta. Heimild til að stunda eitthvert þeirra starfa sem hér um ræðir í öðru landi sé fullnægt tilskipun 89/48/EBE gildir ekki um þessi störf.
    Með framkvæmd þeirra tilskipana og samninga sem hér um ræðir verður auðveldara en nú er fyrir íslenska ríkisborgara að fá heimild til að starfa í einhverju öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins eða á Norðurlöndum.
    Lagt er til að menntamálaráðuneytinu verði falið að framfylgja nefndum tilskipunum og samningum og mun það þá gefa út nánari reglur um einstaka þætti framkvæmdarinnar. Gert er ráð fyrir að haft verði náið samstarf við aðila vinnumarkaðarins um meðferð og afgreiðslu umsókna útlendinga um heimild til að mega stunda starf hér á landi.
    Tilskipunin tekur aðeins til löggiltra starfa í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Samkvæmt 1. gr. tilskipunarinnar er um að ræða lögverndað starf ef þess er krafist í lögum eða með ákvörðun hlutaðeigandi stjórnvalds að til þess að mega stunda starfið þurfi viðkomandi að hafa skírteini er votti að hann hafi lokið tilskilinni menntun og starfsþjálfun.
    Þar eð tilskipunin fjallar aðeins um lögvernduð störf verða það ekki mörg störf hér á landi sem hún tekur til, sjá fskj. III. Það ber þó að hafa í huga að hugtakið æðra skólastig hefur ekki verið skilgreint almennt af EB og er það því ákvörðun hvers lands fyrir sig hvernig það er skilgreint og til hvaða starfa tilskipunin tekur.

    Þau fylgiskjöl sem vitnað er til í tilvitnuninni hér að ofan fylgja hér með og auk þess tilskipun 92/51/EBE sem fskj. V.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greinina er bætt inn orðunum eða 92/51/EBE þannig að með þessari breytingu taka lögin til starfa sem falla undir tilskipunina 89/47/EBE og einnig starfa sem falla undir tilskipun 91/51/EBE. Önnur ákvæði greinarinnar standa óbreytt.

Um 2. og 3. gr.

    Á þessum greinum er aðeins gerð orðalagsbreyting til samræmis við breytingu á 1. gr. laganna.
    

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


..........


    Með lagafrumvarpi þessu voru birt sex fylgiskjöl.
    Á fskj. I var birt tilskipun ráðs Evrópubandalaganna frá 21. desember 1988 um almennt kerfi til viðurkenningar á prófskírteinum sem veitt eru að lokinni sérfræðimenntun og starfsþjálfun á æðra skólastigi sem staðið hefur a.m.k. í þrjú ár, á fskj. II samningur milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um norrænan vinnumarkað fólks með minnst þriggja ára æðri menntun sem veitir starfsréttindi, gerður í Kaupmannahöfn 24. október 1990, á fskj. III bráðabirgðayfirlit yfir starfsheiti sem falla undir tilskipun 89/48/EBE og/eða norræna samninginn frá 1990 og á fskj. IV yfirlit yfir eldri samninga um norrænan vinnumarkað. Um fskj. I, II, III og IV vísast til þskj. 79, 77. máls 116. löggjafarþings, bls. 958–973 í A-deild Alþt. 1992–93.
    Á fskj. V var birt tilskipun ráðs Evrópubandalaganna, 92/51/EBE, frá 18. júní 1992, um annað almennt kerfi til viðurkenningar á starfsmenntun og starfsþjálfun til viðbótar tilskipun 89/48/EBE.


..........


Fylgiskjal VI.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
    

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum

nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum.

    Með frumvarpi þessu er leitað eftir breytingu á íslenskum lögum í samræmi við breytta skipan EB og EES á viðurkenningu menntunar og prófskírteinum. Aðalefni frumvarpsins er að tilskipun 92/51/EBE verði tekin inn í íslensk lög. Með því verður gerð sú breyting að gagnkvæm viðurkenning á menntun og prófskírteinum er útvíkkuð. Áður náði hún aðeins til æðra náms er tók þrjú ár eða lengur og var á háskóla- eða öðru sambærilegu stigi. Með frumvarpinu, verði það að lögum, verður skilgreining þessi útvíkkuð þannig að inn er tekið nám sem tekur skemmri tíma en þrjú ár.
    Framfylgd á lögum þeim sem hér á að breyta er í höndum nokkurra ráðuneyta sem annast munu sannprófun prófskírteina og hæfnisvottorða. Menntamálaráðuneytið mun halda utan um málið í heild sinni og annast samráð milli ráðuneyta í málinu. Heildarumfang þessarar vinnu verður ekki meira en svo að ráðuneytin eiga að geta annast hana með núverandi starfsliði. Gera verður ráð fyrir að komið verði á samráðsnefnd milli ráðuneyta um mál þau er falla undir frumvarp þetta. Mun hún hittast nokkrum sinnum á ári og laun hennar verða óveruleg.
    Því verður ekki séð að frumvarp þetta né heldur lög þau sem það á að breyta hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.