Ferill 614. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 614 . mál.


1073. Frumvarp til

laga

um samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna og um breytingu á lögum nr. 24 7. maí 1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar (VE, GunnS, GHall, ÁRÁ, EKG).



I. KAFLI


Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna.


    

1. gr.


    Setja skal á fót nefnd er hafi það hlutverk að fjalla um álitaefni og ágreining er tengist áhrifum viðskipta með veiðiheimildir á uppgjör á aflahlut sjómanna.
    Í nefndinni eiga sæti fimm menn, tveir tilnefndir sameiginlega af Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Sjómannasambandi Íslands og Vélstjórafélagi Íslands, tveir tilnefndir sameiginlega af Vinnuveitendasambandi Íslands og Landssambandi íslenskra útvegsmanna og formaður sem sjávarútvegsráðherra skipar að höfðu samráði við framangreind samtök sjómanna og útvegsmanna.
    Samstarfsnefnd ræður starfsfólk eða semur við aðra um að annast starfsemi fyrir nefndina eftir því sem hagkvæmt þykir.

2. gr.


    Samstarfsnefnd skal afla ítarlegra gagna um fiskverð, forsendur þess og önnur atriði sem kunna að hafa áhrif á aflahlut sjómanna. Hún skal vinna úr upplýsingunum með skipulegum hætti sundurliðað yfirlit um fiskverð á einstökum landsvæðum. Nefndin skal reglulega birta upplýsingar um fiskverð þannig að þær gagnist útvegsmönnum og sjómönnum sem best.

3. gr.


    Þau heildarsamtök sjómanna og útvegsmanna, sem standa að tilnefningu samstarfsnefndar skv. 1. gr., geta leitað álits nefndarinnar á ágreiningi og álitamálum er upp koma varðandi áhrif viðskipta með veiðiheimildir á uppgjör á aflahlut enda séu ekki liðnar meira en tólf vikur frá lokum uppgjörstímabils.
    Nefndin skal við umfjöllun sína m.a. taka mið af upplýsingum um fiskverð sem safnað hefur verið á hennar vegum, sbr. 2. gr.
    Nefndin skal leita upplýsinga hjá viðkomandi útgerð og áhöfn um öll þau atriði er máli kunna að skipta varðandi úrlausn í tilteknu máli. Er skylt að veita nefndinni aðgang að öllum gögnum varðandi uppgjör og forsendur þess, sem og öðrum gögnum er máli geta skipt við úrlausn nefndarinnar.

4. gr.


    Samstarfsnefndin skal taka rökstudda afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn lögum eða samningum að því er varðar uppgjör á aflahlut í einstökum tilvikum. Þá skal hún láta í ljós afstöðu til þess hvort bersýnilega ósanngjörn viðmið séu fyrir ákvörðun fiskverðs í tengslum við viðskipti með veiðiheimildir.
    Takist ekki að ná sameiginlegri niðurstöðu ræður afl atkvæða en einstakir nefndarmenn geta gert grein fyrir áliti sínu.
    Nefndin skal kappkosta að hraða umfjöllun um einstök ágreiningsefni og leitast við að ljúka þeim eigi síðar en fjórum vikum eftir að álits var óskað.

5. gr.


    Nefndin skal gera aðilum grein fyrir niðurstöðum sínum og koma þeim tilmælum til hlutaðeigandi útgerðar og áhafnar að þeir leysi ágreining sinn í samræmi við niðurstöðu nefndarinnar.
    Nefndin skal árlega gefa út útdrátt úr niðurstöðum sínum.

6. gr.


    Sé tilmælum nefndar skv. 5. gr. ekki fylgt eða vilji aðili ekki una niðurstöðu nefndarinnar geta þau heildarsamtök sjómanna og útvegsmanna, er um ræðir í 1. gr., skotið málinu til gerðardóms skv. 72. gr. sjómannalaga, nr. 35 19. júní 1985, með síðari breytingum, og er samþykki gagnaðila ekki nauðsynlegt í þeim tilvikum.

