Málefni fatlaðra

82. fundur
Miðvikudaginn 01. febrúar 1995, kl. 14:57:29 (3740)


[14:57]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er fjöldamargt sem væri ástæða til þess að ræða um í tengslum við þessa skýrslu en ég ætla út af fyrir sig ekki að fara yfir marga þætti hennar heldur takmarka mig við örfá atriði en víkja fyrst að einu almennu atriði og það er uppbygging á þjónustu við fatlaða á undanförnum árum.
    Það er stjórnmálamaður í þessu landi sem talaði einu sinni mikið um glataða áratuginn. Hann heitir Jón Baldvin Hannibalsson og er formaður í Alþfl. Ég er ekki að segja að hann sé glataður, formaðurinn, en það er nokkuð athyglisvert að hugsa um þessa einkunn áratugarins frá 1980, ja, hann var nú reyndar aðallega að tala held ég um áratuginn þar á undan, en skoðum áratuginn sem liðinn er frá því að lögin um málefni fatlaðra voru sett. Hvílík feiknaleg tíðindi hafa orðið hér á landi í þjónustu við fatlaða. Það er fróðlegt að bera þau saman ekki aðeins við ummæli af því tagi sem hæstv. utanrrh. hefur leyft sér að láta sér um munn fara heldur bera þessa niðurstöðu líka saman við umræðurnar um málefni fatlaðra á Alþingi þegar lögin voru sett, endalausa tregðu þingmanna úr ólíklegustu stjórnmálaflokkum ár eftir ár við að afgreiða frumvörpin um málefni fatlaðra og fyrst reyndar frv. um málefni þroskaheftra. Síðan lá hér frv. um málefni fatlaðra fyrir tveimur þingum og það var mjög vel staðið að framkvæmd þeirrar löggjafar að mínu mati og hefur ævinlega verið. Ég tel að félmrn. eigi þakkir skildar fyrir það hvernig að því máli hefur verið staðið út af fyrir sig, hverjir svo sem að því máli hafa komið af hálfu stjórnmálaflokkanna og alveg sérstök ástæða til að geta þess hér vegna þess að þó að stjórnmálamennirnir reyni gjarnan að eigna sér allt það sem vel er gert í þessum blessuðu ráðuneytum þá er það oft þannig að þar er líka fólk sem er að vinna og vinnur vel. Ég tel líka að svæðisstjórnirnar hafi að mörgu leyti heppnast ágætlega og ég tel mikilvægt í þessu sambandi að hafa það í huga að Alþingi sem heild hefur yfirleitt staðið vaktina alveg sæmilega. T.d. hafa menn tekið myndarlega á þessu máli í fjárln. og ég tel ástæðu til að nefna það að í vetur breytti fjárln. fjárlagafrv. talsvert að því er varðaði málaflokk fatlaðra, sérstaklega í Reykjavík vegna þess að við 3. umr. var bætt við forsendum fyrir tveimur nýjum sambýlum í Reykjavík sem voru ekki í fjárlagafrv. og ekki í brtt. við 2. umr. málsins. Ég tel ástæðu til að þakka fyrir að þar hafi verið vel að málum staðið.
