Niðurgreiðsla og afsláttur til húshitunar

79. fundur
Mánudaginn 30. janúar 1995, kl. 15:27:03 (3633)

[15:27]
     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og margir þekkja, ekki síst þeir sem búa úti á landsbyggðinni, er einn erfiðasti útgjaldaþáttur í heimilisrekstri víða útgjöld vegna orkukostnaðar. Á köldum vetri eins og núna í vetur eru þessir reikningar himinháir og eru mjög íþyngjandi í heimilisrekstri alls almennings í landinu sem ekki býr við ódýrar hitaveitur eins og þekkjast t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna var það mörgum mikið ánægjuefni þegar svokölluð orkuverðsjöfnunarnefnd, svo sérkennilegt orð sem það nú er, lagði fram skýrslu í mars 1991 þar sem það var tíundað með hvaða hætti væri hægt að jafna orkukostnað í landinu. Það var hugmynd orkuverðsjöfnunarnefndar að þetta yrði gert með tvennum hætti í aðalatriðum. Í fyrsta lagi með því að því yrði beint til þingkjörinna fulltrúa í stjórn Landsvirkjunar að þeir á þeim vettvangi beittu sér fyrir sérstökum aðgerðum til lækkunar á heildsöluverði raforku til hitunar á húsnæði. Síðan enn fremur að úr ríkissjóði kæmi fé til jöfnunar á orkuverði í því skyni að lækka það þar sem það væri hæst og draga þannig úr þessu misvægi eins og það hefur verið hér á landi.
    Þetta mál hefur ekki verið mjög einfalt vegna þess að til viðbótar við þetta þá hefur steðjað að orkufyrirtækjunum í landinu ákveðinn vandi sem hefur falist í því að þar hafa menn orðið að bera uppi mikinn kostnað af miklum fjárfestingum sem sannarlega hafa sligað rekstur þessara fyrirtækja og gert svigrúm þeirra til þess að lækka orkukostnaðinn í landinu minna. Þetta er að mínu mati ein meginástæðan fyrir því að við búum enn þá við þetta háa orkuverð í landinu og það hefur ekki tekist þrátt fyrir ýmsar atlögur að því máli, því miður, að ná niður orkukostnaðinum úti á landsbyggðinni þannig að hann gæti talist bærilegur. Engu að síður er það ljóst að ýmislegt hefur verið gert í þeim efnum með þeim beina og almenna hætti sem ríkisvaldið hefur getað beitt. Í fyrsta lagi með því að auka niðurgreiðslur til þessa málaflokks úr ríkissjóði á síðustu árum og enn fremur að afsláttur Landsvirkjunar vegna orkusölu til húshitunar hefur sem betur fer hækkað á undanförnum árum.
    Þess vegna hef ég leyft mér, virðulegur forseti, að bera fram til hæstv. iðnrh. eftirfarandi spurninga:
    1. Hver hafa verið framlög á fjárlögum til niðurgreiðslu á raforku á árunum 1990--1994, reiknað á verðlagi þessa árs?
    2. Hver hefur verið árlegur afsláttur Landsvirkjunar af orkusölu til húshitunar á árunum 1990--1994, reiknað í krónum á kílóvattstund á verðlagi þessa árs?
    3. Hefur náðst markmið svokallaðrar orkuverðsjöfnunarnefndar frá árinu 1991 um jöfnun orkuverðs?