7. gr.


    Nefndarmönnum er óheimilt að skýra óviðkomandi aðilum frá því sem þeir komast að í störfum sínum.

8. gr.


    Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

9. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1994 og gilda til ársloka 1995.
    Samstarfsnefnd fjallar um ágreining við uppgjör á aflahlut sjómanna eftir gildistöku laganna.

II. KAFLI


Lög um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins,


nr. 24 7. maí 1986, með síðari breytingum.


10. gr.


    Aftan við 1. málsl. 1. mgr. 1. gr. laganna kemur nýr málsliður er orðast svo: Ekki er heimilt að draga frá heildarverðmæti afla í þessu sambandi kostnað við kaup á veiðiheimildum.

11. gr.


    Við lögin bætist ný grein, 18. gr., er orðast svo:
    Brot á 2. málsl. 1. mgr. 1. gr. varðar sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Með brot á þessu ákvæði skal fara að hætti opinberra mála.

12. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Dagana 2.–5. janúar sl. hófst vinnustöðvun á öllum fiskiskipaflota landsmanna utan Vestfjarða. Deilan snerist fyrst og fremst um áhrif þau sem viðskipti með aflaheimildir geta haft á skiptakjör sjómanna en einnig var fjallað um gerð sérkjarasamninga varðandi tilteknar veiðar. Deilan reyndist óvenjulega flókin. Reyndu stjórnvöld ítrekað að koma skriði á viðræður samningsaðila en þær sigldu jafnharðan í strand. Var svo komið föstudaginn 14. janúar að ríkissáttasemjari taldi engar horfur á lausn vinnudeilunnar í bráð. Greip ríkisstjórnin þá til setningar bráðabirgðalaga til að koma í veg fyrir frekari stöðvun fiskiskipaflotans. Skyldi sjávarútvegsráðherra skv. 1. gr. þeirra skipa nefnd þriggja manna. Skyldi nefndin gera tillögur um hvernig koma megi í veg fyrir að viðskipti með aflaheimildir hafi óeðlileg áhrif á skiptakjör og undirbúa nauðsynlega löggjöf í þeim efnum. Var nefndinni falið að skila tillögum sínum sem fyrst og eigi síðar en 1. febrúar 1994. Nefndin var skipuð 14. janúar og áttu sæti í henni ráðuneytisstjórarnir Árni Kolbeinsson, Ólafur Davíðsson og Þorkell Helgason. Nefndin skilaði tillögum sínum 20. janúar. Var þar lagt til að komið verði á fót skipulögðum tilboðsmarkaði til að annast viðskipti með það aflamark sem flutt er milli fiskiskipa. Jafnframt lagði nefndin til nokkrar breytingar á gildandi lögum um stjórn fiskveiða og því frumvarpi til breytinga á þeim lögum sem nú liggur fyrir Alþingi. Tillögur nefndarinnar voru sendar sjávarútvegsnefnd og hagsmunasamtökum í sjávarútvegi til umsagnar. Hlutu þær dræmar undirtektir. Ljóst er af þeim viðbrögðum að tilboðsmarkaður fyrir aflamark getur ekki orðið ásættanleg lausn á þeim vanda sem upp er kominn. Meiri hluti sjávarútvegsnefndar hefur því ákveðið að flytja frumvarp til laga um samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna og breytingar á lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Er með þessu frumvarpi reynt að bregðast við þeim vanda sem þátttaka sjómanna í kvótakaupum hefur skapað með öðrum hætti.
    Í I. kafla er lagt til að fest verði í lög ákvæði um samstarfsnefnd útvegsmanna og sjómanna er fjalli um álitaefni og ágreining er tengist áhrifum viðskipta með veiðiheimildir á uppgjör á aflahlut sjómanna en það var einmitt samstarfsnefnd af þessu tagi sem deiluaðilar voru að reyna að ná samkomulagi um áður en upp úr samningaviðræðum slitnaði í janúarmánuði sl. Nefndinni er einnig ætlað að afla upplýsinga, vinna úr þeim með skipulögðum hætti og birta upplýsingar um fiskverð. Fram hafa komið ábendingar frá Fiskifélagi Íslands um að félagið hafi yfir að ráða aðgangi að þessum upplýsingum og lýsir það sig reiðubúið til samstarfs við nefndina, sbr. fskj. III.
