Ferill 578. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 578 . mál.


897. Frumvarp til laga



um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)



I. KAFLI


Heiti. Tilgangur.


1. gr.


    Með lögum þessum er Brunabótafélagi Íslands, sem starfað hefur sem gagnkvæmt vátryggingafélag síðan 1. janúar 1917, breytt í eignarhaldsfélag og hættir félagið jafnframt beinni vátryggingastarfsemi.
    Frá gildistöku laga þessara yfirtekur eignarhaldsfélagið öll réttindi og allar skyldur Brunabótafélags Íslands hverju nafni sem nefnast, sbr. þó 4. gr.
    

2. gr.


    Heiti félagsins er Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands.
    Heimili og varnarþing félagsins er í Reykjavík.
    

3. gr.


    Tilgangur og starfssvið félagsins er einkum:
—    að taka þátt í vátryggingastarfsemi með eignaraðild að vátryggingafélögum,
—    að stunda lánastarfsemi m.a. til verklegra framkvæmda sveitarfélaga eftir því sem ástæður félagsins leyfa svo og rekstur fasteigna,
—    að stuðla að þróun vátrygginga með fræðslu og menntun á því sviði og að taka þátt í eða veita styrki til slíkrar starfsemi.
    

II. KAFLI


Flutningur stofns. Eign og ábyrgð.


4. gr.


    Flytja skal vátryggingastofn Brunabótafélags Íslands í brunatryggingum fasteigna við gildistöku laga þessara til Vátryggingafélags Íslands hf. Réttindi og skyldur vátryggingataka og vátryggðra, m.a. að því er varðar skilmála og iðgjöld, skulu haldast óbreytt við flutninginn. Vátryggingafélag Íslands hf. gengur inn í aðild Brunabótafélags Íslands að samningum um brunatryggingar fasteigna við sveitarfélögin og skulu báðir aðilar bundnir við efni þeirra samninga. Sveitarfélag, sem þess óskar, getur þó sagt upp samningnum með sex mánaða fyrirvara miðað við 15. október 1995 en missir við þá uppsögn aðild að fulltrúaráði eignarhaldsfélagsins.
    Eigendur fasteigna eru bundnir af samningum sveitarfélaga við Brunabótafélag Íslands samkvæmt ákvæðum laga um brunatryggingar húseigna.
    

5. gr.


    Sameigendur félagsins eru:
    Þeir sem hafa brunatryggingu fasteignar hjá Brunabótafélagi Íslands þegar lög þessi taka gildi og fluttir eru til Vátryggingafélags Íslands hf., sbr. 4. gr.
    Þeir sem vátryggðu hjá Brunabótafélagi Íslands 31. desember 1988 og færðir voru með leyfi tryggingamálaráðherra til Vátryggingafélags Íslands hf. 1. janúar 1989.
    Sameignarsjóður eignarhaldsfélagsins, sbr. III. kafla.
    Eigendahópar skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. breytast samkvæmt ákvæðum 15. gr. laga þessara.
    Ábyrgð sameigenda félagsins takmarkast við eignarréttindi þeirra í því.
    

6. gr.


    Eignarréttindi sameigenda eru óvirk nema til slita á félaginu komi, sbr. 16. gr. Ákveða skal slitaverðmæti (eignarhlut) hvers og eins sameiganda á þeim degi er lög þessi taka gildi.
    Eignarhlutur hvers og eins sameiganda skv. 1. tölul. 5. gr. ákvarðast sem hlutfall af hreinni eign félagsins í árslok 1992 og miðast við iðgjaldagreiðslur hans til Brunabótafélags Íslands tvö undangengin almanaksár fyrir gildistöku laganna.
    Eignarhlutur hvers og eins sameiganda skv. 2. tölul. 5. gr. ákvarðast sem hlutfall af hreinni eign félagsins í árslok 1992 og miðast við iðgjaldagreiðslur hans til Brunabótafélags Íslands almanaksárin 1987 og 1988, framreiknaðar til ársloka 1992 í hlutfalli við breytingar á hreinni eign félagsins frá árslokum 1988 til ársloka 1992 samkvæmt ársreikningi.
    Eignarhlutir látinna sameigenda og sameigenda sem ekki eru skráðir lögaðilar við gildistöku laga þessara falla til sameignarsjóðs, sbr. III. kafla.
    

III. KAFLI


Sameignarsjóður.


7. gr.


    Stofnaður er sjóður er heitir sameignarsjóður Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands.
    Tilgangur sjóðsins er hinn sami og tilgreindur er í 3. gr.
    

8. gr.


    Til sameignarsjóðsins falla metin eignarréttindi sameigenda eftir reglum í 15. gr.
    Sameignarsjóðurinn skal vera í vörslu félagsins en fulltrúarráð þess ákveður meðferð hans.
    Fulltrúaráðið skal setja sameignarsjóðnum samþykktir sem hafa að geyma fyllri ákvæði um útfærslu lagaákvæðanna um sjóðinn.
    

IV. KAFLI


Fulltrúaráð. Fundir. Stjórn.


9. gr.


    Fulltrúaráð eignarhaldsfélagsins er skipað fulltrúum sveitarfélaganna í landinu eftir nánari ákvæðum þessara laga. Fulltrúaráðið hefur æðsta vald í málefnum félagsins.
    Ári eftir reglulegar sveitarstjórnarkosningar skulu kaupstaðir og héraðsnefndir, sem fulltrúa eiga í fulltrúaráði félagsins, tilnefna einn mann og annan til vara í fulltrúaráðið. Atkvæðisréttur og kjörgengi manns á fundi í héraðsnefnd við tilnefningu í fulltrúaráð er háð því að sveitarfélag það sem hann er fulltrúi fyrir hafi haft samning um brunatryggingar fasteigna hjá Brunabótafélagi Íslands er lög þessi tóku gildi og hafi ekki sagt þeim samningi upp síðar.
    

10. gr.


    Aðalfund fulltrúaráðsins skal kalla saman fjórða hvert ár, næsta ár á eftir reglulegum sveitarstjórnarkosningum og er kjörtímabil fulltrúaráðsmanna milli aðalfunda. Á aðalfundi skal kjósa félaginu stjórn og varastjórn og er kjörtímabil stjórnarmanna einnig milli aðalfunda. Fulltrúaráðið skal kalla saman til aukafunda hvenær sem stjórn félagsins ákveður og ætíð ef eigi færri en 1 / 10 fulltrúaráðsmanna óskar þess.
    

11. gr.


    Á aðalfundi fulltrúaráðsins skal kjósa sjö manna stjórn og fimm til vara, alla úr hópi fulltrúaráðsmanna. Stjórnarmenn skipta sjálfir með sér verkum. Stjórn félagsins afgreiðir ársreikninga félagsins fyrir lok júnímánaðar ár hvert, hefur umsjón með sjóðum og öðrum eignum og gætir hagsmuna félagsins í hvívetna.
    

12. gr.


    Skuldbindingar stjórnarinnar eru bindandi fyrir félagið í heild ef þær eru undirritaðar af formanni eða varaformanni í forföllum hans og þremur stjórnarmönnum.
    

13. gr.


    Stjórnin ræður félaginu forstjóra sem stjórnar daglegum rekstri félagsins og fjármálum í umboði stjórnar samkvæmt nánari ákvæðum í starfssamningi sem stjórnin gerir við hann. Stjórnin ákveður forstjóra laun og önnur starfskjör.
    

14. gr.


    Fulltrúaráð skal setja félaginu samþykktir sem taki til innri málefna félagsins, svo sem boðun funda og lögmæti þeirra, fundarsköp og dagskrár funda, afgreiðslu mála, framlagningu ársreikninga og endurskoðun þeirra. Jafnframt skulu samþykktirnar hafa að geyma nánari útfærslu á ákvæðum þessara laga. Samþykktum má breyta á lögmætum aðalfundi eða aukafundi fulltrúaráðs enda hafi 3 / 4 fundarmanna samþykkt breytinguna.
    

