Landgræðsla

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 17:16:11 (3913)



[17:16]
     Árni M. Mathiesen :
    Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. flutningsmönnum fyrir að hreyfa hér afar mikilvægu máli. Ég hef haft tækifæri til þess að skoða þessi mál svolítið og átti m.a. sæti í þeim starfshópi um umhverfi og landbúnaðarmál sem vitnað er til í grg. með frv.
    Það er hins vegar alltaf álitamál þegar umdeild atriði eru til umræðu hvernig staðið skuli að því að komast að niðurstöðu í málefninu og þá á ég við hvernig meta skuli hvort að tiltekin planta geti geti skaðað umhverfið ef hún kemst út í náttúruna óheft. Í 2. gr. frv. er fjallað um þetta og þar er gert ráð fyrir því að áður en planta sé notuð til landgræðslu þá þurfi að liggja fyrir jákvæðar umsagnir fjögurra rannsóknaraðila, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins, Náttúruverndarráðs og Líffræðistofnunar Háskóla Íslands.
    Ég velti því fyrir mér hvort að þetta sé ekki heldur viðamikið batterí sem þarna þyrfti að koma að málinu áður en hægt væri að taka plöntuna til notkunar. Og í málum þar sem skoðanir geta verið skiptar --- og þá undirstrika ég skoðanir --- hvort það sé þá ekki nánast verið að tryggja það með því að hafa svo marga umsagnaraðila að einhver þeirra muni alveg örugglega segja nei. Og því væri hugsanlegt að málinu væri farið á hinn veginn, að í staðinn fyrir að fyrir liggi jákvæð umsögn allra þessara fjögurra stofnana, hvort það væri ekki nægjanlegt að fyrir liggi jákvæð umsögn einhverra þessara fjögurra aðila.
    Ég nefni þetta bara svona til umhugsunar um það hvernig að þessu skuli staðið. Þessu máli verður væntanlega vísað til hv. landbn. þar sem ég á sæti og fæ tækifæri til þess að fjalla um þetta þar og skoða það frá öllum hliðum ásamt öðrum hv. nefndarmönnum.