Viðmiðun lágmarkslauna

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 16:48:05 (3700)

[16:48]
     Flm. (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þáltill. okkar kvennalistakvenna um viðmiðun lágmarkslauna við reiknaðan lágmarksframfærslukostnað. Tillaga hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að því að enginn launþegi í fullu starfi þurfi að sæta launakjörum undir því marki sem reiknaður lágmarksframfærslukostnaður gefur. Markmiði þessu verði náð með lagasetningu, samningum eða öðrum ráðum og verkefninu lokið innan tveggja ára.``
    Lægstu laun í landinu hafa um langt árabil verið svo lág að þau duga engan veginn fólki á lægstu launatöxtum. Miðað við þær kröfur og aðstæður, sem eru í samfélagi okkar, getur það ekki framfært sig, hýst, fætt eða klætt. Afkoma fólks á lægstu launum byggist þá yfirleitt á því að viðkomandi er á framfæri annarra, lifir við stórkostlegan skort og fátækt eða safnar skuldum. Stundum á allt þetta við. Þessu þarf að breyta og þessu verður að breyta.
    Það er óþolandi ástand að atvinnurekendum líðist að nýta sér fulla starfskrafta fólks án þess að greiða því laun sem duga til eðlilegrar framfærslu. Slíku má jafna við þrælahald. Það er misskilningur að halda að það sé styrkur fyrir hagkerfið að halda stórum hópum á smánarlaunum. Þvert á móti veikir það hagkerfið. Það veikir raunar þjóðfélagið allt, spillir heilsufari fólks og lamar efnahagslega hóp sem ætti að standa undir verulegri veltu með neyslu sinni.
    Reyndar er ekki við atvinnurekendur eina að sakast varðandi þetta ástand. Allir þekkja hinn óformlega launastiga verkalýðshreyfingarinnar þar sem flestir hópar miða við ákveðið bil milli sín og annarra hópa, bæði þeirra sem hafa hærri laun og hinna sem hafa lægri. Menn reyna að koma í veg fyrir að hinir lægra launuðu nálgist um of og leitast við að fylgja hækkunum hinna hærra launuðu fast eftir. Þessi viðhorf hafa m.a. komið í veg fyrir varanlegar leiðréttingar lægstu launa.
    Flutningsmenn hafna þeim nauðhyggjurökum að þessu ástandi verði ekki breytt. Kvennalistakonur hafa ítrekað flutt frumvarp um lögbindingu lægstu launa við eðlilegan framfærslukostnað. Hér er enn sótt að sama marki.
    Ýmsar leiðir eru færar til þess að meta lágmarksframfærslu, t.d. kannanir á högum láglaunafólks, gerð lágmarksviðmiða og útreikningar á þeim eða ,,módelútreikningur``. Félagsmálastjórar landsins hafa orðið að reikna sig að einhverri slíkri viðmiðun, sömuleiðis námsmenn. Skattstjórar hafa einnig orðið að finna svokallaða ,,lífeyristölu`` til að geta metið hvort skattgreiðendur geta framfært sig af þeim tekjum sem þeir telja fram og með hliðsjón af breytingum eigna og skulda. Flutningsmenn vilja þó benda sérstaklega á athugun sem þegar hefur verið unnin og er því líklega nánast tilbúin til þess að fram verði lögð.
    Þingsályktun um athugun á lágmarksframfærslukostnaði var samþykkt á Alþingi 20. des. 1990. Flutningsmaður var Stefán Valgeirsson. Ályktunin hljóðaði svo eftir afgreiðslu þingsins:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að vinna að athugun á lágmarksframfærslukostnaði hérlendis. Nefndin kanni meðal annars hvaða not megi hafa af framfærslu- og neyslukönnunum sem þegar hafa verið gerðar og leiti aðstoðar Hagstofu Íslands og annarra sérfróðra aðila.
    Nefndin skili greinargerð um störf sín fyrir árslok 1991.``
    Það á því þegar að vera til staðar viðmiðun til að vinna út frá og þessa niðurstöðu þarf síðan að framreikna.
    Grundvallarkrafa í mannúðlegu samfélagi er að fullvinnandi manneskja geti framfært sig. Niðurstöður misfrjálsra samninga hafa þó leitt til þess að stór hluti launþega fer afskiptur frá samningaborðinu og bíður þeirra því líf undir fátæktarmörkum. Tilgangur þessarar tillögu er að hindra slíka nauðasamninga.
    Virðulegi forseti. Nú eru farnir af stað og eru að fara í hönd miklir samningar og kannski langvarandi, en alla vega svo miklir að þeir ná til flestra landsmanna. Það er ástæða til að bera fram þessa þáltill. núna og það er sannkölluð nauðsyn að hún verði samþykkt og að ríkisstjórnin reyni að fara eftir henni.