    Þegar taflan er skoðuð yfir þróun útgjalda til málefna fatlaðra t.d. á árunum 1984--1993, sem fylgir sem fskj. VI á bls. 25 í frv., þá kemur í ljós að geysileg aukning hefur orðið í framlögum til þessa málaflokks. Og þó segir taflan ekki allt vegna þess að í raun og veru ætti þessi tafla að ná alveg aftur til ársins 1981, frá því að lögin um málefni þroskaheftra voru sett því þau voru í raun og veru undirstaða og inngangur að þeirri lagasetningu um málefni fatlaðra sem við seinna ákváðum á þinginu 1983 og síðan var svo ákveðin með breytingum á lögum um málefni fatlaðra á þessu kjörtímabili. Um þessi mál hefur út af fyrir sig alltaf ríkt allgóð samstaða. Það verður þó að viðurkenna að um breytingarnar á lögum um málefni fatlaðra sem voru ákveðnar vorið 1992 voru skiptar skoðanir. Það var ekki unnið nægilega vel í því að tryggja samstöðu um málin að mínu mati. Þess vegna höfðum við mörg fyrirvara á um frv. og einstök atriði þess. Það hefur reyndar komið í ljós, mér liggur við að segja því miður, að þeir fyrirvarar sem við höfðum voru efnislega réttir og t.d. í sambandi við þær umræður sem þá fóru fram um Kópavogshælið hefur komið í ljós að áhyggjur manna áttu við rök að styðjast. Í þessu máli er ég ekki síst að tala almennt um þann málflutning sem hv. 5. þm. Vestf., Kristinn H. Gunnarsson, hafði uppi þegar síðustu lögin voru sett.
    Enn allt um það er feiknaleg framför í þessum málaflokki. Nú er hins vegar komið að því að menn þurfa að endurmeta stöðuna og skoða hana betur og ég tel þess vegna fulla ástæðu til þess að efna hér til ítarlegrar umræðu um málefni fatlaðra og ég fagna því að hún fer fram með þeim hætti sem hér er um að ræða. Ég ætla sem sagt að undirstrika að ég tel að hér hafi verið um góða og víðtæka samstöðu að ræða og að hún hafi skilað stórfelldum árangri.
    Það er stundum verið að tala um velferðarþjóðfélag á Íslandi og það er eins og menn viti ekki almennilega hvað er velferðarþjóðfélag. Velferðarþjóðfélag er t.d. það hvernig gert er við fatlaða. Það er spurning um velferðarþjóðfélag. Það er spurning um siðferðilegt stig samfélagsins. Eins er um þjónustu við aldraða, það er líka velferðarþjóðfélag, það er líka spurning um siðferðilegt stig þjóðfélagsins, hver er okkar siðferðilegi mælikvarði, hvernig þessu fólki er sinnt til jafnréttis. Þetta fólk hefur aldrei beðið um ölmusu né heldur þeir sem tala fyrir þess hönd. Það biður um jafnrétti og ekkert annað en jafnrétti. Engin forréttindi af neinu tagi.
    Það sem hvatti mig svo í öðru lagi til að koma hér upp eru sérstaklega málefni Kópavogshælisins. Ég átti sæti í stjórnarnefnd Ríkisspítalanna þegar samþykktin var gerð þar um útskriftir af Kópavogshæli, að það væri stefna Ríkisspítalanna að vinna að því máli. Satt best að segja var það mál ekki nægilega vel undirbyggt, m.a. vegna þess að það náðist aldrei eðlilegt samtal um málið á milli heilbrrn. og félmrn. Það virtist vera alveg ótrúlegur stirðleiki í samskiptum á milli félmrn. og heilbrrn. á þeim tíma og var mjög erfitt að ná í raun og veru neinum botni í það mál. Ég tel að Kópavogshælismálið og sú stefna sem þar þarf að fylgja sé eitt stærsta málið í þessum málaflokki um þessar mundir og að það þurfi að marka því alveg ákveðin spor í framkvæmdaáætlun til nokkurra ára. Ég hefði viljað sjá framkvæmdaáætlun til nokkurra ára um Kópavogshæli og reyndar aðra þætti í þjónustu við fatlaða líka.
