Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 17:50:07 (3818)


[17:50] ]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra kom inn á ýmis efni og það er eitt eða tvennt sem ég vildi aðeins víkja að í andsvari. Það er í fyrsta lagi þessi stóra spurning sem varðar það sjálfsagða markmið að gera byggðina sem öruggasta hvort sem það er unnið með byggingu varnarvirkja og þeim miklu fjárfestingum sem þeim eru tengdar eða með því að færa byggð til með opinberum stuðningi. Ég er sammála því að þetta er mjög stórt mál og lagði áherslu á það í mínu máli áðan að þarna þurfa menn að fara með fullri gát varðandi hvernig á er haldið og hvernig í málið er gengið. Það er vafalaust þannig að það verður ekki allt gert í einu vetfangi í þessum efnum, þess vegna hljóta þeir sem ákvarðanir taka, hvort sem það er á grundvelli samþykkta Alþingis eða hvernig að því nú verður staðið, að fylgja þar einhverri forgangsröð og það getur orðið nokkuð snúið dæmi miðað við það hvað vandinn er stór.
    En það er rétt hjá hæstv. ráðherra að það skiptir afar miklu að skipulagsvinnan sé unnin, það dæmi sé unnið og að þar séu hlutirnir gerðir upp. Og skipulag er í höndum heimamanna að verulegu leyti núna og hugmyndir um að færa það enn þá meira þangað, þarna þurfa menn að átta sig á hvað er eðlilegt, með hvaða hætti er eðlilegt að aðrir en sveitarfélögin komi inn í. Hugsanlega eru rök fyrir því að þau geri það

meira þegar um er að ræða slíkt hættumat en við venjulegar skipulagsákvarðanir.
    Í því yfirliti sem ég vitnaði til frá 1975--1976 þá er öll þessi flokkun hér rakin í þessi svæði og þau álitaefni sem því tengjast. Þannig að þessi mál hafa verið hér á borðum manna býsna lengi og miklu lengur en þessi lög sem við erum að tala um að breyta núna.