    Í II. kafla eru lagðar til breytingar á lögum um skiptakjör og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins þar sem bann er lagt við að draga kostnað vegna kaupa á veiðiheimildum frá heildaraflaverðmæti við skipti. Jafnframt eru lagðar við sektir ef út af er brugðið. Loks tengjast þessu máli nokkrar breytingartillögur við frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða er þrengja möguleika til að misnota viðskipti með aflamark. Ber þar sérstaklega að geta eftirtalinna atriða:
—    Lagt er til að brott verði fellt úr frumvarpinu ákvæði um að heimilt sé að framselja aflahlutdeild til fiskvinnslustöðva.
—    Lagt er bann við því að flytja aflamark til skips ef meira en 15% aflamarks af sömu tegund hafa verið flutt af skipinu á fiskveiðiárinu og öfugt.
—    Lagt er til að ef skip notar ekki 50% eða meira af aflamarki sínu tvö ár í röð falli bæði aflahlutdeild og veiðileyfi þess niður.
—    Lagt er til að bannað verði að flytja til skips aflamark sem bersýnilega er umfram veiðigetu þess.
    Eins og að framan er rakið snerust samningaviðræður sjómanna og útvegsmanna í janúar sl. fyrst og fremst um að finna samstarfsvettvang til að fjalla um ágreining eða álitaefni varðandi framkvæmd kjarasamninga, einkum þau er vörðuðu áhrif viðskipta með aflaheimildir á skiptakjör. Var þessi samstarfsvettvangur nefndur ýmsum nöfnum í viðræðum aðila, svo sem álitsnefnd og kærunefnd, en í frumvarpi þessu er lagt til að hann verði kallaður samstarfsnefnd. Skiptust aðilar á hugmyndum um skipulag og verkefni þessa samstarfsvettvangs og eru síðustu hugmyndir þeirra dagsettar 11. janúar. Eru hugmyndir útvegsmanna birtar sem fskj. I en hugmyndir sjómanna sem fskj. II. Ekki náðu aðilar saman en með frumvarpi þessu er leitast við að lögfesta þær meginhugmyndir er í umræðunni voru.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í hugmyndum útvegsmanna og sjómanna var gengið út frá því að nefndin hefði vítt verksvið og hefði eftirlit með framkvæmd kjarasamninga að því er varðar uppgjör á aflahlut og fjallaði um ágreiningsmál þar að lútandi. Í frumvarpinu er þetta verksvið þrengt og bundið við álitamál og ágreining er varða áhrif viðskipta með veiðiheimildir á aflahlut sjómanna.
    Gert var ráð fyrir fimm manna nefnd í hugmyndum útvegsmanna og sjómanna þannig að tveir væru tilnefndir af hvorum aðila og er frumvarpið miðað við þá skipan mála. Í tillögum útvegsmanna er gert ráð fyrir að formaðurinn sé aðeins fundarstjóri en hafi ekki oddamannshlutverk. Sjómenn ætluðu formanni hins vegar oddastöðu. Í frumvarpi er gert ráð fyrir að formaður starfi að fullu með nefndinni og hafi þar alltaf oddastöðu í samræmi við hugmyndir sjómanna.
    Með orðinu álitaefni í 1. mgr. er vísað til þess að ekki sé nauðsynlegt að um afmarkað ágreiningsefni sé að ræða. Slíkan almennan ágreining yrði þó ekki hægt að bera fyrir gerðardóm síðar meir skv. 6. gr.
    Gert er ráð fyrir að aðilar sjái sjálfir um að nefndinni sé komið á fót að öðru leyti en því að ráðherra skipi formann. Ekkert er því til fyrirstöðu að svo oft sé skipt um nefndarmenn sem tilnefnendur kjósa.
    Í 2. mgr. kemur fram að þartilgreind heildarsamtök tilnefni menn í nefndina. Vera þeirra í nefndinni er því óhjákvæmilega tengd þeim hagsmunum sem samtök þeirra berjast fyrir. Sérstakt hæfi þeirra skoðist í þessu ljósi. Gengið er út frá því að oddamaður sé hlutlaus og sjálfstæður gagnvart tilgreindum samtökum. Sérstakt hæfi hans er metið í ljósi þess.
    Eðlilegt er að formaður nefndarinnar stýri störfum hennar og komi fram út á við, t.d. varðandi öflun upplýsinga.

