Ferill 478. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 478 . mál.


1262. Frumvarp til laga



um breyting á þjóðminjalögum, nr. 88/1989, sbr. lög nr. 43/1991.

(Eftir 2. umr., 6. maí.)



    Samhljóða þskj. 733 með þessum breytingum:

    1. gr. hljóðar svo:
    2. gr. laganna orðast svo:
    Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn þjóðminjavörslu í landinu.
    Menntamálaráðherra skipar þjóðminjaráð til fjögurra ára í senn. Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir einn fulltrúa, Félag íslenskra safnamanna einn, Háskóli Íslands einn, Hið íslenska kennarafélag og Kennarasamband Íslands einn sameiginlega og einn fulltrúi er skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Þjóðminjavörður og safnstjóri Þjóðminjasafns ásamt einum fulltrúa tilnefndum af föstum starfsmönnum safnsins úr þeirra röðum eiga setu á fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétti.
    Hlutverk þjóðminjaráðs er að vinna að mörkun stefnu og gera langtímaáætlun um starfsemi Þjóðminjasafns Íslands og þjóðminjavörsluna í heild og hafa yfirumsjón með gerð fjárhagsáætlunar og framkvæmd hennar. Ráðið er stjórnarnefnd Þjóðminjasafns Íslands og hefur umsjón með rekstri þess. Að öðru leyti sinnir ráðið þeim verkefnum sem því eru sérstaklega falin í lögum þessum.
    Þjóðminjavörður hefur umsjón með þjóðminjavörslu í landinu öllu. Hann er forstöðumaður Þjóðminjasafns Íslands og framkvæmdastjóri þjóðminjaráðs. Forseti Íslands skipar þjóðminjavörð til fimm ára í senn að tillögu menntamálaráðherra sem leita skal umsagnar þjóðminjaráðs. Að öðru jöfnu skal ráðinn maður með sérfræðilega menntun í menningarsögu og reynslu af stjórnunarstörfum.
    Birta skal árlega starfsskýrslu þjóðminjaráðs og Þjóðminjasafns Íslands.

    2. gr. hljóðar svo:
    3. gr. laganna orðast svo:
    Þriggja manna fornleifanefnd fjallar um og veitir leyfi til allra staðbundinna og tímabundinna fornleifarannsókna og er Þjóðminjasafni Íslands til ráðgjafar um fornleifavörslu, fornleifaskráningu og fornleifarannsóknir. Menntamálaráðherra skipar fornleifanefnd til fjögurra ára í senn. Háskóli Íslands og Félag íslenskra fornleifafræðinga tilnefna einn fulltrúa hvor og skulu þeir hafa háskólapróf í fornleifafræði sem aðalgrein. Þjóðminjaráð tilnefnir einn fulltrúa. Menntamálaráðherra skipar formann úr hópi nefndarmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Þjóðminjavörður, eða fulltrúi hans, situr fundi nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétti.

    4. gr. hljóðar svo:
    5. gr. laganna orðast svo:
    Þjóðminjasafn Íslands er eign íslenska ríkisins. Það er miðstöð þjóðminjavörslu í landinu.
    Við Þjóðminjasafn Íslands skal auk þjóðminjavarðar starfa safnstjóri sem stjórnar daglegri starfsemi safnsins undir yfirumsjón þjóðminjavarðar. Safnstjóri er staðgengill þjóðminjavarðar. Menntamálaráðherra ræður safnstjóra til fimm ára í senn að fengnum tillögum þjóðminjavarðar og þjóðminjaráðs. Safnstjóri skal að öðru jöfnu hafa sérfræðilega menntun í menningarsögu, góða þekkingu á rekstri safna og reynslu af stjórnunarstörfum.
    Um deildaskiptingu safnsins skal mælt fyrir í reglugerð að fengnum tillögum þjóðminjaráðs. Deildir safnsins geta verið sjálfstæðar rekstrareiningar, haft stöðu sérstakra safna eða stofnana.
    Þjóðminjavörður ræður deildarstjóra og aðra sérfræðinga safnsins með samþykki þjóðminjaráðs. Deildarstjórar skulu ráðnir til fimm ára í senn. Skulu þeir að öðru jöfnu hafa sérfræðimenntun á starfssviði sínu. Þjóðminjavörður annast ráðningu annarra starfsmanna Þjóðminjasafns.