Tóbaksvarnalög

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 15:02:33 (3682)


[15:02]
     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég kem hérna upp til þess að mæla með því að frv. til tóbaksvarnalaga verði gert að lögum og jafnvel þó einhverjar breytingar verði á. Ég ætla ekki að fjalla um lögin í heild sinni en taka undir það að með tóbaksvarnalögunum sem tóku gildi 1985 varð heilmikil breyting á reykingavenjum landsmanna og í kjölfar þess kom áróður í skólum á meðal ungs fólks. Því miður hafa reykingar unglinga aukist aftur síðan og ég held að þörf sé á átaki og fagna því að það skuli vera ákvæði í frv. um reglubundna

fræðslu í skólum. Auk þess þyrfti landsátak sem beindist að ungu fólki.
    En það var fyrst og fremst eitt atriði sem ég vildi ræða sem reyndar er ekki í frv. en mér fyndist að ætti að vera þar. Það er lýst í athugasemdum fjórþættum markmiðum tóbaksvarna sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur skilgreint þannig:
    1. Að ungt fólk byrji ekki að reykja.
    2. Að reykingamenn hætti að reykja og fái til þess hvatningu og aðstoð.
    3. Að þeir sem hætta ekki að reykja fái sem minnst af skaðlegum efnum úr reyknum.
    4. Að þeir sem ekki reykja njóti verndar gegn tóbaksreyk frá öðrum.
    Eitt af þessum markmiðum hljóðar þannig að reykingamenn hætti að reykja og fái til þess hvatningu og aðstoð. Mér finnst að þó svo að góður hugur sé á bak við þetta frv. þá vanti þennan þátt alveg inn í. Það er staðreynd, sem hérna kemur fram, að tæpur þriðjungur landsmanna er háður tóbaki, reykingum, þ.e. milli 25--30% að ætla má og það er verulega stór hluti. Sé það markmið með þessum tóbaksvarnalögum og þeirri stefnu sem uppi er að reyna að losa sem flesta undan tóbaksnautninni þá finnst mér að í tóbaksvarnalögum ætti að taka á því máli.
    Nú er það þannig að þeir sem hætta að reykja nota til þess ýmis meðul sem fást í lyfjabúðum en eru óhóflega dýr og það dýr að fólk veigrar sér jafnvel við því að nota þau. Í mörgum tilfellum er það dýrara meðan á því stendur að hætta tóbaksnautninni meðan þarf að kaupa þau efni sem eru ráðlögð en halda áfram að reykja. Þarna er atriði sem ég held að nefndin ætti að taka verulega til athugunar, að koma til móts við þennan hóp sé markmiðið, eins og ég held að sé, að aðstoða þennan hóp til þess að losna undan tóbaksnautninni. Þetta eru verulegir peningar og fólk horfir í þetta, e.t.v. með þeim afleiðingum að sú tilraun sem gerð er tekst síður en ella. Ég vildi fyrst og fremst koma þessu á framfæri en að öðru leyti held ég að tóbaksvarnir og það að draga úr neyslu tóbaks hvort heldur sem er reyklaust eða ekki sé markmið sem sé mjög nauðsynlegt að vinna að.