Hækkun áburðarverðs

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 10:36:15 (3830)

[10:36]
     Árni Johnsen :
    Virðulegi forseti. Breytingar hafa verið gerðir á sölu á kjörum á áburði frá Áburðarverksmiðjunni og það sem er alvarlega gagnrýnisvert í því efni er að áburðarverð til bænda í Árnessýslu, Rangárvallasýslu og til að mynda Borgarfirði hefur hækkað þar sem þeir eru látnir greiða niður áburðarkostnað til annarra landshluta. Um þetta vil ég eiga orðastað við hæstv. landbrh. því mismuninn verður að leiðrétta.
    Á hverju ári ákveður Áburðarverksmiðjan verðlista þar sem miðað er við sama verð til bænda utan Þorlákshafnar, Eyja, Akraness og Borgarness þar sem hafnir eru, en þessar hafnir eru ekki til í kerfi Áburðarverksmiðjunnar. Að öðru leyti miðar Áburðarverksmiðjan við eitt verð frá öllum höfnum landsins og hefur þá tekið inn jöfnunarkostnað sem allir bændur landsins greiða og er um 1.200--1.300 kr. á tonn. Ef þessari jöfnun yrði hætt mundi áburður lækka um 6% eða þar um bil tonnið en það kostar um 23 þús. kr.
    Fyrir þremur árum var það fyrirkomulag tekið upp hjá Áburðarverksmiðjunni að sunnlenskir bændur, borgfirskir og fleiri sem ekki áttu greiðan aðgang að höfnum stutta leið og sóttu áburð að dyrum Áburðarverksmiðjunnar fengu 500 kr. afslátt á tonnið á áburði. Sá afsláttur hefur verið felldur niður og þó svo áburðarverð hafi nú nýlega lækkað um 3,5% þá er hert á mismunun gagnvart þeim bændum sem eiga langa leið að höfnum. Það er því fyrst að spyrja: Er eðlilegt að nota Áburðarverksmiðjuna sem byggðastyrkjatæki?
    Það er einnig í fyllsta máta óeðlilegt að neytendur landbúnaðarvara borgi hærra vöruverð með því að Áburðarverksmiðjan sé notuð sem tæki til mismununar og úthlutunar styrkja til bænda. Bestu svæðin ættu að fá að njóta sín í stað þess að verða refsað. Nefna má að bændur í Vestur-Skaftafellssýslu fá sérstakan áburðarstyrk frá Áburðarverksmiðjunni eða sama og kostar að flytja tonnið af áburði frá Reykjavík til Akureyrar. Kærleikur Áburðarverksmiðjunnar nær þannig austur að Sólheimasandi en bændur vestan Sólheimasands, t.d. bændur undir Eyjafjöllum, verða að greiða 2.500 kr. fyrir flutninginn á tonni að bæ auk hlutdeildar í flutningsjöfnun til annarra landsvæða. Sú 3,5% lækkun, sem ég gat um, þýðir 700 kr. lækkun á tonnið til bænda almennt, en 200 kr. til sunnlenskra bænda, þ.e. Árnessýslu og Rangárvallasýslu auk borgfirskra bænda, á Kjalarnesi og víðar. Þarna er um alvarlega mismunun að ræða og í beinum peningum fyrir bændur til að mynda í Árnessýslu og Rangárvallasýslu þýðir þetta 14 millj. kr. Það er mikil upphæð í erfiðri stöðu bænda og erfiðri stöðu landbúnaðar og þess vegna vil ég spyrja landbrh. hvað hann hyggist gera í þessum efnum því að hæstv. landbrh. hefur sýnt það að hann vill að menn sitji við sama borð og að ekki sé mismunun í þessum efnum.