Ferill 557. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 557 . mál.


1211. Nefndarálit



um frv. til l. um húsaleigubætur.

Frá minni hluta félagsmálanefndar.



    Í frumvarpinu er hreyft þörfu máli, sem er að lækka húsnæðiskostnað tekjulágra leigjenda, og eðlilegt að vanda löggjöf um þetta efni svo sem kostur er. Lykilatriði í slíkri löggjöf er að tryggja að bæturnar leiði ekki til hækkunar á húsaleigu eins og skýrt er tekið fram í ályktun 37. þings Alþýðusambands Íslands frá árinu 1992. Húsaleigubætur koma að litlu gagni fyrir leigutaka ef húsaleiga hækkar samsvarandi á móti.
    Eins og bent er á í fyrrnefndri ályktun ASÍ þarf samhliða því að taka upp húsaleigubætur að endurskoða skattlagningu leigutekna af íbúðarhúsnæði.
    Minni hlutinn leggur ríka áherslu á að ekki verði hrapað að lagasetningu um þetta efni því þá verður verr af stað farið en heima setið.
    Í umsögnum, sem nefndinni bárust, kemur glögglega fram að lagalegum búningi málsins er verulega áfátt og voru fjölmargar athugasemdir gerðar við frumvarpið. Umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga endurspeglar þær alvarlegu athugasemdir sem sveitarfélögin hafa við frumvarpið. Þær helstu eru:
—    Gert er ráð fyrir að komið verði á flóknu samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga.
—    Sveitarfélögin bera alla ábyrgð á framkvæmd kerfisins en ríkisvaldið setur reglurnar og ákvarðar einhliða sinn hlut í kostnaði.
—    Húsaleigubótakerfið leiðir til verulegs kostnaðar fyrir sveitarfélögin án þess að á móti komi tekjur.
—    Lögð er sú kvöð á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga að annast greiðslur frá ríki til sveitarfélaga, en engin trygging er fyrir því að ríkissjóður endurgreiði Jöfnunarsjóði hlutdeild ríkissjóðs í húsaleigubótunum.
—    Rétt væri að húsaleigubætur yrðu greiddar í gegnum skattkerfið líkt og vaxtabætur. Með því fyrirkomulagi yrði eðlileg samsvörun milli þessara tveggja endurgreiðslukerfa ríkisins varðandi húsnæðismál og sveitarfélögin væru þá ekki dregin til ábyrgðar á framkvæmd og fjármögnun á kerfi þar sem ríkisvaldið ákvarðar helstu atriði, svo sem fjárhæð og útreikning bóta.
    Minni hlutinn tekur undir framangreindar athugasemdir sem borgarráð Reykjavíkur hefur einróma gert að sínum.
    Auk þess gerir minni hlutinn eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið:
—    Húsaleigubætur eiga að vera réttur leigjenda sem þeim er ákvarðaður með almennum reglum í löggjöf eftir efnum og ástæðum hvers og eins.
—    Frumvarpið viðurkennir ekki bæturnar sem slíkan rétt heldur eiga leigjendur það á hverju ári undir ákvörðun sveitarstjórnar hvort bæturnar standa þeim til boða. Það er með öllu óásættanlegt að frumvarpið feli ekki í sér almennan rétt leigjenda til húsaleigubóta.
—    Grundvallaratriði hvað varðar rétt til húsaleigubóta og upphæð þeirra á að ákvarða í löggjöf en ekki reglugerð eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.
—    Fyrir liggja yfirlýsingar um að meginhluti kostnaðar ríkissjóðs af húsnæðisbótum verður sóttur í framlög ríkisins til húsnæðismála. Ekki hefur verið gerð grein fyrir áhrifum þessa en fyrir liggur að ef framlög ríkisins í Byggingarsjóð verkamanna verða lækkuð þýðir það að takmarka verður byggingar félagslegra íbúða.
—    Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir að námsmenn geti fengið húsaleigubætur ef þeir stunda nám sitt utan heimabyggðar en það getur ekki verið ásættanlegt að mismuna mönnum á þann hátt eftir búsetu.
—    Nokkur atriði frumvarpsins þarfnast frekari athugunar ef ætlunin er að lögfesta frumvarpið í þeim búningi sem það er nú í og verður gerð grein fyrir þeim í framsögu.
    Af framanrituðu er ljóst að gjörbreyta verður frumvarpinu og nánast endursemja það til þess að sníða af því verstu agnúana. Með tilliti til þess og að óþarft er að koma á fót viðamiklu kostnaðarskiptingar- og endurgreiðslukerfi með tilheyrandi kostnaði til viðbótar þeim kerfum sem fyrir eru leggur minni hluti félagsmálanefndar til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið að endurskoða það með hliðsjón af fram komnum umsögnum og að leggja fram nýtt frumvarp næsta haust.