V. KAFLI


Breytingar. Félagsslit. Brottfall réttinda.


15. gr.


    Við andlát sameiganda og þegar lögaðili, sem er sameigandi, er ekki lengur skráður sem lögaðili falla eignarréttindi sameiganda skv. 5. gr. niður og eignarréttindin falla þá til sameignarsjóðs félagsins.
    

16. gr.


    Ákvörðun um slit á félaginu skal tekin á lögmætum aðalfundi eða aukafundi fulltrúaráðsins og þarf atkvæði minnst 3 / 4 fulltrúaráðsmanna til að slík samþykkt sé gild.
    Ákveði fulltrúaráð að slíta félaginu skal fyrst inna af hendi allar skuldbindingar þess hverju nafni sem nefnast eða setja tryggingar fyrir greiðslu þeirra. Síðan skal greiða þeim sem eiga réttindi hjá félaginu á grundvelli 5. gr. en það sem eftir er rennur til sameignarsjóðs. Taki annað félag ekki við hlutverki eignarhaldsfélagsins við slit þess skal hrein eign sameignarsjóðsins renna til þeirra sveitarfélaga sem eiga aðild að fulltrúaráðinu í hlutfalli við brunatryggingariðgjöld fasteigna samkvæmt samningum sveitarfélaganna á vátryggingarárinu 15. október 1992 til 14. október 1993.

17. gr.


     Sameining sveitarfélags, sem er í samningstengslum við félagið og annars eða annarra sveitarfélaga sem ekki eru slík tengsl við, breytir ekki réttindum hins sameinaða sveitarfélags í eignarhaldsfélaginu kjósi sveitarfélagið að halda samningstengslum sínum áfram eftir sameininguna.
    

18. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi og falla jafnframt úr gildi lög nr. 9 23. mars 1955, um Brunabótafélag Íslands, og reglugerð nr. 239 18. júní 1985 um greiðslu ágóðahluta hjá Brunabótafélagi Íslands.
    

Ákvæði til bráðabirgða.


    Fulltrúaráð Brunabótafélags Íslands eins og það er skipað við gildistöku laga þessara verði fulltrúaráð Eignarhaldsfélagins Brunabótafélag Íslands fram að næsta aðalfundi fulltrúaráðsins sem haldinn skal árið 1995 og sama gildir um stjórn þess. Stjórnin skal setja félaginu samþykktir innan tveggja mánaða frá gildistöku laga þessara sem starfa ber eftir þar til fulltrúaráðið hefur sett félaginu samþykktir samkvæmt ákvæðum 14. gr. Starfssvið fulltrúaráðs Brunabótafélags Íslands og stjórnar breytist til samræmis við ákvæði þessara laga. Skipunarbréf forstjóra Brunabótafélags Íslands gildi áfram í samræmi við ákvæði þess.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með bréfi dags. 10. mars 1993 skipaði þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra Sighvatur Björgvinsson nefnd til að endurskoða lög nr. 9/1955, um Brunabótafélag Íslands. Í nefndina voru skipuð Dögg Pálsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, formaður, Erlendur Lárusson, forstöðumaður Tryggingaeftirlitsins, Guðmundur Oddsson bæjarfulltrúi, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ingi R. Helgason forstjóri, tilnefndur af Brunabótafélagi Íslands, og Sigmar Ármannsson framkvæmdastjóri, tilnefndur af Sambandi íslenskra tryggingafélaga.
    Nefndin varð sammála um frumvarp það sem hér liggur fyrir. Samkvæmt því er lagt til að Brunabótafélagi Íslands verði breytt í eignarhaldsfélag er hætti jafnframt beinni vátryggingastarfsemi. Stjórnarfarsleg tengsl félagsins við Alþingi eru rofin og fulltrúaráði félagsins, sem tilnefnt er af þeim sveitarfélögum í landinu er brunatryggja fasteignir hjá félaginu, er fengið fullt forræði yfir félaginu.
    Rétt þykir að gefa hér stutt yfirlit yfir þróun Brunabótafélagsins með hliðsjón af lagabreytingum og afskiptum Alþingis af félaginu og fara nokkrum orðum um aðdraganda og eðli þeirra breytinga sem hér er lagt til að gerðar verði á gildandi lögum um félagið.
    