Um 2. gr.


    Í þessari grein er lögð sú skylda á nefndina að leita viðeigandi upplýsinga, vinna úr þeim með skipulögðum hætti og birta upplýsingar um fiskverð. Í lögum nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, eru lagðar margvíslegar hömlur á skráningu og vinnslu upplýsinga með skipulögðum hætti. Orðalag 2. gr. felur í sér að þar sem þörf er á ganga ákvæði laga þessara framar ákvæðum tilvitnaðra laga frá 1989. Ekki er í ákvæðinu að finna leiðbeiningu um hverra gagna skuli aflað að öðru leyti en því að þau skuli varða atriði sem kunna að hafa áhrif á aflahlut sjómanna. Þetta verður þó að skoða í ljósi þess hvert hlutverk nefndarinnar er, sbr. einkum 1. og 3. gr.

Um 3. gr.


    Í tillögum útvegsmanna og sjómanna var miðað við að félög sjómanna og útvegsmanna gætu skotið málum til nefndarinnar. Í frumvarpinu er kæruaðildin hins vegar bundin við sérstaklega tilgreind heildarsamtök sjómanna og útvegsmanna. Með gagnályktun frá 3. gr. sést að einstaklingar geta ekki átt aðild að ágreinings- eða álitamálum sem rekin eru fyrir nefndinni.
    Þá er gert ráð fyrir sérstökum tólf vikna kærufresti frá lokum uppgjörstímabils. Þótt ekki sé heimilt að skjóta máli til nefndarinnar eftir tólf vikna frestinn þýðir það að sjálfsögðu ekki að réttur til að reka málið á öðrum vettvangi tapist.
    Samkvæmt 2. mgr. skal nefndin m.a. taka mið af þeim upplýsingum um fiskverð sem hún hefur safnað. Þannig verður mælikvarði á ósanngirni, sem kveðið er á um í 4. gr., almennur en ekki miðaður út frá þröngum dæmum sem borin yrðu inn á borð nefndarinnar hverju sinni.

Um 4. gr.


    Þegar nefndin tekur afstöðu í tilteknu álitamáli ber henni að sjálfsögðu fyrst að líta til þess hvort beinlínis hafi verið brotið gegn lögum eða samningum að því er varðar uppgjör á aflahlut. Er í því sambandi sérstaklega bent á ákvæði II. kafla frumvarpsins til breytinga á lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun. Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. er nefndinni í þessu sambandi einnig ætlað að meta hvort þau viðmið, sem notuð eru við ákvörðun fiskverðs í tengslum við viðskipti með aflaheimildir, leiði bersýnilega til ósanngjarnrar niðurstöðu varðandi aflahlut sjómanna.
    Afstaða nefndarinnar til ágreinings hverju sinni skal rökstudd til að tryggja leiðbeiningargildi niðurstöðunnar. Niðurstaðan þarf því að vera skrifleg en óþarft er að taka það sérstaklega fram þar sem þetta leiðir af sjálfu sér, sbr. og ákvæði 5. gr.
    Þótt orðalag 1. mgr. sé almennt verður að hafa í huga að nefndinni er ekki ætlað að vera úrlausnaraðili um aðrar deilur en þær sem varða áhrif viðskipta með veiðiheimildir á uppgjör á aflahlut sjómanna, sbr. 1. og 3. gr.

