Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 16:33:19 (3591)


[16:33]
     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég gleðst yfir því að málflutningur minn virðist hafa einhver áhrif á hv. 2. þm. Austurl., Jón Kristjánsson, og vonandi að hann megi una glaður við þessa umræðu. En hins vegar finnst mér dálítið einkennileg sú andstaða sem kemur fram hjá honum við þessa vegáætlun. Það hvarflar að manni hvort hann sé einn af þeim þingmönnum sem telja að það sé enginn grundvöllur fyrir því að auka framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, að þær framkvæmdir séu ekki nauðsynlegar. Það þætti mér mjög leiðinlegt ef sú væri reyndin því ég hef reynt hv. þm. Jón Kristjánsson að því að vera sanngjarn maður og ég tel að þær framkvæmdir sem lagðar hafa verið til á þessu svæði séu sanngirnismál sem nýtast muni allri þjóðinni.