Ferill 629. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 629 . mál.


1322. Tillaga til þingsályktunar



um stofnun hátíðarsjóðs í tilefni 50 ára afmælis lýðveldisins.

Flm.: Geir H. Haarde, Páll Pétursson, Rannveig Guðmundsdóttir,


Ragnar Arnalds, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.



    Alþingi ályktar, í tilefni 50 ára afmælis lýðveldis á Íslandi, að stofna sjóð, lýðveldissjóð, og verja til hans 100 milljónum króna árlega næstu fimm ár.
    Ráðstöfunarfé sjóðsins skal ár hvert á starfstíma hans, 1995–1999, varið með þessum hætti:
    Helmingi fjárhæðarinnar, 50 milljónum króna, til átaks í vistfræðirannsóknum á lífríki sjávar.
    Helmingi fjárhæðarinnar, 50 milljónum króna, til eflingar íslenskri tungu.
    Alþingi kýs þriggja manna sjóðstjórn. Hún skal staðfesta rannsóknaáætlun skv. a-lið og reglur um stjórn verkefnisins, svo og um þátttöku vísindamanna og stofnana í því. Enn fremur skal sjóðstjórnin skipta því fé sem er til ráðstöfunar skv. b-lið og samþykkja verkefnaáætlun.

Greinargerð.


    Þegar Íslendingar minnast 50 ára afmælis lýðveldis á Íslandi er við hæfi að Alþingi taki ákvörðun um að treysta þann efnahagslega og menningarlega grundvöll er lýðveldið hvílir á. Samkvæmt tillögunni skal stofna sérstakan sjóð, lýðveldissjóð, er fái til ráðstöfunar 100 milljónir króna árlega á næstu fimm árum. Helmingi fjárhæðarinnar, 50 milljónum króna, verði á ári hverju varið til rannsókna á lífríki sjávar og á sama hátt verði 50 milljónum króna varið til að treysta og efla íslenska tungu. Á þann hátt verði í senn búið í haginn fyrir efnahagslega hagsæld þjóðarinnar á komandi árum og hlúð að þeim þáttum er gera Íslendinga að einni þjóð. Sjóðnum er ætlað að starfa í fimm ár, 1995–1999, og munu árleg framlög úr sjóðnum verða greidd fyrir lok hvers árs.
    Gert er ráð fyrir að stjórn sjóðsins sé skipuð utanþingsmönnum og hún láti semja tillögu að skipulagsskrá fyrir sjóðinn, að höfðu samráði við forsætisnefnd þingsins, sem staðfest verði með venjubundnum hætti fyrir árslok 1994, sbr. lög nr. 19/1988. Þá er enn fremur ætlun flutningsmanna að undirbúningi fyrir þau verkefni, sem sjóðurinn tekur til, ljúki fyrir næstu áramót þannig að vinna að rannsóknum og verkefnum samkvæmt tillögugreininni geti hafist í ársbyrjun 1995. Gert er ráð fyrir að fjárframlög í sjóðinn verði færð sem sjálfstæður fjárlagaliður undir æðstu stjórn ríkisins í fjárlögum en skrifstofa Alþingis annist fjárreiður sjóðsins.
    Umsjón með vistfræðirannsóknum á lífríki sjávar verður á hendi faglegrar verkefnisstjórnar og skulu reglur um störf hennar staðfestar af sjóðstjórn. Jafnframt er gert ráð fyrir að sjóðstjórnin staðfesti rannsóknaáætlunina. Það er skoðun flutningsmanna að heppilegast sé að Hafrannsóknastofnun, er býr yfir mestri þekkingu á vistfræði sjávar hérlendis, hafi forustu um undirbúning þessa verkefnis. Það kæmi því í hlut Hafrannsóknastofnunar að gera tillögur til sjóðstjórnar um rannsóknaáætlunina, stjórn verkefnisins og þátttöku vísindamanna og stofnana í verkefninu. Verkefnisstjórn hefði á hendi hina faglegu umsjón með verkefninu og annaðist greiðslur fyrir einstaka þætti þess. Gera verður ráð fyrir að verkefnið verði einkum á hendi starfsmanna Hafrannsóknastofnunar en jafnframt er ætlast til þess að stofnunin nýti sér þekkingu annarra vísindamanna eftir því sem við á.
    Flutningsmenn gera ráð fyrir að þegar rannsóknum á vistfræði sjávar er lokið samkvæmt rannsóknaáætlun hafi verkefnisstjórn forgöngu um að niðurstöðurnar verði gefnar út í skýrslu og að jafnframt verði efnt til ráðstefnu þar sem niðurstöður rannsóknanna verði kynntar.
    Samkvæmt b-lið tillögunnar skal verja 50 milljónum króna árlega til að treysta grundvöll íslenskrar tungu. Stjórn sjóðsins er ætlað að ákveða á starfstíma sjóðsins skiptingu þessa fjár en samkomulag er milli þingflokka um að einkum verði höfð í huga þrjú verkefni: Í fyrsta lagi efling Málræktarsjóðs, þannig að í sjóðnum verði eigi minna en 100 milljónir króna að fimm árum liðnum. Í öðru lagi útgáfa nýrra rita um íslenska tungu og málmenningu fyrir skólaæsku landsins. Í þriðja lagi önnur þau verkefni sem að mati sjóðstjórnar eru til þess fallin að efla íslenska tungu. Stjórn sjóðsins er ætlað að gangast fyrir gerð verkefnaáætlunar um hin tvö síðasttöldu atriði.
    Hér á eftir verður gerð nánari grein fyrir báðum þáttum tillögunnar.


