Ferill 561. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 561 . mál.


874. Frumvarp til laga



um vöruflutninga á landi.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)



1. gr.


    Lög þessi gilda um vöruflutninga á landi gegn gjaldi með vöruflutningabifreið eða tengivagni umfram þá hámarkshleðslu sem nánar er ákveðin í reglugerð. Þau gilda einnig um vöruflutninga með vögnum sem tengdir eru eða festir við bifreið en ganga ekki fyrir eigin vélarafli.
    

2. gr.


    Til að stunda vöruflutninga með bifreiðum á milli landa innan Evrópska efnahagssvæðisins þarf sérstakt leyfi. Samgönguráðuneytið veitir slík leyfi til þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem hafa staðfesturétt hér á landi.
    Til að öðlast leyfi skv. 1. mgr. þarf umsækjandi að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
    Hafa óflekkað mannorð.
    Hafa fullnægjandi fjárhagsstöðu.
    Fullnægja skilyrðum um starfshæfni.
    Skilyrðum skv. 2. mgr. verður leyfishafi einnig að fullnægja eftir að leyfi er fengið. Um skilyrði þessi og gjald fyrir veitt leyfi skv. 2. og 3. gr. skal setja nánari ákvæði í reglugerð.
    

3. gr.


    Þeir sem hafa leyfi skv. 2. gr. geta sótt um leyfi til samgönguráðuneytis til að stunda flutninga innan lands í aðildarríkjum hins Evrópska efnahagssvæðis. Samgönguráðherra veitir slík leyfi á grundvelli úthlutunar Evrópusambandsins.
    

4. gr.


    Vöruafgreiðslur fyrir vöruflutningabifreiðar skulu skipuleggja starfsemi sína með þeim hætti að veitt verði góð og örugg þjónusta. Hver vöruafgreiðsla skal fylgjast með því að bifreiðastjórar, sem þar hafa afgreiðslu, fari eftir fyrirmælum laga og reglugerða um vöruflutninga á landi.

5. gr.


    Samgönguráðherra getur sett reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara og er heimilt að setja reglugerðir um landflutninga með vöruflutningabifreiðum að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er leiðir af samningi um Evrópskt efnahagssvæði milli Efnahagsbandalags Evrópu, Kola- og stálbandalags Evrópu og aðildarríkja þess annars vegar og aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu hins vegar, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið.
    

6. gr.


    Brot gegn lögum þessum og reglugerð sem sett verður samkvæmt þeim varða sektum nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum og skal farið með mál út af brotum á lögum þessum að hætti opinberra mála.
    

7. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í samgönguráðuneytinu. Tilgangur þess er að gera nauðsynlegar lagabreytingar vegna skuldbindinga Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Við undirbúning þessa frumvarps hefur verið haft samráð við Landvara, landsfélag vörubifreiðaeigenda á flutningaleiðum en í því félagi eru nánast allir þeir sem stunda vöruflutninga með bifreiðum milli sveitarfélaga eða landshluta.
    Engin lög eru í gildi um landflutninga með vöruflutningabifreiðum. Um árabil hafa verið í gildi lög og reglugerðir er varða starfsemi og starfsréttindi þeirra er annast fólksflutninga á landi gegn gjaldi, þ.e. lög nr. 53/1987, um skipulag á fólksflutningum með langferðabifreiðum. Jafnframt hafa verið í gildi lög um leigubifreiðar, nr. 77/1989, sem fjalla um leiguakstur á vörum með sendibifreiðum og vörubifreiðum, þ.e. þegar einn aðili óskar flutnings á vöru með vörubifreið af hefðbundinni gerð innan sama sveitarfélags. Löggjafinn hefur hins vegar ekki enn þá látið til sín taka starfsréttindi þeirra er annast vöruflutninga með bifreiðum á langleiðum. Löggjafinn hefur þó fjallað um önnur málefni þessara aðila, sbr. lög nr. 62/1979, um Landflutningasjóð, og lög nr. 24/1982, um flutningssamninga og ábyrgð við vöruflutninga á landi.
    Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins gilda lög þessi um vöruflutninga á landi gegn gjaldi með vöruflutningabifreiðum og eftirvögnum yfir ákveðinni hámarkshleðslu en taka aðeins til vöruflutninga milli landa innan hins Evrópska efnahagssvæðis og um innanlandsflutninga innan sama svæðis, þ.e. fyrir flutningafyrirtæki sem leyfi hafa til að stunda innanlandsflutninga í aðildarríki sem þau hafa ekki staðfestu í.
    Hugsanlegt er að svipaðar reglur verði teknar upp við skipulag vöruflutningamarkaðsins hér innan lands á næstu missirum, þ.e. að fyrirtæki og einstaklingar, sem hyggjast stunda vöruflutninga á landi með bifreiðum, verði að uppfylla almenn skilyrði til að öðlast flutningaleyfi en þau eru eftirfarandi: ákvæði um fjárhagsstöðu fyrirtækis, orðstír fyrirtækis og starfshæfni rekstraraðilans.
    

