Ferill 482. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 482 . mál.


1042. Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Svavars Gestssonar um athugasemdir Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna ríkisreiknings.

    Fyrirspurnin er svohljóðandi:
     Hvað hefur ráðherra gert til að fylgja eftir athugasemdum Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna ríkisreiknings fyrir árið 1992?

07-705 Málefni fatlaðra Norðurlandi vestra.
    Ráðuneytið hefur í samvinnu við stofnunina þegar svarað þeim athugasemdum sem fram koma í skýrslu Ríkisendurskoðunar og gert grein fyrir tillögum til lagfæringa á þeim.

07-706 Málefni fatlaðra Norðurlandi eystra.
    Ráðuneytið bíður skýringa frá stofnuninni varðandi athugasemdir Ríkisendurskoðunar en þeirra er að vænta innan skamms.

07-982 Ríkisábyrgð á launum.
    Í samráði við félagsmálaráðuneytið tók Ríkisendurskoðun saman greinargerð um framkvæmd laga um ríkisábyrgð orlofs fyrir árin 1989–1992. Í greinargerðinni leggur Ríkisendurskoðun m.a. til að athugað verði hvort ekki sé eðlilegra að ábyrgðasjóður launa yfirtaki ábyrgð á orlofsgreiðslum líkt og öðrum launagreiðslum vegna gjaldþrota.
    Með lögum nr. 127/1993, um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1994, var framkvæmd ríkisábyrgðar á orlofi breytt og ábyrgðasjóði launa falið að ábyrgjast greiðslur á orlofi vegna greiðsluerfiðleika launagreiðenda.

27-270 Húsbréfadeild.
27-271 Byggingarsjóður ríkisins.
27-272 Byggingarsjóður verkamanna.

    Þær athugasemdir í skýrslu Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna ríkisreiknings er varða málefni Húsnæðisstofnunar eru til umfjöllunar á samráðsfundum ráðuneytisins og stofnunarinnar.
    Í framhaldi af úttekt Ríkisendurskoðunar á vaxtakjörum húsbréfadeildar Húsnæðisstofnunar hjá Seðlabanka Íslands var sú breyting gerð á lögum um Húsnæðisstofnun, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 25/1994, að húsnæðismálastjórn getur að fengnu samþykki félagsmálaráðherra ákveðið að Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna verði varðveittir annars staðar en hjá Seðlabanka Íslands að nokkru leyti eða öllu ef það er talið auka möguleika sjóðanna á ávöxtun án þess að það hafi í för með sér áhættu fyrir þá.