Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 17:32:51 (3613)


[17:32]
     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Varðandi bensíngjald ætla ég ekki að hafa mörg orð. Ég vona það að þeir hafi rétt fyrir sér í Vegagerðinni. En ég endurtek það sem ég sagði hér áðan að bílaeign Íslendinga hefur minnkað um 3,3% og þar af leiðandi tel ég að það hljóti að seljast minna bensín.
    Varðandi hið síðarnefnda, þá er hæstv. samgrh. meistari í útúrsnúningum, hann er útúrsnúinn raunverulega. Auðvitað vitum við það bæði að þetta er verkefni sem stórverkefnasjóður á að framkvæma, að sjálfsögðu. Og ég veit nákvæmlega hvaða tölur eru til þessa verkefnis á hvaða ári fyrir sig. En, hæstv. samgrh., það hefur verið áður tekið lán til framkvæmda og það hefur alltaf verið rætt um að það yrði tekið lán til þessara framkvæmda. Og ég spurði hæstv. ráðherra: Hvenær verður þetta verkefni boðið út? Það hefur verið talað um að það yrði í síðasta lagi í mars, en nú heyri ég það að hann er farinn að tala um árið 1996. Á ég að skilja það svo að þetta verkefni verði ekki boðið út fyrr en árið 1996? Er það réttur skilningur?