A. RANNSÓKNIR Á VISTFRÆÐI SJÁVAR


    
1. Mikilvægi rannsókna á vistfræði sjávar.
    Efnahagsleg velferð íslensku þjóðarinnar er ekki síst komin undir skynsamlegri nýtingu fiskstofnanna við landið en afrakstur þeirra ræðst m.a. af umhverfisaðstæðum í sjónum. Þannig hafa rannsóknir undanfarinna ára leitt í ljós að miklar sveiflur eru frá ári til árs á ástandi sjávar og í lífríkinu á lægstu þrepum fæðukeðjunnar. Oft hefur og verið unnt að sýna fram á það hvernig slíkar breytingar hafa síðan sagt til sín í viðkomu og vexti nytjastofna. Allt of lítið er þó vitað um það hvernig umhverfisskilyrðin hafa áhrif á nýliðun, vöxt, kynþroska og þar með afrakstur nytjastofna og því mikilvægt að auka þekkingu okkar á þessu sviði. Þá er og rétt að geta þess að íslenska landgrunnið og íslensk hafsvæði eru óaðskiljanlegir hlutar af náttúru Íslands og af þeirri ástæðu hlýtur það að vera siðferðileg skylda okkar að stunda öflugar rannsóknir á hafinu og lífríki þess.
    Á vegum Hafrannsóknastofnunar hefur verið unnið að svokölluðum fjölstofnarannsóknum síðastliðin þrjú ár með sérstakri fjárveitingu frá Alþingi. Hér er um sérstakt átaksverkefni að ræða sem beinist einkum að tengslum tveggja eða fleiri dýrastofna. Markmiðið er að í framtíðinni verði unnt að veita stjórnvöldum fiskveiðiráðgjöf sem taki mið af innbyrðis samspili fiskstofna (t.d. sambandi loðnu- og þorskstofns sem báðir eru mikilsverðir nytjastofnar). Þetta átak hefur einkum takmarkast við hina nýtanlegu fiskstofna en jafnframt er mönnum ljóst að skilningur á nytjastofnunum mun ekki fást nema með ítarlegum rannsóknum á tengslum þeirra við umhverfi sitt og lægstu þrep fæðukeðjunnar í sjónum. Þess vegna er nauðsynlegt að efla rannsóknir á vistfræði þörunga, dýrasvifs, fisklirfa og botndýra.
    Þjóðfélagið gerir sífellt meiri kröfur um þekkingu á sambandi umhverfis og nytjastofna. Hins vegar er fyrirsjáanlegt að með núverandi fjölda starfsmanna, rannsóknaraðstöðu og fjárveitingum gerir Hafrannsóknastofnun ekki meira en að halda í horfinu hvað varðar allra nauðsynlegustu vistfræðirannsóknir. Á undanförunum árum hefur þannig heilum fræðasviðum undirstöðugreina á sviði hafrannsókna einungis verið sinnt af einum til tveimur sérfræðingum. Það segir sig sjálft að jafnvel þótt til verka veljist hinir hæfustu menn þarf mun meira að koma til þannig að mikilsverðum spurningum verði svarað og nauðsynlegrar þekkingar aflað fljótt og skilmerkilega. Átak sambærilegt fjölstofnarannsóknunum, sem aðallega mundi beinast að hinu ólífræna umhverfi sjávar og lægstu þrepum fæðukeðjunnar í sjónum, er því nauðsynlegt til að stuðla að auknum skilningi á því hvernig umhverfisskilyrði og ónýttir dýrastofnar hafa áhrif á þá stofna sem við nýtum. Slík vitneskja er og forsenda þess að okkur takist að skilja til fullnustu þá ferla náttúrunnar sem ráða afrakstri Íslandsmiða. Langtímamarkmið slíkra rannsókna ætti síðan að vera samtvinnun sem flestra þeirra þátta, sem saman mynda vistkerfi sjávarins umhverfis landið, með það að markmiði að geta sagt fyrir um hvernig ákveðin umhverfisskilyrði hafa áhrif á nytjastofna frá ári til árs og jafnvel nokkur ár fram í tímann.
    Á undanförnum árum hafa farið fram meðal sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar miklar umræður um mikilvægi þess að efla rannsóknir í sjávarvistfræði. Þá hafa ráðamenn stofnunarinnar oft vakið opinberlega athygli á nauðsyn þess að efla þetta rannsóknasvið. Í raun má segja að þegar liggi fyrir frumáætlanir að mörgum verkefnum sem brýnt er að sinna á þessu sviði en hingað til hafa setið á hakanum vegna fjárskorts. Af sömu ástæðum hefur öðrum verkefnum ekki verið sinnt af þeim krafti sem æskilegt hefði verið.