I. Opnun markaðar og auknir möguleikar.


    Eitt af markmiðunum með hinu Evrópska efnahagssvæði er að koma á fót sameiginlegum reglum varðandi vöruflutninga á landi svo sameiginlegur flutningamarkaður innan svæðisins verði að veruleika. Fyrst og fremst fjallar þetta um rétt þeirra sem hafa staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu til að veita þjónustu hvar sem er innan þess.
    Með þessum lögum, sem byggja á reglugerðum Evrópusambandsins, er opnuð leið fyrir íslensk vöruflutningafyrirtæki til að stunda millilandaflutninga milli aðildarríkja hins Evrópska efnahagssvæðis og til innanlandsflutninga innan þessara sömu ríkja.
    Auknir möguleikar af þessu tagi fyrir íslensk vöruflutningafyrirtæki til millilandaflutninga skapa svigrúm til aukinna umsvifa, t.d. getur íslenskt vöruflutningafyrirtæki flutt íslenskan fisk á markað erlendis m.a. með samsettum flutningum og þannig komið vörunni á leiðarenda og síðan flutt einhverja aðra vöru hingað heim. Margir vilja eflaust tryggja að varan sé í þeirra höndum á leiðarenda, t.d. ef varan er flutt með skipi að evrópskri höfn og síðan með þeirra eigin bíl áfram á áfangastað.
    Möguleikar til innanlandsflutninga innan ríkja hins Evrópska efnahagssvæðis opnast einnig þó í takmörkuðum mæli sé, en 30. júní 1998 verða innanlandsflutningar þar gefnir frjálsir. Íslenskir flutningsaðilar geta sótt um leyfi til samgönguráðuneytisins til innanlandsflutninga og að því leyfi fengnu hafið vöruflutninga innan lands í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, t.d. á milli Amsterdam og Rotterdam.     
    Ljóst er að miklir möguleikar eru fyrir hendi fyrir íslensk flutningafyrirtæki við opnun þessa markaðar og að sama skapi opnast möguleikar fyrir erlend flutningafyrirtæki til að stunda vöruflutninga á Íslandi.
    

II. EES-reglur.


    Í XIII. viðauka með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sem tók gildi 1. janúar 1994, eru birtar þær gerðir sem fjalla um vöruflutninga á landi. Þær eru:
    Fyrsta tilskipun ráðsins um setningu tiltekinna sameiginlegra reglna um millilandaflutninga (vöruflutninga á vegum gegn gjaldi), nr. L 70/2005, með breytingum nr. 72/426, 74/149, 77/158, 78/175, 80/49, 82/50 og 83/572.
    Reglugerð ráðsins nr. 3164/76 um heildarkvóta bandalagsins fyrir vöruflutninga á vegum milli aðildarríkja með breytingu nr. 1841/88.
    Reglugerð ráðsins nr. 40/58/89 um ákvörðun flutningsgjalda í vöruflutningum á vegum milli aðildarríkja.
    Tilskipun ráðsins nr. 74/561 um aðgang að starfsgrein farmflytjenda á vegum í innanlands- og millilandaflutningum.
    Tilskipun ráðsins nr. 84/647 um notkun ökutækja sem leigð eru án ökumanna til vöruflutninga á vegum með breytingu nr. 90/398.
    Jafnframt hefur Evrópusambandið sett nokkrar gerðir frá 1. ágúst 1991 til 31. desember 1993 að telja og varða EES-samningssviðið um vöruflutninga á landi með bifreiðum sem teljast til svokallaðra viðbótarbókunar. Þessar gerðir eru m.a:
    Reglugerð ráðsins nr. 881/92 um aðgang að vöruflutningamarkaðinum á vegum innan bandalagsins til eða frá yfirráðasvæði aðildarríkis eða um yfirráðasvæði eins eða fleiri aðildarríkja.
    Reglugerð ráðsins nr. 3118/93 um skilyrði þess að flutningafyrirtæki megi stunda innanlandsflutninga í aðildarríki án þess að eiga þar staðfestu.
    Með þessum reglugerðum opnast markaður fyrir þau ríki sem eru aðilar að samningum um hið Evrópska efnahagssvæði að því tilskildu að flutningsaðilar hafi til þess leyfi. Þeir sem hafa slík leyfi öðlast rétt til millilandaflutninga innan svæðisins auk þess geta handhafar leyfa óskað eftir heimild til samgönguráðuneytisins til vöruflutninga innan einstaks aðildarríkis.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lögunum er fyrst og fremst ætlað að gilda um vöruflutninga sem fara fram milli landa innan hins Evrópska efnahagssvæðis og innanlandsflutninga erlendra aðila á svæðinu.
    

Um 2. gr.


