Ferill 144. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 144 . mál.


922. Frumvarp til húsaleigulaga



(Eftir 2. umr., 8. apríl.)



    Samhljóða þskj. 160 með þessum breytingum:

    3. gr. hljóðar svo:
    Ákvæði í lögum þessum um hjón eða maka eiga einnig við um sambúðarfólk, en með sambúðarfólki er átt við karl og konu sem búa saman og eru bæði ógift ef þau hafa átt saman barn, konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í eitt ár eða annað sambúðarform tveggja einstaklinga ef sambúðin hefur varað samfleytt í eitt ár.

    56. gr. hljóðar svo:
    Uppsagnarfrestur ótímabundins leigusamnings skal vera:
    Einn mánuður af beggja hálfu á einstökum herbergjum, geymsluskúrum og þess háttar húsnæði til hvers sem það er notað.
    Sex mánuðir af beggja hálfu á íbúðum, en íbúð telst hvert það húsnæði þar sem fjölskylda getur haft venjulega heimilisaðstöðu. Hafi leigjandi haft íbúð á leigu lengur en fimm ár skal uppsagnarfrestur af hálfu leigusala vera eitt ár.
    Sex mánuðir af beggja hálfu á atvinnuhúsnæði fyrstu fimm ár leigutímans, níu mánuðir næstu fimm ár og síðan eitt ár eftir tíu ára leigutíma.
    69. gr. hljóðar svo:
    Úttektir samkvæmt lögum þessum skal byggingarfulltrúi hlutaðeigandi sveitarfélags framkvæma. Þó getur sveitarstjórn falið húsnæðisnefnd eða starfsmanni á hennar vegum þetta verkefni.
    Sá sem framkvæmir úttektir skal annast störf sín við úttektir af kostgæfni og ætíð gæta fyllsta hlutleysis gagnvart báðum málsaðilum. Hann skal og gæta þagmælsku um einkahagi fólks sem hann kann að fá vitneskju um í starfi sínu.
    Sveitarstjórn er heimilt að taka gjald fyrir úttektir og vottorð sem byggingarfulltrúi eða annar aðili skv. 1. mgr. lætur í té samkvæmt ákvæðum laga þessara.

    85. gr. hljóðar svo:
    Greini aðila leigusamnings á við gerð og/eða framkvæmd leigusamnings geta þeir, einn eða fleiri, snúið sér til kærunefndar húsaleigumála og óskað eftir álitsgerð um ágreiningsefnið.
    Erindi til kærunefndar skal vera skriflegt og í því skal skilmerkilega greina hvert sé ágreiningsefnið, hver sé krafa aðila og rökstuðningur fyrir henni.
    Skal kærunefnd gefa gagnaðila kost á að tjá sig og koma sjónarmiðum sínum og kröfum á framfæri. Skal gefa honum stuttan frest í því skyni. Heimilt er kærunefnd að kalla eftir öllum nauðsynlegum upplýsingum og gögnum og óska umsagnar hlutaðeigandi húsnæðisnefndar og annarra er málið snertir gerist þess þörf.
    Kærunefnd skal láta í té rökstutt álit svo fljótt sem kostur er og jafnan innan tveggja mánaða frá því að erindi barst henni. Ágreiningsefnum verður eigi skotið til annars stjórnvalds.
    Telji kærunefndin að lög þessi hafi verið brotin og að á rétt aðila sé hallað beinir hún tilmælum til gagnaðila um úrbætur.
    Aðilar geta lagt ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti.
    Kærunefndin getur einnig tekið fyrir mál að eigin frumkvæði og eftir tilmælum og ábendingum frá öðrum, svo sem félagsmálaráðuneytinu, Húsnæðisstofnun ríkisins, byggingarfulltrúum, leigumiðlurum, Húseigendafélaginu og Leigjendasamtökunum. Í slíkum málum getur nefndin látið frá sér fara álit og tilmæli og gilda um málsmeðferð fyrirmæli þessarar greinar eftir því sem við getur átt.
    Félagsmálaráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um erindi til kærunefndar, störf hennar, verkefni, valdsvið, starfsskilyrði o.fl.

    87. gr. hljóðar svo:
    Lög þessi taka gildi 1. janúar 1995. Þeir samningar, sem gerðir hafa verið fyrir þann tíma, skulu endurskoðaðir til samræmis við ákvæði þessara laga fyrir 1. mars 1995.
    Jafnframt eru úr gildi felld lög nr. 44 1. júní 1979, um húsaleigusamninga, með síðari breytingum.