2. Brýn rannsóknarverkefni á sviði vistfræði sjávar.
    Innan Hafrannsóknastofnunar liggja fyrir hugmyndir um fjögur verkefni sem stofnunin telur að séu einna brýnust á sviði vistfræði sjávar. Hér er um viðamikil verkefni að ræða og er gert ráð fyrir að eitt eða tvö þeirra yrðu fyrir valinu sem rannsóknarverkefni samkvæmt nánari útfærslu í þeirri rannsóknaáætlun sem þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir. Til nánari glöggvunar verður hér gerð stuttlega grein fyrir þessum fjórum rannsóknarhugmyndum.

Vistfræði nytjafiska á fyrsta ári.
    Árgangastyrkur fiskstofna er talinn ráðast að verulegu leyti á fyrsta árinu í lífi fiskanna. Miklar breytingar geta verið á ástandi sjávar og í lífríkinu á lægstu þrepum fæðukeðjunnar og vitað er að þær hafa mikil áhrif á vöxt og viðgang fiskstofnanna. Á undanförnum árum hafa farið fram á vegum Hafrannsóknastofnunar nokkrar rannsóknir á því flókna samspili umhverfis, þörunga, átu, fisklirfa og seiða sem hér um ræðir en þær þyrfti hins vegar að efla til muna til þess að verulegur árangur náist. Hér er í raun um að ræða rannsóknarverkefni sem nær til flestra þátta haf- og sjávarlíffræði og kallar á rannsóknaátak sem þyrfti að ná yfir stóran hluta grunnslóðarinnar við landið og standa yfir í nokkur ár. Verkþættir innan þessa verkefnis yrðu m.a. eftirfarandi:
    Fæðutengsl þörunga, átu og fisklirfa.
    Afræningjar fisklirfa og seiða (sjófuglar, svifdýr, hveljur, fiskar).
    Rek fisklirfa og seiða frá hrygningarslóð á uppeldisslóð.
    Fæða þorsks um myndbreytingu.
    Áhrif eitraðra þörunga á fisklirfur.
    Hrygning rauðátu í tengslum við fæðuöflun fisklirfa.
Þarabeltið sem uppeldis- og hrygningarsvæði nytjafiska.
    Mikilvægi þaraskóganna felst í því að framleiðni þeirra er mjög mikil og skiptir miklu máli á grunnsvæðum. Þessi framleiðni nýtist að einhverju leyti þörungaætum beinlínis en stór hluti hennar nýtist t.d. skeldýrum sem sía þarabrotin úr sjónum. Þarabeltið er mikilvægt fæðu-, uppeldis- og hrygningarsvæði fyrir margar tegundir nytjafiska, t.d. þorsk, ufsa og hrognkelsi. Umhverfisskilyrði, fæðuframboð og afrán skipta sennilega miklu máli fyrir vöxt þeirra og viðgang, en um þetta er harla lítið vitað. Hér á eftir eru dæmi um afmörkuð verkefni á þessu sviði:
    Tegundasamsetning dýra og þörunga í þaraskóginum.
    Framleiðni þara við Ísland.
    Beit dýra í þarabeltinu.
    Fæða fiska og fugla sem sækja fæðu sína í þarabeltið.
    Fæðutengsl í þaraskógi: þörungar, þörungaætur, síarar, rándýr.