1. Þróun Brunabótafélags Íslands með hliðsjón af lagabreytingum og afskiptum Alþingis af félaginu.
    Fyrsta lagafrumvarpið um brunabótafélag á Íslandi flutti Indriði Einarsson skáld og þingmaður Vestmannaeyinga í neðri deild Alþingis hinn 28. júlí 1891. Indriði var því sá sem flutti hugmyndina um innlent brunabótafélag inn á Alþingi en í blöðum og utan þings var málið mikið rætt. Ekki var frumvarpi Indriða vel tekið en margar tillögur komu fram og nokkur umræða varð um málið á þinginu. Hugmyndin var að bæta úr þeim skorti á vátryggingavernd sem ríkti á landsbyggðinni og mjög hamlaði öllum framförum þar. Húseigendur í Reykjavík höfðu frá árinu 1874 fengið hús sín vátryggð hjá brunabótafélagi dönsku kaupstaðanna. Með frumvarpi Indriða var málið komið á dagskrá Alþingis þótt það dagaði þar uppi í þetta skiptið. Hins vegar var ljóst að einungis var tímaspursmál hvenær frumvarp um innlent brunabótafélag yrði aftur lagt fram og samþykkt.
    Fyrsta lagafrumvarpið um innlent brunabótafélag sem samþykkt var á Alþingi er frá árinu 1902. Það fékkst hins vegar ekki staðfest af konungi og eftir það varð hljótt á Alþingi um málið í nokkur ár.
    Næsta frumvarp um „stofnun brunabótafjelags Íslands“ var samþykkt á Alþingi sem lög nr. 58 22. nóvember 1907 og voru þau staðfest án fyrirstöðu. Í lögum þessum komu fram öll grundvallaratriði hugmyndarinnar um innlent brunabótafélag sem enn eru að meginstofni til í núgildandi lögum nr. 9/1955 um félagið. Í greinargerð fyrir frumvarpinu kom fram að frumvarpið væri neyðarúrræði vegna ástandsins í brunatryggingamálum landsmanna. Í lögunum var gert ráð fyrir þátttöku sveitarfélaganna í sjálfri brunaáhættunni þannig að félagið og sveitarfélögin voru samtryggjendur á brunaáhættu í fasteignum utan Reykjavíkur. Gert var ráð fyrir að ábyrgð félagsins takmarkaðist við 2 / 3 hluta áhættunnar en sjálfsábyrgð eigenda og sveitarstjórnar stæðu undir þriðjungnum. Þessi lög komu aldrei til framkvæmda þar eð erlend vátryggingafélög (einkum dönsk) neyttu samtaka um að neita félaginu um að endurtryggja áhættu þess en það var áskilið í 6. gr. laganna.
    Hinn 3. nóvember 1915 samþykkti Alþingi ný lög nr. 54/1915 um stofnun Brunabótafélags Íslands. Þau lög urðu sá grundvöllur sem félagið hóf starfsemi sína á 1. janúar 1917 að fenginni endurtryggingu hjá Storebrand í Noregi. Þessi lög voru að meginstofni til eins og lögin frá 1907 nema ákvæðið um endurtryggingarnar en úrslitavaldið í þeim efnum var tekið úr höndum erlendra vátryggingafélaga og fengið Stjórnarráði Íslands.
    Með lögum nr. 53/1919 var upphafslögunum að nokkru breytt. Skylda félagsins til greiðslu brunabóta var aukin þegar þátttöku sveitarfélags vantaði. Með þessum lögum var landssjóði gert skylt að vátryggja húseignir sínar hjá félaginu.
    Ný lög nr. 26/1932 voru sett um félagið eftir tveggja ára umfjöllun Alþingis og grundvallarlögin frá 1915 felld niður ásamt breytingalögunum frá 1919. Meginbreyting þessara laga var að hert var á vátryggingarskyldunni en þátttöku sveitarfélaganna í brunaáhættunni hætt. Á grundvelli þessara laga var sett reglugerð um Brunabótafélag Íslands nr. 101/1932 og iðgjaldaskrá fyrir félagið nr. 102/1932 sem báðar hafa verið til hliðsjónar í starfi félagsins síðan þótt lögin frá 1932 hafi verið felld niður.
    Með lögum nr. 22/1936 var gerð breyting af sérstöku tilefni er átti rætur að rekja til þess að bæjarstjórn Reykjavíkur hafði beðið Brunabótafélagið að taka að sér brunatryggingar húsa í Reykjavík, en félagið hafði ekki getað sinnt því vegna lagaákvæða um félagið. Með þessari lagabreytingu var Brunabótafélaginu heimilað að gera samning við bæjarstjórn Reykjavíkur um eldsvoðaábyrgð á húsum í Reykjavík. Þessi heimild er enn í 8. gr. núgildandi laga. Jafnframt var heimild félagsins til lausafjártrygginga rýmkuð verulega.
    Næst var lögunum breytt með lögum nr. 72/1942 sem síðar var breytt með endurútgáfu nr. 73/1942. Þarna voru gerðar ýmsar breytingar, m.a. var ríkisábyrgðin á skuldbindingum félagsins 800.000 kr. felld niður með hliðsjón af auknum fjárhagsstyrk félagsins sjálfs. Með þessum lögum var tekin upp ný deildarskipting í félaginu og kveðið á skýran hátt á um ábyrgð félagsmanna, en ábyrgðina báru þeir sem skylt var að brunatryggja fasteignir hjá félaginu. Þá var félaginu heimilað að stofna eftirlaunasjóð starfsmanna félagsins.
    Gildandi lög nr. 9/1955 marka tímamót í þróun félagsins. Á árunum 1954 og 1955 voru miklar umræður á Alþingi um einkarétt félagsins sem þótti óeðlilegur enda voru þá komin vátryggingafélög sem töldu hann skerða mjög nauðsynlega samkeppni á markaðnum. Alþingi ákvað að fella einkaréttinn niður og gerði það formlega á þann hátt að sett voru tvenn lög vorið 1954, önnur um brunatryggingar fasteigna í Reykjavík, lög nr. 25/1954, og hin um brunatryggingar fasteigna utan Reykjavíkur, lög nr. 59/1954. Bæjarstjórn Reykjavíkur var veitt heimild til að taka brunatryggingar húsa í bænum í eigin hendur og öðrum sveitarfélögum landsins heimilað að gera samning um brunatryggingar húsa í umdæminu við hvaða vátryggingafélag sem væri.
    Í kjölfar þessara laga var á þinginu 1954 kosin milliþinganefnd sem átti að endurskoða lögin um Brunabótafélag Íslands til samræmingar við almennu lögin um brunatryggingar. Árið 1955 var tillaga nefndarinnar samþykkt óbreytt sem lög nr. 9/1955 og gilda þessi lög enn í dag með smábreytingu (lög nr. 108/1988) vegna breyttra sveitarstjórnarlaga (héraðsnefndir í stað sýslunefnda). Með þessum lögum var einkarétturinn niður felldur. Á grundvelli þeirra samninga sem gerðir yrðu við félagið samkvæmt heimild í lögum nr. 59/1954 áttu þau sveitarfélög sem þá samninga gerðu rétt á að kjósa menn í fulltrúaráð félagsins sem sett var á laggirnar með lögunum en fulltrúaráðið kaus úr sínum hópi framkvæmdastjórn félagsins. Þar með var félagið fengið í hendur þeim sveitarfélögum sem semdu við það um brunatryggingarnar. Þessir samningar voru til fimm ára í senn og framlengdust óbreyttir ef þeim var ekki sagt upp með tilteknum uppsagnarfresti. Allar götur síðan eða í 38 ár hefur skipulag brunatrygginga húsa utan Reykjavíkur verið með þessum hætti og núgildandi samningar gilda til 14. október 1995. Þegar lögin nr. 9/1955 voru sett töldust 223 sveitarfélög í landinu. Fjórðungur þeirra gerði eftir þessar lagabreytingar ekki samning við Brunabótafélagið en hin hafa verið í samningstengslum æ síðan. Reiknað eftir brunabótamati brunatryggðra fasteigna taka núverandi samningar félagsins til tæplega 90% af heildarbrunabótamati fasteigna utan Reykjavíkur.
    Samningar sveitarfélaganna um brunatryggingarnar eru bindandi fyrir alla húseigendur í sveitarfélaginu. Þetta þótti skapa festu, góða áhættudreifingu og lægri tilkostnað við framkvæmd brunatrygginganna. Þetta fyrirkomulag brýtur hins vegar í bága við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Af þeim ástæðum er lagt til að samningarnir bindi húseigendur ekki lengur. Þeir geti brunatryggt hjá því félagi er þeir sjálfir kjósa en sveitarfélögunum verði áfram heimilt að gera þessa samninga og verði þeir grundvöllur aðildarinnar að fulltrúaráði hins nýja eignarhaldsfélags.
         
