Menntun á sviði sjávarútvegs og matvælaiðnaðar

87. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 18:11:30 (3975)


[18:11]

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Umræðu um þetta mál var frestað í byrjun desember vegna fjarveru minnar og ég þakka fyrir að það skyldi hafa verið orðið við þeirri beiðni vegna þess að mér fannst ástæða til að segja hér örfá orð vegna þessarar þáltill. sem flutt er af hv. þm. Árna R. Árnasyni og fleiri. Tillagan er þess efnis að Alþingi álykti að fela menntmrh. að efla menntun í framhaldsskólum á sviði sjávarútvegs og matvælaiðnaðar með stofnun námsbrauta og þróun námsefnis er njóti forgangs við framkvæmd nýrrar menntastefnu.
    Ég hef lesið yfir umræðuna sem fram fór 2. des. sl. og hef svo sem engar sérstakar athugasemdir að gera við það sem fram kom í ræðum hv. þm. sem þar töluðu annað en kannski það að hv. þm. Finnur Ingólfsson sagði að það mætti líta svo á að þessi þáltill. væri að minnsta kosti viðvörun ef ekki árás á hæstv. menntmrh. eins og hv. þm. sagði, á ráðherra sem hefur lagt fram á Alþingi frv. til laga um framhaldsskóla.
    Ég vil taka það skýrt fram að ég lít ekki á þessa tillögu sem árás á mig, alls ekki.
    Í frv. til laga um framhaldsskóla sem núna liggur fyrir hv. Alþingi er mun ítarlegar fjallað um starfsnám á framhaldsskólastigi en í núgildandi lögum. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að virkja aðila vinnumarkaðarins til áhrifa og samábyrgðar við uppbyggingu og skipulagningu alls starfsnáms á framhaldsskólastigi. Í öðru lagi á að leggja aukna áherslu á samstarf skóla og atvinnulífs við framkvæmd starfsmenntunar. Vonir eru bundnar við að tilkoma starfsgreinaráða fyrir allar starfsgreinar sem njóta fræðslu á framhaldsskólastigi í stað núverandi fræðslunefnda fyrir löggiltar iðngreinar verði til þess að allar starfsgreinar eigi þátt í að móta nám á sínu sviði með formlegum hætti.
    Einnig er gert ráð fyrir í því frv. til framhaldsskóla að skólum sem sinna starfsnámi verði heimilt að setja á fót sérstaka ráðgjafarnefnd með fulltrúum aðila vinnumarkaðarins í viðkomandi byggðarlagi til að stuðla að bættum tengslum skóla og atvinnulífs. Þetta er gert til að skólum sé kleift að veita sínu nánasta umhverfi sem besta þjónustu, bæði fyrirtækjum og einstaklingum.
    Varðandi eflingu menntunar í framhaldsskólum á sviði sjávarútvegs og matvælaiðnaðar vil ég taka þetta fram.
    Í desember 1993 skipaði ég nefnd í samráði við sjútvrh., nefnd til að vinna að endurskipulagningu menntunar á sviði sjávarútvegs í landinu og treysta samstarf fræðsluyfirvalda og hagsmunaaðila á þessu sviði. Nefndin skilaði tillögum sínum í lok ágúst sl. Nefndin leggur til að helstu stefnumið í menntun á sviði sjávarútvegs verði þessi: Byggð verði upp öflug menntun fyrir sjávarútveginn, bæði á framhalds- og háskólastigi. Stefnumörkun fyrir sjávarútvegsmenntun verði bætt og aðilum vinnumarkaðarins tryggð áhrif á ákvarðanir um skipulag og innihald námsins. Efla þarf sveigjanlega starfsmenntun í sjávarútvegi. Sjávarútvegsnám hér á landi verði ávallt í hæsta gæðaflokki í samanburði við hliðstætt nám erlendis. Þekking Íslendinga á sviði sjávarútvegs verði markaðssett á alþjóðlegum vettvangi.
    Þá leggur nefndin til að menntmrh. og sjútvrh. beiti sér m.a. fyrir eftirfarandi aðgerðum:
    Skýrar kröfur verði gerðar um kennslubúnað, vinnuferli og árangur lögverndaðs starfsnáms á sviði sjávarútvegs og innra og ytra gæðaeftirlit í skólum sem veita menntun á sviði sjávarútvegs verði eflt. Samræmd próf verði tekin upp í kjarnagreinum réttindanáms.
    Á framhaldsskólastigi verði boðið upp á sérstaka sjávarútvegsbraut. Námskrá hennar verði mótuð þannig að nám brautarinnar nýtist nemendum hvort sem þeir hyggja á frekara nám í sérskólum á sjávarútvegssviði eða til undirbúningsnáms á háskólastigi. Fagnám brautarinnar verði metið að fullu til stúdentsprófs.
    Á höfuðborgarsvæðinu starfrækir Stýrimannaskólinn í Reykjavík, Vélskóli Íslands og Fiskvinnsluskólinn í Hafnarfirði sameiginlega slíka sjávarútvegsbraut.
    Efla þarf stefnumörkun á sviði sjávarútvegsmenntunar og tryggja aðilum vinnumarkaðarins aðild að ákvörðunum um skipulag og innihald náms í greininni. Stofnuð verði fræðslumiðstöð sjávarútvegsins sem stuðli að sveigjanlegu námsframboði og starfsmenntun á sviði sjávarútvegs fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Nám í Fiskvinnsluskólanum í Hafnarfirði verði endurskipulagt í samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi og lög um skólann endurskoðuð. Námið byggi á almennu framhaldsskólanámi og/eða námi á hinni nýju sjávarútvegsbraut og verði sérhæft matvælafræðinám með áherslu á vinnslu sjávarafurða. Námsframboð á sviði sjávarútvegs verði eflt í grunnskólum. Nám á sjávarútvegsbraut verði metið jafngilt siglingareynslu við innritun í stýrimannanám. Almennt nám sem nú er kennt við stýrimannaskólana verði sem mest kennt sem undanfari fagnámsins. Nýjar námsgreinar verði teknar inn í fagnámið og lög um stýrimannaskólana endurskoðuð, m.a. með tilliti til nýrrar framhaldsskólalöggjafar. Kannaðir verði möguleikar á stofnun alþjóðlegs sjávarútvegsskóla sem bjóði upp á nám á öllum helstu sviðum sjávarútvegs.
    Nú er unnið að undirbúningi þess í menntmrn. að hrinda þessum tillögum í framkvæmd. Af framansögðu má sjá að þær tillögur sem koma fram, bæði í frv. til laga um framhaldsskóla og í nál. um endurskoðun sjávarútvegsnáms, erum við að mörgu leyti mjög samstiga þeim tillögum sem fram koma í þessari till. til þál. sem hér er til umræðu.
    Herra forseti, þar sem umfjöllun hv. menntmn. um frv. til framhaldsskólalaga er ekki lokið þá þykir mér líklegt og eðlilegt að hv. menntmn. eigi möguleika á að ræða þessa tillögu í samhengi við framhaldsskólafrv. og ég vonast til að hægt sé að vísa tillögunni með formlegum hætti til hv. menntmn.