Um 5. gr.


    Ekki er gert ráð fyrir að nefndin kveði upp bindandi úrskurð frekar en gert var ráð fyrir í hugmyndum sjómanna og útvegsmanna. Að öðru leyti þarfnast grein þessi ekki skýringa.

Um 6. gr.


    Hér er lagt til að hvor aðili um sig geti skotið máli einhliða til gerðardóms skv. 72. gr. sjómannalaga en samþykki beggja málsaðila er ella forsenda þess að sá gerðardómur fjalli um mál. Tilgangur þessarar greinar er að opna heildarsamtökum fljótvirka leið til að fá bindandi úrlausn í ágreiningsmálum. Með henni er að sjálfsögðu ekki hróflað við rétti aðila til að leita úrskurðar dómstóla á ágreiningi sínum. Niðurstaða slíks gerðardóms mundi í þessum tilvikum eingöngu varða þau atriði sem nefndin hefur samkvæmt lögum þessum heimild til að taka afstöðu til.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 8. gr.


    Lagt er til að kostnaður af störfum samstarfsnefndar greiðist úr ríkissjóði. Í því felst að sjálfsögðu ekki opin heimild til ríkisútgjalda heldur verða þau að vera innan þeirra marka sem fjárveitingar setja hverju sinni. Í fjáraukalögum, sem lögð verða fyrir Alþingi næsta haust, verður sótt um fjárveitingu til að standa undir kostnaði af störfum nefndarinnar.

Um 9. gr.


    Lagt er til að lögin gildi til ársloka 1995. Þess er að sjálfsögðu að vænta að ráðherra muni beita sér fyrir breytingu á þessu fyrirkomulagi ef aðilar koma sér saman um aðra skipan fyrir þann tíma. Ekki er gert ráð fyrir að lögin verði afturvirk og er nefndinni því falið að fjalla um ágreining við uppgjör á aflahlut vegna veiða eftir gildistöku laganna. Málskotsréttur til gerðardóms er bundinn sömu tímatakmörkunum.

Um 10. gr.


    Lagt er til að lögfest verði bann við því að heimilt verði að draga kostnað vegna kaupa á veiðiheimildum frá heildarverðmæti afla áður en til hlutaskipta kemur. Í þessu banni felst einnig bann við fyrir fram samkomulagi milli útvegsmanna og sjómanna um kostnaðarþátttöku af þessu tagi, m.a. í því formi að þeir síðarnefndu leggi fjármuni í sérstaka sjóði til að taka síðar þátt í kaupum útgerðarfyrirtækja á aflamarki. Er hér í reynd verið að lögfesta þau ákvæði er um þetta hafa gilt í kjarasamningum Sjómannasambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands, sbr. eftirfarandi yfirlýsingu samningsaðila um þetta efni, dags. 26. apríl 1992:
    „Samningsaðilar eru sammála um að útgerðarmanni sé óheimilt að draga útlagðan kostnað, vegna leigu eða kaupa á aflaheimildum, frá heildarsöluverðmæti aflans áður en skiptaverð til sjómanna er reiknað.
    Yfirlýsing þessi hefur engin áhrif á frjáls viðskipti útgerðarmanna sín á milli með aflaheimildir, né samninga áhafna og einstakra útgerða við fiskkaupendur um fiskverð.“
    Með þessu lagaákvæði er ekki verið að hrófla við þeim takmörkuðu möguleikum til framsals aflaheimilda sem lög um stjórn fiskveiða leyfa. Samhliða er lagt til að í lögum um stjórn fiskveiða verði gerðar verulegar breytingar til að hindra að viðskipti með aflamark verði misnotuð þannig að bersýnilega ósanngjörn viðmið séu notuð sem grundvöllur skiptakjara í tengslum við viðskipti með aflaheimildir.