2. Breytingar á vátryggingamarkaði. Hið Evrópska efnahagssvæði.
    Í Evrópu hefur orðið ör þróun undanfarin ár í átt til aukins viðskiptafrelsis bæði innan þjóðlanda og milli ríkja. Stefnt er að sameiginlegum markaði ríkja Evrópubandalagsins og EFTA-ríkja (að Sviss undanskildu) með myndun hins Evrópska efnahagssvæðis (skst. EES).
    Hér á landi hefur verið unnið að því að laga löggjöf og rekstrarskilyrði atvinnugreina að leikreglum EES. Á vátryggingasviði hefur ýmsu þurft að breyta m.a. varðandi tilhögun brunatrygginga húseigna. Það frumvarp sem hér er lagt fram er liður í því endurskoðunarstarfi. Það starf miðar að tvennu: 1) að skapa öllum þeim sem vátryggingastarfsemi stunda sem jafnasta aðstöðu og rekstrarskilyrði hvar sem er innan EES og 2) að ryðja hindrunum úr vegi svo að vátryggingatakinn geti keypt sér vátryggingu hjá því vátryggingafélagi sem hann sjálfur kýs.
    Að undanförnu hefur margt bent til þess að koma mundi að því fyrr eða síðar að brunatryggingar húseigna yrðu gefnar frjálsar og að húseigandi, hvar sem er á landinu, gæti brunatryggt hús sitt hjá því vátryggingafélagi er hann sjálfur kysi, þó svo lagaskyldan að vátryggja hús gegn bruna yrði áfram við lýði. Örðugt var fyrir Brunabótafélag Íslands að aðlagast fyrirsjáanlegum breytingum á vátryggingamarkaðnum m.a. vegna hins gagnkvæma félagsforms félagsins. Í byrjun árs 1989 var hlutafélagið Vátryggingafélag Íslands hf. (VÍS) stofnað í samvinnu við Samvinnutryggingar g.t. og voru allir vátryggingastofnar þessara félaga aðrir en brunatryggingar fasteigna fluttir til VÍS með leyfi tryggingamálaráðherra í samræmi við lög nr. 50/1978, um vátryggingarstarfsemi. Fulltrúaráð BÍ sem kosið var í sveitarstjórnarkosningunum árið 1986 og kaus á aðalfundi sínum stjórn félagsins í ágúst árið 1987 stóð að stofnun VÍS. Að loknum sveitarstjórnarkosningum árið 1990 var kosið nýtt fulltrúaráð sem kom saman á aðalfundi árið 1991. Á þeim fundi voru ítrekaðar fyrri samþykktir og eftirfarandi einróma ályktað:
    „Aðalfundurinn lýsir sig í meginatriðum samþykkan þeim hugmyndum sem fram hafa komið á fundinum um að breyta Brunabótafélaginu í eignarhaldsfélag þar sem byggt verði á sama grunni og nú er varðandi aðild sveitarfélaga og héraðsnefnda að fulltrúaráði og stjórn með það fyrir augum að viðhalda yfirráðum sveitarfélaganna í BÍ og skapa þannig heilsteyptan og myndugan eignaraðila að helmingi hlutafjáreignar í VÍS hf.“
    Þegar tillögurnar um EES-samninginn komu fram á Alþingi vorið 1992 var ljóst að þær fólu í sér breytingar á gildandi lögum um Brunabótafélagið þannig að sveitarfélögin mættu ekki lengur gera þá samninga um brunatryggingar fasteigna sem heimilaðir voru með lögunum nr. 9/1955. Grundvöllurinn að starfsemi félagsins væri þá brostinn því að brunatryggingarsamningarnir voru sú undirstaða skipulags Brunabótafélagsins sem fulltrúaráðið og þar með stjórn félagsins var reist á. Við þessar aðstæður hélt Brunabótafélagið aukafulltrúaráðsfund í Reykjavík í ágúst 1992. Þar var einróma ítrekuð ályktun aðalfundarins frá 1991 sem birt er hér á undan en auk þess voru samþykktar nokkrar efnisályktanir í málinu, m.a. eftirfarandi:
     „Þar sem aðild sveitarfélaganna að fulltrúaráði og stjórn félagsins allt frá árinu 1955 byggir á samningum þeim um brunatryggingar fasteigna, sem sveitarfélögin hafa gert við félagið verður afleiðing þess að fella niður 7. gr. og 20. gr. úr lögunum sú að höggvið er á tengsl sveitarstjórnanna við félagið og grundvellinum undir fulltrúaráðinu og þar með stjórn félagsins kippt burt.“
    Jafnframt ályktaði aukafundur fulltrúaráðsins að taka þyrfti heildstætt á málinu og breyta núverandi lögum um félagið til samræmis við þá stefnumörkun að breyta því í eignarhaldsfélag.
         
3. Félagsform Brunabótafélags Íslands og tengsl þess við ríkið.
    BÍ er í eðli sínu gagnkvæmt vátryggingafélag sem starfar eftir sérlögum sem Alþingi hefur sett eða eins og segir í 1. gr. laga nr. 9/1955: „gagnkvæmt ábyrgðarfélag vátryggjenda“. Landsstjórnin hlutaðist til um stofnun félagsins með þessum hætti, ákvað hlutverk þess, uppbyggingu, skipulag og stjórnun. Því má líta á löggjafann sem stofnanda og lögin sem samþykktir ef jafna skal til almennra gagnkvæmra félaga. Löggjafinn breytir lögunum til að laga starfsemina að þróun markaðar og samfélags. Frá upphafi hefur ráðherraskipaður forstjóri stýrt félaginu ásamt framkvæmdastjórn eftir lagabreytingarnar 1955.
    Augljóst er að stofnandinn er ekki eigandi félagsins, þá hefði hann ekki stofnað gagnkvæmt félag. Frumkvöðlar að stofnun félagsins utan þings og innan virðast heldur ekki hafa haft í huga að stofna ríkisfyrirtæki. Stofnanda gagnkvæms vátryggingafélags ber að leggja fram nægilegt stofnfé sem er eina fjárframlagið til félagsins. Hinir gagnkvæmu eigendur vátryggingatakarnir leggja ekkert af mörkum í því sambandi. Stofnfénu fylgir ekki beinn eignarréttur að félaginu. Hins vegar fylgir því sá frumkvæðisréttur að ákveða markmið félagsins, uppbyggingu og stjórnun sem vátryggingatakarnir, hinir gagnkvæmu eigendur, hafa ekkert um að segja. Ýmist má stofnandi fá stofnfé sitt endurgreitt að uppfylltum tilteknum skilyrðum eða ekki en arðs má hann njóta af framlagi sínu. Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. núgildandi laga nr. 50/1978, um vátryggingarstarfsemi, má ekki greiða stofnanda gagnkvæms félags stofnfé hans út nema að fengnu leyfi tryggingamálaráðherra.
    Ákveðið var í upphafi að ríkið ábyrgðist 800.000 kr. skuldbindingar fyrir félagið sem var talin hæfileg fjárhæð ekki síst með tilliti til þess að ná hagstæðum endurtryggingarsamningum. Enn fremur var ákveðið að af þessu ábyrgðarfé mætti leggja fram 20.000 kr. sem stofnfé, en um leið lækkaði ábyrgðin í 780.000 kr.
    Stofnkostnaður félagsins virðist hafa orðið kr. 23.934,08 og til greiðslu á honum lagði landssjóður fram áðurnefndar 20.000 kr. Stofnkostnaðurinn var afskrifaður í reikningum félagsins á árunum 1918 til 1924 en á árinu 1928 var landssjóði endurgreitt framlag hans, þ.e. stofnféð með fullum vöxtum. Var ábyrgðin þá hækkuð aftur í 800.000 kr. Árið 1941 var fjárhagur Brunabótafélagsins talinn vera orðinn það góður að ábyrgð ríkissjóðs var felld niður með lögunum nr. 73/1942 án þess að nokkru sinni þyrfti að reyna á þessa ríkisábyrgð.
    Að öðru leyti en að framansögðu hefur ríkissjóður ekki lagt Brunabótafélaginu til fjármuni. Hvergi er að finna í reikningum ríkisins að Brunabótafélagið sé fært því til eignar.
    Í 76 ára langri sögu Brunabótafélags Íslands hafa oft orðið kaflaskipti sem bæði tengjast stjórnun þess og starfsvettvangi. Félagið hafði í upphafi mjög þýðingarmiklu samfélagslegu hlutverki að gegna á sviði brunatrygginga húsa utan Reykjavíkur og sinnti því í nánu samstarfi við sveitarfélögin á landsbyggðinni. Síðan komu önnur vátryggingafélög til sögunnar, sveitarfélögin hættu þátttöku sinni í brunaáhættunni og félagið sjálft fékk ríkar lögheimildir til alhliða vátryggingastarfsemi. Veigamestu þáttaskilin urðu tímamótin 1955 þegar einkarétturinn til að vátryggja öll hús utan Reykjavíkur var felldur niður og fulltrúaráð sveitarfélaganna var sett á laggirnar og tímamótin nú þegar lagt er til að brunatryggingar húseigna verði alveg gefnar frjálsar, Brunabótafélag Íslands hætti beinni vátryggingastarfsemi en taki til að sinna henni sem sjálfstætt eignarhaldsfélag með eignaraðild að starfandi vátryggingafélögum.
    Verður nú vikið að einstökum greinum frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. mgr. 1. gr. kemur eitt meginmarkmið þessarar lagasetningar fram. Brunabótafélaginu er ekki slitið heldur breytt í eignarhaldsfélag. Beinni vátryggingastarfsemi er hætt en upp tekið eignarhald á félögum sem hafa vátryggingar með höndum. Aðrar greinar frumvarpsins lúta að nánari útfærslu þessa markmiðs.
    Í 2. mgr. 1. gr. er fyrir lagt að eignarhaldsfélagið gangi inn í allar skyldur BÍ enda yfirtekur það allar eigur þess. Eignirnar eru aðallega hlutabréf í Vátryggingafélagi Íslands hf. (VÍS) og Líftryggingafélagi Íslands hf. (LÍFÍS) og markaðsbréf en skuldirnar eru að stærstum hluta lífeyrissjóðsskuldbindingar gagnvart starfsmönnum félagsins fyrr og síðar. Eignarhaldsfélagið gengur sem sé í einu og öllu inn í samningsaðild BÍ um stofnun VÍS og LÍFÍS og alla samninga milli hluthafa sem BÍ hefur verið aðili að fram að gildistöku þessara laga. Eina undantekningin er að við flutning á vátryggingastofni BÍ í brunatryggingum fasteigna til VÍS sem um er fjallað í 4. gr. flytjast að sjálfssögðu eignir á móti vátryggingaskuldbindingunum.
    

