Leigubifreiðar

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 18:05:51 (4043)


[18:05]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er verið að mæla fyrir frv. til laga um breytingar á lögum um leigubifreiðar. Þar sem ég á sæti í hv. samgn. finnst mér rétt að nefna það hér að á síðasta þingi var mikið rætt um þessi mál en raunverulega var því vísað til þessa þings sem nú er yfirstandandi að taka frekar á málinu. Það eru uppi ýmis sjónarmið í því hvort miða skuli við 70 ára aldurstakmark í sambandi við rétt til að aka leigubifreiðum og öðrum atvinnubifreiðum eða hvort sú skoðun hafi meira fylgi að menn gangi undir hæfnispróf eftir 70 ára aldur. Við höfum hlustað á nokkra þingmenn ræða þessi mismunandi sjónarmið. Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að leigubifreiðastjórar þurfi að sætta sig við svipuð lögmál og gilda á hinum almenn vinnumarkaði, að menn hætta störfum að öllu jöfnu um 70 ára aldur. Hvort hægt er að skoða það sérstaklega að einhverjar undanþágur séu gefnar er ég svo sem opin fyrir að skoða í því sambandi en ég held þó að 70 ára aldurstakmarkið í þessu eins og öðrum starfsgreinum sé það sem eigi að gilda.
    Hér hefur nú verið mælt fyrir fyrsta frv. en fyrir liggja þrjú frv. sem eru sama eðlis, þ.e. að það gangi eitt yfir leigubifreiðastjóra og síðan einnig langferðabifreiðastjóra og vöruflutningabifreiðastjóra. Það er einmitt það sem vantaði á síðasta þingi að þetta væri rætt í samhengi, rætt heildstætt út frá því að sama gilti fyrir og gengi yfir alla. Þess vegna lýsi ég yfir ánægju með það að þessi þrjú frv. skuli hafa komið fram öll í einu. En það er mjög leitt til þess að vita að þau skuli ekki hafa komið fram fyrr því það hefði vissulega þurft mikla umfjöllun um þetta. Það þarf að fara vel og rækilega yfir þetta mál og hlusta á sjónarmið þeirra sem málið snertir og gefa sér til þess góðan tíma. Ég held að það verði orðinn lítill tími til þess að gera þetta á þann hátt sem æskilegt er því ég tel að þetta sé mál sem þarf að skoða mjög vel. Að öðru leyti ætla ég ekki að tjá mig um þetta á þessu stigi málsins þar sem ég hef aðstöðu til þess í hv. samgn.