Um 11. og 12. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.


Hugmyndir útvegsmanna um kærunefnd sem fram


komu í samningaviðræðunum.


(Frá Landsambandi íslenskra útvegsmanna.)



    Landssamband íslenskra útvegsmanna og Vinnuveitendasamband Íslands annars vegar og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Sjómannasamband Íslands og Vélstjórafélag Íslands hins vegar skipi tvo menn hvor í kærunefnd. Sjávarútvegsráðherra skipi nefndinni formann sem stýri starfi hennar en greiði ekki atkvæði.
    Kærunefndin hafi það meginhlutverk að hafa eftirlit með framkvæmd kjarasamnings útvegsmanna og sjómanna frá gildistöku samnings þessa að því er varðar uppgjör á aflahlut og láti í ljós rökstudda niðurstöðu sína samkvæmt því sem nánar segir hér á eftir.
    Einungis félög útvegsmanna og sjómanna geta skotið málum til nefndarinnar og leitað álits á því hvort tiltekin framkvæmd samræmist ákvæðum kjarasamninga og laga.
    Komi fram ósk um athugun á því hvort uppgjör á tilteknu skipi sé í samræmi við samninga og lög skal nefndin leita upplýsinga hlutaðeigandi útvegsmanns og eftir atvikum trúnaðarmanns áhafnar. Er þeim skylt að veita nefndinni allar upplýsingar um uppgjör og forsendur þess enda hafi málið verið kært til nefndarinnar eigi síðar en átta vikum eftir lok uppgjörstímabils.
    Nefndarmenn skulu gæta þagmælsku um allt það sem þeir komast að í störfum sínum en niðurstaða nefndarinnar á kæruefni skal liggja fyrir svo fljótt sem verða má og eigi síðar en fjórum vikum eftir að erindi berst nefndinni. Nefndin skal árlega gefa út til kynningar útdrátt úr niðurstöðum sínum.
    Telji nefndin að ekki hafi verið farið að lögum eða samningum í einstökum tilvikum skal hún gera báðum aðilum grein fyrir því. Nefndin skal freista þess að leysa ágreining milli áhafnar og útgerðar svo fjótt sem kostur er í samræmi við niðurstöður sínar. Vilji annar hvor málsaðila ekki una niðurstöðu kærunefndar mæla samningsaðilar með því að ágreiningnum verði skotið til gerðardóms, skv. 72. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, séu hlutaðeigandi málsaðilar því sammála en ella til almennra dómstóla.
    Við það er miðað að kærunefndin geti látið í ljós rökstudda afstöðu til þess hvort óeðlileg viðmið séu fyrir ákvörðun fiskverðs í skiptum skyldra aðila eða þegar veidd er aflaheimild annars skips. Til þess að undirbúa þennan þátt í starfi kærunefndar verður skipulögð upplýsingasöfnun um fiskverð og forsendur þess og önnur þau atriði sem áhrif hafa á aflahlut sjómanna hjá einstökum útgerðum.
    Fiskifélag Íslands, eða öðrum aðila sem nefndin verður sammála um, verði falin söfnun, úrvinnsla og birting upplýsinga um fiskverð í beinum viðskiptum og á fiskmörkuðum til skipta og þau atriði önnur í samskiptum kaupenda og seljenda sem áhrif geta haft á aflahlut sjómanna. Inn í þessar upplýsingar verði ekki tekin verð sem orðið hafa til við viðskipti með leigðar aflaheimildir. Í þessu efni verði m.a. litið til mismunandi stærðar og gæða fisks, mismunandi aðstæðna á einstökum landssvæðum og dreifingar fiskverðs frá meðaltali í einstökum flokkum og annað það sem getur haft mótandi áhrif á ákvörðun fiskverðs. Þessar upplýsingar verði á því formi að þær geti orðið sjómönnum og útvegsmönnum gagnleg leiðbeining í umræðum um fiskverð. Verði niðurstaða nefndarinnar í einstöku máli sú að gert hafi verið upp við áhöfn með óeðlilegu fráviki frá því sem almennt gerist miðað við hlutaðeigandi aðstæður skal hún beina því til viðkomandi útgerðar að endurskoða fiskverð til skipta í samráði við áhöfn. Aðilar skuldbinda sig til þess að láta málsaðila ekki gjalda þess að mál þeirra komi til meðferðar hjá nefndinni.