    Grein þessi er í samræmi við reglugerð Evrópusambandsins nr. 881/92 frá 26. mars 1992 sem gildir um aðgang að vöruflutningamarkaðnum á vegum innan Evrópusambandsins til eða frá yfirráðasvæði aðildarríkis eða um yfirráðasvæði eins eða fleiri aðildarríkja. Markmiðið með þessari reglugerð er að nema á brott hindranir á frjálsum og jöfnum markaðsaðgangi með því að koma á fót sameiginlegum reglum varðandi vöruflutninga svo sameiginlegur flutningamarkaður innan svæðisins verði að veruleika.
    Bandalagskvótar, tvíhliðakvótar milli aðildarríkjanna og umflutningskvótar frá þriðju ríkjum verða afnumdir, í stað þess verður aðgangur að markaðnum án magntakmarkana. Aðgangur að markaðnum verður byggður á gæðaviðmiðun sem vöruflutningafyrirtæki verða að uppfylla; til þess að flutningafyrirtæki geti stundað millilandaflutninga innan svæðisins þarf bandalagsleyfi sem gefið er út af lögbærum yfirvöldum þess ríkis sem flutningafyrirtækið hefur staðfestu í. Til að flutningafyrirtæki geti öðlast slíkt leyfi þarf að uppfylla skilyrði sem tilgreind eru í tilskipunum Evrópusambandsins nr. 74/561 frá 12. nóvember 1974 og nr. 89/438 frá 21. júní 1989 og segja til um þessi gæðaviðmið, en þau eru eftirfarandi:
    krafa um óflekkað mannorð/góðan orðstír fyrirtækja,
    krafa um fullnægjandi fjárhagsstöðu,
    krafa um starfshæfni.
    Skilyrði þessi verða nánar útfærð í reglugerð og tekið mið af reglum EES í því sambandi.
    

Um 3. gr.


    Öll flutningafyrirtæki þurfa leyfi skv. 2. gr. til þess að stunda millilandaflutninga og innanlandsflutninga. Íslenskur flutningsaðili sem hefur leyfi getur stundað innanlandsflutninga í aðildarríkjum hins Evrópska efnahagssvæðis sem hann hefur ekki staðfestu í að fengnu leyfi frá samgönguráðuneytinu. Reglugerð Evrópusambandsins nr. 3118/93 frá 25. október 1993 (ásamt viðbót 11, tölul. 26c) segir til um leyfisfjölda sem úthlutað er á hvert aðildarríki hins Evrópska efnahagssvæðis til vöruflutninga með bílum eftir vegum innan aðildarríkjanna. Vöruflutninga með bílum frá A til B innan aðildarríkis er því ekki hægt að stunda nema hafa slíkt leyfi.
    Innanlandsflutningar eru háðir sérstöku leyfi til 30. júní 1998 í aðildarríkjum hins Evrópska efnahagssvæðis.
    Lengi leit út fyrir að Íslendingar fengju engin leyfi til innanlandsflutninga innan aðildarríkjanna þar sem íslenskir flutningsaðilar höfðu ekki stundað slíka flutninga áður. Framkvæmdastjórnin byggði úthlutun sína alfarið á tölfræðiútreikningum sem miðuðu við flutninga aðildarríkjanna undanfarin ár. En eftir ítrekaðar viðræður, bréfaskriftir og fundi varð niðurstaðan sú að Íslendingum var úthlutað 10 slíkum leyfum á árinu 1994 sem síðan fjölgar um 30% á ári til ársins 1998 en 30. júní það ár falla allar kvótatakmarkanir niður og við tekur frelsi í innanlandsvöruflutningum. Eitt slíkt leyfi gildir fyrir einn vöruflutningabíl í tvo mánuði.

Um 4. gr.


    Vöruflutningar með bifreiðum á milli landshluta hafa á undanförnum 30–40 árum aukist mjög á ári hverju samfara umbótum í vegagerð. Á sjötta áratugnum voru þegar allmargir aðilar er önnuðust vöruflutninga með bifreiðum á milli Reykjavíkur og helstu þéttbýlisstaða. Upp úr 1960 sameinuðust margir þessara aðila um vöruafgreiðslur í Reykjavík og smám saman bættust nýir aðilar við þannig að fljótlega voru komnir á reglubundnir vöruflutningar með bifreiðum á milli Reykjavíkur og nær allra landshluta. Starfsemi þessara aðila tilheyrði ekki stéttarfélögum launþega eða atvinnurekenda og ekki höfðu þeir með sér nein formleg samtök fyrr en árið 1971 að þeir stofnuðu Landvara, landsfélag vörubifreiðaeigenda á flutningaleiðum. Félagar í Landvara eru nú nánast allir þeir er annast skipulagsbundna flutninga með vöruflutningabifreiðum og hefur félagið allt frá stofnun komið fram sem oddviti þeirra gagnvart Alþingi og stjórnvöldum.
    

Um 5. gr.


    Hér er ráðherra veitt heimild til að útfæra lögin nánar með setningu reglugerða.     
    

Um 6. gr.


    Grein þessi er í samræmi við greinar um viðurlög í lögum um leigubifreiðar og lögum um skipulag á fólksflutningum með langferðabifreiðum.
    

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.
    
    
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
    

Umsögn um frumvarp til laga um vöruflutninga á landi.


    Með frumvarpinu eru gerðar nauðsynlegar lagabreytingar vegna skuldbindinga Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Ekki verður séð að frumvarpið feli í sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.