Alþingi, 4. maí 1994.



Kristinn H. Gunnarsson.





Fylgiskjal I.


Umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.


(22. apríl 1994.)




(Repró, 2 síður.)



Virðingarfyllst,



Þórður Skúlason,


framkvæmdastjóri.






Fylgiskjal II.


Umsögn bæjarráðs Akraness.


(25. apríl 1994.)



(Repró, 2 síður.)



Virðingarfyllst,



Jón Pálmi Pálsson, bæjarritari.





Fylgiskjal III.


Umsögn bæjarstjórnar Borgarness.


(25. apríl 1994.)



(Repró, 1 síða.)



Virðingarfyllst,



Óli Jón Gunnarsson, bæjarstjóri.





Fylgiskjal IV.


Umsögn bæjarstjórnar Stykkishólms.


(25. apríl 1994.)



(Repró, 1 síða.)



Virðingarfyllst,



Ólafur Hilmar Sverrisson, bæjarstjóri.





Fylgiskjal V.


Umsögn bæjarráðs Akureyrar.


(20. apríl 1994.)



(Repró, 1 síða.)



Valg. Baldvinsson.





Fylgiskjal VI.


Umsögn bæjarráðs Selfoss.


(29. apríl 1994.)



(Repró, 1 síða.)



Virðingarfyllt,


bæjarstjórinn á Selfossi,



Karl Björnsson.





Fylgiskjal VII.


Umsögn bæjarstjórnar Njarðvíkur.


(25. apríl 1994.)