Um 2. gr.


    Hér er kveðið á um að eignarhaldsfélagið haldi nafni Brunabótafélags Íslands með þeim formerkjum að glögglega sjáist að um eignarhaldsfélag er að ræða en ekki vátryggingafélag.
    

Um 3. gr.


    Í þessari grein eru markmið félagsins og starfssvið flokkuð í þrennt. Ekki er þó um tæmandi upptalningu að ræða og gefst því fulltrúaráðinu visst svigrúm til athafna sem fulltrúaráðið telur að tengist starfsemi félagsins eða hagsmunum þess á markaðnum. Hér getur komið til álita eignarhald í öðrum félögum og eignarhaldsfélögum sem svo aftur reka vátryggingastarfsemi og/eða bankastarfsemi o.s.frv. í takt við þróun markaðarins.
    Í fyrsta lið er höfuðáhersla lögð á eignarhald í vátryggingafélögum í samræmi við ákvæði 1. gr. Annar liður lýtur að meðferð eigna félagsins og ávöxtun og er sérstaklega getið lána til sveitarfélaga. Rauður þráður frá upphafslögum Brunabótafélagsins til núgildandi laga hefur verið að félagið veitti eftir getu sveitarfélögunum stuðning með lánum til verklegra framkvæmda þeirra. Með lagabreytingu þessari er ekki gert ráð fyrir að leggja þessi tengsl niður og lagafyrirmælin í þessu almenna ákvæði eru færð í þann búning að verklegar framkvæmdir sveitarfélaganna eru eini tilgreindi þátturinn sem lána á til.
    Um þriðja starfssviðið: Hér er sérstaklega tekið fram að gert sé ráð fyrir auknum áherslum á rannsóknir og fræðslu á sviði vátrygginga eftir að beinum vátryggingarekstri er hætt en félagið getur gert það á eigin vegum eða í samstarfi við aðra aðila og er þetta nátengt forvörnum.
    

Um 4. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um flutning vátryggingastofns BÍ í brunatryggingum fasteigna til VÍS. Tímamörkin eru gildistaka laganna og fylgt er meginreglum laganna um vátryggingastarfsemi að gagnkvæm réttindi og skyldur vátryggingataka og vátryggingafélags haldist óbreytt þrátt fyrir flutninginn. Vátryggingafélög geta samið um að flytja vátryggingastofna á milli sín og er að finna farveg fyrir slíkt í lögum nr. 50/1978, um vátryggingarstarfsemi. Þetta gerðist m.a. 1988 og 1989 þegar VÍS og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. voru stofnuð. Með því að Brunabótafélaginu er breytt með lögum þessum þykir rétt að í þeim breytingalögum sé gert ráð fyrir slíkum flutningi stofns.
    Mikið hefur verið fjallað um eðli samninga sveitarfélaganna við BÍ um brunatryggingar fasteigna og hafa ýmsar hugmyndir verið uppi. Af þeim ástæðum þykir rétt til að taka af öll tvímæli að fram komi í lagatextanum að þessir samningar gildi samkvæmt eigin ákvæðum út samningstímann og að þeim verði aðeins sagt upp með sex mánaða fyrirvara miðað við 15. október 1995. Hér yrði lögfest að VÍS gangi inn í aðild BÍ að samningunum við sveitarfélögin og að þau aðilaskipti varði ekki því að sveitarfélögin verði þar með laus undan þessum samningum. Á hinn bóginn geti hvaða sveitarfélag sem er sagt sínum samningi upp eftir uppsagnarákvæðum samningsins sjálfs eins og reyndin er í dag gagnvart BÍ. Þau sveitarfélög sem það gera missa hins vegar við það aðildina að fulltrúaráði og stjórn eignarhaldsfélagsins eins og orðið hefði gagnvart BÍ samkvæmt ákvæðum 20. gr. laganna nr. 9/1955.
    Hér er vert að athuga muninn á aðildinni að fulltrúaráði og stjórn annars vegar og eignaraðildinni að hinni óvirku sameign hins vegar. Þeir sem eiga aðildina að fulltrúaráðinu ráða því hvort og hvenær eignarhaldsfélaginu verður slitið og taka um það ákvarðanir hvað gera eigi við hugsanlegt fé sameignarsjóðs félagsins á þeirri stundu, sbr. 8. gr. og 16. gr. frumvarpsins. Það sveitarfélag hins vegar sem sagt hefur upp brunatryggingarsamningum (þótt hann sé kominn yfir á nafn VÍS) og á þar af leiðandi ekki lengur aðild að stjórn og fulltrúaráði eignarhaldsfélagsins á eftir sem áður aðild að hinni óvirku sameign eftir iðgjaldamagni sínu, sbr. 6. gr., ef og þegar til slita eignarhaldsfélagsins kemur. Hér er einnig vert að athuga hvernig aðildin að óvirku sameigninni breytist við sameiningu sveitarfélaga, sbr. 17. gr. frumvarpsins.
    Eftir lagabreytingarnar í kjölfar EES-samningsins verður húseigandinn ekki lengur bundinn við samning sveitarstjórnarinnar um brunatryggingar húseigna frekar en hann vill og getur vátryggt annars staðar. Gert er ráð fyrir að samhliða þessari lagabreytingu verði með nýjum lögum um brunatryggingar húseigna kveðið á um þessa nýju og frjálsu stöðu húseigandans þar sem væntanlega verður gert ráð fyrir að réttur húseigandans í þessu efni verði hinn sami hvar sem hann býr á landinu. Er því óþarfi að fjalla frekar um það hér.
    

Um 5. gr.


