Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 17:22:59 (3813)


[17:22]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir innlegg hans í umræðuna. Mér fannst þetta mjög fróðlegar vangaveltur af hans hálfu og var að mörgu leyti sammála þeim og sérstaklega þeirri áminningu sem hann veitti auðvitað sjálfum sér og okkur og öllum öðrum fyrir andvaraleysi í málinu. Ég vil nefna tvennt því til stuðnings að menn hafa verið andvaralausir úr hófi fram og ættu í framtíðinni að reyna að læra af því fremur en að það sé sagt til þess að fella dóma um fortíðina. Ég vil fyrst nefna dæmi um bæjarfélag á Vestfjörðum sem á sl. vetri taldi nauðsynlegt að rýma heilt hverfi vegna snjóflóðahættu. Strax í vor þegar snjóa leysti hófust þar byggingar á þremur einbýlishúsum inni á þessu sama svæði sem bæjaryfirvöld höfðu úthlutað þeim aðila sem byggði þau. Þarna tengdu menn ekki saman sumar og vetur. Þarna fóru menn að byggja og úthlutuðu lóðum á svæði sem menn höfðu sjálfir skilgreint sem hættusvæði. Þetta er auðvitað dæmi um andvaraleysi.
    Hitt dæmið er úr Tunguskógi. Ég vil segja að sú niðurstaða hæstv. umhvrh. að leyfa eða banna íveru í sumarbústöðum í Tungudal á því tímabili sem snjóflóðahætta er hvað ríkust eins og hann segir í viðtali 17. sept. í Ríkisútvarpinu, þ.e. frá 15. des. til 16. apríl, er að mínu viti örlítið dæmi um andvaraleysi að því leytinu til að við getum ekki afmarkað hættu eða aflýst hættuástandi eftir dagsetningu. Það fer auðvitað eftir aðstæðum og þær eru breytilegar frá einu ári til annars þannig að mér finnst ekki rétt niðurstaða að heimila búsetu eftir tiltekinn dag.