    Þessu næst, hæstv. forseti, vil ég svo víkja að einu einstöku atriði sem snertir Reykjavík alveg sérstaklega og það eru málefni geðfatlaðra. Ég varð eiginlega alveg steinhissa þegar ég heyrði það sem hæstv. félmrh. sagði. Er það þannig að það virðist hafa verið tekin ákvörðun um að framkvæma ekki það sem lagt er til í þessari skýrslu? Hæstv. ráðherra sagði það. Að öðru leyti en því að taka einhvern anda úr skýrslunni inn í lögin um málefni fatlaðra, ég skildi hæstv. ráðherra svo. Sem sagt að þeirri skýrsla sem var ákveðið að semja vorið 1991 hafi bara verið stungið niður í skúffu. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hver tók ákvörðun um að sinna ekki málefnum geðfatlaðra samkvæmt þessari skýrslu? Það hefur ekki verið tilkynnt hér á Alþingi, ég man aldrei eftir því. Var það virkilega þannig að hæstv. félmrh. hafi tekið ákvörðun um að sinna ekki vandamálum geðfatlaðra samkvæmt þessari skýrslu?
    Ég nefni þetta sérstaklega, hæstv. forseti, ekki einasta vegna þess að ég er þingmaður þessa kjördæmis heldur líka vegna þess að ég átti aðild að þeirri ríkisstjórn þar sem var tekin ákvörðun um að skipa nefnd til að fara sérstaklega í málefni geðfatlaðra. Ég man eftir því að þáv. hæstv. félmrh. kynnti það á blaðamannafundi: Hér á að fara í málefni geðfatlaðra, það eru skipaðir fulltrúar Öryrkjabandalagsins, Félagsmálastofnunar, heilbrrn., geðverndarfélagsins Geðhjálpar o.s.frv. og þessi nefnd átti að skila áliti og menn bundu miklar vonir við þessa yfirlýsingu. Ég man eftir því að aðstandendur geðfatlaðra fögnuðu alveg sérstaklega þessu mikilvæga frv. Það voru skrifaðar greinar eða lesendabréf eða hvort tveggja um hvað þetta væri stórkostlegt að menn væru að sýna þarna eitthvert frumkvæði og auðvitað er það gott að menn sýni frumkvæði. En það á ekki að vekja falskar vonir eins og hæstv. félmrh. sagði hér í öðru samhengi fyrr í dag. Er það það sem menn hafa verið að gera?
    Staðreyndin er sú að hér er um að ræða vandamál, vandamál geðfatlaðra, sem er afar alvarlegt hér á þéttbýlissvæðinu alveg sérstaklega, þó ég sé ekki að gera lítið úr þeim vandamálum sem eru uppi annars staðar. Sú nefnd sem hæstv. félmrh. skipaði rétt fyrir kosningarnar 1991, ráðherrann dreif sig í að skipa nefnd rétt fyrir kosningarnar 1991, skilaði áliti og segir þar m.a., með leyfi forseta: ,,Eins og þessi athugun á vandamálum geðfatlaðra leiðir í ljós er mikill meiri hluti þeirra á Reykjavíkursvæði og er það í samræmi við það sem talið var áður en könnunin var gerð.``
    Síðan segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Starfshópurinn leggur til að á næstu fjórum árum verði komið á fót a.m.k. 16 sambýlum fyrir geðfatlaða í samræmi við úrræði 1 og 2 sem eru talin hérna á undan og verði forgangsverkefni í málefnum fatlaðra.`` Það stendur hérna: forgangsverkefni. Hvað var svo gert við þessi forgangsverkefni í málefnum fatlaðra sem allir héldu að væru í raun og veru forgangsverkefni? Ja, skýrslunni var stungið ofan í skúffu. Það var eina forgangsverkefnið, skýrslunni var stungið niður í skúffu að sögn hæstv. félmrh. hér áðan sem orðaði þetta þannig: Það var tekin ákvörðun um að sinna þessari skýrslu ekki sérstaklega heldur var andi hennar settur inn í lögin. Hvers lags eiginlega framkoma er þetta, hæstv. forseti? Sem sagt rétt fyrir kosningar 1991 skipar þáv. hæstv. félmrh. nefnd til að sinna málefnum geðfatlaðra. Nefndin skilar svo áliti