    Mismunandi skoðana hefur orðið vart um það hver eigi BÍ. Skoðuð voru álit lögfræðinga og þau gaumgæfð og niðurstaðan varð sú sem í þessari grein segir. Hvergi er í lögum ákvæði um að sveitarfélögin eigi eignartilkall til BÍ þótt félagið og sveitarfélögin utan Reykjavíkur séu mjög samofin í starfi alveg frá upphafi félagsins. Á Alþingi 1954 og 1955 var sérstaða Reykjavíkur lögfest þar sem höfuðborginni var heimilað að taka í sínar hendur brunatryggingar húsa í borginni og stofnaði borgarstjórn fljótlega eftir það Húsatryggingar Reykjavíkur. Sams konar heimild vildu alþingismenn ekki veita öðrum sveitarfélögum í landinu þótt gert væri ráð fyrir áframhaldandi rekstri BÍ. Hins vegar veitti Alþingi þessum sveitarfélögum forræði fyrir félaginu með þeim hætti að samningar þeirra við BÍ um brunatryggingarnar var grundvöllur fyrir tilnefningu þeirra á fulltrúum í fulltrúaráð BÍ og þar með stjórn félagsins.
    Í 1. tölul. þessarar greinar er tilgreindur annar hópurinn sem telja verður að eigi eignartilkall til félagsins. Sú niðurstaða byggist á óvefengjanlegu orðalagi í 12. gr. gildandi laga um BÍ um að húseigendur sem tryggja fasteignir sínar hjá félaginu séu félagsmenn þess og þá um leið sameigendur félagsins.
    Í 2. tölul. er hinn hópurinn tilgreindur, þ.e. allir þeir sem vátryggðu hjá félaginu með hinum svokölluðu frjálsu tryggingum í lok ársins 1988 og voru með löglegum hætti færðir til VÍS. Sú niðurstaða byggir á þeim almennu grundvallarreglum í lögunum um vátryggingastarfsemi að allir þeir sem vátryggja hjá gagnkvæmu vátryggingafélagi séu sameigendur þess, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1978.
    Í 3. tölul. er sameignarsjóður eignarhaldsfélagsins nefndur sem þriðji hópur sameigenda þess. Hann hefur algera sérstöðu þar sem hann verður ekki til fyrr en með þessu frumvarpi, sbr. umfjöllun síðar um 7., 8. og 15. gr.
    Í 2. mgr. er vísað til 15. gr. um það hvernig hin óvirka eign sameigenda skv. 1. og 2. tölul. breytist í tímans rás og færist yfir í sameignarsjóðinn. Með tíð og tíma færast yfirráð yfir öllum eignum félagsins því í hendur þeirra sveitarfélaga sem við gildistöku laganna hafa brunatryggingarsamninga við BÍ.
    Í 3. mgr. er fjallað um ábyrgð sameigenda í félaginu og er henni lýst sem takmarkaðri ábyrgð er takmarkast við eignarréttindi þeirra í félaginu. Það merkir í raun að hrökkvi eignir eignarhaldsfélagsins ekki fyrir skuldbindingum þess verður ekki gengið að sameigendum.
    

Um 6. gr.


    Í 1. málsl. 1. mgr. er því slegið föstu að sameignin sé óvirk meðan félagið starfar. Hún lifnar þá fyrst og verður virk ef og þegar félaginu er slitið. Þetta er lýsing á réttindum eins og þau almennt eru í gagnkvæmum félögum og á hún alveg við um BÍ eins og félagið er nú. Meðan félagið starfar hafa vátryggingatakarnir ekki með stjórn félagsins og rekstur að gera og geta ekki gert tilkall til eignarhlutar. Þeir geta því ekki selt hann eða ráðstafað honum á annan hátt og hann erfist ekki.Við slit félagsins verður eignarhluturinn fyrst virkur og hægt er að reikna eignarhlut sameigendanna út eftir ákvæðum laganna og ráðstafa slitaverðmætinu öllu á þeim grundvelli.
    Í 2. málsl. 1. mgr. segir að ákveða skuli slitaverðmæti (eignarhlut) hvers sameigenda strax og lög þessi öðlast gildi og rétt er að færa þær ákvarðanir á sérstaka skrá. Í 2.–4. mgr. eru leiðbeiningar um hvernig það skuli gert og við hvað skuli miða.     
    Í 2. mgr. er fjallað um félagsmenn, þ.e. þann hóp sameigenda sem eru húseigendur og vátryggja hús sín á grundvelli samninga sveitarstjórna og BÍ. Þessir aðilar eru einu vátryggingatakar BÍ þegar lög þessi öðlast gildi og er því viðmiðunin iðgjaldagreiðslur þeirra árin 1991 og 1992 eða tvö undangengin ár. Engin slík fyrirmæli eru í núgildandi lögum um BÍ en fyrirmyndin er tekin frá öðrum gagnkvæmum vátryggingafélögum hérlendis og erlendis.
    Í 3. mgr. er fjallað um þann hóp sameigendanna sem fluttir voru 1. janúar 1989 til VÍS og tengjast ekki brunatryggingum húseigna. Í útreikningi eignarhlutar þeirra er miðað við iðgjaldagreiðslur þeirra árin 1987 og 1988 eða tvö ár fyrir flutninginn til VÍS en þær eru framreiknaðar til ársloka 1992 með hliðsjón af breytingum á hreinni eign BÍ frá árslokum 1988 til 1992. Eru iðgjöldin þar með færð upp til samræmis við hópinn skv. 1. tölul. 5. gr.
    Eignarhlutur hvers og eins í hreinni eign félagsins í árslok 1992 ákvarðast svo sem hlutfall iðgjaldagreiðslna hans af samanlögðum iðgjaldagreiðslum hópanna tveggja.
    Í 4. mgr. segir að færa skuli strax í sameignarsjóð eignarhaldsfélagsins hin óvirku eignarréttindi þeirra sem látnir eru við gildistöku þessara laga eða eru ekki lengur lögaðilar en hefðu annars verið innan tveggja ára tímamarkanna. Rétt er að færa á skrá þá sem færast í sjóðinn þegar lögin ganga í gildi og síðan árlega þannig að séð verður hver eign sameignarsjóðsins er á hverjum tíma.

Um 7. gr.


    Hér er mælt fyrir um stofnun og heiti sameignarsjóðsins. Tilgangur sjóðsins er hinn sami og tilgangur eignarhaldsfélagsins en að hlutverki sjóðsins er nánar vikið í athugasemdum við 8. gr.
    

Um 8. gr.


    Fyrirkomulag sameignarsjóðsins gerir það að verkum er fram líða stundir að sveitarfélög er fulltrúa eiga í fulltrúaráði félagsins öðlast í raun öll ráð yfir eignarhaldsfélaginu. Í 1. mgr. segir að eignarréttindi sameigenda falli smám saman í þennan sjóð og að í því efni sé fylgt reglum sem settar eru fram í 15. gr. frumvarpsins. Í 2. mgr. segir að sjóðurinn skuli vera í vörslu félagsins og lögfest að fulltrúaráðið ákveði meðferð hans. Í 3. mgr. eru fyrirmæli um að sjóðnum verði settar sérstakar samþykktir. Það fyrirkomulag sem hér er mælt fyrir um gildir að sjálfsögðu meðan félagið er starfandi. Í samþykktum þurfa að vera skýrar reglur um meðferð sameignarsjóðsins.
    

Um 9. gr.


    Af ákvæði 1. mgr. leiðir að ráðherra fer ekki lengur með málefni félagsins eins og verið hefur hjá BÍ frá upphafi. Fulltrúaráðið hefur á hinn bóginn æðsta vald í málefnum félagsins. Í 2. mgr. er því lýst hvernig skipa eigi í fulltrúaráðið fulltrúa sveitarfélaganna. Þar er fylgt nákvæmlega fyrirmælum núgildandi laga um BÍ og fulltrúaráð þess. Þar er enn tekið fram varðandi aðildina að fulltrúaráðinu að hún er háð því að viðkomandi sveitarfélag segi ekki upp brunatryggingarsamningnum.
    Gert er ráð fyrir því að lög verði sett um brunatryggingar húseigna á Íslandi með ákvæðum um að samningar þessir bindi ekki alla húseigendur eins og verið hefur og er sú lagastefna í takt við þær breytingar sem fylgja í kjölfar aðildar Íslands að Evrópsku efnahagssvæði. Þrátt fyrir þetta aukna valfrelsi er á því byggt að þessir samningar myndi grundvöll að aðild að fulltrúaráði eignarhaldsfélagsins. Allir kaupstaðir landsins utan Reykjavíkur og Hafnarfjarðar eiga og hafa átt frá upphafi fulltrúa í fulltrúaráðinu og eru þeir 29. Allar héraðsnefndir (áður sýslunefndir) eiga einnig fulltrúa í ráðinu sem byggist á því að í þeim eru sveitarfélög sem hafa samninga við BÍ um brunatryggingarnar. Þessir fulltrúar eru 21 talsins og er því núverandi fulltrúaráð BÍ skipað 50 fulltrúum samtals.
    

Um 10. gr.


