Embættisfærsla umhverfisráðherra

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 14:17:03 (4007)


[14:17]
     Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu) :
    Hæstv. forseti. Ég fæ ekki betur heyrt en að hv. stjórnarliðar rugli hér stanslaust saman tveimur óskyldum hlutum, þ.e. annars vegar efni þessarar tillögu og afstöðu sinni til hennar, en hins vegar þeirrar prinsippatkvæðagreiðslu sem fer fram hér á eftir um þinglega meðferð þingmáls og það er afar hvimleitt að svo sé gert.
    Staðreyndin er sú að ef hv. stjórnarliðar kjósa að líta á þessa tillögu sem vantrauststillögu á hæstv. umhvrh. og vilja fella hana, þá eiga þeir að greiða fyrir þinglegri meðferð málsins og leggja sitt af mörkum til þess að það geti komið sem fyrst hér til efnislegrar atkvæðagreiðslu. Felli meiri hluti þingmanna það hér á eftir að málið fái að koma til nefndar og til síðari umr. er meiri hlutinn ekki þar með að fella tillöguna. Það er grundvallarmisskilningur. Þá kemur aldrei til þess að á Alþingi Íslendinga birtist efnisleg afstaða til málsins þannig að auðvitað liggur það þannig að vilji stjórnarliðar greiða fyrir því að þessi tillaga komi til atkvæðagreiðslu í því skyni að fella hana, þá ber þeim öðrum mönnum fremur að leggjast á árar til þess að flýta framgangi málsins hér í þinginu. Og eðlilegast væri þá að leita eftir samningum um að allri meðferð málsins yrði hraðað þannig að síðari umræða og atkvæðagreiðsla gæti farið fram sem fyrst. Það er út af fyrir sig eðlilegt að stjórnarliðar vilji ekki hafa þetta mál hangandi yfir hæstv. umhvrh. ef þeir hafa valið þann kost að líta á þetta sem vantrauststillögu á hæstv. ráðherra sem ég tel á hinn bóginn enga ástæðu til að gera.
    Í öðru lagi er þetta, hæstv. forseti, mjög alvarlegt ef það gerist hér að tillaga um rannsókn á máli, sem því miður eru afar litlar hefðir fyrir á Alþingi Íslendinga en alsiða er erlendis að þjóðþingin beiti sér fyrir rannsókn til að upplýsa mál, fær ekki að koma til efnislegrar umfjöllunar hér í þinginu, tillaga sem flutt er með vísan til ákveðinnar greinar í stjórnarskrá sem gefur mönnum þann rétt að leggja til að rannsóknarnefnd sé skipuð. Ef menn ætla sér að fara með meiri hluta sinn á þinginu með þeim hætti að það sé meira að segja hindrað að það fái að koma til skoðunar í þinginu hvort tilefni sé til að setja á laggirnar slíka rannsóknarnefnd. Hv. meiri hluti virðist horfa fram hjá þeim möguleika að þingnefndin kynni að komast að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til rannsóknar, er það vegna þess að meiri hlutinn sé fyrir fram sannfærður um að það sé ekki þorandi að það fái að líta dagsins ljós. Ég held að hér sé verið að gera mikil mistök, innleiða vonda siði í samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu í sambandi við þinglega meðferð mála en verst er þessi niðurstaða tvímælalaust fyrir hæstv. umhvrh. sjálfan. Verði þetta gert, þá mun það hanga í loftinu yfir hæstv. ráðherra allan hans feril sem ráðherra eða þingmanns að það hafi ekki mátt fara ofan í saumana á þessu máli og upplýsa það og þannig er hæstv. umhvrh. í reynd neitað um tækifæri til þess að hann verði hreinsaður af þessu máli.