Vistfræði svif- og botnsamfélaga.
    Bæði plöntur og dýr teljast til svifsins. Plöntusvifið myndar þann grunn sem flest annað líf í sjónum byggist á, en dýrasvifið tengir saman frumframleiðni þörunganna við efri fæðuþrep, t.d. fiska og botndýr. Þannig lifa flestir fiskstofnar okkar á dýrasvifi meðan þeir eru á lirfustigi, og uppsjávarfiskar eru reyndar háðir dýrasvifi um fæðu alla ævina. Botndýrin eru hins vegar mikilvæg fæða ýmissa botnfiska á síðari æviskeiðum. Þannig gegna bæði svifið og botndýrin mikilvægu hlutverki sem fæða fyrir fiskstofnana. Líklegt er að sveiflur í framleiðni og magni þessara lífveruhópa endurspeglist síðar í vexti og afkomu nytjastofnanna. Með verkefninu er stefnt að auknum skilningi á því hvað stjórni stofnstærð þessara hópa og vonast er til að þar með fáist aukin vitneskja um þá þætti sem hafa áhrif á breytilega nýliðun fiskstofnanna.
    Fyrirhuguð rannsóknasvæði eru á völdum stöðum allt í kringum landið. Stefnt er að því að fá með tímanum heildaryfirlit yfir hin ólíku mið við landið. Meðal verkefna sem falla undir þennan lið eru:
    Ársferlar þörunga í tengslum við umhverfisþætti.
    Lífsferlar dýrasvifs í tengslum við umhverfisþætti.
    Lífsferlar botndýra í tengslum við umhverfisþætti.
    Magn og útbreiðsla dýrasvifs á fæðuslóð loðnu fyrir norðan land.
    Samspil dýrasvifs og strauma.
    Veturseta og vorkoma rauðátu upp á landgrunnið fyrir sunnan land í tengslum við hafstrauma og þörunga.
    Fæðuframboð og lífþyngd samfélaga botndýra.
    Áhrif storma á samfélög botndýra.
    Áhrif veiðarfæra á samfélög botndýra.
    Nýting fjarkönnunar í rannsóknum á vistfræði sjávar.

Afrakstursgeta Íslandsmiða. Orkuflæðið um vistkerfi íslenska hafsvæðisins.
    Með verkefninu er stefnt að því að fá yfirlit yfir lífmassa og framleiðni mismunandi fæðuþrepa á íslenska hafsvæðinu. Nýttar verða upplýsingar um heildarfrumframleiðni íslenska hafsvæðisins og athugað hversu stór hluti hennar er nýttur á efri fæðuþrepum, þar á meðal af fiskstofnunum. Þannig ætti að fást vitneskja um burðargetu íslenska hafsvæðisins með tilliti til fiskstofnanna. Verkefnið er að talsverðu leyti fólgið í úrvinnslu tiltækra gagna og líkanagerð.

B. ÁTAK TIL EFLINGAR ÍSLENSKRI TUNGU


    Ekki þarf að hafa mörg orð til að rökstyðja þá staðhæfingu að varðveisla tungunnar ráði úrslitum um tilvist sjálfstæðs menningarsamfélags á Íslandi, hvort sem skoðað er í ljósi sögunnar eða horft til framtíðar. Fá verkefni verða því talin brýnni í viðleitni þjóðarinnar til að treysta framtíðargrundvöll sinn en þau sem miða að því að efla íslenska tungu og búa í haginn fyrir viðgang hennar í heimi sífelldra breytinga.
    Eins og fram kemur í inngangskafla þessarar greinargerðar er stefnt að því að fjárframlögum samkvæmt tillögunni til eflingar tungunni verði varið til verkefna á þremur meginsviðum. Skal nú vikið nánar að hverju þeirra.

