Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 14:39:59 (3873)


[14:39]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta var um margt merkileg ræða og ágæt á sinn hátt. Hv. þm. efaðist um þær söguskýringar sem ég hefði hér haft í frammi og fór um þær mörgum orðum. Síðan í lokin þegar hv. þm. var búinn að rekja þetta þá staðfesti hann að þarna muni aðeins þremur árum því hann hafi gefið þessa yfirlýsingu um að samdrættinum í landbúnaðinum væri lokið ekki í upphafi tímabilsins sem hann var ráðherra, ekki á fyrsta búnaðarþingi, heldur á því síðasta. Svona skildi ég hv. þm. Ég ætla ekkert að ræða um þetta. Ég man eftir að þessi yfirlýsing olli því að það fór fagnaðarbylgja um Suðurland og vinsældarlisti hv. þm. Pálma Jónssonar hækkaði verulega. ( VS: Þetta hefur verið rétt fyrir kosningar.) Þetta var rétt fyrir kosningar, hv. þm. En ég held eigi að síður að þessi yfirlýsing hefði kannski getað náð árangri eins og staðan er orðin í dag.
    Nú vil ég, vegna ræðunnar spyrja hv. þm., sem gerði mikið úr því að hæstv. ráðherra hefði tekið við öllu niðurnjörvuðu. Allt í lagi, ráðherrann tók við þessu niðurnjörvuðu úr margra manna og ríkisstjórna höndum. En þegar menn taka við einhverju niðurnjörvuðu og það eru ný tækifæri, eins og hér kemur fram hjá meistarakokkunum í Morgunblaðinu 22. jan. sl., er þá ekki rétt, hv. þm., og er þá ekki mikilvægt að eiga ríkisstjórn sem leysir fjötrana? Við ný tækifæri ber að leysa fjötrana. Þrátt fyrir yfirlýsingar í upphafi ferils síns um að hann vildi leysa fjötrana hefur hæstv. ráðherra því miður ekki svarað því kalli þegar bændasamtökin hafa leitað eftir því að samningurinn yrði endurskoðaður.