Atvinnuréttindi vélfræðinga

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 14:52:08 (3557)


[14:52]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Með frv. þessu er lagt til að lögum um atvinnuréttind vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum verði breytt. Frv. er samið af nefnd sem samgrh. skipaði í desember 1992. Nefndinni var ætlað að endurskoða lög um atvinnuréttindi vélstjórnarmanna á íslenskum skipum og áttu sæti í henni fulltrúar frá samgrh., Sambandi ísl. kaupskipaútgerða, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Siglingamálastofnun, Landssambandi smábátaeigenda, Vélstjórafélagi Íslands og Vélskóla Íslands.
    Fullur einhugur var innan nefndarinnar um þær tillögur sem hún gerði til samgrn. Nefndarmenn telja mjög mikilvægt að frv. þetta fái afgreiðslu á yfirstandandi þingi enda full samstaða innan nefndarinnar um nauðsyn á afgreiðslu þess í þeim búningi sem nefndin lagði til. Frv. það sem hér er lagt fram er óbreytt frá tillögum nefndarinnar.
    Samhliða skipun þessarar nefndar var skipuð nefnd til að endurskoða lög um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, nr. 112/1984, og samhliða þessu frv. er lagt fram frv. til breytinga á þeim lögum og frv. til laga um áhafnir íslenskra kaupskipa sem nefndirnar unnu að sameiginlega. Tilgangur þessa frv. er m.a. að samræma gildandi atvinnuréttindalög vélstjóra, vélfræðinga og vélavarða við alþjóðasamþykkt um þjálfun, skírteini og vaktstöðu farmanna frá 1978, skammstafað STCW.
    Helstu breytingar sem frv. felur í sér eru: Í 2. gr. frv. er nýmæli sem felur í sér ákveðna rýmkun frá gildandi lögum, einkum að því er varðar smábáta. Gert er ráð fyrir því að við vélar allt að 221 kw. verði ekki gerð krafa um vélavarðaréttindi. Þess í stað er lagt til að komið verði á sérstöku vélgæslunámskeiði. Hér er um rýmkun að ræða þar sem vélavarðanámið tekur nú eina námsönn, þ.e. fjóra mánuði, en gert er ráð fyrir styttra námi fyrir vélgæslumenn. Að því er stefnt að eftir gildistöku laga þessara, verði frv. þetta að lögum, fari fram á vegum menntmrn. og í samráði við Vélskóla Íslands námskeið í vélgæslufræðum. Er þetta einkum hugsað fyrir sjómenn á skipum að 20 rúmlestum með aðalvél minna en 221 kw. Miðað er við að þeir sem fæddir eru á árinu 1945 eða fyrr og hafa annast vélgæslu í fimm ár þurfa ekki að loknu námskeiði um efnið að gangast undir sérstakt próf.
    Lagt er til að á bátum að 20 rúmlestum geti skipstjórinn og vélgæslumaðurinn verið einn og sami maður. Það er nýmæli að sami maður geti sinnt vélstjórn og skipstjórn að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
    Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir að á skipum með allt að 376 kw. vél sé aðeins einn vélstjóri um borð að því tilskildu að útivera fari ekki yfir 30 klukkustundir í einu. Í gildandi lögum eru ekki sérákvæði sem taka mið af útivist skipa. Jafnframt er lagt til að ekki verði krafist þriggja vélstjóra á skipum með 1.501--1.800 kw. vél heldur tveggja vélstjóra og þeim til aðstoðar komi vélavörður eða aðstoðarmaður.
    Í 2. mgr. 2. gr. frv. eru felld niður ákvæði um fjölda vélavarða og vélstjóra á íslenskum kaupskipum en ákvörðun um fjölda þeirra falin mönnunarnefnd íslenskra kaupskipa samkvæmt frv. til laga um áhafnir íslenskra kaupskipa sem lagt er fram samhliða frv.
    Í 6. gr. frv. eru lagðar til nokkrar breytingar sem eru m.a. tilkomnar vegna aðildar Íslands að STCW-alþjóðasamþykktinni. Bætt er við tveimur nýjum atvinnuskírteinum vegna breytinga sem koma fram í 2. gr. frv. Einnig er í greininni aldursskilyrði þess að geta verið handhafi atvinnuskírteinis til vélstjórnar sem ekki eru tilgreind í gildandi lögum.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og samgn.