1. Málræktarsjóður.
    Sjóðurinn var stofnaður með skipulagsskrá sem staðfest var 7. mars 1991 (nr. 115/1991). Aðalstofnandi var Íslensk málnefnd, sem lagði fram 5.380.000 kr. á stofndegi. Það fé var að hluta til gjafir sem málnefndinni höfðu borist til þessa verkefnis, hin fyrsta frá Sænsku akademíunni á 25 ára afmæli málnefndar 1989, og að hluta til framlög úr ríkissjóði. Aðrir sem lögðu fé í sjóðinn fyrir árslok 1992 teljast einnig stofnendur samkvæmt skipulagsskrá. Stofnendur urðu alls 219 að Íslenskri málnefnd meðtalinni. Meðal þeirra eru einstaklingar, samtök, fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög. Heildarfjárhæð stofnframlaga varð 11.745.409 kr.
    Samkvæmt skipulagsskrá er meginmarkmið Málræktarsjóðs að beita sér fyrir og styðja hvers konar starfsemi til eflingar íslenskri tungu og varðveislu hennar. Hann er bæði framkvæmda- og verðlaunasjóður, en aðalhlutverk hans er að veita styrki til verkefna. Úthlutun er ekki hafin úr sjóðnum, enda vantar mikið á að höfuðstóll hans hafi náð settu marki. Í skipulagsskrá er sjóðnum einkum ætlað að sinna þessum verkefnum:
    að styrkja fjárhagslega nýyrða- og íðorðastarf í landinu,
    að styrkja fjárhagslega starf orðanefnda sem vinna að þýðingum á tæknimáli eða sérhæfðu máli,
    að styrkja fjárhagslega útgáfu handbóka og leiðbeininga um málnotkun,
    að styrkja fjárhagslega útgáfu kennsluefnis í íslensku,
    að styrkja fjárhagslega útgáfu orðabóka,
    að veita einstaklingum, samtökum og stofnunum viðurkenningu fyrir málvöndun og málrækt,
    að styrkja með fjárframlögum hvers konar framtak sem verða má til þess að markmiðum Málræktarsjóðs verði náð.
    Síðan Málræktarsjóður var stofnaður hafa framlög til hans í fjárlögum verið 2,4 milljónir króna á ári. Önnur framlög hafa farið eftir atvikum. Sjóðurinn hefur helst haft tekjur af sölu minningarspjalda og af heiðursgjöfum. Ávöxtun sjóðsins hefur gengið vel. Hinn 1. júní 1994 voru í Málræktarsjóði um 19 milljónir króna.
    Vitað er um mörg þörf og brýn verkefni sem bíða þess að úthlutun úr Málræktarsjóði geti hafist. Einstök verkefni er auðvitað ekki unnt að nefna hér en augljósust er þörfin fyrir stuðning við nýyrða- og íðorðastarfsemi orðanefnda og einstaklinga í ýmsum fræði- og starfsgreinum því að engir sjóðir hafa haft það hlutverk að styrkja slík störf. Margar orðanefndir eru að fást við verkefni sem kosta milljónir og jafnvel tugi milljóna króna. Ærin verkefni bíða einnig á mörgum öðrum sviðum málræktar.

2. Námsefni um móðurmálið.
    Sú kennsla og þjálfun sem fram fer í skólum landsins ræður miklu um þróun tungunnar. Oft hefur verið á það bent að skólarnir hafi þurft að taka við auknu hlutverki á sviði máluppeldis vegna breyttra þjóðfélagshátta. Ein af mikilvægustu forsendum þess að þetta hlutverk verði rækt með viðhlítandi árangri er að völ sé á fjölbreytilegu og vönduðu námsefni. Þá er bæði átt við eiginleg kennslugögn og hvers konar rit sem fallin eru til að glæða áhuga nemenda á móðurmálinu og stuðla að því að efla hæfni þeirra í meðferð þess. Hugmyndin er að unnt verði að verja árlega fé til að styrkja útgáfu efnis af þessu tagi og er þá miðað við þarfir allra skólastiga.
    Flutningsmenn telja æskilegt að gerð verði sérstök verkefnaáætlun í samráði við skólamenn, málvísindamenn, Námsgagnastofnun og fleiri aðila sem vinna megi eftir á starfstíma sjóðsins. Stjórn sjóðsins þyrfti því þegar eftir að hún verður kjörin að sjá um að undirbúningur slíkrar áætlunar hefjist svo að hún liggi fyrir áður en fjárveitingar hefjast í upphafi nýs árs.

3. Önnur verkefni.
    Efling íslenskrar tungu og málmenningar er fjölþætt og óþrjótandi viðfangsefni. Margs konar athafnasvið í þjóðfélaginu koma þar við sögu og áhrifin á þróun tungunnar eru með ýmsum hætti. Hér verður bent á nokkur svið sem eðlilegt þykir að hafa í huga í sambandi við notkun þess fjár sem tillagan gerir ráð fyrir að varið verði til að efla íslenska tungu:
—    Rannsóknir á máli og málnotkun.
—    Skipulegt átak til að efla lestrar- og framburðarkennslu í skólum.
—    Menntun þýðenda, ekki síst þeirra sem fást við þýðingar „nytjatexta“ ýmiss konar.
—    Aðgerðir til að stuðla að málvöndun í ljósvakafjölmiðlum.
—    Söfnun og útgáfa á sviði þjóðlegra fræða sem nátengd eru þróun tungunnar.