Barnalög

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 12:05:31 (3766)


[12:05]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Frv. það til breytinga á barnalögum sem ég mæli hér fyrir og er á þskj. 542 er samið af sifjalaganefnd. Í henni eiga sæti dr. Ármann Snævarr, fyrrverandi hæstaréttardómari sem er formaður nefndarinnar, Guðrún Erlendsdóttir hæstaréttardómari, og Drífa Pálsdóttir, skrifstofustjóri í dómsmrn. Margrét Hauksdóttir, deildarstjóri í dómsmrn., er ritari nefndarinnar.
    Aðalmarkmið frv. er að treysta tengsl barns og foreldris sem ekki hefur forsjá þess og er þeim breytingum sem í því felast ítarlega lýst í athugasemdum með frv. Í ljósi reynslunnar sem hefur fengist af meðferð umgengnismála hjá stjórnvöldum þykir tímabært að rýmka inntak umgengnisréttarins. Samkvæmt hefðbundnum skilningi er hann einskorðaður við rétt foreldris til að umgangast barnið, þ.e. að fá barn í heimsókn tiltekinn tíma eða fá að heimsækja barn, með öðrum orðum að hafa barn í návist sinni. Því er lagt í 1. gr. frv. að við 37. gr. laganna bætist nýr málsliður er veiti heimild fyrir sýslumann til að mæla fyrir um rétt foreldris sem ekki hefur forsjá barns og barnsins til að hafa bréfa- og símasamband og hliðstætt samband ef sérstaklega stendur á. Undir orðin ,,hliðstætt samband`` falla m.a. skeyti, símbréf, myndbandsspólur og fleira hliðstætt. Ég tel að slíkt samband foreldris og barns geti styrkt tengslin milli þeirra og stuðlað að auknum kynnum foreldris og barns. Þessi umgengnisþáttur skiptir sérstaklega miklu máli þegar svo hagar til að foreldri og barn geta ekki notið umgengni í hefðbundnum skilningi vegna búsetu þeirra. Ákvæði 1. gr. er í samræmi við þá stefnu sem nú ríkir á sviði sifjaréttar annars staðar á Norðurlöndum.
    Í 2. gr. frv. er mælt fyrir um að öðru foreldra sé óheimilt að fara með barnið úr landi án samþykkis hins þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá barnsins. Ákvæði 2. gr. stendur í tengslum við Evrópuráðssamning frá 20. maí 1980 um viðurkenningu og fullnustu ákvarðana varðandi forsjá barna o.fl. og Haag-samninginn frá 25. okt. 1980 um einkaréttarleg áhrif af flutningi barna milli landa með ólögmætum hætti. Er ákvæðið fellt í frv. vegna framkvæmdar samninganna sem nú er ætlunin að fullgilda af Íslands hálfu og er unnið að gerð frv. þar að lútandi í dómsmrn.
    Í 3. gr. frv. er lagt til að ný grein, 40. gr. A, verði felld í barnalögin um rétt þess foreldris sem ekki hefur forsjá barns til þess að fá upplýsingar um barnið hjá hinu foreldranna og ýmsum stofnunum og stjórnvöldum sem með málefni barna hafa að gera. Það foreldranna sem ekki hefur forsjá barns á að jafnaði réttmætt tilkall til að fylgjast með barni, heilsuhögum þess, þroskaferli, skólagöngu, uppeldi, félagslegri stöðu o.fl. Lögfesting á slíkum aðgangi foreldris að upplýsingum um barn ætti m.a. að gera því kleift að veita barni stuðning og ráðgjöf og að sinna að öðru leyti foreldraskyldum sínum.
    Í ljós hefur komið að veruleg óvissa ríkir um það hjá starfsmönnum skóla og annarra uppeldisstofnana, félagsmálastofnana og fleiri aðila hvort foreldri sem ekki hefur forsjá barns eigi rétt á upplýsingum um persónuhagi þess. Ef 3. gr. frv. verður lögtekin er þar með mótuð sú almenna regla, sem er þó ekki undantekningarlaus, að það foreldri eigi yfirleitt aðgang að upplýsingum um barnið til jafns við forsjárforeldri.
    Ákvæði 3. mgr. 3. gr. frv. um heimild stofnana og stjórnvalda til að synja um upplýsingar tekur mið af 17. gr. stjórnsýslulaga sem fjallar um takmörkun á upplýsingarétti. Upplýsingar þær sem 2. mgr. veitir foreldri rétt til að fá geta varðað mjög viðkvæm málefni og er því nauðsynlegt að þeim stofnunum og stjórnvöldum sem nefnd eru í málsgreininni sé heimilt að synja um upplýsingar ef hagsmunir foreldris af því að notfæra sér þær þykja eiga að víkja fyrir ríkari almanna- eða einkahagsmunum, þar á meðal að telja verður að upplýsingar séu skaðlegar fyrir barnið. Hér geta greinilega vegist á mismunandi hagsmunir og við mat á þeim verður að virða meginreglur 1. mgr. um að foreldri sem ekki hefur forsjá barns eigi rétt á upplýsingum um hagi þess. Synjun stofnunar eða stjórnvalds um upplýsingar má skjóta til sýslumanns sem tekur endanlega ákvörðun í málinu.
    Ákvæði 2., 3. og 4. mgr. eiga við um ósk um upplýsingar um tiltekið afmarkað efni en skv. 5. mgr. getur sýslumaður að ósk forsjárforeldris svipt hitt foreldri almennum rétti til að fá upplýsingar um hagi barns. Ákvæðið, sem er sett til verndar forsjárforeldri og barni, á við ef um bersýnilega misnotkun af hálfu þess foreldris sem ekki hefur forsjá barns er að ræða. Verða stjórnvöld að meta hvort ástæða sé til að svipta foreldri almennt heimild til að fá upplýsingar skv. 2. mgr. en ljóst er að ríkar ástæður þurfa að koma til til þess að slík ákvörðun verði tekin og ber að túlka 5. mgr. þröngt samanber upphafsorð málsgreinarinnar: ,,Þegar sérstaklega stendur á . . . ``
    Efni 3. gr. frv. er í samræmi við 50. gr. norsku barnalaganna frá 1981 og er einnig í samræmi við ákvæði sem fyrirhugað mun vera að lögfesta í Danmörku. Í 4. og 5. gr. frv. eru ákvæði um heimild dómsmrn. til að lengja málshöfðunarfresti til höfðunar vefengingarmála og mála til ógildingar á faðernisviðurkenningu.
    Með 52. gr. barnalaga, nr. 20/1992, var felld niður heimild er dómsmrh. hafði samkvæmt barnalögum frá 1981 til að leyfa höfðun vefengingarmáls þótt lögboðinn málshöfðunarfrestur væri liðinn ef alveg sérstaklega stendur á. Talið var að ekki væri þörf þessarar heimildar þar sem ekki hafði á hana reynt um árabil. En í ljós hefur komið að þörf er á að hafa slíka heimild í barnalögum. Er því lagt til að hún verði lögfest að nýju með 4. gr. frv. og þykir þá eðlilegt að sams konar heimild sé um mál sem höfðað er til ógildingar á viðurkenningu á faðerni barns skv. 53. gr. barnalaga.
    Frú forseti. Ég hef þá gert í meginatriðum grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.