    Lagt er til að sömu reglur gildi áfram varðandi aðalfundi fulltrúaráðsins eftir hverjar reglulegar sveitarstjórnarkosningar og ákvæðin um kjörtímabil og aukafundi ráðsins. Allar götur frá árinu 1955 hefur fulltrúaráð BÍ haldið aðalfund sinn á árinu eftir reglulegar sveitarstjórnarkosningar og aukafundi þess á milli þegar ástæða hefur verið til. Jafnaðarlega hefur fulltrúaráðið komið saman annað hvert ár. Á aðalfundi skal kjósa stjórn og varastjórn og hefur stjórnin sama kjörtímabil og fulltrúarnir í ráðinu eða fjögur ár. Hlutfallið 1 / 10 fulltrúaráðsmanna til að óska aukafundar er sett með hliðsjón af ákvæðum hlutafélagalaga.
    

Um 11. gr.


    Stjórn BÍ hefur staðfest ársreikninga félagsins og er við það miðað að svo verði áfram. Jafnframt er breytt verulega til um stjórnina sjálfa en nú eru þrír menn í stjórn BÍ og þrír til vara. Hér er gert ráð fyrir að fjölgað verði í stjórninni í sjö og að varamenn verði fimm. Er þetta lagt til með hliðsjón af fenginni reynslu í stjórnun BÍ. Með slíkri skipun stjórnar verður betur en nú náð því markmiði að fulltrúar allra landshluta gætu verið í stjórninni.

Um 12. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um 13. gr.


    Hér er lagt til að forstjóri félagsins verði ekki lengur skipaður af ráðherra heldur ráðinn af stjórn. Þetta er í samræmi við niðurfellingu hinna stjórnarfarslegu tengsla, sbr. athugasemdir við 9. gr. frumvarpsins. Stjórnin ákveður forstjóra laun og starfskjör.
                                  

Um 14. gr.


    BÍ hefur starfað samkvæmt beinum fyrirmælum laga og reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim og nú eru felld úr gildi. Því er nauðsynlegt að setja eignarhaldsfélaginu samþykktir eða reglur þar sem ákvæði þessara laga eru útfærð. Það er fulltrúaráðið en ekki ráðherra sem setja skal félaginu samþykktir og þær eiga að taka til innri málefna félagsins, svo sem boðun funda og lögmæti þeirra, fundarsköp og dagskrár funda, afgreiðslu mála, framlagningu ársreikninga og endurskoðun þeirra. Þykir eðlilegt að varðandi þessi atriði taki samþykktirnar mið af því sem tíðkast í þeim efnum í lögum um önnur félagsform, svo sem um hlutafélög og samvinnufélög.
    Lagt er til að samþykktunum megi ekki breyta nema á aðalfundi eða aukafundi fulltrúaráðs og þá er krafist aukins meiri hluta, þ.e. að 75% fundarmanna samþykki breytinguna. Við slit á félaginu skv. 16. gr. miðast krafan um aukinn meiri hluta við fulltrúaráðið sjálft en ekki fjölda fundarmanna.
    Gert er ráð fyrir að stjórnin setji félaginu samþykktir til að starfa eftir þar til fulltrúaráðið hefur sett þær í samræmi við ákvæði þessarar greinar, sbr. ákvæði til bráðabirgða.

Um 15. gr.


    Í þessari grein er fyrir lagt hvernig hin óvirku eignarréttindi sameigendanna flytjast með tímanum yfir í sameignarsjóð eignarhaldsfélagsins og færast þá í raun undir yfirráð sveitarfélaga sem skipa fulltrúaráð félagsins. Þessi grein frumvarpsins tengist þannig ákvæðum 5. og 8. gr. Sameigendum er skipt í tvo flokka, einstaklinga og skráða lögaðila. Eignarréttindi einstaklinganna falla skýlaust niður við andlát þeirra og renna þá til sameignarsjóðsins. Meiri óvissa gæti ríkt um lögaðilana þar sem miðað er við skráningu þeirra. Fyrirtæki sem er skráður lögaðili gæti verið hætt allri starfsemi án þess að verða afskráð sem slíkt en telja verður viðunandi að hafa þennan háttinn á.
    Meðan félaginu er ekki slitið er eignarhaldið því í höndum sameigenda og sameignarsjóðs. Verði eignarhaldsfélaginu slitið þegar öll eignarréttindin hafa tæmst í sameignarsjóðinn er málið einfalt því að fulltrúaráðið fer þá með ráðstöfun eignanna. Ef eignarhaldsfélaginu verður slitið áður en til þess kemur skiptast eignirnar milli sameigendanna sem þá eru við lýði og sameignarsjóðsins.
    

Um 16. gr.


    Hér er fjallað um meðferð slitaverðmætis félagsins þegar því er slitið. Eignarhaldsfélaginu gæti verið slitið á þann hátt að það yrði sameinað öðru félagi eða að nýtt félag yrði stofnað til að taka við hlutverki þess. Hvort tveggja gæti fulltrúaráðið ákveðið með breytingum á samþykktum félagsins og þá ákvarðar fulltrúaráðið hvernig með skuli fara að virtum eignarréttindum sameigenda og hagsmunum kröfuhafa.
    Ef eignarhaldsfélaginu verður slitið án þess að framhald sé fyrirhugað í einhverju formi verður slitameðferðin svo sem hér segir: Fyrst eru greiddar allar skuldbindingar félagsins hverju nafni sem nefnast. Því næst er sameigendum greitt andvirði eignarréttinda sinna og það sem eftir er tilheyrir sameignarsjóðnum, sbr. 15. gr. Í niðurlagi þessarar greinar segir að hrein eign sameignarsjóðsins á þeirri stundu skuli renna til þeirra sveitarfélaga sem höfðu brunatryggingarsamninga við Brunabótafélag Íslands vátryggingarárið 1993, þ.e. 15. október 1992 til 14. október 1993, og skiptist á milli þeirra eftir iðgjaldamagni þeirra á því vátryggingarári.
    

Um 17. gr.


    Hér er varnagli settur varðandi hagsmuni sveitarfélaganna sem eiga aðild að fulltrúaráðinu við gildistöku þessara laga en þeir hagsmunir gætu raskast við samruna og sameiningu sveitarfélaga sem um þessar mundir er mjög á dagskrá. Því er slegið föstu að sameiningin raski ekki réttindum þeirra ef hið sameinaða sveitarfélag heldur samningstengslunum áfram eftir sameininguna. Ef hins vegar sameinaða sveitarfélagið hirðir ekki um að halda við samningstengslunum falla réttindin um aðild að fulltrúaráðinu niður. Hér ber að hafa í huga að þótt aðildin að fulltrúaráðinu falli niður á þennan hátt falla sameignarréttindi hins upphaflega sveitarfélags ekki niður þegar og ef til slita kemur.
    

Um 18. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Núverandi fulltrúaráð BÍ var skipað í kjölfar síðustu sveitarstjórnarkosninga í landinu. Á árinu 1994 verða aftur sveitarstjórnarkosningar og ekki þykir ástæða til annars en að láta núverandi fulltrúaráð sitja út kjörtímabil sitt sem lýkur í ágúst 1995. Fulltrúaráð BÍ verði þannig fulltrúaráð eignarhaldsfélagsins. Sama þykir eiga að gilda um núverandi forstjóra að hann starfi út tímabil sitt samkvæmt skipunarbréfi og samningum enda eru gerðar breytingar á félaginu en því ekki slitið. Hann verður 70 ára á árinu 1994 og má eftir samningunum starfa til loka þess árs.
    Nauðsynlegt er að kveða á um eftir hvaða reglum félagið skuli starfa þar til fulltrúaráðið hefur komið saman. Í því efni er lagt til að stjórnin setji félaginu samþykktir innan tveggja mánaða frá gildistöku laganna. Gildi þær þar til fulltrúaráð hefur sett félaginu samþykktir í samræmi við ákvæði 14. gr.