nokkru síðar þegar er komið inn á kjörtímabilið og hvað segir hún? Hún segir: Vandinn er stórkostlega alvarlegur, sérstaklega í Reykjavík og á Reykjanesi. Og segir: Það er ekki bara mikilvægt verkefni --- segir það ekki almennum orðum --- nei, hún segir: forgangsverkefni að útvega 16 sambýli fyrir geðfatlaða á næstu fjórum árum. Svo hættir þessi félmrh. sem var um tíma og sem virðist hafa tekið ákvörðun um að stinga þessari skýrslu niður í skúffu, henni var bara stungið niður í skúffu, (Gripið fram í.) og ákveður að setja í gang það sem kallað er hér rödd fólksins sem er ekki hægt að setja niður í skúffu, eins og kunnugt er eins og hv. þm. benda á og veruleikinn er sem sagt þessi. Þessi pappír sem allir þessir tugir og hundruð einstaklinga sem sinna þessum málaflokki, t.d. sem starfsmenn eða aðstandendur, bundu miklar vonir við, þegar skýrsla um málefni fatlaða kemur til umræðu á Alþingi Íslendinga árið 1995, aftur rétt fyrir kosningar, þá kemur það í ljós að hún var sett í skúffu og að þær vonir sem voru vaktar stóð ekkert á bak við. Ég verð að segja alveg eins og er að þessi ræða hæstv. félmrh. var afskaplega þungur áfellisdómur yfir forverum hennar í starfi.
    Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að Alþingi taki í tilefni af þessu sérstaklega á þessu máli úr því að fyrrv. hæstv. félmrh. m.a. ákvað að setja skýrsluna niður í skúffu. Vegna þess að það er líka þannig að við sem höfum sinnt þessum málaflokki fyrr og síðar við höfum áhuga á að taka á málinu og við þekkjum til á þessu sviði. Við vitum að þjónusta við geðfatlaða er í raun og veru brýnt forgangsverkefni. Ég minnist þess þegar við settum lögin um málefni fatlaða á sínum tíma þegar ég var í félmrn. þá komu þessi mál til umræðu. Það er hins vegar alveg ljóst að þegar var verið að fara af stað þá voru þau ekki sett fremst í forgangsröðina félagsmálaráðuneytismegin. Hins vegar var þjónustan við þetta fólk sett fremst í forgangsröðina heilbrigðisráðuneytismegin. Þannig var það. Síðan líður tíminn og menn byggja upp málaflokkinn þjónusta við fatlaða almennt í landinu og svo er niðurstaðan sú að hér er um að ræða tugi manna, það er talað um á milli 35 og 40 manns sem eru alls staðar að af landinu en flestir á Stór-Reykjavíkursvæðinu sem eigi sérstaklega við erfiðleika að stríða á þessu sviði og þar er um stórfellda erfiðleika að ræða. Heildarhópurinn hins vegar sem verið er að tala um er miklu stærri. Af því hæstv. félmrh. var ekki með tölur við hendina áðan þá var verið að tala um það fyrir tveimur árum að hann væri 124 eins og þetta var skilgreint hér. En síðan kemur þessi skýrsla og þá er niðurstaðan þessi: Þetta á að vera algert forgangsmál.
    Ég held þess vegna, hæstv. forseti, að það sé alveg óhjákvæmilegt að sjá til þess á því þingi sem nú situr að málið verði það. Það gengur auðvitað ekki að taka svona á máli. Og hæstv. félmrh. má ekki taka þetta þannig, núv. félmrh. og stuðningsmaður Alþfl. frá því að sögur hófust í samskiptum þeirra beggja, þ.e. ráðherrans og Alþfl., má ekki taka þetta þannig að það sé verið að veitast að ráðherranum með einum eða öðrum hætti, því fer svo víðs fjarri. Hins vegar er verið að bjóða ráðherranum í alvöru stuðning til að draga þessa skýrslu upp úr skúffunni því ég er alveg sannfærður um að rödd fólksins tekur undir það að það sé kallað svo hátt að það heyrist ofan í skúffurnar í félmrn.