Vegalög

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 14:32:03 (3552)


[14:32]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Það hefur komið fram í þessum umræðum að þetta frv. fjallar um vandamál sem tekið er á. Menn eru sammála um að frv. sé til bóta. Jafnframt hefur verið bent á að þetta frv. er samið af nefnd og þar átti m.a. sæti fulltrúi frá Stéttarsambandi bænda. Ég vil aðeins vekja athygli á því að þegar menn vinna saman í nefnd, þá verða menn auðvitað að reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu með því að miðla málum og því er ekki þar með sagt að einstakir nefndarmenn hefðu ekki kosið að hafa einhver atriði þarna öðruvísi. Ég vil nefna þetta hér til þess að vekja athygli á því við hv. þingmenn sem sæti eiga í samgn. við athugun á þessu máli hvort ekki eru einstök atriði sem æskilegt væri að lagfæra þó að þarna hafi orðið samkomulag í undirbúningsnefnd. Ég treysti þeim þingmönnum sem þar sitja til þess að skoða málið vel og ætla því ekki að vekja athygli á mörgum atriðum.
    Ég vil aðeins minnast á eitt vegna þess að þarna er lögð skylda á landeiganda í misjafnlega ríkum mæli að taka þátt í viðhaldi. Við höfum sjálfsagt öll séð að snjóruðningur getur farið mjög illa með girðingar sem eru það nálægt vegum að ruðningur lendir á þeim. Að vísu er í 3. gr. heimild til þess að flytja girðingar svo langt frá að slíkt komi ekki til en það er ekki víst að slíkt sé alltaf unnt að gera og snjóalög mismunandi. Því finnst mér það spurning hvort landeigandi eigi að taka þátt í viðhaldi sem beinlínis er af völdum Vegagerðarinnar sjálfrar með nauðsynlegum snjóruðningi. Þetta er ekki stórt atriði en ég vildi aðeins minnast á þetta en að öðru leyti treysti ég því að hv. þingmenn í samgn. muni skoða þetta ítarlega og færa til betri vegar það sem þeim sýnist að betur megi fara.