Iðgjöld brunatrygginga fasteigna hjá Brunabótafélagi Íslands


15. október 1992 til 14. október 1993.


Brunatrygging fasteigna, endurnýjun 15. október 1992.



    0000     Reykjavík     
1.207

    1000     Kópavogur     
24.322.027

    1100     Seltjarnarnes     
4.353.418

    1300     Garðabær     
9.465.561

    1400     Hafnarfjörður     
176

    1603     Bessastaðahreppur     
659.027

    1604     Mosfellsbær     
6.056.942

    1605     Kjalarneshreppur     
1.450.899

    1606     Kjósarhreppur     
543.632

    2200     Keflavík     
12.761.696

    2300     Grindavík     
6.446.023

    2400     Njarðvík     
6.371.204

    2502     Hafnahreppur     
728.710

    2503     Miðneshreppur     
5.853.519

    2504     Gerðahreppur     
1.887.893

    2506     Vatnsleysustrandarhreppur     
1.220.530

    3000     Akranes     
9.691.122

    3200     Ólafsvík     
3.465.180

    3501     Hvalfjarðarstrandarhreppur     
1.140.513

    3502     Skilmannahreppur     
1.668.705

    3503     Innri-Akraneshreppur     
190.300

    3504     Leirár- og Melahreppur     
393.097

    3509     Hálsahreppur     
348.664

    3601     Hvítársíðuhreppur     
166.039

    3602     Þverárhlíðarhreppur     
148.161

    3603     Norðurárdalshreppur     
155

    3605     Borgarhreppur     
126

    3606     Borgarnes     
3.788.489

    3702     Eyjahreppur     
217.243

    3703     Miklaholtshreppur     
253.650

    3704     Staðarsveit     
541.296

    3705     Breiðuvíkurhreppur     
364.003

    3706     Neshreppur     
1.90.658

    3709     Eyrarsveit     
2.343.588

    3710     Helgafellssveit     
160.038

    3711     Stykkishólmur     
3.632.874

    3712     Skógarstrandarhreppur     
97.498

    3803     Haukadalshreppur     
81.108

    3804     Laxárdalshreppur     
1.389.240

    3805     Hvammshreppur     
510

    3806     Fellsstrandarhreppur     
321.800

    3808     Skarðshreppur     
8.118

    3809     Saurbæjarhreppur     
288.719

    3810     Suðurdalahreppur     
203.374

    4000     Ísafjörður     
9.370.386

    4100     Bolungarvík     
3.098.865

    4502     Reykhólahreppur     
901.732

    4602     Rauðasandshreppur     
257.9421

    4603     Patreksfjörður     
2.745.851

    4604     Tálknafjarðarhreppur     
1.039.689

    4606     Bíldudalshreppur     
1.054.355

    4702     Þingeyrarhreppur     
1.540.065

    4705     Flateyrarhreppur     
1.331.926

    4706     Suðureyrarhreppur     
1.153.848

    4803     Súðavíkurhreppur     
1.020.311

    4804     Ögurhreppur     
51.835

    4805     Reykjarfjarðarhreppur     
238.669

    4807     Snæfjallahreppur     
86.978

    4901     Árneshreppur     
306.279

    4904     Hólmavíkurhreppur     
1.101.648

    4905     Kirkjubólshreppur     
82.346

    4908     Bæjarhreppur     
450.554

    4909     Broddaneshreppur     
179.807

    5000     Siglufjörður     
4.486.897

    5100     Sauðárkrókur     
6.228.529

    5501     Staðahreppur     
417.557

    5502     Fremri-Torfustaðahreppur     
106.736

    5504     Hvammstangahreppur     
1.535.975

    5506     Þverárhreppur     
156.732

    5601     Áshreppur     
154.612

    5603     Torfalækjarhreppur     
271.485

    5604     Blönduós     
2.660.376

    5606     Bólstaðarhlíðarhreppur     
196.249

    5607     Engihlíðarhreppur     
161.883

    5608     Vindhælishreppur     
136.952

    5609     Höfðahreppur     
2.041.428

    5610     Skagahreppur     
91.469

    5701     Skefilsstaðahreppur     
94.242

    5702     Skarðshreppur     
181.487

    5704     Seyluhreppur     
706.098

    5705     Lýtingsstaðahreppur     
563.036

    5706     Akrahreppur     
406

    5710     Hofshreppur     
980.001

    5715     Fljótahreppur     
635.215

    6000     Akureyri     
30.311.386

    6100     Húsavík     
4.743.210

    6200     Ólafsfjörður     
2.414.026

    6300     Dalvík     
3.056.348

    6501     Grímseyjarhreppur     
395.789

    6502     Svarfaðardalshreppur     
626.053

    6504     Hríseyjarhreppur     
958.442

    6505     Árskógshreppur     
1.027.182

    6506     Arnarneshreppur     
399.407

    6601     Svalbarðsstrandarhreppur     
1.010.872

    6602     Grýtubakkahreppur     
957.667

    6611     Tjörneshreppur     
113.046

    6702     Öxarfjarðarhreppur     
50

    6705     Raufarhafnarhreppur     
1.787.311

    7000     Seyðisfjörður     
4.623.701

    7100     Neskaupstaður     
5.093.384

    7200     Eskifjörður     
3.073.514

    7501     Skeggjastaðahreppur     
447.607

    7503     Hlíðarhreppur     
371.163

    7504     Jökuldalshreppur     
167.796

    7505     Fljótsdalshreppur     
115.617

    7506     Fellahreppur     
848.235

    7507     Tunguhreppur     
162.580

    7508     Hjaltastaðarhreppur     
191.829

    7509     Borgarfjarðarhreppur     
494.041

    7601     Skriðdalshreppur     
190.732

    7602     Vallahreppur     
542.652

    7603     Egilsstaðir     
3.422.881

    7604     Eiðahreppur     
301.789

    7605     Mjóafjarðarhreppur     
71.643

    7606     Norðfjarðarhreppur     
160

    7609     Reyðarfjarðarhreppur     
2.183.824

    7610     Fáskrúðsfjarðarhreppur     
108.341

    7611     Fáskrúðsfjörður     
2.142.834

    7612     Stöðvarhreppur     
940.811

    7613     Breiðdalshreppur     
1.002.730

    7615     Búlandshreppur     
466

    7701     Bæjarhreppur     
117.245

    7702     Nesjahreppur     
525.384

    7703     Höfn          
3.628.516

    7704     Mýrahreppur     
227.202

    8000     Vestmannaeyjar     
11.225.700

    8100     Selfoss     
7.204.520

    8508     Mýrdalshreppur     
1.870.763

    8509     Skaftárhreppur     
1.434.055

    8601     Austur-Eyjafjallahreppur     
295.141

    8604     Vestur-Landeyjahreppur     
324.664

    8607     Rangárvallahreppur     
2.080.139

    8609     Holtahreppur     
698.352

    8702     Stokkseyrarhreppur     
1.059.945

    8703     Eyrarbakkahreppur     
1.287.599

    8709     Gnúpverjahreppur     
1.186.018

    8710     Hrunamannahreppur     
1.735.788

    8715     Grafningshreppur     
290

    8716     Hveragerðisbær     
3.319.852

    8717     Ölfushreppur     
4.434.173

    9998     Utan umdæma     
106.031

    9999     Hvar sem er     
162.384


         Endurnýjun samtals     
279.979.063



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga


um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands.


    Með frumvarpinu er Brunabótafélagi Íslands breytt í eignarhaldsfélag og hættir félagið jafnframt beinni vátryggingastarfsemi.
    Ekki verður séð að frumvarpið feli í sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.