    1. Með bréfi félagsmálanefndar Alþingis, dags. 14. apríl sl., er bæjarstjórn Njarðvíkur beðin um að gefa umsögn um frumvarp til laga um húsaleigubætur. Óskað er eftir að umsögnin liggi fyrir eigi síðar en 20. apríl, þ.e. gefnir eru 2–3 dagar eftir að bréfið barst. Ekki fylgdi bréfinu nein skýring á þessum stutta fresti sem gefinn var, en ástæða er til að mótmæla vinnubrögðum af þessu tagi um jafnveigamikið mál fyrir sveitarfélögin og þetta frumvarp er.
    Þótt umsögn þessi náist ekki innan tilskilins frests verður félagsmálanefnd að vera ljós skýr afstaða bæjaryfirvalda í Njarðvík gagnvart frumvarpi þessu og því fylgir hér stutt umsögn um það.
    2. Bæjarstjórn Njarðvíkur er hlynnt þeim markmiðum laganna skv. 1. mgr. 1. gr. að lækka húsnæðiskostnað tekjulágra leigjenda og draga úr aðstöðumun á húsnæðismarkaðnum. Hins vegar mótmælir bæjarstjórnin þeim ásetningi að ná þessum markmiðum með sameiginlegri kostnaðarþátttöku ríkis og sveitarfélaga.
    3. Bæjarstjórnin telur að með sameiginlegu verkefni af þessu tagi sé verið að ganga á svig við eðlilega verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Verkefnin eigi ef þess er nokkur kostur að vera á einni hendi. Fyrir því liggja veigamikil rök sem ekki verða tíunduð hér. Nægir að benda á greinargerð með lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem sett voru 1989.
    Um frjálsan rétt sveitarfélaganna til að ákveða hvort greiddar séu húsaleigubætur stenst ekki. Öll sveitarfélögin hljóta að vinna að framkvæmdinni á svipaðan hátt, hvað sem slíku ákvæði líður skv. 2. gr.
    4. Það er grundvallarskoðun bæjarstjórnar Njarðvíkur að húsaleigubætur eigi að meðhöndlast með svipuðum hætti og vaxta- og húsnæðisbætur hafa gert gagnvart íbúðareigendum í landinu, þ.e. unnið í gegnum skattakerfið, en ekki að blanda þeim saman við félagslega aðstoð sveitarfélaganna og búa þannig til eitthvert bákn félagslegrar framfærslu í húsnæðismálum á vegum félagsmálanefnda sveitarfélaganna. Þessar húsaleigubætur eiga fátt skylt við félagsaðstoð sveitarfélaganna í húsnæðismálum þrátt fyrir þannig yfirbragð á skilyrðum laganna um rétt til bóta. Hér yrði að mestu leyti um að ræða nýjan hóp „viðskiptavina“ félagsmálanefndanna ef þetta fyrirkomulag verður ofan á en ekki hefðbundna skjólstæðinga þeirra.
    5. Þá er ástæða til að gagnrýna sérstaklega kostnaðarskiptinguna skv. 3. gr. Fyrir hið fyrsta er vegið að grundvallaratriðum í fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga, þ.e. löggjafinn ákveður að annar eigi að borga fyrir framkvæmd laganna án þess að auknir tekjustofnar komi á móti. Grundvöllur kostnaðarskiptingarinnar 60%–40% er byggður á mjög veikum grunni enda er það viðurkennt í greinargerðinni. Boðað er að endurskoða eigi lögin innan tveggja ára vegna óvissuþátta er tengjast kostnaði við framkvæmd laganna. Viðurkennt er að ófullnægjandi gögn liggi fyrir um núverandi umfang félagslegrar aðstoðar í húsnæðismálum, stærð og umfang leigjendamarkaðar og samsetningu hans. Engu að síður er fundin út skiptiprósenta sem vinna á eftir. Samkvæmt henni getur kostnaður Njarðvíkurbæjar orðið þessi:
    Húsaleigubætur 650 millj. kr. á landsvísu, Njarðvíkingar eru 1% landsmanna, og falla því 6,5 millj. kr. í hlut Njarðvíkinga. Bæjarsjóður greiðir 2,6 millj. kr. af þeirri upphæð. Hún er fimmfalt hærri en öll húsnæðisaðstoð sem félagsmálaráð Njarðvíkur veitir skjólstæðingum sínum á einu ári. Þetta húsaleigubótakerfi mun því þýða gríðarlegan kostnaðarauka fyrir Njarðvíkurbæ sem óbreyttum tekjustofnum er ætlað að standa undir. Hér er stuðst við áætlaðan kostnað frá Þjóðhagsstofnun sem gæti hæglega orðið miklum mun hærri upphæð vegna hárra tekju- og eignamarka sem eru mun hærri í frumvarpinu en félagsmálastofnun miðar við. Bæjarstjórn telur einnig að þetta frumvarp bjóði upp á verulega misnotkun og jafnvel að leiga hækki verulega.
    Að mati bæjarstjórnar felur þetta frumvarp í sér tímasprengju sem gæti hæglega sprungið á stuttum tíma og kollvarpað fjárhag sveitarfélaganna.
    Bæjarstjórn Njarðvíkur leggur til að afgreiðslu frumvarpsins verði frestað á yfirstandandi þingi og gerðar á því þær breytingar sem dragi sveitarfélögin út úr framkvæmd laganna.

Kristján Pálsson, bæjarstjóri.





Fylgiskjal VIII.


Umsögn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja.


(18. apríl 1994.)



(Repró, 2 síður.)




Með kveðju,



Ögmundur Jónasson, form. BSRB.





Fylgiskjal IX.


Umsögn Alþýðusambands Íslands.


(20. apríl 1994.)



(Repró, 3 síður.)



Fyrir hönd Alþýðusambands Íslands,



Guðmundur Gylfi Guðmundsson,


hagfræðingur.



Fylgiskjal X.


Umsögn Búseta — landssambands.


(18. apríl 1994.)



(Repró, 1 síða.)



Virðingarfyllst,


f.h. Búseta — landssambands,



Reynir Ingibjartsson.