Vegasamband milli Austurlands og Norðurlands

87. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 18:50:18 (3981)


[18:50]
     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Það eru nokkur orð vegna ummæla hv. þm. sem talaði síðast og sem var hv.

6. þm. Norðurl. e. Það er í fyrsta lagi ástæðurnar fyrir því að vegasamband er jafnbágt og raun ber vitni milli landshlutanna. Skýringin á því er að mínu mati sú áhersla sem hefur verið lögð á af Austurlandi að tryggja sæmilegt vegasamband sunnan jökla. Þarna varð geysileg viðhorfsbreyting 1974 við þá tengingu sem þá varð staðreynd. Áður lá jú vegasamband Austfirðinga til annarra landshluta til Norðurlands og suður um þeir sem ætluðu lengra. Ég tók þátt í því að keyra þá leið og síðan alveg austur í Skaftafellssýslur um Suðurland. Þarna varð sem sagt mikil breyting á og enn er ekki leiðin suður um með fjörðum komin í viðunandi horf má segja. Þetta er ein meginástæðan að ég tel og sama býst ég við að gildi varðandi mat þingmanna Norðurlandskjördæmanna beggja. Þar hafa menn verið að líta til þess að tryggja samgöngurnar suður um eða um Vesturland og til Reykjavíkur og það hefur haft forgang. Til þess að eitthvað annað hefði orðið uppi á teningnum þá hefðu menn í rauninni þurft að taka hinn svokallaða hringveg út úr og láta hann fá sérstaka meðferð fjárhagslega séð en það varð ekki niðurstaðan.
    Síðan beindi hv. þm. til mín fyrirspurn um í hvaða horfi ég vildi sjá veg um Fjöllin í framtíðinni. Ég dreg enga dul á það að ég tel mjög nauðsynlegt og eðlilegt að sá vegur verði sem fyrst klæddur bundnu slitlagi. Álitamál er, og það er hluti af stefnumörkun, hvaða kröfur menn ætla að gera til vegarins varðandi snjóþyngsli. Nú segja ýmsir og sjálfsagt með nokkrum rétti að það þurfi að laga veg undir slitlag. En spurningin um kröfur gagnvart snjóalögum eru þó aðrar og það verður hluti af hönnunarforsendum þessarar leiðar.
    Ég vil jafnframt að það komi fram að mínar hugleiðingar um þessi efni og tilefni þessa tillöguflutnings hafa verið byggðapólitísk sjónarmið. Ég vil ekki líta svo til að menn eigi að einblína á tvo punkta sem endastöðvar á leið heldur þurfi menn að skoða hvað er á milli og hvaða þýðingu það hefur að komast í tengingu við örugga leið að vetrarlagi. Og þó að það sé hárrétt hjá hv. þm. að umræddur vegur sem stystur væri strandleiðina lægi ekki alveg um garð á þéttbýlisstöðum eins og Húsavík og Kópaskeri heldur spölkorn frá þá er það þó ekki nein mikil vegalengd sem um er að ræða og í snjóþungum vetrum mundu menn væntanlega fylgja ströndinni út fyrir Sléttu ef of kostnaðarsamt væri metið að keyra Öxarfjarðarheiði.
    Það er nú svo að að vetrarlagi þegar snjóþyngsli ríkja þá eru menn ekki að spyrja svo mikið um tíma. Þá skiptir það menn ekki öllu máli hvort þeir eru klukkutímanum lengur eða skemur þangað sem þeir eru að fara heldur er meginmálið að komast sæmilega tryggt á milli. Þetta held ég að varði þá sem flutninga stunda og sé mjög almennt sjónarmið þó að hitt sé auðvitað alltaf uppi að menn vilja geta komist leiðar sinnar á sem skemmstum tíma og ekkert nema eðlilegt.
    Hinu er við að bæta, sem ég held að hafi þó komið fram í mínu máli áður, að spurningin um jarðgöng milli Héraðs og Vopnafjarðar kemur sterkt inn í þessa hugsun hjá þeim sem hér talar. Mér þykir einsýnt að hugmyndir um strandleið sem örugga vetrarleið milli Norður- og Austurlands gerir kröfu til jarðganga sem eru æskileg hver sem verður niðurstaðan í tengingu milli landshluta. En augljóslega eru skýrari rök kostnaðarlega séð fyrir því að ráðast í umrædda jarðgangagerð ef hún er liður í því samhengi sem hér um ræðir. Ég tel það mikið framtíðarmál og þykir lakara ef það verður mikill dráttur á því að ráðist verði í örugga tengingu milli Héraðs og Vopnafjarðar með jarðgöngum en fyrir slíkri jarðgangagerð er áhugi á Austurlandi þó að menn hafi enn ekki innsiglað niðurstöðu um forgangsröð þegar til jarðgangaframkvæmda kemur þar.
    Ég minni einnig á það að strandleiðinni tengjast að Húsavík meðtalinni um fimm þúsund manns ef taldir eru þeir sem búa milli Ljósavatnsskarðs og Héraðs og það eru mjög margir.
    Þetta eru meginrökin, virðulegur forseti, fyrir þessum tillöguflutningi sem ég hef hér farið yfir. Ég vænti að það verði til bóta að þetta mál hafi verið rætt og skoðað með þeim hætti sem gert hefur verið þó að mér sýnist að meirihlutavilji sé fyrir því hjá þingmönnum kjördæmanna að stefna á Fjallaleiðina og ekki ætla ég að skerast úr þeim hópi ef það er niðurstaðan. Báðar leiðirnar hljóta að verða tengileiðir og hitt er aftur álitamál hvað á að hafa forgang varðandi ráðstöfun fjármagns.