Fylgiskjal II.


Hugmyndir sjómanna um kærunefnd sem fram


komu í samningaviðræðunum.


(Frá Sjómannasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi


Íslands og Vélstjórafélagi Íslands.)



    Landssamband íslenskra útvegsmanna og Vinnuveitendasamband Íslands annars vegar og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Sjómannasamband Íslands og Vélstjórafélag Íslands hins vegar skipi tvo menn hvor í kærunefnd. Þjóðhagsstofnun skipi oddamann í nefndina sem sé formaður hennar og stýri störfum hennar.
    Kærunefndin hafi það meginhlutverk að hafa eftirlit með framkvæmd kjarasamnings útvegsmanna og sjómanna að því er varðar uppgjör á aflahlut og að leysa ágreining sem upp kann að koma milli áhafna og útgerðar í þessu efni.
    Einungis félög útvegsmanna og sjómanna geta skotið málum til nefndarinnar og fengið niðurstöðu um það hvort tiltekin framkvæmd samræmist ákvæðum kjarasamninga og laga.
    Komi fram ósk um athugun á því hvort uppgjör á tilteknu skipi sé í samræmi við samninga og lög skal nefndin leita upplýsinga hjá hlutaðeigandi útvegsmanni og eftir atvikum trúnaðarmanni áhafnar og er þeim skylt að veita nefndinni allar þær upplýsingar um uppgjör og forsendur þess sem hún óskar eftir.
    Nefndarmenn skulu gæta þagmælsku um allt það sem þeir komast að í störfum sínum en álit nefndarinnar á kæruefni skal liggja fyrir svo fljótt sem verða má og eigi síðar en fjórum vikum eftir að erindi berst nefndinni. Nefndin skal árlega gefa út til kynningar yfirlit yfir niðurstöður sínar.
    Telji nefndin að ekki hafi verið farið að lögum eða samningum í einstökum tilvikum skal hún gera báðum aðilum grein fyrir því. Nefndin skal kappkosta að leysa ágreining milli áhafnar og útgerðar svo fjótt sem kostur er. Afskipti nefndarinnar hindra þó ekki að málsaðilar leiti með ágreining sinn til dómstóla eða sérstaks gerðardóms skv. 72. gr. sjómannalaga.
    Við það er miðað að kærunefndin látið í ljós rökstudda afstöðu til þess hvort óeðlileg viðmið séu fyrir ákvörðun heildaraflaverðmætis, sbr. gr. 1.24 í samningi SSÍ og LÍÚ og gr. 1.09 í samningi FFSÍ, VSFÍ og LÍÚ. Til þess að undirbúa þennan þátt í starfi kærunefndar verður skipulögð upplýsingasöfnun um fiskverð og forsendur þess. Verði ágreiningur milli aðila um hæsta gangverð skal þá miða við síðasta skráða landsmeðaltal Fiskifélags Íslands á innlendu fiskverði.
    Leitað verði eftir samvinnu við Fiskifélag Íslands um söfnun og úrvinnslu upplýsinga um aflaverð og þau atriði önnur í samskiptum kaupenda og seljenda sem áhrif hafa á aflahlut sjómanna. Í þessu efni verði litið til þeirra þátta sem geta haft mótandi áhrif á ákvörðun fiskverðs. Inn í þessar upplýsingar verði ekki teknar verðviðmiðanir sem orðið hafa til við viðskipti með keyptar eða leigðar fiskveiðiheimildir. Þessar upplýsingar verði unnar með sem minnstri tímatöf og í því formi að þær geti orðið sjómönnum og útvegsmönnum gagnleg leiðbeining í umræðum um fiskverð. Á grundvelli þessara upplýsinga getur kærunefnd látið í ljós mat á því hvort í einstökum tilvikum felist óeðlilegt frávik frá því sem talist geti eðlilegt skiptaverð miðað við hlutaðeigandi aðstæður. Aðilar skuldbinda sig til þess að láta hvorki einstaka sjómenn, áhafnir eða útgerð gjalda þess að mál þeirra komi til meðferðar hjá nefndinni.



