Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 15:53:18 (3576)


[15:53]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. samgrh. að það var fært af fjárlögum á árinu 1993 þegar sýnt var að ekki yrði unnið neitt við bryggjurnar í Ísafjarðardjúpi. Hins vegar var það gert með því fororði að það yrði greitt til baka á fjárlögum næsta árs á eftir og það var gert. Þeir fjármunir sem þá fóru vegna þess að árið var að verða liðið til greiðslu á öðrum framkvæmdum voru aftur færðir til baka næsta ár á eftir.
    Hvað varðar 350 millj. sem samþykktar voru í fjáraukalögum nú fyrir jólin til Vestfjarðaganga þá vil ég einnig minna hæstv. samgrh. á að í upphafi kjörtímabilsins, árið 1991, voru framlög til vegamála einnig skert um nokkur hundruð milljóna króna og m.a. var framlag til Vestfjarðaganga árið 1991 skert um 350 millj. kr.