Alþjóðleg fjármálamiðstöð á Íslandi

80. fundur
Mánudaginn 30. janúar 1995, kl. 15:44:58 (3641)

[15:44]
     Flm. (Páll Pétursson) :
    Frú forseti. Það er háttur margra alþingismanna að gera stutta sögu langa þegar þeir koma í ræðustólinn. Ég ætla að reyna að hafa þetta öfugt og gera langa sögu stutta.
    Á þskj. 307 er þáltill. sem við hv. þm. Finnur Ingólfsson flytjum saman um alþjóðlega fjármálamiðstöð á íslandi. Tillgr. hljóðar þannig;
    ,,Alþingi ályktar að kjósa nefnd sjö manna til þess að kanna hvort raunhæfir möguleikar séu á að koma upp alþjóðlegri fjármálamiðstöð á Íslandi. Nefndin kýs formann úr sínum hópi og skilar skýrslu til Alþingis fyrir árslok 1995.``
    Þannig hljóðar tillögugreinin, frú forseti.
    Við þetta er því að bæta að lega Íslands kann að bjóða upp á ákveðna möguleika að koma hér upp alþjóðlegri kauphöll. Á Íslandi er fjármálastofnunum lokað síðar á deginum en í öðrum löndum Evrópu og héðan væri hægt að gera viðskipti vestan hafs síðdegis eftir að hliðstæðum stofnunum hefur verið lokað í þeim löndum sem liggja á austlægari lengdargráðum. Hér eru stofnanir opnaðar fyrr á morgnana en í Ameríku. Með aukinni fjarskiptatækni býður lega landsins e.t.v. upp á möguleika til alþjóðlegra fjármálaviðskipta sem aðrir hafa ekki. Íslendingum er mjög mikilvægt að standa bæði vörð um stjórnarfarslegt og efnahagslegt sjálfstæði sitt og vera sjálfbjarga í landi sínu og þess vegna er okkur nauðsyn á að starfrækja hér fjölbreytt atvinnulíf.
    Við flm. teljum að starfsemi sú sem hér er lagt til að könnuð verði gæti stuðlað að því að skjóta nýrri stoð undir efnahagslíf landsmanna og það er ástæða til þess að leggja áherslu á mikilvægi þess að sú starfsemi sem hér um ræðir yrði að vera undir stjórn Íslendinga og virkum yfirráðum og hlíta íslenskum lögum.
    Við teljum, frú forseti, sterk rök hníga í þá átt að það sé tímabært að kanna þetta mál. Það er ekkert víst að sú könnun verði jákvæð og þá verður þar við að sitja en hugsanlega eru þarna tækifæri sem óskynsamlegt er að láta ónotuð.
    Menn hafa haft á orði að hætta væri á því að í slíkri kauphöll kynni að fara fram peningaþvætti og víst er hætta á því en menn þurfa ekki að láta hugfallast alveg þó að þarna kynnu að vera einhverjir möguleikar á því að óvandaðir menn vildu misnota þessa stofnun til að þvo þar peninga. Þess vegna leggjum við sérstaka áherslu á að þessi stofnun sé undir stjórn Íslendinga og hlíti virkum yfirráðum og íslenskum lögkjörum og á þetta leggjum við sérstaka áherslu í niðurlagi greinargerðarinnar. Ég tel sem sagt að menn eigi ekki að láta hættuna á peningaþvætti hræða sig frá heldur að finna ráð gegn því. Ég legg til, frú forseti, að þessari tillögu verði vísað að lokinni fyrri umr. til hv. efh.- og viðskn.