Almenn hegningarlög

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 10:40:57 (3754)


[10:40]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þau svör sem hann veitti við fyrirspurn minni hér áðan varðandi meiðyrðalagaákvæði hegningarlaganna og sérstaklega 108. gr. sem lýtur að sérstakri vernd fyrir opinbera starfsmenn. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að hann er í raun og veru sammála þeim sjónarmiðum sem fram komu í frv. sem hv. 5. þm. Vestf. flutti hér fyrir tveimur árum og sú hugsun sem þar var fékk síðan sérstaka meðferð í ákveðinni nefnd sem hæstv. dómsmrh. skipaði og var undir forustu Ragnhildar Helgadóttur, fyrrv. alþm., ef ég man rétt. Sú nefnd klofnaði að vísu í þrennt minnir mig í sinni niðurstöðu. Einn hluti nefndarinnar taldi eðlilegt eða ekkert við það að athuga að halda ákvæðunum óbreyttum áfram, annar hluti nefndarinnar taldi sjálfsagt að fella niður 108. gr. eins og hún er, þriðji hópurinn vildi fara einhverja millileið. Þannig hefur dómsmrn. út af fyrir sig unnið sína heimavinnu í þessu máli og það hefur verið gerð úttekt á málinu og rækileg skoðun hefur farið fram. Þess vegna tel ég að það sé ekkert að vanbúnaði fyrir Alþingi úr því að hegningarlögin verða á annað borð til meðferðar í hv. allshn., m.a. með hliðsjón af þeim málum sem hér eru á dagskrá á þessum þingfundi, þá tel ég ekkert að því að breyting sem lýtur að 108. gr. verði tekin upp í allshn. og hún beinlínis felld út. Það er auðvitað langhreinlegast að þessi sérstaka æruvernd fyrir opinbera starfsmenn, sem hér hefur verið við lýði, verði felld út. Meðal annars hafa menn eins og Þorgeir Þorgeirsson barist gegn því hetjulegri baráttu bæði hérlendis og erlendis og haft þar fullan sigur tel ég vera og sóma af. Ég tel að Alþingi eigi að svara þeirri málafylgju með þeim hætti sem hér er nefnt þannig að þessi grein verði felld út. Það er ekkert að vanbúnaði fyrir þingið að gera það og það þarf ekkert að flytja neitt sérstakt stjórnarfrv. um þetta mál. Það á bara að fella út þennan forngrip, þessa 108. gr. hegningarlaganna, sem á hvergi heima lengur í nútímaþjóðfélagi nema kannski úti í Þjóðminjasafni vestur á Melum.