Forkaupsréttarákvæði fiskveiðistjórnarlaga

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 13:32:04 (3776)


[13:32]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Lög eru meira en orð á blaði, þau eiga sér anda og hugsun og á bak við þau stendur vilji Alþingis og krafa að eftir þeim sé farið, þess vegna eru þau sett.
    Í 11. gr. laganna um stjórn fiskveiða segir, með leyfi forseta:
    ,,Eigi að selja fiskiskip, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni, til útgerðar sem heimilisfesti hefur í öðru sveitarfélagi en seljandi á sveitarstjórn í sveitarfélagi seljanda forkaupsrétt að skipinu. Forkaupsréttur skal boðinn skriflega þeirri sveitarstjórn sem hlut á að máli og söluverð og aðrir skilmálar tilgreindir á tæmandi hátt. Sveitarstjórn skal svara forkaupsréttartilboði skriflega innan fjögurra vikna frá því henni berst tilboð og fellur forkaupsréttur niður í það sinn sé tilboði ekki svarað innan þess frests.
    Neyti sveitarstjórn forkaupsréttar skv. 3. mgr. þessarar greinar skal hún þegar gefa útgerðaraðilum, sem heimilisfesti eiga í sveitarfélaginu, kost á að kaupa skipið og skal opinberlega leita tilboða í það.
    Sé skipi ráðstafað andstætt ákvæðum þessarar greinar um forkaupsrétt getur forkaupsréttarhafi krafist þess að salan verði ógild enda sé málsókn hafin innan sex mánaða frá því að hann fékk vitneskju um söluna. Forkaupsréttur gildir ekki sé skip selt á opinberu uppboði.``
    Við setningu laganna fyrir u.þ.b. fimm árum síðan er þetta ákvæði var tekið inn sagði hv. þm. Stefán Guðmundsson, sem var 1. frsm. 1. minni hluta, með leyfi forseta:
    ,,Lagt er til að 11. gr. verði breytt þannig að sveitarstjórnum verði veittur forkaupsréttur við sölu fiskiskips úr byggðarlagi. Þetta komi í stað ákvæða um tilkynningarskyldu í 11. gr. frv. Með þessu ákvæði er betur tryggt að heimaaðilum gefist svigrúm til að ganga inn í kaup og er þetta í samræmi við tillögur síðasta fiskiþings.``
    Nú er það ljóst, hæstv. forseti, að þegar eru nokkur dæmi um það að þetta ákvæði laganna hefur verið sniðgengið. Menn hafa fundið sér smugur eða búið sér til leiðir til að komast fram hjá þessu ákvæði. Nýjasta dæmið, hæstv. sjútvrh., er í Vestmannaeyjum þegar Sigurborgin siglir þaðan til Hvammstanga með 600 þorskígildi án þess að heimamönnum gefist svigrúm til að nýta sér þennan rétt laganna. Þar gerist það, hæstv. sjútvrh., að fyrirtæki, Vonin hf., er stofnað á Strandvegi 80, sem er sennilega lítið herbergi í verbúð, jafnvel klósett í verbúðinni, þar er stofnað fyrirtæki sem heitir Vonin og að því standa Meleyri hf. á Hvammstanga, Kaupfélag Vestur-Húnvetninga og Hvammstangahreppur. Nú geri ég engan ágreining við Hvammstangamenn í þessu efni. Þeir eru kannski að gera eins og hundruð annarra að fara fram hjá lögunum og búa sér til smugur.
    En ég er þeirrar skoðunar og vil því spyrja hæstv. sjútvrh. af þessu tilefni: Hefur hæstv. sjútvrh. áhyggjur af þessari þróun? Sættir hæstv. sjútvrh. sig við að lögin séu sniðgengin með þessum hætti og eins og gert hefur verið í fleiri tilfellum? Hvernig hyggst hæstv. sjútvrh. bregðast við? Telur hann að það þurfi að endurskoða lögin eða gera beri skýra kröfu á veðhafa og í mörgum tilfellum opinbera sjóði að þeir krefjist þess að selt skip fari í gegnum forkaupsréttarákvæði fiskveiðistjórnarlaganna? Að þessu vil ég spyrja ráðherrann. Það er nú svo, hv. þm., að það á enn við sem sagt var: Ef við slítum í sundur lögin þá munum við og slíta í sundur friðinn í landinu. Lögin eru til þess að fara eftir þeim og þau þurfa að vera skýr og almenn. Þess vegna er hér hætta á ferðum eins og ég hef bent á í máli mínu að það er farið að sniðganga einhver viðkvæmustu lög þessa lands og það kallar á ófrið milli manna og byggðarlaga.