Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 16:07:23 (3581)


[16:07]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra leggur mér orð í munn. Ég sagði hvergi í minni ræðu að ég væri andvígur því að reglum yrði breytt. Ég gagnrýndi það hvernig staðið er að málinu, hvernig er staðið að því að breyta reglum hjá hæstv. ríkisstjórn þar sem hún ákveður og hæstv. forsrh. gengur yfirleitt fram og lýsir því yfir hvað eigi að gera því hæstv. samgrh. hefur ekki fengið það hlutverk fram að þessu, a.m.k. ekki á þessu kjörtímabili, það hefur verið hæstv. forsrh. sem hefur mætt og gert grein fyrir því hvaða stefna gildir í vegamálum á næstunni. Ég var fyrst og fremst að gagnrýna að svona verulega mikil breyting, þ.e. að miða við höfðatölureglu við úthlutun fjár til vegaframkvæmda, hefði auðvitað þurft töluverða umræðu. Ég held engu fram um það að niðurstaðan hefði ekki getað orðið sú sem hér er verið að kynna en ég held því fram að það hefði verið miklu heppilegra að menn hefðu rætt það almennilega áður en sú ákvörðun var kynnt.
    Hæstv. ráðherra nefndi sérstaklega hvernig ætti að standa að málum ef jarðgöng kæmu undir Hvalfjörð. Ég tel að það eigi auðvitað að skoða í sinni heild og ég útiloka engar breytingar í því efni og er tilbúinn að tala um það eins og ég lýsti áðan. Síðan vil ég nefna það í sambandi við skerðingu á vegafé. Einu sinni var skert vegafé á síðasta kjörtímabili og staðið var við þá yfirlýsingu sem því fylgdi. Mér finnst það ekki skipta öllu máli. Það er hitt sem mér finnst skipta máli að menn séu ekki í þessari sífelldu talnaleikfimi. Hér er tvisvar á ferðinni vegaátak á vegum hæstv. ríkisstjórnar. Í bæði skiptin hefur hún haldið áfram að skerða vegafé, taka fé inn í ríkissjóð, láta fé út úr ríkissjóði, kalla það framkvæmdaátak í vegamálum þegar menn nota peninga sem raunverulega áttu að renna til vegagerðar. Ekki nóg með það, heldur eru 450 millj. sem voru í fyrra átakinu látnar renna saman við síðara átakið þannig að raunverulega veit enginn hvað snýr upp eða niður á þessari talnaleikfimi og reikningsdæmi hæstv. ríkisstjórnar.