Ferill 573. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 573 . mál.


888. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 13/1992, um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands.

Flm.: Tómas Ingi Olrich, Sigbjörn Gunnarsson, Guðjón Guðmundsson,


Sturla Böðvarsson, Pálmi Jónsson, Björn Bjarnason, Sigríður A. Þórðardóttir,


Egill Jónsson, Guðmundur Hallvarðsson, Lára Margrét Ragnarsdóttir,


Árni M. Mathiesen, Árni Johnsen, Eggert Haukdal, Ingi Björn Albertsson,


Gísli S. Einarsson, Petrína Baldursdóttir, Hermann Níelsson,


Valgerður Gunnarsdóttir.



1. gr.


     2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
    Sjávarútvegsráðherra er þó heimilt að takmarka heimildir skv. 1. mgr. þegar um er að ræða veiðar úr sameiginlegum nytjastofnum sem veiðast bæði innan og utan íslenskrar efnahagslögsögu hafi íslensk stjórnvöld ekki gert samning um nýtingu viðkomandi stofns við stjórnvöld hlutaðeigandi ríkis og alvarlegur ágreiningur er um stjórnun á nýtingu stofnsins.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með lögum nr. 13/1992, um rétt til að veiða í efnahagslögsögu Íslands, var erlendum veiðiskipum heimilað að landa eigin afla og selja í íslenskum höfnum og sækja þangað alla þá þjónustu er varðar útgerð skipsins. Í lögunum var þó sett löndunarbann á erlend fiskiskip ef um var að ræða veiðar úr sameiginlegum nytjastofnum sem veiðast bæði innan og utan íslenskrar efnahagslögsögu hafi íslensk stjórnvöld ekki gert samning um nýtingu viðkomandi stofns við stjórnvöld hlutaðeigandi ríkis. Í slíkum tilfellum var sjávarútvegsráðherra þó heimilt að víkja frá löndunarbanninu þegar sérstaklega stóð á. Ekki var í lögunum né í nefndaráliti gerð tilraun til að skilgreina hvaða aðstæður væri átt við að öðru leyti en því að kveðið var á um það í lögunum að erlendum veiðiskipum væri ávallt heimilt að koma til hafnar í neyðartilvikum.
    Upphaflegu frumvarpi sjávarútvegsráðherra um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands, sem var 135. mál á 115. löggjafarþingi, var breytt í grundvallaratriðum í meðförum þingsins. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að erlendum veiðiskipum væri löndun heimil eða eins og kom fram í framsöguræðu sjávarútvegsráðherra: „Meginbreyting þessa frumvarps frá gildandi rétti er að erlendum veiðiskipum verður almennt heimilt að landa eigin afla og selja í íslenskum höfnum og sækja þangað þjónustu fyrir skipið.“ Sjávarútvegsráðherra var hins vegar samkvæmt frumvarpinu heimilt að takmarka þær heimildir vegna skipa er stunda veiðar úr nytjastofnum sem veiðast bæði innan og utan íslenskrar efnahagslögsögu hefðu íslensk stjórnvöld ekki gert samning um nýtingu viðkomandi stofns við stjórnvöld hlutaðeigandi ríkis.
    Breyting þingsins fólst í því að gera undanþáguákvæði frumvarpsins að meginreglu í lögunum þar eð þau kveða á um bann við löndunum úr sameiginlegum stofnum sem ekki hefur verið samið um. Þessi breyting var gerð í sjávarútvegsnefnd þingsins eftir að hún hafði leitað álits utanríkismálanefndar um málið. Kom fram í máli formanns sjávarútvegsnefndar að nefndinni hefði ekki þótt ástæða til að setja ákvæði inn í 3. gr. frumvarpsins um að leitað skyldi álits utanríkismálanefndar Alþingis þegar ríkisstjórn heimilaði löndunarrétt erlendra skipa úr sameiginlegum stofnum. Væri ástæðan sú að nefndin liti svo á að í slíkum tilfellum væri um „meiri háttar utanríkismál“ að ræða og bæri ríkisstjórn samkvæmt þingsköpum að bera slík mál undir utanríkismálanefnd Alþingis þótt ekki væri kveðið á um það í umræddu frumvarpi.
    Helstu rök fyrir breytingunni voru þau að löndunarbannið drægi úr líkum á að aðrar þjóðir gætu nýtt sér sameiginlega stofna og hefði bannið því þau áhrif að ýta undir að samningar yrðu gerðir um þá stofna sem ósamið er um við nágrannaþjóðir okkar. Kom þar einkum til álita sameiginlegur karfastofn á hafsvæðinu milli Grænlands og Íslands. Í umræðum um málið var þó vikið að þeirri mikilvægu undantekningu sem hefur verið gerð á þessu grundvallarsjónarmiði að því er varðar rækjustofninn á Dohrnbanka sem er sameign Íslendinga og Grænlendinga. Landað hefur verið úr þessum stofni árum saman þótt ekki hafi verið samið um nýtingu hans við grænlensk yfirvöld. Hefur komið fram að ein af forsendunum fyrir því að sjávarútvegsráðuneytið hefur ekki treyst sér til að banna að landa rækju sé sú að það telur bann við löndun úr sameiginlegum rækjustofni Grænlendinga og Íslendinga ekki líklegt til að knýja á um að samkomulag náist um nýtingu stofnsins.
    Í ljós hefur komið að sjávarútvegsráðuneytið hefur litið svo á að ekki séu neinar forsendur fyrir að heimila landanir erlendra skipa, sem veiða úr sameiginlegum stofnum sem ósamið er um, á öðru en rækjuafla. Hefur þetta komið í ljós þegar Útgerðarfélag Akureyringa hefur sótt um leyfi til að landa karfaafla úr togara Mecklenburger Hochseefischerei sem fyrirtækið á meiri hluta í. Er ljóst að ráðuneytið hefur mótað viðhorf sitt í samræmi við umræður á Alþingi þar sem löndunarbann var lögfest sem grundvallarregla og átti að þjóna því hlutverki að knýja nágrannaþjóðir okkar til samninga og frávik frá því löndunarbanni var skilgreint sem meiri háttar utanríkismál.
    Við framkvæmd laganna hefur komið í ljós að aukin atvinna, sem hlýst af löndunum erlendra skipa, er ekki talin koma til álita þegar ráðuneytið fjallar um undanþáguheimildir. Eru meintir samningahagsmunir Íslendinga látnir vega þyngra á vogarskálunum en áhrif á atvinnulíf sem þó er í meiri lægð en verið hefur lengi.
    Í því frumvarpi, sem hér er lagt fram, er gert ráð fyrir að horfið verði til þess grundvallarsjónarmiðs, sem kom fram í frumvarpi sjávarútvegsráðherra sem lagt var fram á 115. löggjafarþingi, að erlendum veiðiskipum sé heimilt að landa eigin afla og selja í íslenskum höfnum. Sjávarútvegsráðherra er þó heimilt að takmarka heimildir til löndunar þegar um er að ræða veiðar úr sameiginlegum nytjastofnum sem veiðast bæði innan og utan íslenskrar efnahagslögsögu hafi íslensk stjórnvöld ekki gert samning um nýtingu viðkomandi stofns við stjórnvöld hlutaðeigandi ríkis og alvarlegur ágreiningur er um stjórnun á nýtingu stofnsins. Er í því orðalagi tekið tillit til 5. gr. í bókun 9 með samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Er gert ráð fyrir að sjávarútvegsráðherra geti ekki beitt undanþáguákvæði 2. mgr. nema til þess standi gild rök og ljóst sé að það þjóni íslenskum hagsmunum.