Ferill 503. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 503 . mál.


867. Svar


landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Inga Björns Albertssonar um innflutning og nýtingu erlendra kartaflna í íslenskri framleiðslu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hefur Þykkvabæjarverksmiðjan notað erlendar kartöflur við gerð franskra kartaflna (og snakks)? Ef svo er, í hve miklum mæli?
    Hver er hlutdeild erlendra kartaflna í framleiðslu Þykkvabæjarverksmiðjunnar á frönskum kartöflum (og snakki)?
    Er greitt verðjöfnunargjald af kartöflunum? Ef svo er, hversu hátt hefur gjaldið verið á tímabilinu 1988–1994?
    Frá hvaða landi eða löndum koma kartöflurnar?


    Fyrirspurnin er í fjórum liðum og fjallar að mestu um innflutning Kartöfluverksmiðju Þykkvabæjar hf. á kartöflum og nýtingu þeirra í framleiðslu verksmiðjunnar. Þessar upplýsingar eru ekki fyrirliggjandi í ráðuneytinu og var fyrirspurnin því send Kartöfluverksmiðju Þykkvabæjar hf. með ósk um upplýsingar og barst meðfylgjandi svar.
    Um aðra liði fyrirspurnarinnar skal eftirfarandi tekið fram:
    1. Kartöfluverksmiðja Þykkvabæjar hefur fengið leyfi til innflutnings á kartöflum til framleiðslu sinnar á undanförnum árum. Ráðuneytið hefur heimilað þann innflutning að fengnum meðmælum innflutningsnefndar sem starfar skv. 53. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Meðmæli innflutningsnefndar hafa á hverjum tíma byggst á því að ekki hafa verið til innlendar kartöflur sem henta til þessarar framleiðslu. Því hefur innflutningur verið heimilaður án sérstakra magntakmarkana og magnið hefur ekki verið skráð í ráðuneytinu.
    2. Ráðuneytinu er ekki kunnugt um hlutdeild erlendra kartaflna í framleiðslu Kartöfluverksmiðju Þykkvabæjar hf.
    3. Á tímabilinu 1988–1994 hefur landbúnaðarráðherra ekki lagt sérstakt jöfnunargjald á innfluttar kartöflur. Sérstakt jöfnunargjald hefur einungis verið lagt á vörur unnar úr kartöflum.
    4. Samkvæmt upplýsingum frá Kartöfluverksmiðju Þykkvabæjar hf. hafa verið fluttar inn kartöflur frá Hollandi, Danmörku, Bretlandi og Sviss.


Svar Friðriks Magnússonar framkvæmdastjóra

Kartöfluverksmiðju Þykkjabæjar hf.

(24. mars 1994.)


    Kartöfluverksmiðja Þykkvabæjar hf. var stofnuð árið 1981 af 50 kartöflubændum í Þykkvabæ til að vinna úr íslenskum kartöflum. Það hefur alltaf verið meginstefna Kartöfluverksmiðjunnar að vinna úr íslenskum kartöflum og við það staðið ef þær eru fáanlegar. Að öðrum kosti eru fluttar inn kartöflur þar sem verksmiðjan getur ekki stoppað og misst þar með dýrmæt viðskiptasambönd sín. Ef innflutningur á sér stað er keypt frá Hollandi, Danmörku, Bretlandi eða Sviss eftir gæðum og verði á hverjum tíma.
    Öðru atriðum fyrirspurnarinnar sjáum við ekki ástæðu til að svara vegna viðskiptahagsmuna fyrirtækisins.