Ferill 599. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 599 . mál.


1173. Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Guðrúnar J. Halldórsdóttur um þróun og rannsóknir á táknmáli.

    Hve miklu fé er varið á þessu ári til að efla Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og hvernig er varið samstarfi miðstöðvarinnar og Háskóla Íslands?
    Á fjárlögum í ár er gert ráð fyrir að Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra hafi 10 millj. kr. til rekstrar. 9 millj. kr. eru ríkisframlag og 1 millj. kr. er áætlaðar sértekjur stofnunarinnar.
    Áætlanir stofnunarinnar miðast við að nám í táknmálstúlkun hefjist haustið 1994. 2,6 millj. kr. eru á fjárlögum 1994 á fjárlagalið Samskiptamiðstöðvar til þess verkefnis. Samskiptamiðstöð hefur gert samkomulag við Háskóla Íslands um að á haustmissiri 1994 hefjist á vegum bókmenntafræði og málvísindaskorar heimspekideildar Háskóla Íslands í samstarfi við Samskiptamiðstöð tveggja ára nám (60 einingar til BA-prófs) í táknmálsfræði. Í framhaldi af því er gert ráð fyrir 40 eininga námi í táknmálstúlkun. Auglýst hefur verið starf kennslustjóra sem verður starfsmaður Háskóla Íslands. Gert er ráð fyrir að nemendur nýti sér að hluta það nám sem boðið er upp á í heimspekideild. Laun kennslustjóra og þau námskeið sem efna þarf til sérstaklega verði greidd af fjárlagalið Samskiptamiðstöðvar.

    Mun ráðherra stuðla að því, t.d. með fjárveitingu, að Málvísindastofnun Háskólans hefji rannsóknir á táknmáli og táknmálskennslu á þessu ári?
    Samkvæmt 2. gr. laga nr. 129/1990, um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, er gert ráð fyrir að hlutverk stofnunarinnar sé m.a. að annast rannsóknir á íslensku táknmáli og kennslu táknmáls. Í áætlunum menntamálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að stofnunin fái fjárveitingar til að sinna þessum þáttum í starfsemi sinni. Stofnunin hefur gert samkomulag við Háskóla Íslands um nám í táknmálstúlkun.
    Ekki er gert ráð fyrir sérgreindum fjárveitingum til annarra stofnana menntamálaráðuneytisins til að sinna þessum þáttum en Samskiptamiðstöð hefur leitað eftir samstarfi við aðrar stofnanir eftir því sem hún hefur talið ástæðu til.