Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 17:58:53 (3624)


[17:58]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. samgrh. heldur því fram að það sé ekki samkomulag um gömlu skiptiregluna hér á Alþingi. Ég vil segja í þessu sambandi að það hefur bara ekkert reynt á það. Þessi gamla skiptiregla hefur ekkert verið í umræðunni hér á Alþingi. Það er ákveðið af forsrh. fyrir jólin og tilkynnt opinberlega í sjónvarpi að það standi til að breyta þessari reglu. Þessi ákvörðun var ekki lögð fyrir þingið og hefur ekkert verið rædd hér. Það hefur ekkert komið fram um það að hér sé ósamkomulag um þessa reglu vegna þess einfaldlega að vegáætlun er hér til fyrri umr. þegar ákvörðun er komin frá ríkisstjórninni um að breyta þessari skiptireglu hvað varðar framkvæmdaátakið. Þetta eru þær staðreyndir sem liggja fyrir í málinu.
    Ég var ekki heldur að tala um að það væri dæmi um þær spurningar sem búnar eru til hér og svarað úr ræðustól að það hafi verið níðst á Vestfirðingum en hins vegar var fjármagn til Vestfjarðaganga skert á sínum tíma og aukafjárveitingin er vegna óhappa sem komu upp við þessa vegagerð. Það er svo sem ekki nýtt að það sé barið á einstökum landshlutum ef þar kynnu nú að koma stórframkvæmdir upp á þá mega helst talsmenn og þingmenn þeirra landshluta ekki opna munninn eftir það um viðkomandi málaflokk. Ég kannast mætavel við slíkt og þó að það hafi farið fram góð jarðgangagerð á Vestfjörðum þá held ég að það þýði ekki að Vestfirðingar mega ekki opna munninn næstu árin um vegamál.