Tóbaksvarnalög

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 14:55:51 (3681)


[14:55]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég held að mjög margir aðilar úti í þjóðfélaginu séu farnir að bíða eftir því að þetta frv. fari hér í gegnum þingið og verði samþykkt. Hugsanlega með einhverjum breytingum, ég skal ekkert um það segja. Það er staðreynd að þau lög sem hér voru sett árið 1984 mörkuðu merkileg tímamót í sögu tóbaksvarna hér á landi og skiluðu miklum árangri og vöktu mikla athygli úti um allan heim og alveg rétt sem um það er sagt hér í athugasemdum.
    En ég vil einnig í umræðum um þetta frv. vekja athygli á þeirri þál. um íslenska heilbrigðisáætlun sem var samþykkt á Alþingi hinn 19. mars 1991, en þar segir í 8. lið, með leyfi forseta:
    ,,Draga skal úr og helst útrýma neyslu tóbaks með því að fá fólk til að byrja ekki að reykja og þá sem reykja til að hætta. Til þess að ná þessu takmarki verður að auka bæði upplýsingar og áróður og athuga sérstaklega tengsl milli reykinga og annarra lífshátta. Koma þarf í veg fyrir að fólk sem ekki reykir þurfi að líða tóbaksreyk. Verð á tóbaksvörum ætti að hækka umfram almennar verðhækkanir. Útiloka ber áhrif innflytjenda á útsöluverð tóbaksvara.``
    Ég vil sérstaklega leggja áherslu á þessa næstsíðustu setningu, að verð á tóbaksvörum ætti að hækka umfram almennar verðhækkanir. Ég held að það sé líka einn liðurinn í tóbaksvörnum að það sé hægt að hækka verð á tóbaki og það sé þá liður í því að draga úr sölunni. En það er aftur á móti mjög erfitt að segja slíkt í dag vegna þess að tóbak og áfengi er inni í framfærsluvísitölu og þá hefur þetta allt saman áhrif á verðbólgu og vísitölur og það getur rokið upp úr öllu valdi. Þess vegna hefur alltaf verið tilhneiging til að halda niðri verði á tóbaki líka þess vegna.
    Ég held aftur á móti að þessu þurfi að breyta, það þurfi að afnema áhrif tóbaks og áfengis á framfærsluvísitöluna. Ég veit að framfærsluvísitalan er byggð á neyslukönnun. Ég tel bara ekki rétt að hún sé það. Hún á að endurspegla þörfina á framfærslunni en ekki óþarfa og heilsuspillandi vöru eins og t.d. tóbaki.
    Ég vildi koma þessu að vegna þess að þetta er í íslenskri heilbrigðisáætlun, sem samþykkt var hér og því eðlilegt að við á Alþingi reynum að vinna eftir þessari áætlun.
    Það má einnig minna á það að síðasta setningin í þessari ályktun er, með leyfi forseta:
    ,,Útiloka ber áhrif innflytjenda á útsöluverð tóbaksvara`` og það kemur ekki alveg heim og saman við þá stefnu hæstv. ríkisstjórnar að afnema einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á innflutningi, sölu og dreifingu áfengis. Hvort þar mundi verða átt við tóbak skal ég ósagt látið. Það hefur einu sinni komið fram á Alþingi frv. um það líka en hefur þó ekki verið lagt fram aftur. Þannig að e.t.v. hefur hæstv. ríkisstjórn hætt við það hvað varðar tóbak, en þetta er enn hér inni á Alþingi óafgreitt hvað varðar áfengi.
    Ég vil aðeins lýsa því yfir að ég tel að það sé, eins og ég sagði áðan, mjög þarft að koma fram með þetta og sérstaklega vil ég fagna 8. gr. þar sem segir, að það sé bannað að flytja inn, framleiða og selja munntóbak.
    Það hefur verið vaxandi áhyggjuefni þeirra sem hafa áhyggjur af neyslu, sér í lagi unglinga, hvað neysla á munntóbaki hefur aukist og má segja alls konar neysla á slíku tóbaki sem kallað er reyklaust tóbak sem notað er á ýmsa vegu. Þetta er mjög hættuleg notkun og þarf að halda vel á lofti vörnum gegn henni og þess vegna er ég mjög ánægð með að það skuli vera sett í þetta nýja frv. að bannað sé að flytja inn, framleiða og selja munntóbak. Hins vegar finnst mér það nokkur langur aðdragandi að í ákvæði til bráðabirgða skuli vera að fram að 1. jan. 1997 megi þrátt fyrir þetta ákvæði halda áfram að flytja inn og selja þá tegund munntóbaks sem Áfengis- og tóbaksverslunin hefur haft á boðstólum. Það er því nokkuð langur aðdragandi að því að framfylgja 8. gr. ef frv. verður samþykkt.
    Ég vil enn og aftur koma á framfæri þeim áhyggjum sem þeir sem um þessi mál fjalla hvað mest hafa af þessu svokallaða reyklausa tóbaki. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra að því hvort nokkuð sérstaklega sé tekið á því í þessu frv., hvort það sé nokkuð meira en bara um munntóbakið, hvort sérstaklega sé tekið á því sem kallast reyklaust tóbak sem er afar hættulegt.