Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 16:08:59 (4024)


[16:08]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu var tvívegis ætlunin að yrði til umræðu fyrir jól. Í fyrra skiptið fórst það fyrir vegna þingskapaumræðu sem hv. þm. hóf, ef ég man rétt, og ástæðan fyrir því að ég féllst þá á að þetta mál yrði ekki tekið til umræðu þann daginn, sem mig minnir að hafi verið 6. des. fyrir nákvæmlega tveimur mánuðum, var að ekki var fram komið frv. dómsmrh. Það hafði fyrir mistök ekki verið lagt fram á Alþingi. Það frv. var lagt fram örstuttu síðar, tveimur eða þremur dögum síðar, og þá hófst umræða um þetta mál og var henni frestað eftir skamma hríð en þó man ég að hv. þm. ræddi málið í löngu og ítarlegu máli.
    Mín ætlan er, ef guð og Alþingi lofar, að fá þessi frv. sem ég mæli fyrir afgreidd á þinginu en mér er mætavel ljóst að sú afgreiðsla þarf að vera samferða afgreiðslu á frv. hæstv. dómsmrh. og hann mun að sjálfsögðu mæla fyrir því frv. um leið og hann hefur tækifæri til þess en hæstv. dómsmrh. er ekki við í dag eins og ég veit að hv. þm. veit. Það er með þetta mál eins og svo mörg önnur að þau þurfa að fara saman í gegnum þingið. Ég vil minna á sambærilega stöðu sem upp hefur komið t.d. í máli sem var verið að ræða fyrr á þessum fundi og snýr að refsiviðurlögum skattalaga að það er nauðsynleg forsenda fyrir því að það frv. geti orðið að lögum að frv. til breytinga á 262. gr. almennra hegningarlaga verði samþykkt en það frv. er einnig í höndum dómsmrh. og fer þar af leiðandi til allshn. en ekki efh.- og viðskn. Þetta veit ég að mjög þingreyndur maður eins og hv. 2. þm. Suðurl., fyrrv. forseti sameinaðs þings, þekkir mun betur en ég sem var lærisveinn hans hérna sem ritari á sínum tíma og ég held að hann hljóti að skilja að þetta eru eðlileg og þingleg vinnubrögð.