Fylgiskjal III.


Umsögn Fiskifélags Íslands.


(20. apríl 1994.)



    Fiskifélagi Íslands er kunnugt um að til umfjöllunar er hjá háttvirtri sjávarútvegsnefnd frumvarp til laga um samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að nefndin safni ítarlegum gögnum um fiskverð og forsendur þess svo og að hún vinni úr þessum upplýsingum yfirlit og birti upplýsingar um fiskverð.
    Vegna þessa vill Fiskifélag Íslands vekja athygli nefndarinnar á að Fiskifélagið hefur yfir að ráða aðgangi að þessum upplýsingum nú þegar og lítið þarf til viðbótar svo hægt sé að uppfylla þær kröfur sem undirrituðum sýnist að gerðar séu í nefndu frumvarpi. Má nefna að í lögum um uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla frá 1989 er mörkuðunum gert skylt að senda Fiskifélaginu daglega yfirlit yfir selt magn, kaupendur og verð (5. gr.). Þá hefur félagið safnað skýrslum um fiskafla og verðmæti hans í yfir áttatíu ár og er nefndinni fullkunnugt um það starf. Einnig má benda á að í minnisblöðum sjómanna og útvegsmanna frá 11. janúar sl. úr karphúsinu er Fiskifélagið nefnt sem aðili er hefði með höndum þessa starfsemi, svo vitnað sé í minnisblað SSÍ, FFSÍ og VSFÍ „Leitað verði eftir samvinnu við Fiskifélag Íslands um söfnun og úrvinnslu upplýsinga um aflaverð, og þau atriði önnur í samskiptum kaupenda og seljenda sem áhrif hafa á aflahlut sjómanna.“ Enn fremur í minnisblaði LÍÚ „Fiskifélag Íslands, eða öðrum aðila sem nefndin verður sammála um verði falin söfnun, úrvinnsla og birting upplýsinga um fiskverð í beinum viðskiptum og á fiskmörkuðum til skipta og þau atriði önnur í samskiptum kaupenda og seljenda sem áhrif geta haft á aflahlut sjómanna.“
    Í ljósi ofanritaðs vill Fiskifélagið bjóða fram starfskrafta sína og er reiðubúið til að vinna fyrir nefndina. Nú er mikið rætt um tvíverknað og þess háttar svo og sparnað í ríkisrekstri og telur undirritaður verulegt hagræði af því fyrir ríkið að samið yrði við Fiskifélagið um slíkt. Enn frekari rök fyrir slíkum samningum eru að allir þessir aðilar sem skipa í nefndina eru með aðild að Fiskifélaginu utan VSÍ. Þó skal tekið fram að Fiskifélagið sækist ekki eftir að eiga fulltrúa í nefndinni eða að koma fram fyrir hennar hönd.
    Undirritaður er tilbúinn til að veita háttvirtri sjávarútvegsnefnd frekari upplýsingar um Fiskifélagið og starfsemi þess ef þess er óskað.

Virðingarfyllst,


f.h. Fiskifélags Íslands,


Bjarni Kr. Grímsson fiskimálastjóri.