Umfjöllun allshn. um þáltill. um embættisfærslu umhverfisráðherra

89. fundur
Miðvikudaginn 08. febrúar 1995, kl. 13:34:11 (4050)


[13:34]
     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Það hefur verið lærdómsríkt fyrir mig sem nýliða hér á þingi þó ég hafi verið varaþingmaður í nokkur ár að sitja hér í vetur og fylgjast með ýmsum málum sem ég held að séu kannski ekki lýðræði og þingræði til framdráttar. Ég vil nefna fyrst það sem við fengum að reyna fyrr í vetur að einn þingmanna, hæstv. forsrh., bar fram frávísunartill. á vantraust á hans eigin störf sem er fáheyrt og hitt var kannski enn þá fáheyrðara að sú tillaga var samþykkt af meiri hluta þingheims. Í gær fengum við annað dæmi um þetta þar sem hefðir og venjur þingsins um ár og áratugi voru brotin með því að gerð var tilraun til þess að fella mál eftir fyrri umr. í stað þess að vísa því til síðari umr. og þinglegrar meðferðar eins og allar hefðir og venjur standa til. Síðan eins og kom fram áðan, í morgun var fundur í allshn. þar sem mál var tekið fyrir sem að mínu mati fékk ekki venjubundna og þinglega meðferð. Það hafði verið rætt um það við mig og ég veit um fleiri minnihlutamenn að veita þessu máli brautargengi. Ég féllst á það í þeirri vissu að málið fengi venjulega meðferð í nefnd, þar yrðu lögð fram einhver gögn í málinu og við fengjum svolítið meiri vitneskju heldur en áður. Það er það sem alltaf hefur viðgengist.
    Hins vegar eins og að málinu var staðið þá gat ég ómögulega fallist á þessa meðferð málsins.
    Ég hef verið mjög efins um þessa tillögu hvort ég ætti að samþykkja hana eða fella. Hins vegar finnst mér öll framganga í þessu máli vera þannig að ég er hreinlega farinn að efast um það hvort hérna geti verið einhver þau mál á bak við sem þurfi að skoða betur önnur eins ofuráhersla og lögð er á að koma þessu máli í gegn án venjulegrar meðferðar.