Ferill 626. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 626 . mál.


1227. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



1. gr.


    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, III, svohljóðandi:
    Viðskiptaráðherra er heimilt að setja reglugerðir um öryggi vöru sem boðin er neytendum hér á landi í atvinnuskyni eða neytendum í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins af aðilum sem staðfestu hafa hér á landi að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er leiðir af samningi um Evrópskt efnahagssvæði og að því leyti sem ekki er kveðið á um öryggi hlutaðeigandi vöru og eftirlit með því að hún uppfylli settar kröfur í öðrum lögum. Í slíkum reglugerðum skal einnig kveðið á um hvernig eftirliti með því að vara uppfylli þær kröfur sem til hennar eru gerðar skuli háttað.
    Löggildingarstofan annast eftirlit skv. 1. mgr.
    Ákvæði þetta fellur úr gildi 1. júní 1995.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði og viðaukum með honum eru ýmis ákvæði um öryggi vöru og eftirlit með því að vara uppfylli þær kröfur sem til hennar eru gerðar. Einnig eru þar ákvæði um vörur sem geta reynst hættulegar heilsu og öryggi neytenda þar eð þær virðast aðrar en þær raunverulega eru. Kveðið er á um fjölmargar af þeim vörum sem fjallað er um í EES-samningnum í ýmsum sérlögum hér á landi. Sem dæmi má nefna að vélar, vinnuvélar, katlar og þrýstikútar falla undir ákvæði laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, eiturefni falla undir lög um eiturefni og hættuleg efni og barnabílstólar og hjólreiðahjálmar falla undir umferðarlög. Hins vegar eru ýmsar vörur á markaði sem ekki falla tvímælalaust undir sérlög hér á landi eða eru á mörkum þess að gera það.
    Frumvarp til laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu var lagt fram tiltölulega seint á þessu þingi. Í því er lagt til að komið verði á fót viðamiklu kerfi til að hafa eftirlit með öryggi vöru á markaði. Slíkt eftirlitskerfi snertir starfssvið margra eftirlitsstofnana ríkisins. Þar sem hér er um tiltölulega flókið mál að ræða, sem krefst ítarlegrar skoðunar, telur nefndin ófært að afgreiða frumvarpið frá sér. Vegna ákvæða EES-samningsins telur nefndin þó nauðsynlegt að viðskiptaráðherra fái heimild til að gefa út reglugerðir þar sem fjallað er um öryggi þeirra vöruflokka sem ekki er kveðið á um í öðrum lögum og hvernig eftirliti með þeim skuli háttað.
    Í 1. mgr. 1. gr. er lagt til að nýju bráðabirgðaákvæði verði bætt við lög nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu. Þar er viðskiptaráðherra veitt heimild til að setja reglugerðir um öryggi neytendavöru og eftirlit með því að vara uppfylli þær kröfur sem til hennar eru gerðar. Þessi heimild tekur þó aðeins til vöru sem ekki fellur undir ákvæði annarra laga. Þetta þýðir t.d. að matvæli, lyf og eiturefni eru undanþegin ákvæðum frumvarpsins. Þegar liggja fyrir drög að reglugerð um öryggi leikfanga og hættulegar eftirlíkingar og reglugerð um byggingarvörur.
    Í 2. mgr. 1. gr. er lagt til að Löggildingarstofan hafi eftirlit með að vara uppfylli þær kröfur sem til hennar eru gerðar samkvæmt reglugerðum sem settar verða á grundvelli heimildarinnar í 1. mgr. Í 17. gr. laganna er kveðið á um að Löggildingarstofan skuli, eftir því sem aðstæður mæla með, fela aðilum sem þess óska og hafa sérþekkingu og nauðsynlega hæfni að leysa verkefni sem henni eru falin samkvæmt lögunum. Þetta á að sjálfsögðu einnig við um markaðseftirlit.
    Í 3. mgr. 1. gr. er lagt til að þetta nýja bráðabirgðaákvæði gildi fram til 1. júní 1995. Verður að ætla að innan þess tíma muni verða sett almenn lög um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu.